Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1069, 152. löggjafarþing 678. mál: tekjuskattur o.fl. (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).
Lög nr. 27 25. maí 2022.

Lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Auk barnabóta skv. A-lið 68. gr. skal hinn 1. júlí 2022 greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. óháð ákvæði 2. mgr. A-liðar 68. gr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda við álagningu 2022.
     Sérstakur barnabótaauki samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna.
     Sérstökum barnabótaauka verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

II. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

2. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu bætur samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hækka um 3,0% frá 1. júní 2022. Greiðslur komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022.

III. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.

3. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (II.)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 5. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 30. gr. skulu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta á ári vegna leigu á íbúðarhúsnæði á árinu 2022 taka breytingum 1. júní 2022 og vera sem hér segir:
Grunnfjárhæð húsnæðisbóta Grunnfjárhæð húsnæðisbóta
á tímabilinu á tímabilinu
Fjöldi heimilismanna 1. janúar – 31. maí 2022 1. júní – 31. desember 2022
1 389.520 kr. 428.472 kr.
2 515.172 kr. 566.689 kr.
3 603.132 kr. 663.445 kr.
4 eða fleiri 653.388 kr. 718.727 kr.

     
     b. (III.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 30. gr. skal við útreikning húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði á árinu 2022 lækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II um fjárhæð sem nemur 11% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram eftirfarandi frítekjumörk sem miðast við greiðslur húsnæðisbóta fyrir heilt almanaksár og taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri eftir stuðlum skv. 1. mgr. 16. gr.:
Fjöldi heimilismanna Frítekjumörk m.v. árstekjur 2022
1 4.895.292 kr.
2 6.474.408 kr.
3 7.579.800 kr.
4 eða fleiri 8.211.456 kr.

     Frítekjumörk skv. 1. mgr. skulu gilda afturvirkt frá 1. janúar 2022 fyrir árið í heild sinni. Endurreikningi og leiðréttingu húsnæðisbóta til bráðabirgða fyrir tímabilið 1. janúar – 31. maí 2022 vegna afturvirkrar hækkunar frítekjumarka samkvæmt ákvæði þessu skal lokið fyrir 1. september 2022. Um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta fer að öðru leyti skv. 25. og 26. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. maí 2022.