12.5.2023

Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins kemur saman í aðdraganda leiðtogafundar

Ný verðlaun í nafni Vigdísar Finnbogadóttur á sviði valdeflingar kvenna, málþing um stöðu og framtíð lýðræðis og umræða um mikilvægi sameiginlegra gilda, marghliða samvinnu, mannréttindavernd og nýja kynslóð réttinda er á meðal þess sem er á dagskrá fundar stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem kemur saman hér á landi mánudaginn 15. maí í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins, sem fram fer dagana 16.–17. maí. Gestgjafi fundar stjórnarnefndarinnar á mánudag er Alþingi.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins, Sameinuð um gildi frammi fyrir gríðarlegum áskorunum, í Sjálfstæðissalnum á Iceland Parliament Hotel kl. 14:15–18:30

Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins kemur saman í aðdraganda leiðtogafundar til þess að ræða hlutverk Evrópuráðsins og mikilvægi sameiginlegra gilda frammi fyrir gríðarlegum áskorunum. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, opnar fundinn og Ruslan Stefanchuk, forseti úkraínska þingsins Verkhovna Rada, flytur netávarp. Í kjölfarið fer fram umræða um Evrópuráðið sem lykilaðila í marghliða stofnanastrúktúr Evrópu en þar taka til máls Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkiráðherra, Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Sylvie Bermann, fyrrverandi sendiherra Frakklands í Peking, London og Moskvu, og Alice Bergholtz, varaformaður ráðgjafaráðs Evrópuráðsins um æskulýðsmál.

Í síðari umræðu fundarins er sjónum beint að Evrópuráðinu sem brautryðjanda mannréttindaverndar og nýrri kynslóð réttinda, s.s. réttinum til heilnæms lífs, en meðal þátttakenda verða Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Ilze Brands Kehris, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum, Nathalie Smuha, sérfræðingur í gervigreind frá Institute for European Law, og Tinna Hallgrímsdóttir, loftslags- og sjálfbærnifræðingur hjá Seðlabanka Íslands.

Þá ávarpa einnig fundinn Bjarni Jónsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, og Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús.

Í stjórnarnefnd sitja varaforsetar þingsins, formenn allra landsdeilda, formenn flokkahópa og formenn málefnanefnda þingsins, alls um 60 þingmenn frá 46 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skipa Bjarni Jónsson formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður og Birgir Þórarinsson.

Fundurinn, sem er opinn fjölmiðlum gegn framvísun gildra blaðamannaskírteina, fer fram mánudaginn 15. maí 2023 kl. 14:15–18:30 á Iceland Parliament Hotel, Thorvaldsenstræti 2–6.

Fundur-stjornarnefndar-Evropuradsthingsins_1Frá fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins á Iceland Parliament Hotel.

Lýðræði fyrir framtíðina, málþing í Veröld – húsi Vigdísar í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, kl. 10:00–11:30

Á málþinginu verður lögð áhersla á umræðu um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni. Meðal framsögufólks verða Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Sviatlana Tsikhanovskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Mariia Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar.

Fundurinn, sem er opinn fjölmiðlum gegn framvísun gildra blaðamannaskírteina, fer fram mánudaginn 15. maí 2023 kl. 10:00–11:30, í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1.

Malthingid-Lydraedi-fyrir-framtidina_1

 

Frá vinstri: Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, og fundarstjórinn Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla íslands.

© Evrópuráðsþingið 

 

Malthingid-Lydraedi-fyrir-framtidina_2

Gestir á málþinginu Lýðræði fyrir framtíðina í Veröld – húsi Vigdísar.
© Evrópuráðsþingið

 

Vigdísarverðlaunum fyrir valdeflingu kvenna hleypt af stokkunum í Veröld – húsi Vigdísar í samstarfi við íslensk stjórnvöld, kl. 11:45–12:15

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, hleypa af stokkunum „Vigdísarverðlaununum fyrir valdeflingu kvenna“ við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar mánudaginn 15. maí. Verðlaunin eru veitt til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta þjóðkjörna kvenleiðtoga heims, og verður Vigdís sérstakur heiðursgestur á viðburðinum. Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Mariia Mezentseva, formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins, taka einnig þátt í athöfninni.

Verðlaunin verða veitt árlega þeim einstaklingi, frjálsu félagasamtökum, stofnunum eða öðrum aðilum sem þykja skara fram úr á sviði valdeflingar kvenna og þeim fylgir verðlaunafé að upphæð 60.000 evra. Tilnefningarferlið verður opið en sett verður á fót sérstök dómnefnd sem skipuð verður fulltrúum Evrópuráðsþingsins og íslenskra stjórnvalda. Við val á verðlaunahafa verður meðal annars horft til mikilvægs árangurs á sviði kynjajafnréttis, hvernig stuðlað er að aukinni þátttöku og aðgengi kvenna að ákvarðanatöku og aðgerða sem ýta undir stefnubreytingar eða draga úr hvers kyns mismunun og aðgreiningu. Verðlaunaafhendingin fer fram á þingfundi Evrópuráðsins í júní ár hvert.

Viðburðurinn, sem er opinn fjölmiðlum gegn framvísun gildra blaðamannaskírteina, fer fram mánudaginn 15. maí kl. 11:45–12:15, í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1.

Vigdisarverdlaun_1

Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, tekur í hönd Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.
© Evrópuráðsþingið

Vigdisarverdlaun_Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti Vigdísarverðlaunin.
© Evrópuráðsþingið

Frekari upplýsingar um Vigdísarverðlaun fyrir valdeflingu kvenna