13.3.2023

Orkuöryggi til umræðu á þemaþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Orkuöryggi á Norðurlöndum verður til umfjöllunar á þemaþingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í Hörpu í Reykjavík dagana 13.–15. mars. Einnig verður rætt um starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2025–2030 sem nú er verið að móta.

Þingið hefst mánudaginn 13. mars með fundum flokkahópa Norðurlandaráðs. Á þriðjudaginn funda nefndir Norðurlandaráðs fyrir hádegi og eftir hádegi fara fram umræður um orkumál. Fyrir hádegi á miðvikudeginum verður þingfundur þar sem afgreiddar verða tillögur um ýmis málefni. Eftir hádegi verður rætt um starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp í upphafi fundarins en eftir það sitja Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fyrir svörum um mismunandi þætti nýju áætlunarinnar.

Íslendingar fara á þessu ári með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, samstarfi ríkisstjórna Norðurlanda, en á næsta ári verður Ísland í formennsku í þingmannasamstarfinu í Norðurlandaráði. Þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sækja allir þingið. Bryndís Haraldsdóttir er formaður landsdeildarinnar og Oddný G. Harðardóttir varaformaður.

Á vorþingið koma fulltrúar Eystrasaltsþingsins, samstarfssamtaka þinga Eistlands, Lettlands og Litáens, og Benelúx-þingsins, sem er samstarf þinganna í Belgíu, Hollandi og Lúxemborg. Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, kemur einnig á þingið.

Nánar um þingið á vef Norðurlandaráðs

Að loknum fundum í Hörpu þriðjudaginn 14. mars, fóru þátttakendur í kynnisferð á Hellisheiði og  skoðuðu það sem þar er efst á baugi.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-14_jardhitasyning_Climeworks_Bryndis-Nielsen_Karen-Ellemann

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, á tali við Bryndísi Nielsen hjá Climeworks.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-14_Carbfix_Olafur-Teitur-GudnasonÓlafur Teitur Guðnason, sem stýrir samskiptum og kynningarmálum hjá Carbfix, sagði frá starfsemi Carbfix á Hellisheiði.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-14_jardhitasyning_Angeliki-Kapatza

Angeliki Kapatza jarðhitasérfræðingur tók á móti hópnum á jarðhitasýningu ON á Hellisheiði.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-14_Vaxa_Kristinn-HaflidasonKristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA, sagði frá starfsemi VAXA á Hellisheiði.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-15_1

Kristina Háfoss, Bryndís Haraldsdóttir, Helge Orten, Jorodd Asphjell á spjalli við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson í Hörpu á lokadegi þingsins, 15. mars.

Themathing-Nordurlandarads-2023-03-15_2

Hópur þátttakenda í tröppum Hörpu á lokadegi þingsins.

Allar ljósmyndir / Eyþór Árnason/norden.org