Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1919, 149. löggjafarþing 776. mál: fiskveiðar utan lögsögu Íslands (stjórn veiða á makríl).
Lög nr. 46 19. júní 2019.

Lög um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (stjórn veiða á makríl).


I. KAFLI
Breyting á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum. Hafi skip komið í stað skips sem áunnið hefur sér aflareynslu á þessu tímabili skal það skip sem í staðinn kemur njóta þeirrar aflareynslu.
     Aflahlutdeild í makríl skiptist í tvo flokka, A- og B-flokk. Aflahlutdeild í A-flokki skal úthluta á skip sem stunduðu makrílveiðar á viðmiðunartímabilinu með öðrum veiðarfærum en línu og handfærum. Aflahlutdeild í B-flokki skal úthluta á skip sem stunduðu makrílveiðar á viðmiðunartímabilinu með línu og handfærum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Aflahlutdeild í makríl skiptist í tvo flokka, A- og B-flokk. Í A-flokki er hlutdeild úthlutað á grundvelli veiðireynslu með öðrum veiðarfærum en línu og handfærum. Í B-flokki er hlutdeild úthlutað á grundvelli veiðireynslu með línu og handfærum.
  2. Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: og aflamagni skv. 10. gr. b.


3. gr.

     Á eftir 10. gr. a laganna kemur ný grein, 10. gr. b, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að ráðstafa allt að 4.000 lestum af aflaheimildum í makríl til skipa í B-flokki. Hvert skip á kost á að fá úthlutað aflaheimildum í makríl gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl. Eftir 15. september ár hvert er ráðherra heimilt að ráðstafa því sem eftir er til fiskiskipa í A-flokki gegn sama gjaldi. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar samkvæmt þessari grein.

4. gr.

     Á eftir 1. málsl. 6. mgr. 12. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips í makríl úr B-flokki.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Óheimilt er að flytja aflamark skips í makríl úr B-flokki, nema í jöfnum skiptum í þorskígildum talið fyrir aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Ráðherra er heimilt að flytja ónýtt aflamark í makríl úr B-flokki yfir í A-flokk eftir 15. september ár hvert, að teknu tilliti til tegundartilfærslna og flutningsréttar milli veiðitímabila, sem ráðstafað skal á skip í samræmi við hlutdeild og eftirspurn, gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl. Ef aflabrögð á grunnslóð mæla með því að flýta eða seinka flutningi úr B-flokki í A-flokk er ráðherra heimilt að miða við annað tímamark. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis með reglugerð.
  3. 6. mgr. orðast svo:
  4.      Tefjist skip frá veiðum í a.m.k. fjóra mánuði vegna tjóns, meiri háttar bilana eða endurbóta hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. júní 2019.