133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

vextir og verðtrygging.

499. mál
[13:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hæstv. viðskiptaráðherra, þótt hann vilji gjarnan stefna að því að afnema verðtrygginguna, þá kom það skýrt fram hjá honum að hann telur langvarandi þenslu og stöðuna í efnahagsmálunum ekki gefa tilefni til þess að vinda sér í það nú að afnema verðtrygginguna.

Hæstv. ráðherra er hér með raunverulega að viðurkenna að það sé mikið ójafnvægi, þensla og verðbólga í öllu hagkerfinu þannig að það sé ekki hægt að afnema verðbólguna. Þetta er auðvitað athyglisvert.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær telur hann tímabært að fara í það verkefni að afnema verðtrygginguna? Við hvaða verðbólgustig er hægt að afnema verðbólguna og hvað þarf hún lengi að vera á því tiltekna stigi til að hægt sé að afnema hana?

Hæstv. ráðherra verður að tala eitthvað skýrara en gefa ekki væntingar hér út í þjóðfélagið, að hann sé jú jákvæður fyrir því að afnema verðtrygginguna en það sé bara enginn tími eða stund til þess að gera það. Það hefur ekki verið það í langan tíma einmitt út af ástandinu í efnahagsmálunum. En sér hæstv. ráðherra ekkert fram á að það lagist þannig að hægt sé að vinda sér í það að afnema verðtrygginguna?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út af vanefndaálaginu. Telur hann eðlilegt að bjóða fólki hér á landi upp á 25% dráttarvexti? Telur ráðherrann það eðlilegt að Seðlabankinn hafi þennan mikla sveigjanleika og svigrúm til þess að ákveða vanefndaálag með þeim afleiðingum og áhrifum sem við sjáum, að vextirnir eru 25%? Tekur hann ekki mark á orðum talsmanns neytenda sem segir að þarna sé um lagabrot að ræða?

Talsmaður neytenda segir að slíkt framsal löggjafarvaldsins til Seðlabankans að hafa þennan sveigjanleika standist ekki. Ráðherrann verður að tala skýrt. Telur ráðherrann að hér sé um (Forseti hringir.) brot á lögum að ræða að hafa framkvæmdina með þeim hætti eins og nú er í lögunum?