132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[18:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Tímamót, kaflaskipti, vatnaskil. Þetta eru orðin sem hafa verið notuð til að lýsa þessu frumvarpi og þeim breytingum sem vissulega hafa átt sér stað í viðhorfum til réttinda samkynhneigðra á síðustu árum. Kannski væri best að nota orðið bylting. Ég sat í ríkisstjórn á sínum tíma þar sem var fjallað um þessi mál í kjölfar skýrslu sem þá kom fram. Það var skýrsla sem hafði að geyma tillögur þar sem lagt var til að seilst yrði langt í áttina til fullrar jafnstöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Það er rétt að rifja það upp að sú skýrsla var afrakstur starfs sem hófst með samþykkt þingsályktunartillögu í þessum sal. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu stóðu fulltrúar allra flokka að þeirri samþykkt. Ég var einn af þeim sem flutti þá þingsályktunartillögu, en átti minnstan heiður af því. Þáverandi þingmaður Kvennalistans var 1. flutningsmaður og frumkvöðull að þessari tillögu, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem í dag er formaður Samfylkingarinnar. Ég tel rétt að nefna það hér að það má segja að með því starfi sem hófst í kjölfar þeirrar samþykktar átti sér stað breyting, ekki bara innan veggja þingsins heldur um samfélagið allt. Ég held, frú forseti, að það hafi skipt gríðarmiklu máli fyrir sjálfstraust samkynhneigðra sem hóps að finna þann skilning sem hann naut innan þessara veggja. Það er gleðiefni þegar horft er yfir feril þessarar umræðu á hinu háa Alþingi að heita má að nánast aldrei hafi neinn lagst mjög þvert nema einn í allri þeirri umræðu. Mér finnst rétt á þessum tímamótum að rifja það upp að margir lögðu gjörva hönd að verki í málflutningi og stefnubreytingum innan þessa þings.

Ég rifja það upp að þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Þorsteinn Pálsson steig skrefi lengra en lagt var til í þessari skýrslu þegar hann beitti sér fyrir því að ekki voru einungis samþykkt lög um staðfesta samvist heldur líka um sameiginlega forsjá. Ég vil líka rifja það upp, vegna þess að mér var sérstaklega umhugað um að samkynhneigðir fengju að ættleiða börn, að einn fyrrverandi kollega okkar, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, var ákaflega kraftmikill í umræðunni um það. Má segja að aðkoma hans að þessu máli hafi skipt miklu máli eins og afstöður lágu þá í þinginu.

Ég tel að þetta frumvarp sé ákaflega gott og það er gleðilegt að það hefur náðst svona mikil samstaða um það. Ég er þeirrar skoðunar sérstaklega að það sé mikilvægt að hafa náð þessum áfanga með ættleiðingarnar. Mér finnst að þar sé um að ræða mikilvægt mannréttindamál eins og auðvitað öll atriðin sem þarna eru undir. Á sínum tíma var því haldið fram, m.a. í þessum sal af þessum eina tiltekna andstæðingi málsins, að fyrir lægju rannsóknargögn sem sýndu að samkynhneigðir væru verri foreldrar en gagnkynhneigðir. Allar rannsóknir sem ég hef komist yfir hafa sýnt hið gagnstæða. Ekkert bendir til annars en að samkynhneigðir séu a.m.k. jafngóðir foreldrar og aðrir.

Mér var ekki kunnugt um þær mikilvægu upplýsingar sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir flutti inn í umræðurnar um að til væru lönd sem væru reiðubúin að ættleiða börn til samkynhneigðra. Ég tel einmitt að það skipti miklu máli sem hv. þingmaður reifaði áðan, að framkvæmdarvaldið beiti sér fyrir því að ná samningum um ættleiðingar við þessi lönd. Eins og kom fram hjá einhverjum þingmanna fyrr í umræðunni þá skiptir það mjög miklu að það komi fram vilji af hálfu ríkja sem hafa frjálslynda rödd eins og Ísland vegna þess að dropinn holar steininn og þá mun það í framvindu tímans leiða til þess að viðhorfin muni breytast. Við vitum það líka mörg sem höfum komið að málefnum sem tengjast ættleiðingum að það er tiltölulega þungt mál nú á dögum að ná nýjum samningum fyrir smá ríki vegna þess að Haag-samningurinn gerir það eðlilega erfiðara en fyrir kannski svona tíu árum síðan og þess vegna skiptir máli að framkvæmdarvaldið veiti atbeina sinn til þess að sjónum verði beint að þessum ríkjum sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir talaði hér um.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hið sama ætti að gilda um samkynhneigða og gagnkynhneigða varðandi ættleiðingar, að hið sama ferli ætti við, að hinir ættleiðandi foreldrar væru teknir í gegnum smásjá kerfisins og hæfi þeirra sem foreldra væri dæmt og það ætti ekki að hafa nokkur áhrif hver kynhneigð þeirra er.

Mannréttindi eru algild og við erum í hverju einasta atriði þessa ágæta frumvarps að fjalla um mannréttindi. En það er auðvitað svo að eitt skref eigum við þó eftir að stíga og það varðar kirkjuna. Ég vil segja það alveg skýrt að mér fannst röksemdafærsla hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hér áðan vera mjög góð. Það er auðvitað svo að hjúskaparlögin eins og þau eru í dag banna þeim prestum og safnaðarforstöðumönnum sem vilja vígja samkynhneigða að gera það. Ég tel þess vegna að það væri farsælt í þessari lotu að stíga það skref sem hv. þingmenn hér þrír hafa nefnt, að setja inn í lögin heimild til safnaða, presta og forstöðumanna safnaða að vígja í heilagt hjónaband samkynhneigða sem þess óska. Ég tel að það séu mannréttindi. En um leið vil ég virða þann skoðanarétt og það skoðanafrelsi sem aðrir hafa sem eru mér andstæðrar skoðunar. Ég veit það vel að margir prestar eru annarrar skoðunar og ég vil ekki knýja þá til að vinna gegn skoðunum sínum í krafti þeirrar vissu að aðrir séu reiðubúnir til að framkvæma þessa mikilvægu athöfn. Þá tel ég, frú forseti, að allir geti verið nokkuð sáttir að kalla.

Ég vísa til þess að í fjölmiðlum dagsins stíga prestar innan þjóðkirkjunnar fram á völlinn og segja það beinum orðum að þeir vilji fá þessa heimild. Mér finnst að þeir eigi að fá hana. Mér finnst að ég sem trúaður og kristinn maður eigi að fá að veita minn atbeina til að bæði prestarnir fái þennan rétt en þó miklu fremur þeir sem eru samkynhneigðir og sem finna sig í samfélagi kirkjunnar og vilja fá kirkjulega blessun á sínu sambandi. Mér finnst það vera mannréttindi og ég vildi jafnvel leyfa mér að ganga svo langt að telja það vegna þess að það tengist afstöðu manna til hinna hinstu raka og sköpunar heimsins og tilgangs lífsins að þeir fái að velja. Allt gengur þetta út á frjálst val og mér finnst að sú leið sem hér hefur verið reifuð af hv. þingmönnum uppfylli það að allir geti nokkuð vel við unað. Því vil ég, frú forseti, um leið og ég fagna þessu frumvarpi lýsa því yfir að ég mun fyrir mitt leyti veita því atbeina minn að slík breyting verði gerð á þessu frumvarpi að hægt sé að fara þessa leið.