138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

aðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkó.

50. mál
[14:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Við eigum náttúrlega nú þegar í viðskiptum við fjölmörg ríki í gegnum fríverslunarsamninga sem við höfum gert í gegnum okkar ágæta EFTA.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að hryggjarstykkið í starfi utanríkisráðuneytisins er einmitt að greiða fyrir viðskiptum við önnur lönd. Að því er varðar þann samanburð sem hv. þingmaður gerir annars vegar á NAFTA og hins vegar ESB er rétt að það komi fram að árið 2008 nam hlutdeild útflutnings okkar til Bandaríkjanna 5,5% af öllum vöruútflutningi en var 75% til ESB-ríkjanna. Þetta er gríðarlega mikill munur og ekkert óeðlilegt við að við horfum sterklega til Evrópusambandsins sem mótaðila í viðskiptum.

Að því er varðar síðan spurningu hv. þingmanns um hvort það hafi verið kannað í ráðuneytinu að taka upp beina aðild eða aukaaðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkós er svarið það að bein aðild eða aukaaðild hefur ekki verið könnuð á síðustu árum, en hins vegar var gerð könnun á því máli árið 1994 og skýrsla lögð fram.

Hv. þingmaður spyr hver hafi orðið niðurstaða þeirrar könnunar. Í þeirri niðurstöðu starfshópsins kom fram að það væri álitlegur kostur að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin. Sömuleiðis taldi hópurinn að aðild að NAFTA-samningnum kæmi mjög vel til greina. Frá því að þessi könnun var gerð hefur Ísland í gegnum samstarf sitt við og aðild að EFTA gert fríverslunarsamning við tvö ríki, Kanada og Mexíkó. Sú staðreynd að EFTA-ríkin hófu fríverslunarviðræður bæði við Mexíkó og Kanada á síðustu árum nýliðinnar aldar gerði það að verkum að ekki var talin ástæða fyrir EFTA-ríkin eða Ísland til að leita eftir aðildarmörkuðum NAFTA-ríkjanna í heild sinni vegna þess að með aðildinni eða í gegnum EFTA var ráðinn til lykta fríverslunarsamningur við þau tvö lönd. Hins vegar stæði þá eftir að láta á það reyna hvort hægt væri að tryggja bættan aðgang að mörkuðum í Bandaríkjunum. Sá möguleiki hefur verið kannaður ítarlega, fyrst í gegnum EFTA, en við byggjum á þeirri hefð að við förum ekki í tvíhliða viðræður við ríki fyrr en fullreynt er að ekki sé hægt að gera það í gegnum EFTA. Staða málsins var sú að ekki náðist að koma á viðræðum EFTA-ríkjanna og Bandaríkjanna og þess vegna hefur Ísland líka ítrekað kannað möguleikana á því að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Niðurstaðan af slíkum athugunum hefur jafnan verið á sömu leið, að ekki sé til staðar grundvöllur til að hefja fríverslunarviðræður við Bandaríkin, reyndar hvorki á vettvangi EFTA né tvíhliða. Þar ræður fyrst og fremst tvennt, í fyrsta lagi hafa Bandaríkin ítrekað gefið til kynna í viðræðum við íslensk stjórnvöld að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á tvíhliða fríverslunarsamningi við Ísland. Í öðru lagi hafa Bandaríkin, m.a. á fundum embættismanna þeirra og EFTA-ríkjanna sem voru haldnir á árunum 2003–2005, gefið það alveg skýrt til kynna, sem ég hygg að hv. þingmanni þyki athyglisvert, að forsenda fríverslunarsamnings væri sú að markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þar með taldar viðkvæmar landbúnaðarvörur, svo sem kjöt og mjólkurvörur, yrði bættur mjög verulega frá því sem nú er. Þessi skýra afstaða Bandaríkjamanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hefur leitt til þess að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.

Þess má svo geta að eitt af fyrstu verkum mínum, að mig minnir, í embætti utanríkisráðherra fyrr á þessu ári var að undirrita samning við Bandaríkin sem fól m.a. í sér stofnun sérstaks samráðsvettvangs íslenskra og bandarískra stjórnvalda um viðskipti og fjárfestingar. Fyrsti fundur var haldinn í fyrrasumar. Þar ítrekuðu Bandaríkjamenn að þeir hefðu mun frjálslyndari afstöðu en Ísland hvað varðar niðurfellingu tolla af landbúnaðarvörum í fríverslunarviðræðum sínum.

Hv. þingmaður spyr mig síðan hvort ráðherra hafi ekki hug á því að beita sér fyrir því að kanna möguleika Íslands á aðild að NAFTA. Í ljósi þessara skýringa sem ég hef gefið og upplýsinga hérna tel ég nú og miða við afstöðu Bandaríkjanna að það sé mjög ólíklegt að ég muni beita mér fyrir slíkum athugunum, a.m.k. að svo stöddu.