135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[14:32]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um efnahagsmál og get sagt í upphafi ræðu minnar að þetta er í fyrsta sinn frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum á Íslandi að hún viðurkennir þó í ræðu að eitthvað sé að og við eitthvað sé að glíma. Vandi síðustu mánaða og missira hefur verið sá að hann hefur ekki verið viðurkenndur, hvorki af hálfu forsætisráðherra né utanríkisráðherra, og eins og hér var greint frá sagði hæstv. utanríkisráðherra í einu af sínum eilífu ferðalögum frá Betlehem að hér væri engin kreppa en segir þó hér að það kreppi að. Það er því virðingarvottur að forustumenn ríkisstjórnarinnar viðurkenni það í fyrsta sinn að hér sé við töluvert mikinn vanda að glíma.

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst hæstv. forsætisráðherra vera svona eins og góður veðurfræðingur, hann lýsir ástandi síðustu ára og áratuga og ég tek undir það allt. Á Íslandi var búið að byggja upp gríðarlega sterkt samfélag, eitt framsæknasta samfélag á heimsvísu þar sem Íslendingar fengu gnægð nýrra tækifæra á svo mörgum sviðum. Það var ekki bara í kringum álver og stóriðju, það var á mörgum sviðum. Ég tek undir þessa lýsingu en ég verð að segja í upphafi máls míns að hér komu engar tillögur fram hjá hvorugum forustumanna ríkisstjórnarinnar um það hvernig þeir ætla að takast á við þann gríðarlega vanda sem nú blasir við samfélaginu.

Það var minnst á handboltamennina, silfurdrengina okkar, og öll vorum við þá í silfurskapi og stolt af því að vera Íslendingar. Hvað sögðu þeir? Sterkasta aðferðin í leik þeirra var vörn og markvarsla. Ef vörnin og markvarslan er í lagi þá er sigursæld í vændum, þá njóta stórskytturnar sín. Þetta var mikill árangur. En sannleikurinn er sá að það hefur engin vörn og engin markvarsla verið frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Hún tók við mjög góðu búi, að vísu töluverðri þenslu sem við bentum strax á, framsóknarmenn, og að brýnt væri að stíga strax á hemla og takast á við þá þenslu. Síðan kom sú heimskreppa sem nú hefur geisað í haust og við í stjórnarandstöðunni töluðum strax um það, eins og svo margir aðrir, að nú væri brýnt að stíga á stokk og takast á við verkefnin.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn ber fulla ábyrgð á hvernig efnahagur Íslendinga er að fara um þessar mundir. Ég þekki ekki Sjálfstæðisflokkinn fyrir þann Sjálfstæðisflokk sem ég vann með. Þá þorði hann að takast á við málefni. Nú minnir Sjálfstæðisflokkurinn mig á risa sem er á flótta, risa sem hefur kastað frá sér bæði vopnum sínum og klæðum (Gripið fram í: Og er að skreppa saman.) og er kominn með merarhjarta í hvaða máli sem er. Hvergi er tekist á við þau stórkostlegu verkefni sem blasa við til þess að bjarga hag heimilanna og sjá til þess að atvinnulífið geti haldið áfram að efla sig. Það er ekkert gert, það er aðgerðaleysi sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn. Farið þið bara, hæstv. forustumenn ríkisstjórnarinnar, og spyrjið fólkið á götunni, það mun segja þetta sama. Það hefur misst alla trú á þessari forustu. Þið hafið kannski smásjens enn, en það verður ekki í langan tíma sem núverandi ríkisstjórn nýtur nokkurs trausts því að hún hefur brugðist.

Hvað þýðir nú fyrir hæstv. forsætisráðherra að koma hér og segja að lífskjörin séu jafngóð og þau voru fyrir tveimur árum? Ég bið hæstv. forsætisráðherra að spyrja fólkið sem er að tapa vinnunni. Hann segir því að setja traust sitt á netið, nú geti það bara sett traust sitt á netið, sagði hann í ræðu sinni áðan. Hvers lags tal er þetta af hálfu hæstv. forsætisráðherra við erfiðar aðstæður á Íslandi? (Gripið fram í: Net…)

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að spyrja líka fólkið sem á allar skuldirnar og átti bjartsýnina og trúði á framtíðina. Ég bið hann að spyrja fólkið sem er að fá mánaðarreikningana sína um skuldir og þær stíga og hækka, og okurvextina sem eru í gangi sem eru að sliga fólk og fyrirtæki. Það er ekki hægt að tala svona til þessa fólks. Þetta fólk spyr eftir úrræðum og aftur úrræðum, það spyr eftir forustu í íslensku samfélagi.

Svo segir hæstv. forsætisráðherra að við séum bara að gagnrýna, að það sé ekkert mark takandi á stjórnarandstöðunni. Bíðum við, er það bara stjórnarandstaðan? Í Fréttablaðinu sem kom út í vikunni var neyðarkall frá ASÍ vegna óðaverðbólgu. Ekki hefur tekist að verja kaupmátt og óðaverðbólga geisar, ég les þetta hér upp, með leyfi forseta, ekkert raunverulegt samráð er haft.

Það er ekki bara verkalýðshreyfingin sem skynjar að það hefur orðið kaupmáttarrýrnun um 6% á einu ári, fyrir utan það að margir félagar ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar á vinnumarkaði sem skulda mikið verða fyrir miklum áföllum. 1.400 manns hefur verið sagt upp störfum í hópuppsögnum. Það hangir yfir fólki í fyrirtækjunum og áhyggjur um að því verði sagt upp vinnunni. Þetta eru alvörutímar.

Mér leiðist að þurfa að tala svona við upphaf þings. Mér þykir vænt um þessa blessaða ráðherra sem sitja hér á bekkjunum. Ég trúði því að þetta fólk hefði þrek og skilning til að taka á fyrir hönd íslenskrar þjóðar. Það eru ekki bara verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan sem gagnrýna það fólk sem stjórnar landinu í dag. Það gerir atvinnulífið af meiri krafti en nokkru sinni fyrr og spyr eftir úrræðum. Það gerir bankakerfið sem vill auðvitað ná stöðu til að hjálpa fólki og fyrirtækjum til að hægt sé að halda áfram að halda uppi góðum lífskjörum. En það gerist ekkert, hæstv. forsætisráðherra, það verður ekkert úr neinum markmiðum, hér komu engin fyrirheit um nýjan tíma.

Ég sé það t.d. að þjóðlönd um alla veröld eru að bregðast við, þau gera sér grein fyrir því alveg eins og með fellibylinn Gústav. Bandaríkjamenn fóru á fulla ferð til að verja sitt fólk, bjarga eignum sínum, draga úr skaðanum. Um allan heim eru löndin að bregðast við með því að ráðast í aðgerðir til að takast á við efnahagsvandann. Hvað voru menn að gera núna í Ástralíu og Nýja-Sjálandi? Þeir voru að lækka vexti, þeir voru að lækka vexti til að bjarga sínu fólki og sínum fyrirtækjum. Þetta gerðu Bandaríkjamenn fyrir ári síðan til að búa sig undir kreppuna eða draga úr kreppuáhrifunum, til þess að vísa henni frá.

Við framsóknarmenn höfum hvað eftir annað í þinginu og tvisvar með formlegum hætti lagt fram efnahagstillögur sem séu mjög brýnar við þessar aðstæður, þ.e. að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það var beðið um 500 milljarða hér í vor og talið brýnt. Nú segir hæstv. forsætisráðherra að það sé verið að taka lánið smátt og smátt. Þetta voru vissulega nýjar fréttir því að hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir við erlenda fréttamenn fyrr í sumar að ríkisstjórnin væri hætt við að taka lánið, þess þyrfti ekki. Það eru því nýjar fréttir að verið sé að taka lánið smátt og smátt og við hljótum auðvitað að leita eftir upplýsingum um það með formlegum hætti.

Það er mjög mikilvægt að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, það gerðum við 2006 og það er mikilvægt núna til að styrkja krónuna. Íslenska krónan hefur fallið um 40% frá áramótum eða hátt í það. Hæstv. forsætisráðherra sagði í fyrrahaust að það væri ekkert að óttast, hún væri komin á botninn þá. En þetta er gert áfram. Þetta er ein mesta kjaraskerðing sem Íslendingar hafa fengið á einu ári sem stafar af falli krónunnar og veldur íslensku atvinnulífi meiri erfiðleikum en hér hefur verið rætt um og reynir á skulduga Íslendinga því að þetta þýðir óðaverðbólgu sem hækkar skuldirnar.

Við framsóknarmenn höfum sagt, og það eru þjóðir að gera um allan heim, að það verði að lækka stýrivexti Seðlabankans strax. Það er ekkert grín. Það lifir ekkert atvinnulíf og það stendur enginn Íslendingur undir þeim skuldum með okurvöxtum sem eru einstakir á heimsvísu. Í landi sem á gnægð tækifæra eins og forseti Íslands sagði hér við innsetninguna eru Íslendingar vel undir það búnir að takast á við þennan vanda með mannlegum hætti til að draga úr því að þessi vandi skelli á fólkinu sem síst skyldi. Þess vegna ber að lækka stýrivexti Seðlabankans strax.

Bankakerfið segir: Við getum ekki farið í gang fyrr en búið er að lækka stýrivexti Seðlabankans, hér fara ekki hjólin að snúast fyrr. Þess vegna þarf samráð. Við höfum hvað eftir annað, hæstv. forsætisráðherra, bent á þjóðarsátt, samráð við atvinnulífið, bankakerfið, bændasamtökin, bændurnir eru líka í vaxandi vanda í sínum rekstri eins og allir aðrir. Við höfum margbent á þetta úrræði sem hefur reynst vel.

Við búum núna við umhverfi sem var fyrir 20, 30 árum daglegur viðburður og skerti fyrst og fremst kjör alþýðunnar á Íslandi meira en annarra. Þess vegna ber ríkisstjórnin fulla ábyrgð á þessu ástandi öllu. Við höfum talað fyrir því að við þessar aðgerðir þurfi að greiða jafnvel verðbólguna niður, minnka álögur á bensín og olíu sem eru líka að sliga heimilin því að margir sækja vinnu langt um veg að heiman og það eru orðnir ljótir reikningar eins og þau mál eru komin og farin að reyna mjög á fyrirtækin og hvað þá heimilin. Þetta er orðræða sem ég fann mjög þegar ég fór um landið að þetta veldur miklum erfiðleikum og fólk getur ekki haldið áfram þeirri vinnu sem það sækir um langan veg vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert brugðist við á þessu sviði.

Við höfum líka talað um að það ætti að greiða niður matarskattinn til að greiða verðbólguna niður nú. Svo er það auðvitað spurningin við þessar aðstæður — til að auka hagvöxtinn. Allt snýst þetta um að það verði hagvöxtur á Íslandi. Við teljum að ríkið og sveitarfélögin séu við þessar aðstæður í allt öðru veðri og verði þess vegna að takast á við þetta núna með öðrum hætti. Ríkið og sveitarfélögin geta vikið af markaðnum þegar allt er í blóma og sólskini en núna þegar lægðin kemur eru hærri skyldur og meiri á ríki og sveitarfélögum að fara í framkvæmdir, vegaframkvæmdir, stórar framkvæmdir, að takast á við þau stóru verkefni sem hafa verið í undirbúningi lengi eins og álverin á Bakka og Húsavík þar sem slegið hefur verið á framréttar hendur, þar sem Samfylkingin leikur marga leiki eins og hún sé í þremur liðum. Einn hluti hennar berst gegn Helguvík, annar hluti hennar leggur þröskulda og tefur fyrir Húsavík. Leikrit Samfylkingarinnar er dæmalaust hvað þetta mikilvæga mál varðar.

Svo er það auðvitað haugalygi að búið sé að sökkva Íslandi. Ég fór einn hring um landið núna [Hlátrasköll í þingsal.] og Ísland hefur aldrei verið fegurra, fjöllin standa enn uppi. Ég sá tvö álver áður en ég fór úr Reykjavík, í Straumsvík og Hvalfirði, og svo eitt á Reyðarfirði. Þetta eru nú öll ósköpin sem alltaf er verið að tala um.

Það skal ég segja ykkur að Íslendingar vissu fyrir þúsund árum að við ættum hið fagra Ísland, Samfylkingin fann það upp. En við skulum gá að því að ef við ekki verjum kaupmáttinn, verjum atvinnulífið, þá er lögmálið það sama og var á Hvítárbakka, það er ekki fallegt nema það veiðist vel. Við verðum að halda uppi lífskjörum á Íslandi til þess að fólkið okkar flytji ekki úr landi. Þúsundir Íslendinga fluttu heim á góðæristímanum síðustu árin. Þess vegna er skylda okkar stór að halda uppi atvinnu og góðum lífskjörum.

Við framsóknarmenn höfum alltaf lagt áherslu á gróandi þjóðlíf á öllum sviðum, á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Af hógværð og festu skal sækja fram og það ber að gera núna við þessar aðstæður. Ég hef boðið hæstv. forsætisráðherra upp á þjóðstjórn sem gæti verið mikilvæg við þessar aðstæður, upp á þjóðarsátt sem er skylda hans. Að tala við verkalýðshreyfinguna, tala við atvinnulífið, tala við bankakerfið, eiga samráð við Seðlabankann (Forseti hringir.) og leysa bankann úr fjötrum hans með lagabreytingu ef hann fellst ekki á það með góðu, (Forseti hringir.) því að vaxtalækkun er langmikilvægasta málið gagnvart fólki og fyrirtækjum.