132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[16:42]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um er að ræða að 2. mgr. 7. gr. laganna verði felld brott en þar segir svo, með leyfi herra forseta:

„Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi stéttarfélagi.“

Að mati flutningsmanna þessa frumvarps brýtur þetta ákvæði stjórnarskrána á tvennan hátt: Í fyrsta lagi er það í andstöðu við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að menn eigi rétt á að taka þátt í félögum en ekki sé hægt að skylda menn til þátttöku í þeim. Það er enn fremur í andstöðu við 40. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að engan skatt megi á leggja nema með lögum og er í andstöðu við 77. gr. sem segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann og tengist að sjálfsögðu eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Þetta ákvæði er merkilegt að því leyti að þar segir að menn skuli greiða í stéttarfélag fullt gjald hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Það er líka undarlegt og í rauninni væri það heimskulegt af fólki í þeirri stöðu að ganga ekki í félagið vegna þess að það nýtur ekki þeirra réttinda sem félagið hefur upp á að bjóða svo sem sumarbústaði, sjúkrasjóði o.s.frv. Þess vegna er þetta í rauninni dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi og það er ákvæði sem stjórnarskráin verndar menn gegn, það á ekki að vera hægt að skylda menn til að ganga í stéttarfélag.

Ákvæðið kann enn fremur að brjóta gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um að skatta skuli leggja á með lögum og að ekki skuli fela stjórnvöldum, hvað þá einkaaðilum, ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Það er nefnilega svo, virðulegur forseti, og ég vil undirstrika það sérstaklega, að félagsfundur í stéttarfélagi getur samþykkt hvaða félagsgjald sem er, án hámarks. Ekkert í lögum takmarkar ákvörðun félagsfundar um að leggja á félagsgjald. Einfaldur félagsfundur gæti t.d. ákveðið að félagsgjaldið skuli vera 100% af launum. Launaskrifstofa ríkisins yrði að innheimta það gjald samkvæmt þessum lögum. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Þar eru engin efri mörk og fundur í félaginu getur tekið ákvörðun um þetta, sem viðkomandi maður er ekki einu sinni aðili að af því að hann vill ekki vera í félaginu. En hægt er að taka allt að 100% af laununum hans sem greiðslu til þessa félags.

Þetta segir mér að það eru engar hömlur eða takmarkanir á því hvað aðrir aðilar, einkaaðilar, geta ákvarðað að tekið sé í skatt. Þetta ákvæði brýtur náttúrlega, herra forseti, algjörlega gegn því ákvæði að skatta skuli ákveða með lögum og ekki megi fela opinberum aðilum, hvað þá einkaaðilum, að ákvarða skattana.

Ég ætla ekki að fara nánar í greinargerð með frumvarpinu. Hún hefur verið lesin í tvígang áður og ég sé enga ástæðu til að lesa það aftur. Þetta er til á prenti. En mig langar að ræða nokkuð það sem hefur komið fram varðandi það að félagsgjaldið sé þjónustugjald. Það má í sjálfu sér segja að svo sé að ákveðnu marki. Til dæmis eru stéttarfélög að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína, þar með fyrir þennan mann sem ekki vill vera félagi en nýtur kjarasamninga félagsins. En eftir að aðlögunarsamningar opinberra starfsmanna voru teknir upp þarf hver opinber starfsmaður í raun að semja um launin sín sjálfur. Þau rök eru því fallin brott fyrir utan það að stéttarfélögin semja um ákveðin lágmarkslaun. Allt annað þurfa menn að semja um sjálfir.

Svo er það líka þannig að margt af því sem stéttarfélögin berjast fyrir og veita er háð því að menn séu félagar, t.d. orlofsheimili og annað slíkt. Sá sem ekki er í félaginu og vill ekki ganga í það nýtur ekki þeirra réttinda. Þá má segja að það eina sem menn njóta af stéttarfélaginu, sem þeir eru neyddir til að greiða gjald til, séu lágmarkslaunin, þ.e. lágmarkslaun sem stéttarfélögin semja um. Margt af því sem stéttarfélögin hafa samið um, eins og orlof o.fl. er komið inn í lög. Því er ekki lengur um það að ræða að félagsmenn njóti þess af starfi stéttarfélagsins. Þess vegna á sú forsenda eða það sem menn segja, að félagsgjaldið sé þjónustugjald, ekki við nema að pínulitlu leyti, þ.e. varðar aðeins lágmarkslaun í landinu.

Nú er það þannig með flesta opinbera starfsmenn að þeir vinna ekki á lágmarkslaunum. Þeir vinna á miklu hærri launum og þurfa að semja um þau sjálfir, með hliðsjón af aðlögunarsamningum. Þess vegna er um að ræða gjald sem er í reynd skattur og þarf náttúrlega að ræða það sem slíkt.

Nú þurfum við að velta því fyrir okkur hvað er skattur. Ég held að almennur skilningur á því sé að skattur sé gjald sem er lögþvinguð greiðsla á einstakling eða fyrirtæki til opinberra aðila, þ.e. til ríkis eða sveitarfélaga. Það er fráleitt að hægt sé að leggja skatt á einstaklinga sem rennur til félaga eða einstaklingafélaga, einstaklinga sem mynda félög. Þetta gjald, sem við ræðum hér um, þ.e. að skylda menn til að greiða til stéttarfélags þótt þeir séu ekki félagar, er ekki þjónustugjald og ef það er skattur þá má ekki leggja það á þannig að það renni til félags sem ekki er opinber aðili, ríki eða sveitarfélag. Þess vegna fær þetta gjald ekki staðist.

77. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þetta ákvæði var sett inn árið 1995 með stjórnarskrárbreytingunni. Eftir það hafa menn þurft að breyta ýmsum lögum þar sem ráðherra hafði áður heimildir til að hækka skatta, t.d. miðað við verðlag. Þess vegna liggja fyrir á hverju hausti frumvörp um breytingar á ýmsum gjöldum, þjónustugjöldum og öðru, sem Alþingi verður að taka ákvörðun um.

Ákvæðið sem hér er lagt til að fella niður er skattur. Því á að skipa með lögum og það má ekki fela stjórnvöldum, hvað þá einkaaðilum, ákvörðun um að breyta því eða afnema hann. Félagsgjaldið er nefnilega ákveðið á félagsfundi þar sem einhverjir einstaklingar, sem ekki eru til þess kjörnir af löggjafarsamkundu þjóðarinnar, breyta skattinum eða geta afnumið hann eða hækkað hann, meira að segja ótakmarkað eins og ég nefndi áður.

Nú skulum við hugsa okkur það, og hverfa aftur til árdaga verkalýðshreyfingarinnar, herra forseti, að konur á barnaheimili stofni stéttarfélag, þeim þyki kjör sín bág og léleg, að of mikið fari í skatta og félagsgjöld o.s.frv. og vilji stofna stéttarfélag til að berjast fyrir kjörum sínum. Samkvæmt stjórnarskránni er þeim það heimilt, herra forseti. Jafnvel þótt þetta ákvæði segi þeim að þær eigi að borga í stéttarfélag þá eru þær ekki ánægðar með það stéttarfélag. Þær hafa engin áhrif þar og vilja berjast fyrir kjörum sínum sjálfar, sem þær að sjálfsögðu mega.

Þá lenda þær í dálítið skrýtinni stöðu því að stéttarfélagið, sem þær eru neyddar til að greiða í, væri örugglega ekki ánægt með þeirra framtak. Það mundi berjast gegn þeim með peningum sem þær sjálfar eru neyddar til að greiða til þess. Þær yrðu látnar borga vöndinn sem flengdi þær, herra forseti. Þetta er náttúrlega fráleit staða fyrir fólk sem berst fyrir kjörum sínum. Konur á barnaheimili sem eru óánægðar með kjör sín og stofna til þess stéttarfélag mundu lenda í baráttu við stéttarfélag sem þeim er gert, samkvæmt þessum lögum, að greiða til. Þetta fyrirkomulag minnir óhuggulega mikið á það sem viðhaft var í stéttarfélögum í Sovétríkjunum forðum, þar sem menn voru neyddir til að greiða í stéttarfélög sem tóku allar ákvarðanir með 100% þátttöku.

Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál, sérstaklega hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er formaður BSRB og því miður ekki viðstaddur umræðuna en þyrfti að vera það, að það sé árás á verkalýðshreyfinguna. Það er dálítið skrýtið. Getur verið að verkalýðshreyfingin þurfi lagaskyldu, að skylda þurfi fólk með lögum til að greiða í stéttarfélög vegna þess að fólk vilji ekki borga í stéttarfélögin? Getur verið að það þurfi lagaskyldu til að þvinga fólk inn í stéttarfélög af því að það vilji ekki vera þar? Þá mundi ég, sem forustumaður í verkalýðshreyfingunni, hugsa minn gang allverulega og athuga hvort ekki sé eitthvað að í starfseminni fyrst að skylda þarf félagsmenn til að vera í félaginu. Það er náttúrlega orðið dálítið alvarlegt.

Svo hafa menn sagt að það sé dálítið skrýtið að aldrei hafi reynt á þetta mál fyrir Hæstarétti. Það er í raun ekkert skrýtið. Dómstólum landsins, öllum fyrir utan Hæstarétt, er gert að dæma samkvæmt orðanna hljóðan í lögum. Það stendur í stjórnarskránni sjálfri að það eigi að dæma samkvæmt orðanna hljóðan. Þeir hljóta þá að fara eftir þeim lögum sem Alþingi hefur sett, nema Hæstiréttur þegar hann tekur að sér hlutverk stjórnlagadómstóls, sem hann gerir einstaka sinnum og ætti þá að sjálfsögðu að vera fullskipaður — það er bara svona athugasemd frá mér að allir dómarar Hæstaréttar ættu að taka þátt í því þegar dæmt er um hvort lög standist stjórnarskrána. Hæstiréttur ætti þá að dæma í svona máli, hvort það standist stjórnarskrána. Hann einn getur það.

Svo er annað dálítið skrýtið í þessu máli. Samkvæmt þessu ákvæði eiga allir opinberir starfsmenn að borga í stéttarfélag, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Stéttarfélögin mynda svo bandalag sem er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, kallað BSRB alla daga. Til þess þarf fólk að borga. Nú er það svo að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja heldur á lofti alls konar sjónarmiðum, pólitískum sjónarmiðum. Það hefur lagt fram tillögur um skattamál, lagt fram tillögur um vatnsréttindi og meira að segja lagt til að vatnsréttindi verði sett inn í stjórnarskrána, verði stjórnarskrárákvæði um mannréttindi.

Nú getur vel verið að eitthvað af því fólki sem neytt er til að greiða inn í þessi samtök sé ekki endilega pólitískt sammála forustunni. Það skyldi þó ekki vera? En þeir eru neyddir til að borga þann áróður sem BSRB er að dreifa. Þeir eru neyddir til þess með lögum frá Alþingi að greiða félagsgjald til BSRB, sem básúnar um alls konar pólitísk mál sem koma stéttabaráttu ekkert við. Ég get ekki séð að það komi kjörum opinberra starfsmanna á Íslandi nokkurn skapaðan hlut við hvort vatnsréttindi eru virt í Brasilíu eða annars staðar þótt það sé vissulega heilmikið mál. Ég dreg ekkert úr því. En það er pólitískt mál og ætti að vera á verksviði pólitískra flokka en ekki stéttarfélaga, síst af öllu stéttarfélaga sem mönnum er gert að greiða til hvort sem þeir vilja eða ekki, gert að greiða til hvort sem þeir vilja vera félagsmenn eða ekki.

Það er dálítið skrýtið að fólki sé gert að borga til stéttarfélags sem hefur pólitískar meiningar, sem geta staðið þvert á skoðanir viðkomandi starfsmanna. Þeir eru náttúrlega í öllum flokkum, opinberir starfsmenn, nákvæmlega eins og landsmenn allir. Það getur verið dálítið skrýtið fyrir sjálfstæðismann, samfylkingarmann eða framsóknarmann í BSRB að þurfa að borga skatt til stéttarfélags sem rennur til BSRB meðan formaður BSRB er þingmaður fyrir ákveðinn flokk, engum af þeim þremur sem ég taldi upp. En hann hefur ákveðin pólitísk sjónarmið á Alþingi og básúnar um þau en vinnur jafnframt í krafti félagsaðildar þess fólks sem verður að greiða í viðkomandi stéttarfélög. Þetta er dálítið alvarlegt, finnst mér, að BSRB skuli taka upp pólitíska stefnu.

Það hefur verið nefnt áður að ýmislegt fleira er undarlegt hér á landi í þessum efnum. Það eru allt saman leifar frá gamalli tíð, ákveðnu sovétskipulagi sem var hér í gangi. Þar er t.d. búnaðargjald en ég átti von á að í dag yrði dreift frumvarpi frá mér um að leggja það niður. Bændum er gert að greiða til verkalýðsfélags bænda, þ.e. Bændasamtaka Íslands. Með nákvæmlega sömu rökum ætti það gjald ekki að vera til. Ef bændur vilja mynda samtök, mynda búnaðarsamtök eða hvað það er, þá mega þeir það að sjálfsögðu en þeir eiga að hafa frjálst val um hvort þeir borgi til bændasamtaka og myndi stéttarfélög. Það á ekki að leggja skatt á bændur í þessu skyni.

Bændur hafa lengi borgað til Lánasjóðs landbúnaðarins sem nú er búið að einkavæða og selja. Það er mjög jákvætt og þá þarf náttúrlega að lækka gjaldið hvort sem er. En ég vil að það verði fellt alveg niður og svo geti bændur ákveðið hvort þeir vilji borga í Bændasamtökin eða ekki.

Svo eru það sóknargjöldin. Þau eru nefskattur sem er lagður á og rennur til Háskóla Íslands eða trúfélags viðkomandi, þ.e. til Háskóla Íslands ef maður er ekki í trúfélagi. Þetta er náttúrlega bara skattur. Hann er óréttlátur vegna þess að sumir menn fara ekki í háskólann og eru ekki í neinu trúfélagi en er samt gert að greiða. Svo er það STEF-gjaldið sem menn ættu vissulega að skoða. Öll þessi gjöld er ég að skoða.

Gjöld eru lögð á með lögum og innheimt af ríkisvaldinu, þ.e. gjöld t.d. á tölvur og disklinga. Þetta er tekið af tollstjóra. Tollstjóri innheimtir þetta eins og hvern annan toll. Og hvert skyldi hann renna, herra forseti? Hann rennur til einstaklinga. Hann rennur til einstaklinga sem eru rithöfundar eða tónsmiðir. Hann rennur ekki til þeirra sem aðallega nota tölvur sem höfundar, þ.e. forritara. Nei, nei. Hann rennur til sérstakra listamanna, ekki allra. Ég fullyrði að geisladiskar sem eru seldir eru vissulega notaðir mikið undir tónsmíðar en þeir eru líka notaðir mikið undir ljósmyndir, ljósmyndir einstaklinga sem taka myndir á myndavélina sína og eiga höfundarrétt að þeim myndum. En þeir fá engin STEF-gjöld. Svo að maður tali nú ekki um forritin sem eru geymd í alls konar afritum og í tölvum og höfundarréttur er að, þ.e. sem forritarar og hugbúnaðarmenn eiga höfundarrétt að. Þeir fá ekki neitt. Það er ákveðin lítil klíka listamanna sem notar ríkið til að innheimta fyrir sig höfundarréttinn.

Nú hef ég ekkert á móti höfundarrétti. Ég er meira að segja mjög hlynntur því að höfundarréttur sé mjög styrkur og hann sé tryggur eignarréttur. Hann þarf að vera. Hann er mjög nauðsynlegur. En ég er á móti því að ríkið sé notað til að innheimta þetta gjald.

Svo má nefna afnotagjald til RÚV sem ég hef lagt fram frumvarp um sem liggur fyrir Alþingi núna. Það er um að að aflétta afnotagjaldinu, leggja það af, reyndar einkavæða RÚV og selja það en að útvarpsráð starfi áfram og fái tekjur úr ríkissjóði sem stafi af lækkun á persónuafslætti. Það held ég að sé miklu skynsamlegri og betri leið til að innheimta útvarpsgjald af öllum Íslendingum. Ég vil sem sagt að útvarpsráð fái þessa peninga og bjóði út gerð þátta, gerð frétta o.s.frv. til allra útvarpsstöðva, þar á meðal til RÚV sem mundi starfa áfram í eigu starfsmanna sinna að mestu leyti.

Svo má nefna iðnaðarmálagjald sem rennur til Félags íslenskra iðnrekenda sem er aftur í samkeppni við önnur samtök atvinnurekenda eins og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Ég sé enga ástæðu til þess að iðnrekendur séu skyldaðir til að greiða félagsgjald til Samtaka iðnaðarins. Ég held að það sé reyndar mjög óhollt fyrir Félag íslenskra iðnrekenda að njóta svona skatttekna því að þá breytist það hægt og rólega í opinbera stofnun.

Svo má nefna iðgjald í lífeyrissjóð sem er að vissu leyti þjónustugjald eða að mjög stóru leyti. En samt má benda á að það stendur ekki alltaf undir þeim bótum sem lífeyrissjóðirnir greiða.

Svo er til mjög skrýtið fyrirbæri sem heitir Fiskræktarsjóður. Það er reyndar falið í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Þar stendur að það skuli greiða þrjú prómill af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, þar á meðal t.d. Kárahnjúkavirkjun. Af Kárahnjúkavirkjun sem er uppi á hálendinu — þetta er jökulvatn sem ekki eitt einasta lifandi kvikindi lifir í — þarf að borga fiskræktargjald sem rennur til þess að rækta fisk og kaupa upp laxveiðileyfi um alla Evrópu og alls konar þátta sem koma framleiðslu raforku ekkert við. Ég mun vinna að því að leggja þennan skatt líka niður. Ég held að ríkið sé að standa að innheimtu alls konar félagsgjalda og undarlegra skatta sem eru í reynd ekki skattar af því að þeir renna ekki til ríkis eða sveitarfélaga. Þeir renna ekki til opinberra aðila. Ég held að það sé mjög óeðlilegt að ríkið standi í svona innheimtu. Allt eru þetta, herra forseti, leifar frá fornri, gamalli tíð og dálítið undarlegt að þetta skuli enn þá vera í gildi í lagasafninu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Þetta mál hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður og í greinargerðinni er þetta tekið allt fram. Ég legg til að að lokinni umræðu verði að málinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.