31.3.2023

Vinahópur Íslands stofnaður í bandaríska þinginu

Vinahópur Íslands í fulltrúadeild Bandaríkjaþings (e. Iceland Caucus) var stofnaður í gær að viðstaddri utanríkismálanefnd Alþingis sem er í heimsókn í Washington. Forystufólk vinahópsins eru annars vegar Chellie Pingree, þingkona fyrir demókrataflokkinn í Maine, og hins vegar Greg Murphy, þingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn í Norður-Karólínu. Maine er meginmiðstöð sjóflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna og nýlega var komið á beinum flugsamgöngum frá Íslandi til Norður-Karólínu.

Tilgangur vinahópa á Bandaríkjaþingi felst einkum í því að skapa óformlegan samstarfsvettvang fyrir hóp þingmanna sem láta sig varða sérstaka málaflokka eða vináttu við tiltekin ríki. Markmið vinahóps Íslands er að styrkja samskipti ríkjanna og er tilkoma hópsins jákvætt skref þegar gæta þarf hagsmuna Íslands í höfuðborg Bandaríkjanna. Þá má ætla að vinahópurinn verði lyftistöng fyrir samskipti Alþingis og Bandaríkjaþings. 

Vinahopur