Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 774, 141. löggjafarþing 109. mál: bókasafnalög (heildarlög).
Lög nr. 150 28. desember 2012.

Bókasafnalög.


I. KAFLI
Tilgangur og gildissvið.

1. gr.

Tilgangur.
     Tilgangur laga þessara er að efla starfsemi og samvinnu bókasafna þannig að þau geti sem best gegnt því hlutverki sínu að vera þekkingarveitur og fræðslustofnanir sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum og tryggja jafnframt varðveislu þess menningararfs sem bókasöfn hafa að geyma.

2. gr.

Gildissvið.
     Til bókasafna samkvæmt lögum þessum teljast Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Hljóðbókasafn Íslands svo og háskólabókasöfn, almenningsbókasöfn, bókasöfn framhalds- og grunnskóla, sérfræðisöfn og bókasöfn í stofnunum sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum, eftir því sem við á.
     Þessi söfn mynda sameiginlega bókasafnakerfi landsins. Þau skulu taka þátt í samstarfi bókasafna og safnkostur þeirra skal aðgengilegur eftir því sem við verður komið. Upplýsingar um safnkostinn skulu aðgengilegar öllum.

II. KAFLI
Skipulag.

3. gr.

Yfirstjórn.
     Ráðherra hefur yfirumsjón með stefnumörkun og samræmingu í starfsemi bókasafna sem undir lög þessi falla.
     Bókasafnaráð er ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni bókasafna.

4. gr.

Bókasafnaráð.
     Ráðherra skipar bókasafnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna tilnefna hvort sinn fulltrúa í ráðið, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, tilnefnir tvo fulltrúa ólíkra flokka bókasafna, og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í bókasafnaráði lengur en tvö samfelld starfstímabil.
     Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
     Landsbókavörður og forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands sitja fundi bókasafnaráðs með málfrelsi og tillögurétt.
     Kostnaður af starfsemi bókasafnaráðs greiðist úr ríkissjóði.

5. gr.

Hlutverk bókasafnaráðs.
     Bókasafnaráð hefur eftirfarandi hlutverk:
  1. að vinna að stefnumörkun um starfsemi bókasafna í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem send er ráðherra til samþykktar,
  2. að setja reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn á Íslandi sem ráðherra staðfestir,
  3. að setja bókasafnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
  4. að veita umsögn um styrkumsóknir úr bókasafnasjóði,
  5. að sinna öðrum verkefnum á sviði málefna bókasafna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.


III. KAFLI
Bókasöfn og starfsemi þeirra.

6. gr.

Markmið og hlutverk.
     Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi.
     Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Áhersla skal lögð á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið.

7. gr.

Flokkar safna.
     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er forustusafn bókasafna landsins. Það stuðlar að samstarfi, samræmingu og þróun starfshátta bókasafna og veitir öðrum söfnum faglega ráðgjöf, sinnir rannsóknum á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og öðrum verkefnum samkvæmt lögum um safnið.
     Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir reknar af sveitarfélögum. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.
     Öllum sveitarfélögum er skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög. Sveitarfélög ráða starfslið almenningsbókasafna sem á vegum þeirra starfa, sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og búa þau nauðsynlegum búnaði.
     Bókasöfn í skólum eru upplýsingamiðstöðvar fyrir nemendur og kennara. Í starfsemi skólasafna skal meðal annars leggja áherslu á að þjálfa nemendur og starfsfólk skóla í upplýsingalæsi.
     Sérfræðisöfn og bókasöfn stofnana sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum skulu vera þekkingarmiðstöðvar á þeim sviðum sem þau eru helguð.

8. gr.

Stjórn almenningsbókasafna.
     Fyrir hverju almenningsbókasafni skal vera stjórn, kjörin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum. Skipunartími stjórnar er hinn sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Sveitarstjórn er heimilt að skipa eina bókasafnsstjórn fyrir öll almenningsbókasöfn sem rekin eru af sveitarfélaginu eða fela fastanefnd samkvæmt samþykktum sveitarfélags að fara með málefni almenningsbókasafna.
     Stjórn bókasafns skal gæta þess að þar sé unnið í samræmi við lög og reglugerðir og eftir faglegum viðmiðunum á sviði bókasafna- og upplýsingamála.

9. gr.

Sameining almenningsbókasafna.
     Sveitarfélögum er heimilt að sameinast um rekstur almenningsbókasafns í samræmi við sveitarstjórnarlög. Standi sveitarfélög saman að rekstri bókasafns skal í samstarfssamningi kveðið á um skiptingu kostnaðar, aðild hvers sveitarfélags að stjórn og um verkefni stjórnarinnar.

10. gr.

Sameining skólasafna og almenningsbókasafna.
     Heimilt er að reka almenningsbókasafn og skólasafn grunnskóla saman, enda sé gerður um það skriflegur samstarfssamningur milli bókasafnsstjórnar og skólanefndar með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna.
     Einnig er heimilt að stofna til samningsbundins rekstrar- eða þjónustusamstarfs milli almenningsbókasafns og bókasafns við skóla á framhaldsskóla- eða háskólastigi þar sem slík tilhögun telst henta vegna sérstakra aðstæðna.
     Við sameiginlegan rekstur skólasafna og almenningsbókasafna skal gera ráð fyrir greiðum aðgangi almennings að þjónustu safns utan skólatíma og leitast við að gæta hagsmuna allra notendahópa.

11. gr.

Starfsfólk og búnaður.
     Forstöðumaður bókasafns skal, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði. Tryggja skal eftir föngum að bókasöfn hafi á að skipa starfsfólki með sérmenntun sem hæfir verksviði safnanna.
     Búnaður bókasafna, húsnæði og safnkostur skal taka mið af hlutverki þeirra hvers um sig.

12. gr.

Aðgangur og samstarf.
     Bókasöfn geta sett nánari reglur um afnot af safnkosti sínum og meðal annars takmarkað aðgang almennings að honum. Bókasöfnum er heimilt að krefja lánþega um tryggingarfé ef sérstök ástæða þykir til.
     Til að rækja hlutverk sitt er bókasöfnum heimilt að hafa með sér samstarf um þjónustu við notendur og gera þjónustu- og samstarfssamninga sín á milli.

13. gr.

Þjónustusamningar.
     Ráðherra er heimilt að gera þjónustusamninga við tiltekin bókasöfn eða aðra um sértæka þjónustu á ákveðnum sviðum, að fenginni umsögn bókasafnaráðs. Í slíkum samningum skulu verkefni skilgreind, stjórnun þeirra, lengd samningstíma og hvernig greiðslum til bókasafna vegna þjónustunnar og úttekt á árangri viðkomandi verkefna skuli háttað.

14. gr.

Tölfræðilegar upplýsingar.
     Bókasöfn skulu árlega láta ráðuneytinu í té skýrslu um fjármál sín og starfsemi í samræmi við reglur sem bókasafnaráð setur og ráðherra staðfestir.
     Ráðuneytinu er heimilt að fela öðrum aðilum með þjónustusamningi að hafa umsjón með söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn á Íslandi í samræmi við framangreindar reglur.

IV. KAFLI
Hljóðbókasafn Íslands.

15. gr.

Hlutverk.
     Hljóðbókasafn Íslands er í eigu ríkisins og fer ráðherra með yfirstjórn þess.
     Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.
     Hljóðbókasafn Íslands skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnamála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins. Til að rækja hlutverk sitt sem best er safninu heimilt að gera þjónustu- og samstarfssamninga við slíka aðila.
     Kostnaður við starfsemi Hljóðbókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Tekjum safnsins skal varið í þess þágu.

16. gr.

Forstöðumaður.
     Ráðherra skipar forstöðumann Hljóðbókasafns Íslands til fimm ára í senn. Skal forstöðumaður hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
     Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri Hljóðbókasafns Íslands. Hann ræður starfsmenn þess og er í fyrirsvari fyrir safnið.

17. gr.

Samráðshópur.
     Ráðherra skipar sex manna samráðshóp um málefni Hljóðbókasafns Íslands. Skal einn fulltrúi tilnefndur af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, einn af Félagi lesblindra, einn af Félagi íslenskra sérkennara, einn af Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, og einn af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í samráðshópinn lengur en tvö samfelld starfstímabil.
     Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi tilnefndra fulltrúa.
     Samráðshópurinn er forstöðumanni Hljóðbókasafns Íslands til samráðs og ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess.
     Forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands situr fundi hópsins með málfrelsi og tillögurétt.

V. KAFLI
Fjármál bókasafna.

18. gr.

Framlög til bókasafna.
     Framlög til almenningsbókasafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
     Framlög til bókasafna í skólum og stofnunum og sérfræðisafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun viðkomandi skóla, stofnana eða eigenda sérfræðibókasafna.
     Gjafir og fjárframlög til bókasafna eru frádráttarbær til skatts í samræmi við ákvæði laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með áorðnum breytingum.

19. gr.

Gjaldtökuheimildir.
     Bókasöfnum er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
     Hvert safn setur gjaldskrá um alla gjaldtöku skv. 1. mgr. að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar eða yfirstjórnar stofnunar. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður viðkomandi safns vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
  1. launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
  2. sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.

     Bókasöfnum er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda. Hvert safn setur sér reglur um innheimtu dagsekta og bóta að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar eða yfirstjórnar stofnunar. Skal í þeim kveðið á um að dagsektir sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis, eða bætur sem innheimtar eru vegna þess, megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er bókasafni heimilt að mæla fyrir um að sé safnefni ófáanlegt skuli verð metið að álitum og það mat lagt til grundvallar við ákvörðun bóta eða sekta, eftir atvikum með allt að 50% álagi á sektir eða bætur ef um mikilvægt efni er að ræða.
     Gjaldskrár skv. 2. og 3. mgr. skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

VI. KAFLI
Bókasafnasjóður.

20. gr.

Hlutverk og skipulag.
     Bókasafnasjóður hefur það hlutverk að efla starfsemi bókasafna sem falla undir lög þessi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja önnur verkefni til að efla faglegt samstarf bókasafna, m.a. alþjóðleg samstarfsverkefni sem bókasöfn, sem undir lög þessi falla, taka þátt í.
     Tekjur bókasafnasjóðs eru:
  1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
  2. önnur framlög.


21. gr.

Styrkveitingar.
     Styrkir úr bókasafnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. 3. tölul. 5. gr.
     Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum bókasafnasjóðs eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
     Ráðherra úthlutar styrkjum úr bókasafnasjóði að fengnum tillögum bókasafnaráðs.
     Styrkir úr bókasafnasjóði eru undanþegnir tekjuskatti.

VII. KAFLI
Önnur ákvæði.

22. gr.

Setning reglugerða.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í heild eða einstakra hluta þeirra.

23. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, og lög um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982.

24. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verður 8. gr. laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, svohljóðandi:
     Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
     Landsbókavörður setur gjaldskrá um alla gjaldtöku skv. 1. mgr. að fenginni umsögn stjórnar. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður safnsins vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
  1. launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
  2. sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.

     Safninu er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda. Landsbókavörður setur reglur um innheimtu dagsekta og bóta að fenginni umsögn stjórnar. Skal í þeim kveðið á um að dagsektir sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis, eða bætur sem innheimtar eru vegna þess, megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er heimilt að mæla fyrir um að sé safnefni ófáanlegt skuli verð metið að álitum og það mat lagt til grundvallar við ákvörðun bóta eða sekta, eftir atvikum með allt að 50% álagi á sektir eða bætur ef um mikilvægt efni er að ræða.
     Gjaldskrá skv. 2. og 3. mgr. skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Störf starfsmanna Blindrabókasafns Íslands flytjast til Hljóðbókasafns Íslands og fela lög þessi ekki í sér breytingar á stöðu og réttindum þeirra.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 2012.