5.1.2018

Vinnuheimsókn forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til Kína

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sækir Kína heim ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, 7.–13. janúar 2018.

Í Peking munu þingforsetarnir meðal annars eiga fund með hr. Zhang Dejiang, forseta kínverska þingsins, fr. Ying Fu, formanni utanríkismálanefndar, og fleiri háttsettum stjórnmálamönnum. Þá munu forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja taka þátt í málþingi og pallborðsumræðum um þróun mála í Kína. Einnig er ráðgert að þingforsetarnir hitti unga frumkvöðla á sviði nýsköpunar.

Þingforsetarnir munu jafnframt heimsækja borgina Chengdu og eiga fund með leiðtogum sex héraðsstjórna frá héruðunum Sichuan, Yunnan, Guizhou, Chongqing, Shaanxi og Tíbet. Í Chengdu munu þeir einnig fá sérstaka kynningu á verkefni sem snýr að mögulegri samvinnu á sviði umhverfismála og uppbyggingu vistgarðs. Þá eru fyrirhugaðar heimsóknir í norræn fyrirtæki með starfsemi í Sichuan héraði.

Forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Kína

Frá heimsókn forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í kínverska þingið.