Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1491, 138. löggjafarþing 507. mál: útlendingar (hælismál).
Lög nr. 115 20. september 2010.

Lög um breyting á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum (hælismál).


1. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Með fyrirvara um ákvæði 45. og 46. gr. skal útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 12. gr. f laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008, koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
     Ef sótt hefur verið um hæli skv. 46. gr. skal fyrst skorið úr því hvort skilyrði eru til þess að veita hæli áður en þessu ákvæði er beitt.
     Heimilt er að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi skv. 12. gr. g í tvö ár hið minnsta dvalarleyfi samkvæmt þessari grein ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. g laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008:
  1. Í stað orðanna „e-lið 1. mgr. 46. gr.“ í d-lið 1. mgr. kemur: 1. mgr. 46. gr. a.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Heimilt er að veita dvalarleyfi samkvæmt þessari grein þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr.
  3. Á eftir orðunum „eitt ár“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: í senn.
  4. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Mæla má fyrir um réttaráhrif bráðabirgðadvalarleyfis í reglugerð sem sett er skv. 47. gr. b.


4. gr.

     Á eftir 12. gr. g laganna kemur ný grein, 12. gr. j, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Dvalarleyfi sem flóttamaður.
     Þegar flóttamanni er veitt hæli gefur Útlendingastofnun út dvalarleyfi.
     Dvalarleyfi samkvæmt þessari grein skal veitt til fjögurra ára og á flóttamaður rétt á endurnýjun dvalarleyfis að þeim tíma liðnum, nema skilyrði séu til að afturkalla hæli eða synjun á endurnýjun dvalarleyfis sé nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Endurnýja má dvalarleyfi þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr.
     Leyfi samkvæmt ákvæði þessu getur verið grundvöllur búsetuleyfis.
     Ráðherra getur sett frekari reglur um útgáfu dvalarleyfis fyrir flóttamenn og um rétt aðstandenda flóttamanna til dvalar, þar á meðal reglur sem takmarka rétt aðstandenda flóttamanna samkvæmt samningum sem íslenska ríkið á aðild að.

5. gr.

     Við c-lið 1. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þessa liðar eiga ekki við hafi umsækjandi haft dvalarleyfi sem flóttamaður skv. 12. gr. j eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 4. mgr. 12. gr. f.

6. gr.

     Á eftir orðinu „flóttamaður“ í 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: skv. 44. gr.

7. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Málshraði.
     Ákvörðun í máli útlendings skal tekin svo fljótt sem unnt er. Skal útlendingur upplýstur reglulega um stöðu málsins.
     Stjórnvald skal setja útlendingi ákveðinn frest til að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Máli skal ekki frestað að ósk aðila nema nauðsyn beri til.

8. gr.

     Í stað 1. mgr. 25. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint á tungumáli sem með sanngirni má ætla að hann geti skilið um réttindi hans og meðferð málsins. Útlendingi skal leiðbeint um:
  1. rétt hans til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað,
  2. rétt hans til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns, fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtök hér á landi.

     Í máli vegna umsóknar um hæli skal útlendingi, auk þess sem tilgreint er í 1. mgr., leiðbeint um:
  1. rétt hans til að njóta aðstoðar túlks á öllum stigum máls; finnist ekki hæfur túlkur hér á landi innan sólarhrings eftir að slík beiðni kemur fram skal stjórnvald bjóða fram aðstoð túlks erlendis í gegnum síma,
  2. rétt hans til að fá sér skipaðan talsmann við meðferð máls á kærustigi, sbr. 2. mgr. 34. gr.


9. gr.

     Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Birting ákvörðunar um frávísun og brottvísun.
     Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun um frávísun útlendings eða brottvísun skal ákvörðunin tilkynnt honum skriflega svo fljótt sem verða má. Veita skal leiðbeiningar um kæruheimild, hvert beina skuli kæru og um kærufrest.
     Beinist ákvörðunin að útlendingi sem borið hefur því við að ákvæði 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. eigi við skal ákvörðunin jafnframt tilkynnt viðkomandi að viðstöddum starfsmönnum þeirra stjórnvalda sem málið varðar.

10. gr.

     Orðin „og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að útlendingnum var tilkynnt um ákvörðunina“ í 2. mgr. 31. gr. laganna falla brott.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Nú ber útlendingur að aðstæður séu þannig að ákvæði 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. eigi við og má þá ekki framkvæma ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið fyrr en ákvörðunin er endanleg. Þetta gildir þó ekki:
    1. í málum skv. 46. gr. a, þegar synjað er um efnismeðferð umsóknar,
    2. í málum þar sem útlendingurinn á umsókn um hæli til meðferðar í öðru landi eða slíkri umsókn hefur verið hafnað þar, og
    3. í málum þar sem Útlendingastofnun telur augljóst að aðstæður séu ekki þannig að ákvæði 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. eigi við.

  3. Á undan orðunum „1. mgr. 45. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 44. gr. eða.
  4. 3. mgr. orðast svo:
  5.      Ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. má ekki framkvæma fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru eða niðurstaða liggur fyrir í máli þar sem útlendingur hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa. Að öðru leyti gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa.


12. gr.

     Á eftir 5. málsl. 1. mgr. 33. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir sem orðast svo: Að kröfu útlendings getur ráðherra þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en fimmtán dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun á réttaráhrifum bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan tíu daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. Orðin „þegar kærð er synjun, sem byggð er á d- og e-lið 1. mgr. 46. gr., á meðferð umsóknar um hæli“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
  2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Ef fylgdarlaust barn skv. 5. mgr. 44. gr. sækir um hæli skal stjórnvald skipa því talsmann úr hópi lögmanna.


14. gr.

     44. gr. laganna orðast svo:
     Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
     Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins. Sama gildir þegar um er að ræða ríkisfangslausan einstakling.
     Það er ekki skilyrði þess að útlendingur teljist flóttamaður skv. 1. eða 2. mgr. að hann hafi fullnægt þeim skilyrðum sem þar koma fram er hann yfirgaf land sitt eða land þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur. Þó má ákveða að sá njóti ekki verndar sem hefur með athöfnum sínum utan heimalands síns skapað aðstæður sem leiða til þess að hann hafi þörf fyrir vernd, ef sýnt er fram á að tilgangur athafnanna hafi verið sá að skapa slíka þörf eða ef um athafnir er að ræða sem eru refsiverðar.
     Við mat skv. 1. og 2. mgr. skal taka tillit til þess ef um er að ræða barn.
     Beita skal viðeigandi ákvæðum laganna þegar fylgdarlaust barn sækir um hæli. Með fylgdarlausu barni er átt við einhleypan einstakling undir átján ára aldri sem kemur inn á yfirráðasvæði ríkis án fylgdar fullorðins einstaklings sem ber ábyrgð á barninu samkvæmt lögum eða venju, svo lengi sem það hefur ekki í reynd verið tekið í umsjá hins fullorðna einstaklings. Þetta á einnig við ef barnið er skilið eftir fylgdarlaust eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkisins.

15. gr.

     Á eftir 44. gr. laganna kemur ný grein, 44. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Nánar um ofsóknir skv. 44. gr.
     Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
     Þegar ástæður ofsókna skv. 1. mgr. eru metnar skal miða við skilgreiningar í a–e-lið þessarar málsgreinar. Ekki skiptir máli við mat skv. 1. mgr. 44. gr. hvort umsækjandi hefur þau einkenni eða skoðanir sem vísað er til ef sá sem er valdur að ofsóknum telur svo vera, en:
  1. kynþáttur vísar einkum til húðlitar, ætternis og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna,
  2. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsi til að skipta um trú,
  3. þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,
  4. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur sameiginleg einkenni eða bakgrunn sem ekki verður breytt, eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir sem eru svo mikilvægar sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt eða það er talið til tiltekins þjóðfélagshóps þar sem það er álitið frábrugðið öðrum í samfélaginu,
  5. stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stjórnvöldum sem kunna að beita ofsóknum og skoðana á stefnumótun þeirra og aðferðum, án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

     Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
  1. ríkið,
  2. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
  3. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli í reglugerð.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Séu aðstæður með þeim hætti að 1. mgr. eigi við er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f ef hann nýtur verndar skv. 44. gr.
  3. Í stað orðanna „F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: b-lið 2. mgr. 46. gr.
  4. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Við ákvörðun um frávísun eða brottvísun geta stjórnvöld þó ákveðið að útlendingur njóti ekki verndar skv. 1. mgr. ef nauðsynlegt er vegna öryggis ríkisins, sbr. j-lið 1. mgr. 18. gr., d-lið 1. mgr. 20. gr. eða a-lið 2. mgr. 21. gr. Ákvörðun þess efnis getur ekki komið til framkvæmda fyrr en ekki er lengur fyrir að fara þeim aðstæðum sem fjallað er um í 1. mgr.
  5. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  6.      Gefa má út bráðabirgðadvalarleyfi skv. 12. gr. g þegar svo stendur á sem greinir í 3. mgr., en binda má það því skilyrði að það veiti ekki rétt á undanþágu frá atvinnuleyfi eða önnur réttindi sem fylgja bráðabirgðadvalarleyfi.
  7. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna, sbr. 32. gr. laga nr. 86/2008:
  1. Í stað 1. og 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  2.      Flóttamaður skv. 44. gr., sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli.
         Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um:
    1. flóttamann sem fellur undir D- eða E-lið 1. gr. flóttamannasamningsins,
    2. flóttamann þegar ríkar ástæður eru til að ætla að:
      1. hann hafi framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu, eins og þetta er skilgreint í alþjóðlegum samningum sem gerðir eru til þess að setja ákvæði um slíka glæpi,
      2. hann hafi framið alvarlegan ópólitískan glæp utan Íslands, áður en honum var veitt viðtaka sem flóttamanni, eða
      3. hann hafi orðið sekur um athafnir sem brjóta í bág við tilgang og meginreglur Sameinuðu þjóðanna,
    3. flóttamann skv. 2. mgr. 44. gr., ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu, eða
    4. flóttamann skv. 2. mgr. 44. gr. ef útlendingurinn hefur yfirgefið heimaland sitt eða land þar sem hann hafði síðast fasta búsetu í þeim eina tilgangi að komast hjá refsingu fyrir eitt eða fleiri brot sem varða fangelsisrefsingu samkvæmt íslenskum hegningarlögum.

         Um útlendinga sem falla undir 2. mgr. en sem ekki má vísa brott vegna ákvæða 45. gr., fer eftir ákvæðum þeirrar greinar.
  3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur sett frekari fyrirmæli í reglugerð um rétt aðstandenda til hælis.
  4. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  5.      Ef stjórnvald í máli samkvæmt lögum þessum kemst að því að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við um útlending skal það að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort beita skuli ákvæðum 12. gr. f.


18. gr.

     Á eftir 46. gr. laganna kemur ný grein, 46. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Umsókn um hæli verður ekki tekin til efnismeðferðar.
     Með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geta stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef:
  1. umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki,
  2. umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns,
  3. krefja má annað norrænt ríki um að taka við umsækjanda samkvæmt reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins, eða samkvæmt samningi milli Íslands og Færeyja um endursendingu útlendinga sem hingað koma með ferjunni Norrænu, eða
  4. krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.

     Þó skal taka umsókn um hæli til efnismeðferðar ef svo stendur á sem segir í b-, c- og d-lið 1. mgr., ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.
     Ráðherra setur í reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd greinarinnar.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „dvalarleyfi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skv. 12. gr. j.
  2. Í stað 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  3.      Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um aðgang flóttamanna að menntun, sem og starfsþjálfun og endurmenntun vegna atvinnu, til jafns við íslenska ríkisborgara eða aðra útlendinga sem eru löglega búsettir í landinu. Sama á við um viðurkenningu á starfsréttindum og menntun flóttamanna. Ráðherra skal hafa samráð við viðeigandi fagráðherra við setningu reglugerðar.
         Ráðherra getur í reglugerð mælt fyrir um að þegar um er að ræða flóttamann sem fengið hefur hæli skv. 46. gr. megi víkja frá ákvæðum laga um biðtíma eða lágmarksbúsetutíma sem sett eru sem skilyrði fyrir félagslegri aðstoð, réttindum félagslega tryggingakerfisins eða öðrum réttindum. Ráðherra getur einnig ákveðið í reglugerð að í sama tilgangi megi leggja bráðabirgðadvalarleyfi skv. 12. gr. g eða skráningarskírteini hælisleitanda að jöfnu við dvalarleyfi skv. 12. gr. j. Ráðherra skal hafa samráð við viðeigandi fagráðherra við setningu reglugerðar.
         Þegar fylgdarlausu barni er veitt hæli skv. 46. gr. skulu barnaverndaryfirvöld þegar í stað taka ákvörðun um skipun forsjáraðila eða um vistun barnsins á hæfilegum stað. Ráðherra getur í reglugerð sett frekari reglur um vistun fylgdarlausra barna sem fá hæli hér á landi og réttindi þeirra.


20. gr.

     Á eftir 47. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (47. gr. a.)
Afturköllun hælis.
     Hælisveitingu má afturkalla ef flóttamaður fellur ekki lengur undir flóttamannahugtakið skv. 44. gr., þ.e. ef:
  1. hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns,
  2. hann hefur sjálfviljugur endurheimt ríkisfang sitt, sem hann hafði glatað,
  3. hann hefur öðlast nýtt ríkisfang og nýtur verndar hins nýja heimalands síns,
  4. hann hefur sjálfviljugur sest að á ný í landi því sem hann yfirgaf eða dvaldi ekki í vegna ótta við ofsóknir,
  5. hann getur ekki lengur neitað að hagnýta sér vernd heimalands síns vegna þess að aðstæður þær sem höfðu í för með sér að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi, eða
  6. hann getur horfið aftur til landsins sem hann áður hafði reglulegt aðsetur í vegna þess að aðstæður þær sem leiddu til þess að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi, ef um ríkisfangslausan mann er að ræða.

     Hæli skal ekki afturkalla skv. e- eða f-lið 1. mgr. ef útlendingurinn getur borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur til landsins, sem hann áður hafði fast aðsetur í, vegna fyrri ofsókna.
     Afturkalla má hæli ef í ljós kemur að útlendingi sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 46. gr. hefur verið veitt hæli hér á landi.
     Útlendingastofnun skal tilkynna flóttamanni um það fyrir fram þegar til greina kemur að afturkalla hælisveitingu og hvers vegna það kemur til greina. Ef hæli er afturkallað skal stjórnvald taka til athugunar hvort sjónarmið skv. 1. mgr. 45. gr. koma til álita eða hvort 12. gr. f eða 12. gr. g eiga við.
     
     b. (47. gr. b.)
Réttarstaða hælisleitanda.
     Ráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem sækir um hæli skuli dveljast í tilteknu sveitarfélagi og í húsnæði sem lagt er til, þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir um umsóknina.
     Í reglugerð skal mælt fyrir um réttindi hælisleitenda, þ.m.t.:
  1. lágmarksframfærslu og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og skal tillit tekið til þeirra sem þurfa sérstaka aðstoð,
  2. aðgang að menntun og starfsþjálfun,
  3. tryggja skal barni sem sækir um hæli aðgang að skyldunámi grunnskóla eða sambærilegri menntun innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað barnsins.

     Ef í ljós kemur að hælisleitandi hafði ekki þörf fyrir þá fyrirgreiðslu sem veitt var getur Útlendingastofnun krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að hluta eða öllu leyti.
     Svo fljótt sem verða má eftir að umsókn um hæli var lögð fram skal Útlendingastofnun gefa út skráningarskírteini hælisleitanda. Útlendingi sem sækir um hæli skal einnig leiðbeint um rétt hans til að sækja um bráðabirgðadvalarleyfi skv. 12. gr. g og um réttaráhrif þess. Skráningarskírteinið skal gilda í ákveðinn tíma, allt að hálfu ári, og skal umsækjandi afhenda það lögreglu eða Útlendingastofnun þegar hann fær útgefið dvalarleyfisskírteini, bráðabirgðadvalarleyfi, ferðaskírteini fyrir flóttamann eða vegabréf fyrir útlending, honum er gert að fara úr landi eða hann fær af öðrum ástæðum vegabréf heimaríkis síns á ný.
     Skráningarskírteini hælisleitanda gildir ekki sem staðfesting þess að uppgefnar persónuupplýsingar séu réttar. Það gildir ekki sem ferðaskilríki.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „sendingu úr landi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skv. 45. gr., og á eftir orðinu „hæli“ í sama málslið kemur: skv. 44. og 46. gr. og afturköllun hælis skv. 47. gr. a.
  2. Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  3.      Í málum sem varða umsóknir um hæli er stjórnvöldum skylt að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og leita upplýsinga hjá stofnuninni þegar það á við.
         Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar og um málsmeðferð samkvæmt þessum kafla laganna.


22. gr.

     Á eftir 50. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar sem orðast svo ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (50. gr. a.)
Upphaf máls vegna umsóknar um hæli.
     Umsókn um hæli skv. 46. gr. skal lögð fram hjá lögreglu. Úr því skal skorið hvort maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki og þau börn sem komu með umsækjanda sækja einnig um hæli.
     Umsækjandi skal afhenda með umsókninni vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hann hefur í fórum sínum. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða samvistarmaka umsækjanda og börn hans hvort sem þau komu með umsækjanda eða sækja um hæli síðar.
     Eins fljótt og unnt er frá því að umsókn um hæli er lögð fram, og áður en fyrsta skýrslutaka fer fram, skal starfsmaður Útlendingastofnunar kallaður til. Ef um fylgdarlaust barn er að ræða skv. 5. mgr. 44. gr. skal fulltrúa barnaverndaryfirvalda í umdæmi þar sem umsókn er tekin til meðferðar einnig tilkynnt um málið.
     Lögregla skal strax í upphafi upplýsa útlending sem sótt hefur um hæli eins og kostur er um framhald málsins og réttindi hans. Skulu slíkar leiðbeiningar vera skriflegar eða aðgengilegar á mynd- eða hljóðmiðli.
     Útlendingur sem sótt hefur um hæli skal upplýstur um skyldur hans til að veita þær upplýsingar sem óskað er eftir og um afleiðingar þess ef hann skýrir ekki satt og rétt frá eða heldur leyndum upplýsingum sem skipt geta máli við úrlausn málsins.
     
     b. (50. gr. b.)
Rannsókn lögreglu vegna umsóknar um hæli.
     Lögregla aflar eins fljótt og kostur er persónuupplýsinga um útlending sem sótt hefur um hæli með milligöngu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra til að sannreyna hver hann er. Sama á við um öflun upplýsinga um ferðaleið hans.
     Ef vafi vaknar um aldur fylgdarlauss barns lætur lögregla, að beiðni Útlendingastofnunar, aldursgreina viðkomandi með viðurkenndum aðferðum. Viðkomandi er heimilt að neita því að gangast undir slíka rannsókn og skal starfsmaður Útlendingastofnunar gera honum grein fyrir því hvaða áhrif slík neitun hefur á meðferð málsins. Synjun á hælisumsókn getur ekki byggst á því eingöngu að viðkomandi hafi neitað að gangast undir aldursgreiningu.
     Lögregla getur beitt þeim rannsóknarúrræðum sem lög þessi heimila, eftir því sem við á. Ráðherra getur í reglugerð sett frekari fyrirmæli um beitingu rannsóknarúrræða.
     
     c. (50. gr. c.)
Viðtal við hælisleitanda.
     Hælisleitendur eiga rétt á viðtali hjá Útlendingastofnun með talsmanni ef þeir óska. Starfsmaður Útlendingastofnunar tekur viðtal við umsækjanda. Sá sem tekur viðtalið skal sjá til þess að upplýst verði um þær aðstæður umsækjanda sem hafa þýðingu fyrir umsókn hans eins og kostur er og kalla til túlk ef nauðsyn ber til.
     Gera skal umsækjanda grein fyrir að þær upplýsingar sem hann gefur verði lagðar til grundvallar við ákvörðun um umsókn hans. Umsækjandi skal inntur eftir því hvort hann samþykki að upplýsinga um hann verði aflað frá öðrum stjórnvöldum, þ.m.t. frá stjórnvöldum í öðrum ríkjum en heimaríki hans, ef þess gerist þörf vegna afgreiðslu málsins.
     Þegar viðtal skv. 1. mgr. er tekið við fylgdarlaust barn skal starfsmaður Útlendingastofnunar sem hefur sérþekkingu á málefnum barna taka viðtalið, ef kostur er, og fara með málið. Talsmaður barns skv. 34. gr. skal vera viðstaddur viðtalið ásamt barninu. Skal talsmanni gefinn kostur á að ræða við barnið og leiðbeina því um viðtalið áður en það fer fram.
     Ráðherra er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd viðtals, einkum að því er varðar viðtal þegar börn eiga í hlut eða aðrir sem vegna stöðu sinnar hafa þörf á ríkri vernd eða aðstoð og réttinn til talsmanns.
     
     d. (50. gr. d.)
Sérstök málsmeðferð – flýtimeðferð.
     Í málum sem tekin eru til efnismeðferðar getur Útlendingastofnun ákveðið að umsókn um hæli sæti flýtimeðferð, m.a. þegar:
  1. líkur eru á að umsókn um hæli verði samþykkt eða þegar sérstakar ástæður umsækjanda mæla með því, þ.m.t. ef um fylgdarlaust barn er að ræða eða einstakling sem hefur þörf á ríkri vernd eða aðstoð,
  2. umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, þ.e.:
    1. útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. laganna, eða það sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft reglulegt aðsetur, eða
    2. senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem brýtur gegn 44. gr. laganna,
  3. umsækjandi hefur gefið ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar til stuðnings umsókn sinni eða þær upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt gefa ekki tilefni til að ætla að 44. gr. laganna eigi við um hann,
  4. um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun hælisumsóknar eða umsókn hefur verið dregin til baka, eða
  5. víst má telja að umsókn sé í því skyni gerð að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.

     Útlendingastofnun getur í málum þeim sem greinir í b-, c-, d- og e-lið 1. mgr. tekið ákvörðun án þess að viðtal við hælisleitanda fari fram.
     Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði fyrir því að beita megi flýtimeðferð samkvæmt greininni.

23. gr.

     Í stað orðanna „þriggja ára“ í 3. mgr. 51. gr. laganna kemur: fjögurra ára.

24. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. september 2010.