131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:26]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Já, við minnumst friðar í Evrópu fyrir 60 árum. Við eigum Winston Churchill margt að þakka. Hann sagði við þjóð sína fyrir 65 árum: Ég á eitt að gefa ykkur; blóð, svita og tár, að rísa gegn ofbeldismönnum og berjast fyrir friði.

Ég tók eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist aldrei í ræðu sinni á nafnið Stalín, sem var stórt á þessum tíma og olli miklum skaða í veröldinni. En það var þungur niður í þessari ræðu Ögmundar Jónassonar. Er allt svona svart og erfitt eins og hann lýsti?

Verkefni núverandi stjórnarflokka í tíu ár hafa verið sókn til bættra lífskjara. Eða gengur hér allt á afturfótunum hjá fólki og fyrirtækjum? Ég spyr. Stjórnarandstaðan fer oft offari í andstöðu sinni. Munið þið eftir einhverju sem þeir hafa stutt í stærstu framfaraverkefnum síðustu ára? Vinstri grænir eru gott fólk, vel að sér en berjast gegn hagfræði vestrænna þjóða. Hreint út sagt, þeir tala oft eins og álfar út úr hól. Ég held að þeir geri þetta að gamni sínu, þeir meina þetta ekki allt saman sem þeir eru að segja.

Í morgun bárust fréttir erlendis frá um að Alþjóðabankinn hefði sett Ísland í fyrsta sæti þjóða fyrir stöðugleika. Ísland er á toppi fimm sæta fyrir góð lífskjör.

Við framsóknarmenn komum inn í ríkisstjórn í kreppu fyrir tíu árum, hétum í raun því einu að hjól atvinnulífsins færu á fulla ferð. Það er talið að Ísland sé eitt framsæknasta land í Evrópu í dag, mikill hagvöxtur og svo langt sem horft er til næstu ára er bjart yfir Íslandi. Þjóðarkakan í eldhúsi ríkisstjórnarinnar hefur á tíu árum vaxið úr 460 milljörðum í 970 milljarða. Kaupmáttur heimilanna hefur vaxið um 55%.

Þetta sjáum við auðvitað í framgangi fyrirtækjanna, byggingu íbúðarhúsanna, sumarhúsanna og ferðalögum Íslendinga. Þúsundir Íslendinga hafa flust heim erlendis frá á þessu tímabili vegna nýrra tækifæra og hærri launa. Atvinnuleysi hér er það minnsta í Evrópu og við höfum þurft á miklu erlendu vinnuafli að halda vegna þess að það er kraftur í atvinnulífinu.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setur oft fram í skýru máli stöðuna. Hann sá glöggt að þróunin hér hefur gagnast þjóðinni. Hann sagði nú á dögunum í London, með leyfi forseta:

„Ísland hefur sýnt hvernig lítið ríki getur brugðist við hnattvæðingunni með skipulögðum og árangursríkum hætti hvað efnahagslífið varðar.“

Auðvitað er lýðveldistíminn allur sigurganga þjóðarinnar. Við þurfum ekki að deila um það að Ísland er land tækifæranna í dag. Það þýðir ekki að allt sé eins og það á að vera en hin sterka staða gefur okkur afl til að bæta lífskjör allra. Hugsið ykkur það, Íslendingar, að stjórnarandstaðan barðist með kjafti og klóm fyrir jólin gegn því að skattar yrðu lækkaðir á launafólki. Tekjuskattur og útsvar var komið upp í 45%–47% af launum og vegna þess að fyrirtækin ganga vel og skila miklu getur ríkið látið launamanninn hafa verulegar viðbótartekjur og farið með tekjuskatt í tæp 22% árið 2007, var hæstur 33%. Ætli skattalækkunin komi sér ekki best fyrir meðaltekju- og láglaunafólk? Barnafólk fær auknar barnabætur og kjör aldraðra og öryrkja hafa verið bætt og eru í sífelldri endurskoðun. Eignarskattur af íbúðum einstaklinga heyrir sögunni til. Miklar kjarabætur fyrir eldri borgara í skuldlausum húsum.

Sala ríkisfyrirtækja hefur sætt gagnrýni. Nú er það ljóst að vegna EES urðu stjórnvöld á Íslandi að selja ríkisfyrirtæki á samkeppnismarkaði. Ríkisbankarnir voru seldir og þá eiga núna þúsundir hluthafa. Miklar breytingar hafa orðið á peningamarkaði launafólki til góðs. Vextir hafa loksins lækkað, lánin á löngum tíma, starfsfólki fjölgar og mikil útrás bankakerfisins og fyrirtækjanna. KB-banki og Landsbanki Íslands ásamt Íslandsbanka hafa margfaldað verðgildi sitt. Nú er KB-banki sjöundi stærsti banki Norðurlanda. Stjórnarandstaðan reynir að gera þessi fyrirtæki tortryggileg þrátt fyrir uppgang þeirra.

Góðir landsmenn. Öllum uppgangi fylgja vaxtarverkir. Það ber talsvert á óbilgirni og græðgi í atvinnulífinu og í hinum stóru fyrirtækjum. Minnumst þess að ekkert hlutabréf er meira virði en góður starfsmaður sem helgað hefur fyrirtæki krafta sína. Því skal starfsmaðurinn virtur vel. Hógværð er mikilvæg. Margir athafnamenn síðustu aldar voru menn fólksins. Þeir vissu ekki eða varðaði ekki um hvort þeir voru ríkir eða fátækir, þeir voru að þjóna fólkinu í landinu eða byggðinni sinni, fyrirtækið og samfélagið var þeim allt. Þann eiginleika skulum við varðveita hér og taka upp á nýjan leik.

Landsbyggðin hefur á ný sótt fram. Víða um landið er kraftur, en vissulega þarf að taka málefni veikari byggðarlaga föstum tökum. Ég hef fundið það vel í íslenskum landbúnaði að menntun og rannsóknir skipta miklu. Landbúnaðarháskóli Íslands mun efla bændur og atvinnuveginn til sóknar. Kennsla í Hólaskóla hefur t.d. lagt grunn að hrossabúgörðum og hestamennsku sem atvinnuvegi. Það eru að verða straumhvörf hvað þróun sveitanna varðar. Nýjar búgreinar eflast af krafti. Landið er eftirsótt og bóndinn vinnur starf sitt í sátt við land og þjóð. Bændur horfa nú eins og flestir aðrir bjartari augum fram á veginn.

Ég er sannfærður um að ekkert er landsbyggðinni jafnmikilvægt til sóknar og menntun í heimabyggð. Háskólastigið þarf að vera til staðar í öllum héruðum landsins. Það á ekki að vera bara eitt þekkingarþorp í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ísland á að byggjast upp sem þekkingarsamfélag því í gegnum slíkt skóla- og rannsóknarsamfélag liggja tækifæri morgundagsins.

Góðir Íslendingar. Undanfarin missiri hefur Framsóknarflokkurinn og forusta hans legið undir meiri gagnrýni en oft áður, ég vil segja árásum í blaðaskrifum og í þinginu. Allir þurfa gagnrýni og aðhald. Þess þurfum við líka. Við erum auðvitað mannleg og gerum okkar mistök. Nú finnst mér aðalvopn andstæðinganna vera undirferli, sögusagnir og hálfsannleikur, búa til ljóta mynd af annars ágætu fólki. Hinn nýi stíll í pólitískri umræðu er sá að kasta fýlubombu í andlit andstæðingsins og sverta hann persónulega. Þetta er ljótur stíll í pólitík. Framsóknarmenn hafa orðið fyrir árásum slíkra manna áður. Gerð var smánarleg atlaga að Ólafi heitnum Jóhannessyni fyrir 30 árum. Sú atlaga bar vott um ódrenglyndi og hitti þá fyrir sem að henni stóðu. Framsóknarflokkurinn hefur staðið í eldlínu stjórnmálanna allt frá stofnun. Hann hefur hvorki skipt um nafn eða kennitölu. Framsóknarflokkurinn á sér skýra framtíðarsýn. Hann er félagshyggjuflokkur. Grundvöllur samhjálpar er öflugt atvinnulíf sem skilar arði. Í kreppu er gengið á öll útgjöld ríkisins til samhjálpar. Á 10 árum hafa framlög til heilbrigðismála aukist úr 46 milljörðum í 123 milljarða. Þar hefur ekki verið niðurskurði fyrir að fara.

Ég vil því að lokum biðja landsmenn að ræða næstu daga í eldhúsi sínu þann uppgang og þau mörgu tækifæri sem nú blasa við unga fólkinu og íslenskri þjóð. Ég heiti einnig á ykkur og spyr í einlægni hvort þið teljið virkilega að þeir sem harðast knýja á dyrnar og krefjast valda sé betur treystandi en Framsóknarflokknum til að skila íslenskri þjóð fram á veginn.

Góðir Íslendingar. Fjalladrottning móðir mín, mér svo kær og hjartabundin. Nú klæðist landið okkar grænum skrúða. Sólin skín úti og inni. Njótið þess að ferðast og eiga frí með ástvinum ykkar um landið okkar. — Góðar stundir.