Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 432, 145. löggjafarþing 140. mál: náttúruvernd (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.).
Lög nr. 109 13. nóvember 2015.

Lög um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Orðin „eftir miðja 18. öld“ í 8. tölul. falla brott.
  2. Í stað „58. gr.“ í a-lið 17. tölul. kemur: 56. gr.
  3. 19. tölul. orðast svo: Óbyggt víðerni: Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.
  4. 20. tölul. orðast svo: Ræktað land: Land sem er nýtt til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, gróðursetningu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Lóð undir frístundahús í notkun telst ræktað land í skilningi laga þessara, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 3. tölul. 2. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.
  5. 25. tölul. orðast svo: Vegur: Til vega samkvæmt lögum þessum teljast þjóðvegir, sveitarfélagsvegir og einkavegir, svo sem þeir eru skilgreindir í vegalögum. Auk þess aðrir vegir utan flokkunarkerfis vegalaga sem skráðir eru í vegaskrá í samræmi við ákvæði 32. gr.
  6. 28. tölul. orðast svo: Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Afmarka má þéttbýli með öðrum hætti í aðalskipulagi sveitarfélags.


2. gr.

     1. málsl. 9. gr. laganna orðast svo: Þegar tekin er ákvörðun á grundvelli laga þessara, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „umsýsluáætlana“ í 2. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi tölu og beygingarfalli: stjórnunar- og verndaráætlana.
  2. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Náttúrufræðistofnun Íslands annast m.a. skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra, hefur umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár og gerir tillögur um skráningar í hann í samráði við fagráð náttúruminjaskrár, sbr. 15. gr., sem og tillögur um minjar sem ástæða þykir til að setja á framkvæmdaáætlun.
  3. Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 4. og 5. mgr., svohljóðandi:
  4.      Náttúrustofum er heimilt að annast einstök verkefni á sviði náttúruverndar, svo sem fræðslu, vöktun og eftirlit, í samræmi við samninga sem ráðherra er heimilt að gera skv. 10. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
         Umhverfisstofnun er heimilt að gera samninga við sveitarfélög, einstaka landeigendur eða rétthafa lands um verkefni á sviði náttúruverndar á svæðum sem ekki hafa hlotið friðlýsingu, friðun eða vernd samkvæmt ákvæðum laga þessara en teljast sérstök sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.
  5. Við 4. mgr., er verður 6. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um heimildir til samningagerðar skv. 5. mgr.


4. gr.

     Orðin „sbr. 2. mgr. 34. gr.“ í 7. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna falla brott.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 17. gr. laganna:
  1. Orðin „og vegslóða“ falla brott.
  2. Í stað orðsins „kortagrunni“ kemur: skrá yfir vegi í náttúru Íslands.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.
  2. Í stað 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir að skógræktarsvæði teljist ræktað land í skilningi laga þessara er för um svæðið og dvöl þar ekki háð samþykki eiganda þess eða rétthafa eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.


7. gr.

     2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um umferð hjólreiðamanna.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „hrossastóð“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: hross.
  2. 5. mgr. orðast svo:
  3.      Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.


9. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Um umferð um vötn fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Við alfaraleið í byggð er heimilt, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 18. gr., að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi, sé tjaldsvæði ekki í næsta nágrenni, en leita skal leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ og ætíð ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.      Utan þéttbýlis skal leita leyfis landeiganda eða annars rétthafa ef nota á tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða.
  5. 4. mgr. orðast svo:
  6.      Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði.


11. gr.

     25. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Takmörkun umferðar í óbyggðum.
     Umhverfisstofnun getur í verndarskyni, að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags eða landeiganda eða að eigin frumkvæði, takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæði. Slíkar ákvarðanir eru háðar staðfestingu ráðherra og skal birta þær með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin skal ávallt hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélag, landeiganda og aðra hagsmunaaðila áður en tillaga samkvæmt ákvæði þessu er send til ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal endurmeta árlega.

12. gr.

     Á eftir 25. gr. laganna kemur ný grein, 25. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Takmörkun umferðar vegna ágangs.
     Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. 4. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni, m.a. reglur um sjálfbæra nýtingu, og að tilkynna skuli Náttúrufræðistofnun Íslands um magn og tegund þess sem tínt er og tínslustað. Umhverfisstofnun er heimilt að banna eða takmarka tínslu einstakra tegunda eða tínslu á afmörkuðum svæðum ef það er nauðsynlegt vegna verndunar einstakra tegunda eða til að koma í veg fyrir ofnýtingu svæða. Ákvarðanir um bann eða takmarkanir á tínslu einstakra tegunda eða tínslu á afmörkuðum svæðum skulu háðar staðfestingu ráðherra og skulu birtar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
  3. 5. og 6. mgr. falla brott.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „þétt við veg“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: bílbreidd frá vegi.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er við akstur vegna starfa við landbúnað heimilt, ef nauðsyn krefur, að aka utan vega á landi sem sérstaklega er nýtt til landbúnaðar ef ekki hljótast af því náttúruspjöll. Við eftirleitir er bændum heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum, svo sem fjórhjólum, enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti og ekki talin hætta á náttúruspjöllum. Einnig er heimilt, ef nauðsyn krefur, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, vegalagnir, línulagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, lögreglustörf, sjúkraflutninga, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt. Heimilt er, ef nauðsyn krefur og með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við viðhald skála og neyðarskýla og vegna kvikmyndagerðar, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt.
  4. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Sé óvissa um hvort undanþága frá banni við akstri utan vega geti valdið mögulegum alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal umsækjandi um undanþágu afla sérfræðiálits um mat á því hvaða áhrif á náttúruna undanþágan getur haft. Heimilt er að binda undanþáguna skilyrðum til að draga úr óæskilegum áhrifum á náttúruna. Við mat á því hvað teljast óæskileg áhrif skal taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr.


15. gr.

     32. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:
Skrá yfir vegi í náttúru Íslands.
     Vegagerðin skal halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil, sbr. 2. mgr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007.
     Sveitarfélög gera tillögu að skrá skv. 1. mgr. innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hlýtur hún samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi, sbr. 32. og 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Sveitarfélögum er einnig heimilt að gera tillögu skv. 1. málsl. við gerð svæðisskipulags, sbr. 21. gr. skipulagslaga. Slík vegaskrá er jafnframt háð samþykki Umhverfisstofnunar, eða annarra stjórnvalda þjóðgarða þegar við á, á landsvæðum sem liggja innan friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skipulagsstofnun ber að sjá til þess að Vegagerðinni berist upplýsingar um vegaskrá í viðkomandi sveitarfélagi til skráningar og birtingar í vegaskrá skv. 1. mgr. þegar aðalskipulag hefur verið staðfest. Við gerð skrárinnar skulu sveitarfélög hafa samráð við Umhverfisstofnun eða önnur stjórnvöld þjóðgarða ef við á, Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins, Landmælingar Íslands, samtök útivistarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Bændasamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.
     Við mat á því hvort tilteknir vegir skuli tilgreindir í vegaskrá skv. 1. mgr. skal sérstaklega líta til þess hvort akstur á þeim sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda jarðvegsrofi, hafa neikvæð áhrif á landslag, víðerni og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig má líta til þess hvort um greinilegan og varanlegan veg sé að ræða, hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum og hvort umferð á tilteknum vegi skuli takmarka við ákveðnar gerðir ökutækja, viss tímabil, náttúrufarslegar aðstæður eða við akstur vegna ákveðinna starfa.
     Upplýsingar um heimila vegi í vegaskrá fela ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiða ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra.
     Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um gerð og birtingu skrár yfir vegi í náttúru Íslands samkvæmt þessari grein. Birta skal í B-deild Stjórnartíðinda auglýsingu um vegaskrá og breytingar á henni. Eftir útgáfu kortagrunns skv. 1. mgr. skulu útgefendur vegakorta, þar á meðal stafrænna korta fyrir GPS-tæki og álíka búnað, sjá til þess að upplýsingar á kortum þeirra séu svo sem kostur er í samræmi við vegaskrá skv. 1. mgr. Útgefendum korta, þ.m.t. stafrænna korta, er skylt að skrá á kort sín eða í ítarefni sem þeim fylgir útgáfunúmer og útgáfutíma vegaskrárinnar sem nýtt er og upplýsingar um aðgang að nýjustu útgáfu kortagrunnsins, t.d. með vefslóð. Ef á þessu verður alvarlegur misbrestur er Umhverfisstofnun heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að útgefendur hætti dreifingu vegakorta sem veita rangar upplýsingar um heimildir til aksturs vélknúinna ökutækja á vegum samkvæmt ákvæði þessu og að þeir innkalli þau frá öðrum dreifingaraðilum. Verði útgefendur ekki við áskorun stofnunarinnar innan tilskilins frests er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 3. mgr. 87. gr.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
  1. Á undan orðinu „A-hluti“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: Friðlýst svæði.
  2. Orðin „og 54. og 55. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. falla brott.
  3. Í stað orðanna „sbr. 58. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: sbr. IX. kafla, og önnur svæði vernduð samkvæmt sérlögum.
  4. Á undan orðinu „B-hluti“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: Framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun.
  5. Á undan orðinu „C-hluti“ í 3. tölul. 2. mgr. kemur: Aðrar mikilvægar náttúruminjar.
  6. Á eftir orðunum „skal birta í“ í 3. mgr. kemur: viðauka við.
  7. Í stað „57. gr.“ í 3. mgr. kemur: 61. gr.


17. gr.

     2. mgr. 34. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „X. kafla“ í 1. mgr. kemur: IX. kafla.
  2. Í stað orðanna „fimm ára“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: eins árs.
  3. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Forðast ber að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað.
  4. Í stað „57. gr.“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: 61. gr.


19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. Orðin „og 54. og 55. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Í stað „54. gr.“ í 2. mgr. kemur: 53. gr.


20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnunin skal í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.
  2. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Umhverfisstofnun er heimilt að semja við landeiganda, rétthafa lands eða lögaðila um að hann taki þátt í umönnun friðlýsts svæðis með því að annast þar tilteknar aðgerðir gegn þóknun.


21. gr.

     Á undan orðunum „afmörkun þess“ í 2. málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: hnitsetta.

22. gr.

     1. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
     Hindri friðlýsing eða ákvörðun skv. 2. mgr. 37. gr. fyrirhugaða nýtingu landeiganda eða rétthafa lands á landinu eða geri hana til muna erfiðari, umfram það sem teljast má til almennra takmarkana eignarréttar, skal landeigandi eða rétthafi lands eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón sem hann verður fyrir og getur sýnt fram á að sé verulega umfram þær takmarkanir sem má finna í sambærilegum friðlýsingum eða ákvörðunum.

23. gr.

     4. mgr. 45. gr. laganna fellur brott.

24. gr.

     3. mgr. 46. gr. laganna fellur brott.

25. gr.

     Á eftir 50. gr. laganna kemur ný grein, 50. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
     Friðlýsa má landsvæði til verndar vistkerfum og búsvæðum ásamt þeim menningarlegu gildum sem tengjast þeim og hefðbundnum nytjum náttúruauðlinda. Viðmið um friðlýsingu slíkra svæða skal vera að þau séu stór, að mestu leyti náttúruleg en hluti þeirra nýttur á sjálfbæran hátt.
     Markmið með verndun svæða samkvæmt grein þessari er hófsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda sem ekki er iðnvædd og samrýmist náttúruvernd.

26. gr.

     3. mgr. 52. gr. laganna fellur brott.

27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á IX. kafla laganna:
  1. 54. gr. færist í VIII. kafla laganna og verður 53. gr. og breytist greinatala þess kafla samkvæmt því.
  2. 56. gr. færist í X. kafla og verður 62. gr.
  3. Fyrirsögn kaflans verður: Friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda.


28. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á X. kafla laganna:
  1. Í stað orðanna „10.000 m2“ í a-lið 1. mgr. 57. gr., sem verður 61. gr., kemur: 20.000 m2.
  2. B-liður 1. mgr. 57. gr. orðast svo: sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra þar sem eru m.a. gömul tré.
  3. B-liður 2. mgr. 57. gr. orðast svo: fossar og nánasta umhverfi þeirra að því leyti að sýn að þeim spillist ekki, hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.
  4. C-liður 2. mgr. 57. gr. fellur brott.
  5. 1. málsl. 3. mgr. 57. gr. orðast svo: Forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til.
  6. Í stað orðanna „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 3. málsl. 3. mgr. 57. gr. kemur: Umhverfisstofnunar.
  7. 4. málsl. 3. mgr. 57. gr. fellur brott.
  8. Í stað orðsins „niðurstöðu“ í 5. mgr. 57. gr. kemur: umsagnir.
  9. Orðin „Náttúrufræðistofnun Íslands og“ í 6. mgr. 57. gr. falla brott.
  10. 2. málsl. 7. mgr. 57. gr. orðast svo: Stofnanirnar skulu birta skrárnar, auk þess sem þær eru birtar sem viðauki við náttúruminjaskrá.
  11. 58.–62. gr. færast í IX. kafla og verða 56.–60. gr.
  12. Á eftir orðunum „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 2. málsl. 2. mgr. 59. gr., sem verður 57. gr., kemur: Umhverfisstofnunar.
  13. Orðin „Náttúrufræðistofnun Íslands og“ í 4. mgr. 59. gr. falla brott.
  14. Við 60. gr., sem verður 58. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  15.      Sé óvissa um hvort undanþága samkvæmt ákvæði þessu hafi í för með sér alvarleg eða óafturkræf áhrif á viðkomandi vistkerfi, vistgerð eða tegund sem friðuð er skal umsækjandi um undanþágu afla sérfræðiálits um mögulegt og verulegt tjón sem veiting undanþágunnar gæti valdið. Ráðherra er heimilt að binda undanþáguheimild skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Ráðherra skal við ákvörðun um undanþágu taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr.
  16. Á eftir orðunum „einstaka landeigendur eða rétthafa“ í 1. málsl. 2. mgr. 61. gr., sem verður 59. gr., kemur: lands eða sveitarfélög.
  17. Fyrirsögn kaflans verður: Sérstök vernd tiltekinna vistkerfa, jarðminja o.fl.


29. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á XI. kafla laganna:
  1. 1. og 2. mgr. 63. gr. orðast svo:
  2.      Óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Þetta gildir þó ekki um búfé eða framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar nema innflutningur sé bannaður samkvæmt reglugerð, sbr. 5. mgr.
         Með umsókn um leyfi skv. 1. mgr. skal fylgja áhættumat sem umsækjandi hefur aflað og skal þar m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Ef lífverurnar eru fluttar til landsins í því augnamiði að dreifa þeim skal umsóknin taka bæði til innflutningsins og dreifingarinnar og skal þá einnig fylgja greinargerð um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að dreifingin hafi á lífríkið.
  3. Á eftir orðinu „innflutningurinn“ tvívegis í 3. mgr. 63. gr. kemur: eða dreifingin.
  4. Á eftir orðinu „innflutning“ tvívegis í 5. mgr. 63. gr., kemur: og dreifingu.
  5. 64. gr. fellur brott ásamt fyrirsögn.
  6. Orðin „og 64.“ í 1. og 2. mgr. 66. gr. falla brott.
  7. Fyrirsögn kaflans verður: Innflutningur og dreifing lifandi framandi lífvera.


30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
  1. Í stað „57. gr.“ í 2. mgr. kemur: 61. gr.
  2. Í stað „54. gr.“ í 4. mgr. kemur: 53. gr.


31. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist: eða reglum settum á grundvelli þeirra.
  2. Á eftir orðunum „Vöktunaráætlun fyrir friðlýst svæði skal“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og.


32. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 2. mgr. 81. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „vöktun“ kemur: uppbyggingu.
  2. Á eftir orðunum „miðlun upplýsinga“ kemur: verndaraðgerðir.


33. gr.

     Orðin „sem ráðherra staðfestir“ í 3. málsl. 1. mgr. 86. gr. laganna falla brott.

34. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 90. gr. laganna:
  1. Orðin „5. mgr. 27. gr.“ í b-lið 1. mgr. falla brott.
  2. Í stað orðanna „nema ökutækið sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: nema ökumaður hafi notað ökutækið í algeru heimildarleysi.


35. gr.

     2. mgr. 94. gr. laganna fellur brott.

36. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
  1. 1. tölul. fellur brott.
  2. 4. tölul. orðast svo: Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum:
    1. Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 4. gr. laganna:
      1. Síðari málsliður i-liðar, sbr. 3. gr. laga nr. 169/1998, fellur brott.
      2. Við bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
        1. að skrá náttúruminjar, annast mat á verndargildi þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár,
        2. að bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru að því marki sem hún er ekki falin öðrum stofnunum með lögum eða reglum settum á grundvelli þeirra.
    2. Á eftir orðunum „starfssvæði náttúrustofu“ í 5. málsl. 10. gr. laganna kemur: skilgreind verkefni.
  3. 5. tölul. fellur brott.
  4. Í stað „57. gr.“ í 2. mgr. b-liðar 7. tölul. kemur: 61. gr.
  5. Í stað „57. gr.“ í 8. tölul. kemur: 61. gr.
  6. 11. tölul. fellur brott.
  7. Í stað „57. gr.“ tvívegis í 12. tölul. kemur: 61. gr.
  8. Við b-lið 12. tölul. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  9.      Ef óvissa er um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar eru á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga skal umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn er heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljast alvarleg eða óafturkræf áhrif skal taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd.
  10. Á eftir 12. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Lög um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum: Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  11.      Ef óvissa er um hvort fyrirhuguð byggingarleyfisskyld framkvæmd hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar eru á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga skal umsækjandi um byggingarleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Leyfisveitanda er heimilt að binda byggingarleyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljast alvarleg eða óafturkræf áhrif skal taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd.


37. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
  1. 1. tölul. fellur brott.
  2. Í stað ártalsins „2015“ í 1. málsl. 2. tölul. kemur: 2017.
  3. 3. málsl. 2. tölul. orðast svo: Þar til ráðherra gefur út náttúruminjaskrá skv. 33. gr. skal gildandi náttúruminjaskrá halda gildi sínu en um minjar á skránni, aðrar en þær sem eru friðlýstar, skal fara samkvæmt ákvæðum 67. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar til endurmati verndargildis þeirra minja hefur verið lokið í samræmi við 3. tölul.
  4. Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi náðst samkomulag um friðlýsingu eða friðun náttúruminja skv. 58. gr. laga nr. 44/1999 er ráðherra heimilt að ljúka þeim þó svo að ekki hafi verið gefinn þriggja mánaða frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skv. 2. mgr. 39. gr. laga þessara.
  5. Í stað ártalsins „2020“ í 3. tölul. kemur: 2021.
  6. 5. tölul. orðast svo: Ráðherra skal taka til endurskoðunar XI. kafla laga þessara, í samstarfi við þann ráðherra er fer með málefni sem varða inn- og útflutning dýra og plantna og erfðaefni þeirra, og leggja fram frumvarp til laga um nýjan XI. kafla á vorþingi 2016. Endurskoðun kaflans skal lúta að því að sameina réttarheimildir um innflutning og dreifingu lífvera hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, sem fer m.a. með eftirlit á grundvelli laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, laga nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, og laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
  7. Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Þar til sveitarfélög hafa gert breytingar á aðalskipulagi sínu, eða eftir atvikum svæðisskipulagi, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 32. gr. og Vegagerðin hefur birt í vegaskrá viðkomandi vegi í náttúru Íslands sem heimilt er að aka, aðra en þjóðvegi, er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á greinilegum vegum í náttúru Íslands sem eru að staðaldri notaðir til umferðar vélknúinna ökutækja. Skilyrði fyrir akstri á slíkum vegum er að aksturinn falli að skilyrðum 3. mgr. 32. gr. Vinnu samkvæmt ákvæði þessu skal lokið fyrir árslok 2020.
    2.      Þegar Vegagerðin hefur birt vegaskrá skv. 32. gr. skal ráðherra endurskoða ákvæði V. kafla um akstur utan vega með tilliti til reynslunnar af framkvæmd þeirra.
    3. Ráðherra, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, skal láta vinna frumvarp um ný ákvæði er taki til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum um almannarétt og á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér. Stefnt skal að því að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis í síðasta lagi á haustþingi 2017.


38. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. nóvember 2015.