131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[19:52]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Góðir áheyrendur, góðir Íslendingar. Þetta má aldrei gerast aftur, aldrei. Slíkar heitstrengingar höfum við heyrt hvaðanæva að þegar heimurinn minnist þess að 60 ár eru nú liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Það er líka rifjað upp um þessar mundir að í upphafi síðustu aldar minnti margt á byrjunarár 21. aldarinnar sem við lifum nú. Þá eins og nú ríkti mikil framfaratrú, tækni og vísindi voru hafin til skýjanna, menntir og menning voru í hávegum höfð og fyrirtæki höfðu víðtækt frelsi til athafna og útrásar. Samt leiddi samkeppni ríkjanna og margs konar ójafnvægi í samskiptum þeirra til tveggja heimsstyrjalda, myndunar einræðisríkja sem skipulögðu fjöldamorð á þegnum sínum og til fjölda svæðisbundinna vopnaátaka. Öldin varð öld öfga og andstæðna og tækniframfarir voru notaðar jafnt til illverka sem góðverka.

Sú öld sem nú er nýhafin má ekki verða eins. En til að svo verði þurfum við alltaf að hafa hugfast að friður, mannréttindi og lýðræði eru ekki fyrirhafnarlaus lífsgæði. Í heiminum eins og við þekkjum hann í dag er margs konar efniviður sem hægt væri að kveikja í óviðráðanlegt ófriðarbál, togstreitu um auðlindir eins og olíu, vatn og loft, ójafnan aðgang að mörkuðum, hryðjuverkastarfsemi öfgahópa, árekstra millum kristinna manna og múslima og síðast en ekki síst vaxandi misskiptingu auðs.

Höfum það hugfast að frelsi og friður koma ekki af sjálfu sér. Forustumenn þjóða heims, almannasamtök og einstaklingar þurfa að leggja alla áherslu á að ágreiningur og deilur séu leystar í samstarfi innan vébanda alþjóðlegra samtaka eins og Sameinuðu þjóðanna en ekki á vígvellinum með vopnavaldi.

Góðir tilheyrendur. Það hefur náðst víðtæk samstaða á síðustu áratugum um að hlutverk löggjafans í þjóðlífi okkar sé að setja samfélaginu, atvinnuvegunum, fyrirtækjum og stofnunum almennan lagaramma og að innan slíkra marka og almenns siðferðis eigi að ríkja frelsi til samkeppni og samskipta. Löggjafinn hefur sett á fót dómstóla og stofnanir sem eiga að vera sjálfstæðar til að tryggja að það sé farið að leikreglum og lögum sé framfylgt. Meginvandi þessa fyrirkomulags í okkar stjórnarháttum er að verða æ fleirum ljós. Sú þaulsætna ríkisstjórn sem hér er við völd hefur í reynd neitað að sleppa tökunum. Hún vill handstýra frelsinu. Frelsið á bara við þegar ráðherraræðinu þóknast. Bláa höndin hefur upp reglustikuna þegar henni þykir þurfa gagnvart stofnunum sem gera þó ekkert af sér annað en það eitt að gegna skyldu sinni.

Ríkisstjórnin lagði Þjóðhagsstofnun niður af því að hún dansaði ekki eftir pípu stjórnvalda. Ríkisstjórnin skar niður framlög til Mannréttindaskrifstofunnar eftir að hún leyfði sér að gagnrýna stjórnvöld. Sjálfur Hæstiréttur er atyrtur og lög brotin til þess að skipa rétt í dóminn. Einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja er handstýrt af formönnum stjórnarflokkanna í þágu helmingaskiptareglunnar sem Framsóknarflokkurinn heldur dauðahaldi í. Síðasta dæmið er salan á Símanum þar sem handstýring gegn ráðleggingum ráðgjafa bankans á að tryggja vildarfyrirtækjum bita af kökunni. Frelsun Ríkisútvarpsins undan helsi helmingaskiptanna eða frelsun Samkeppnisstofnunar undan flokkspólitískri stjórnun kemur heldur ekki til greina þrátt fyrir fögru orðin.

Um það vitna þau stjórnarfrumvörp um þessar stofnanir sem liggja nú fyrir hinu háa Alþingi. Þar er enn verið að herða helmingatökin. Og við munum það öll, og þjóðin man það, að það kostaði mestu átök um margra áratuga skeið og að lokum tilhlutan forseta Íslands til þess að koma í veg fyrir að núverandi ríkisstjórn þröngvaði upp á þjóðina fjölmiðlalögum sem hefðu stórlega skert frelsi til útgáfu. Þessi ríkisstjórn fer illa með vald.

Góðir Íslendingar. Á ferðum mínum um landið á þessu vori hef ég sannfærst um það hve mikill kraftur ólgar í hinu íslenska samfélagi og hve mikill óvirkjaður mannauður býr með okkar góðu þjóð. Íslendingar hafa á okkar tímum raunverulega möguleika á að vera í fararbroddi í hagsæld og velferð. Grunnurinn að velsæld nútímans var lagður með þjóðarsáttarsamningunum og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Á þessum grunni, sem jafnaðarmenn áttu mikinn þátt í að leggja, höfum við Íslendingar alla burði til þess að standa okkur í samkeppni þjóðanna en um leið verðum við að kunna fótum okkar forráð.

Við eigum að snúa okkur smám saman frá atvinnulífi gærdagsins og við eigum að leggja síaukna áherslu á menntir, tækni og sjálfbæra nýtingu náttúrugæða í sjó og á landi. Eitt brýnasta verkefni samtímans er að auka hlut smáfyrirtækjanna, einyrkjanna og sprotanna í atvinnulífinu. Um leið og útrás á alþjóðamarkaði heldur áfram eigum við að leggja allt kapp á að starfsskilyrði frumkvöðla og sprotafyrirtækja á Íslandi verði til jafns við það allra besta sem þekkist í heiminum.

Góðir Íslendingar. Hlutverk okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni er að tryggja pólitískan meiri hluta í sveitarstjórnum og hér í þinginu fyrir þeirri hugsjón að allir eigi tækifæri til þess að þroska og njóta hæfileika sinna í lífi og starfi. Við erum fámenn þjóð og við þurfum á því að halda að hver einasti einstaklingur á meðal okkar sé gjaldgengur í því samfélagi þekkingar og alþjóðasamskipta sem er að þróast hér á landi. Í hinu harkalega markaðssamfélagi þarf að vera pláss fyrir alla og aldrei hafa því grunngildi jafnaðarstefnunnar um jöfnuð og ábyrgð hvers á öðrum átt meira erindi en nú, þegar græðgi markaðsaflanna helst í hendur við stöðugan áróður fyrir óhófi í neyslu.

Ég hef vaxandi áhyggjur af því hversu margir verða út undan í velsældinni á Íslandi, hversu margir virðast dæmdir til fátæktar mitt í ríkidæmi þjóðarinnar, hversu margir glíma við depurð og örvæntingu og hversu margir þykja ekki gjaldgengir á sífellt harðari vinnumarkaði, hvernig langtímaatvinnuleysi eykst þegar nóga vinnu virðist að hafa og hvernig reynt er að grafa undan eðlilegum samskiptum launamanna og atvinnurekenda á vinnumarkaði með því sem er ekki hægt að kalla annað en ólögmætan innflutning á vinnuafli, hversu seint gengur að jafna stöðu kynjanna, hversu afskiptir stórir hlutar af landsbyggðinni eru að verða og hversu lítil virðing er borin fyrir öldruðum.

Af hverju eru svona margar ungar einstæðar mæður að bugast undan álaginu og sjá sér ekki aðra leið færa en að sækja um örorkubætur? Þessarar spurningar spurði aðstoðarmaður sjálfs heilbrigðisráðherrans í skörpum pistli sem birtist á vefsíðu Framsóknarflokksins núna fyrir skömmu. Af hverju eru þeim ekki sköpuð tækifæri til að brjótast til betra lífs? spurði hún. Já, af hverju ekki, hæstv. forsætisráðherra?

Staðreyndin er sú að við þurfum miklu virkari aðgerðir til að bregðast við vandamálum af þessu tagi heldur en núverandi stjórnvöld hafa áhuga eða vilja til. Það er þess vegna sem við þurfum nýja sýn á vandamál samfélagsins þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi en ekki hagsmunir stórfyrirtækjanna. Það er í þessu ljósi sem verkefni Samfylkingarinnar næstu tvö árin eru skýr. Meginverkefni hennar er að skapa breiða samstöðu um nýja ríkisstjórn eftir næstu kosningar sem umfram allt á að vera ríkisstjórn fjölskyldunnar og ríkisstjórn barnanna, ríkisstjórn sem gleymir ekki öldruðum, ríkisstjórn sem bætir lífsgæði þeirra sem búa við skerta eða alls enga starfsorku, öryrkjanna, ríkisstjórn sem eykur líka raunverulegt jafnrétti og frelsi í atvinnulífi samfara því að ýta undir einyrkja og smáfyrirtæki.

Verkefni Samfylkingarinnar næstu tvö árin er því að mynda víðtækt bandalag meðal þjóðarinnar um frjálslynda velferðarstjórn. Stefna frjálslyndrar velferðarstjórnar að loknum næstu kosningum á að byggjast á samfélagssýn þar sem efnahagsmál, menntun og velferð tengjast á þann hátt að enginn einn af þessum öxlum samfélagsins getur án hinna verið.

Góðir Íslendingar. Framtíðin býður okkur upp á einstök tækifæri. Með alþjóðavæðingunni og sérstöðu Íslands getum við skapað heilbrigt samfélag þar sem fátækt er útrýmt, launajafnrétti ríkir, virðing er borin fyrir öldruðum og framtíð barnanna er í fyrirrúmi; þar sem er pláss fyrir alla. — Góðar stundir.