140. löggjafarþing — 115. fundur
 7. júní 2012.
veiðigjöld, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 658. mál (heildarlög). — Þskj. 1053, nál. 1432, 1435 og 1436, brtt. 1433, 1434 og 1473.

[14:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn veiðigjöldin, eða veiðiskattana eins og ég vil kalla gjöldin, og það í skjóli þess að ekki hefur verið lagt fram nefndarálit frá hv. atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða sem mér finnst eiginlega vera meira og alvarlegra mál og er undirstaðan undir það mál sem við ræðum því að það frumvarp gæti tekið burt arðsemina úr kerfinu sem einmitt er verið að skattleggja í því frumvarpi sem við ræðum nú.

Þau frumvörp sem við ræðum ætlaði hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma með eftir þrjár vikur — innan þriggja vikna, sagði hann um áramótin. Það leið dálítið lengri tími og mér sýnist á því að lesa þessi frumvörp að það hefði mátt líða enn meiri tími til að þau yrðu almennilega unnin og þá í sátt við alla aðila.

Það er dálítið undarleg staða, frú forseti, að þegar maður ræðir um stjórn fiskveiða eða auðlindarentuna þá vísa eiginlega allir í 1. mgr. 1. gr. í lögum um stjórn fiskveiða frá 10. ágúst sem eru óbreytt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Um þetta snýst öll deilan og það er miður að ekki skuli vera hægt að finna einhverja lausn á þessu þannig að hægt sé að sætta sjónarmið þeirra sem segja að þjóðin eigi að fá arðinn af auðlindinni beint, og þá undirstrika ég „beint“, og hinna sem segja að útgerðin hafi rétt til að veiða, hafi atvinnuréttindi, og ekki megi taka þann atvinnurétt af henni því að mikilvægt sé að hún hafi hann og sameignin felist í því að ríkið fyrir hönd þjóðarinnar geti sett um þetta reglur.

Það merkilega er að báðir aðilar virðast skilgreina ríkið sem þjóð. Ég held að meinið liggi einmitt þar því að ríki er ekki sama og þjóð. Hverjir fara með stjórn ríkisins, frú forseti? Ríkið er lögaðili og hverjir fara þá með stjórn þess? Það eru fyrst og fremst ráðherrar í skjóli Alþingis þannig að það eru stjórnmálamenn sem stjórna ríkinu. Þess vegna getur íslenska ríkið aldrei, í mínum huga, verið það sama og íslenska þjóðin. Íslenska þjóðin eru Jón og Gunna og sjómenn sem ætla að mótmæla hér á eftir, vonandi friðsamlega, ég geri ráð fyrir því. Þjóðin er fólkið sem vinnur í frystihúsunum, fólkið sem vinnur á skrifstofum í Reykjavík, venjulegt fólk sem borgar skatta og skyldur.

Nokkuð margir horfa til þessa ákvæðis, að þetta sé sameign íslensku þjóðarinnar, og hver og einn hugsar með sér: Þetta er mín sameign. Hvernig fæ ég mitt úr henni?

Þeir sem starfa og vinna úti á landi átta sig á, af því að útgerðin er að meginhluta úti á landi, að hún er burðarásinn í atvinnulífinu þar og mikilvægt er að vel gangi. Þess vegna held ég að þetta sé landsbyggðarskipt, þ.e. stuðningurinn við óbreytt ástand og svo andstaðan við óbreytt ástand og krafan um að taka einhvers konar arðsemi inn í dæmið.

Nú er spurningin: Hvernig er hægt að leysa þetta, frú forseti? Hvernig getum við sætt fylkingar sem eru svo stríðandi og heiftin svo mikil úti í þjóðfélaginu og eins í þinginu að það er hægt að fara að tala um hatur á milli manna? Nú ættu þetta í rauninni að vera sameiginlegir hagsmunir vegna þess að meginmálið er að þessi starfsemi sé arðbær. Einu sinni var hún ekki arðbær og þá var enginn arður af auðlindinni, þá var þetta engin auðlind. Það er ekki fyrr en útgerðin verður arðbær sem þetta verður auðlind og það verður að vandamáli hvernig við skiptum auðlindinni.

Ég hef lagt fram frumvarp sem ég varpaði inn í umræðuna sem eins konar málamiðlun. Ég er ekkert yfir mig hrifinn af þeirri lausn en ég held að hún ætti að geta sætt alla aðila. Ég vildi gjarnan að menn ræddu það. Í staðinn fyrir að keyra hver yfir annan eins og virðist vera tískan ættu menn að ræða fleiri lausnir. Ef einhver kemur með enn betri lausn verð ég mjög glaður. Mín lausn gengur út á að 1/40 af kvótanum, aflahlutdeild við Íslandsstrendur, verði dreift á alla íbúa landsins og þá skilgreini ég sem fólk sem hefur búið hér í fimm ár og verið skattskylt í fimm ár, ekki bara borgað skatta heldur verið skattskylt, þ.e. tekið þátt í þjóðfélaginu í fimm ár sem og börnin þeirra, þannig að börn fái líka kvóta. Hver mætti fá um 21 kíló af þorskígildi og það mætti veiða kvótann í 40 ár. Eftir 40 ár yrði kvótanum úthlutað aftur þannig að þetta væri ævarandi kerfi sem alltaf væri úthlutað úr aftur og aftur.

Núverandi kvótaþegar, þ.e. útgerðarmenn, sjómenn og aðrir sem eru að fara að mótmæla hér úti á eftir, fengju sína hlutdeild, sem þeir eiga í dag, til 40 ára. Þá kynni einhver að segja: Bíddu, þú ætlar að taka af þeim auðlindina i 40 ár; þeir hljóta að tapa. Það er ekki rétt, frú forseti, vegna þess að með rekstri fyrirtækis er alltaf áhætta. Áhættan endurspeglast í hærri ávöxtun, hærri arðsemiskröfu á áhættufé o.s.frv. þannig að það sem ég vil gera fyrir útgerðarmenn í staðinn er að hafa aflahlutdeildina algjörlega frjálsa, ekki bundna við skip eða neitt. Við skulum segja að einhver maður eigi bara ákveðna hlutdeild í afla ársins 2018. Við hana má hann gera það sem hann vill; hann má leigja hana, selja eða hvað sem hann vill. Markaður með aflahlutdeildir yrði algjörlega frjáls, nema ég geri það að skilyrði að Íslendingar eigi aflahlutdeildina, ekki útlendingar, en það má líka ræða það þegar þetta verður til 40 ára. Útgerðin fær að hafa heimildir sínar til 40 ára og ég held að þegar búið er að gefa framsalið gjörsamlega frjálst, þegar búið er að negla niður eignina sem verðbréf sé það töluvert meira virði í hendi útgerðarmanna en 2.500 kr. sem mér skilst að sé markaðsverðið fyrir þorskígildiskíló í dag. Þarna gæti enginn sagt annað en að þjóðin fengi kvótann því að hún fengi jú 1/40 á ári, hver einasti íbúi, og ég held að það sé varla nokkur sem kemst nær því að vera þjóð en íbúarnir.

Þetta er algjörlega laust frá stjórnvöldum, stjórnvöld hafa ekkert um þetta að segja. Hver einasta fjölskylda, 120 þús. fjölskyldur, selur aflahlutdeild sína á markaði. Væntanlega mundu myndast einhverjir sjóðir með þetta sem söfnuðu þessum heimildum saman, menn gætu lagt sína heimild inn í sjóðinn sem eign eða selt eignina og keypt sér eitthvað annað í staðinn. Þetta eru um það bil 50 þús. kr. á ári á hvern einstakling.

Það verður engin röskun í sveitarfélögunum. Menn mundu segja að þau misstu spón úr aski sínum en ég er ekki sammála því. Af hverju skyldi útgerðin vera rekin úti á landi en ekki í Reykjavík? Er eitthvað í lögum núna sem þvingar menn til að veiða frá og gera út frá Norðfirði eða frá Vestfjörðum? Nei. Það er vegna þess að það er arðbærast að veiða þar. Svona kerfi með algjöru markaðsfrelsi mundi gera það að verkum að sá gæti borgað mest fyrir kvótann og aflahlutdeildina sem veiddi ódýrast og sem næst miðunum og seldi dýrast, þ.e. hefði góðar samgöngur og markaðskerfi. Það held ég að sé markaðskerfi sem við ættum að sækjast eftir. Þá þyrfti enginn að ákveða hvert verðið væri fyrir kvótann því að það væri markaðurinn sem gæfi það og útgerðin mundi keppast um að bjóða í kvótann, og eftir því sem útgerðin gengi betur þeim mun meira fengju heimilin í landinu fyrir sinn árlega kvóta sem yrði úthlutað.

Nú sé ég að tími minn er liðinn þannig að ég get ekki rætt þessa sáttatillögu mikið lengur, en ég vildi gjarnan að menn færu að huga meira að því hvaða lausnir eru til sem sætta alla aðila, ekki bara einn.



[14:41]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Hann tæpti nokkuð á því sem ég ræddi í ræðu minni í gær varðandi það hvort um gjöld eða skatt sé að ræða í þessu frumvarpi. Frumvarpið heitir frumvarp til laga um veiðileyfagjöld sem er algjört rangnefni vegna þess sérstaklega að í frumvarpinu er hoppað á milli hugtakanna gjöld og skattar.

Við búum sem betur fer við stjórnarskrárvarinn rétt fyrir ofríkum stjórnvöldum og í 1. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að engan skatt megi á leggja né breyta né taka af nema með lögum.

Svo segir í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þegar þetta er borið saman við frumvarpið sýnir það á hve veikum grunni frumvarpið allt er byggt vegna þess að ríkisstjórnin telur að um veiðigjöld sé að ræða.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn hvernig standi á því að í frumvarpinu kemur fram að ráðherra skuli skipa sérstaka nefnd sem skuli ákvarða hið svokallaða veiðigjald á hverju ári og hvort það sé ekki framsal á því valdi sem felst í stjórnarskránni að það skuli vera þriggja manna nefnd úti í bæ sem ákvarði þessa skattheimtu og hvort ekki sé um mikið skattaframsal að ræða frá Alþingi sjálfu.



[14:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að það er ákveðinn veikleiki í því frumvarpi sem við ræðum og eins í því nefndaráliti sem við ræðum að ekki sé búið að laga þetta.

Gjöld eru víða tekin af ríkinu og þá fyrir veitta þjónustu, eitthvað sem ríkið lætur af hendi, einhverja þjónustu eða eitthvað slíkt. Þá getur maður talað um að gjaldið eigi að vera svona og svona sem er reiknað miðað við verðmæti þjónustunnar sem veitt er. Þegar menn taka gjald af auðlindarentu er það allt annar handleggur. Ríkið er ekki að veita neina þjónustu, það lætur ekkert í staðinn fyrir auðlindarentuna. Auðlindina höfðu menn og hafa haft áður þannig að ég get ekki séð annað en að þetta sé hreinn og beinn skattur. Ef þetta er skattur stenst öll framkvæmdin við ákvörðun skattsins, ákvörðunaraðilinn, álagningaraðilinn o.s.frv., ekki þær kröfur sem gera þarf til skattyfirvalda.

Ég sé ekki annað en að hv. nefnd þurfi að fara í gegnum þetta aftur og ég legg til að nefndin vísi þessu aftur til efnahags- og skattanefndar til að fá um það úrskurð hvort og hvernig hægt er að leggja þennan skatt á þannig að hann sé ákveðinn með lögum og lagður á með lögum en ekki af einhverjum framkvæmdaraðila þar sem valdið hefur verið framselt frá Alþingi.

Þetta er mjög mikilvægt vegna stjórnarskrárinnar sem er jú undirstaða alls. Ég held að þingmenn vilji endilega halda stjórnarskrána, það er mjög mikilvægt að halda hana því að við höfum svarið eið að henni. Svo er verið að setja nýja stjórnarskrá og ég geri ekki ráð fyrir að menn séu að hugsa um að setja nýja stjórnarskrá vegna þess að sú gamla hafi verið brotin svo oft, það væri ekki beint gæfulegt fyrir nýja stjórnarskrá.



[14:45]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um stjórnarskrána. Ég tel að stjórnvöld ættu að byrja á því að fara að núgildandi stjórnarskrá áður en hugað er að því að koma með nýja stjórnarskrá.

Varðandi það sem þingmaðurinn sagði þá er hann í meginatriðum sammála mér varðandi það hvað er gjald og hvað er skattur. Eins og þingmaðurinn fór yfir er gjaldtaka heimil með reglugerðarheimild og þá skal gjaldið hvorki vera hærra né lægra en raunverulegt gjald.

Ég tók dæmi í gær frá umboðsmanni Alþingis um úrskurð þar sem aðili þurfti að greiða tvisvar fyrir númeraplötu á einkanúmer á bíl sinn og fór hann með málið til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis taldi skýrt að þessi tvítekna greiðsla mundi ekki flokkast sem gjöld heldur skattur. Á sínum tíma þurfti því Umferðarstofa að bakka með þessa gjaldtöku. Það eru ótalmörg svona dæmi frá umboðsmanni Alþingis.

Það er líka svolítið merkilegt þegar kannað er hvort þetta séu gjöld eða skattar að líta á markmiðsgreinina í 2. gr. því að þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Veiðigjöld eru lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu … “

Þetta gæti flokkast sem gjald ef við rýmkum þessa gjaldtökuheimild. Þetta er náttúrlega ekkert sérmerkt en þarna er þó alla vega vísir að því að um gjald sé að ræða. En seinni hluti greinarinnar er beinn skattur því að þar segir, með leyfi forseta:

„… og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“

Þarna stangast þetta strax á og ekki er hægt að kalla hvort tveggja gjöld með góðu móti því að um (Forseti hringir.) beina skattlagningu er að ræða sem framkvæmdarvaldið ætlar síðan að útdeila eftir hentisemi.



[14:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrra gjaldið, veiðigjaldið, mætti flokka sem gjald ef að baki lægju útreikningar á því hvað sú veitta þjónusta kostar. (Gripið fram í: Rétt.) Þá yrði að leiðrétta það á hverju ári aftur á bak ef menn legðu of mikið á svo að einhverju munaði en ef litlu munaði mundi það sennilega standast. Fyrra gjaldið gæti því verið gjald ef menn líta á það sem þjónustu að stunda hafrannsóknir. Það er hins vegar spurning hvort rannsóknir geti flokkast undir þjónustu. Þá held ég að háskólinn færi víða og innheimti fyrir rannsóknir sínar.

Seinna gjaldið er greinilega skattur því að menn eiga að borga fyrir hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Það er ekki einhver þjónusta sem útgerðarmenn fá frá ríkinu eða slíkt. Þeir eru að borga skatt. Þá þarf að vera mjög ákveðið hver leggur á skattinn, hver ákvarðar upphæð skattsins o.s.frv. og hver innheimtir hann. Ég held að engar þessar forsendur standist. Reyndar var bent á það í nokkuð mörgum umsögnum að þetta gæti verið veikleiki og það væri ekki gott fyrir ríkið ef það fengi á sig dóm eftir einhver ár því að þetta stæðist ekki stjórnarskrá.

Ég held því að menn ættu að vanda sig dálítið meira og skoða þetta nánar í einhvern tíma til að fá úr því skorið hvort þetta sé hæfileg aðferð til að leggja á skatta. Til þess höfum við skattstjóra og ríkisskattstjóra og aðrar opinberar stofnanir sem sjá um innheimtu skatts en hér er ekki gert ráð fyrir því.



[14:50]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna hér áðan. Það má segja hv. þingmanni það til hróss að hann er einn af þeim fáu þó, við skulum segja innan þröngs hóps á þessu þingi, sem hefur reynt að setja sig vel inn í sjávarútvegsmálin almennt. Sjálfur sendi hann þingmönnum öllum tillögur sínar um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi síðasta haust, ef ég man rétt, vel útfærðar og í aðgengilegu formi sem ég veit að margir hlýddu á og kynntu sér þó að ekki séu allir sammála hv. þingmanni eins og gengur.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að ræða ætti leiðir sem gætu sætt alla. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því að við eigum að ræða leiðir sem er líklegt að sem flestir verði sáttir um. Niðurstaða þess frumvarps sem við ræðum hér er í meginmáli, í megindráttum, sama niðurstaða og komist hefur verið að margsinnis áður. Ég vitnaði til skýrslu auðlindanefndar 2000, ég vitna til skýrslu tvíhöfðanefndar 2001, ég vitna til skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða árið 2010. Þar er alltaf komið að þeirri meginniðurstöðu að það eigi að leyfisskylda nýtingu auðlindarinnar og það eigi að greiða fyrir það gjald, gjald af nýtingu auðlindar. Auðlindagjald er þetta sums staðar kallað eða rentugjald annars staðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ósammála því að það sé heppileg leið í þessu tilfelli að innheimta auðlindagjald, eins og er lagt til í frumvarpinu, eins og lagt var til árið 2010, 2001 og 2000? Er hann ósammála því meginsjónarmiði?



[14:52]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram um veiðileyfagjaldið undir hjartslætti hafnarinnar, ef svo má segja, því að nú hefur floti landsins siglt inn í Reykjavíkurhöfn og er tignarleg sjón að horfa á það í beinni útsendingu þegar skipin hafa raðað sér við bryggju. Og þetta eru ekki bara þeir sem að útgerðinni snúa heldur er þetta fiskvinnslufólk um land allt. Það er mjög gleðilegt að svona mikil samstaða skuli myndast á móti þessari verklausu ríkisstjórn sem hefur það eitt á verkefnaskránni að láta okkur sogast enn lengra niður.

Þetta átti að vera velferðarstjórn en hér eru málin rædd á Alþingi um eitthvað allt annað en heimilin og fjölskyldurnar, svo það sé líka sagt úr þessum ræðustól, vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur hvergi látið til sín taka í skuldamálum heimilanna. Hæstv. forsætisráðherra gekk meira að segja svo langt á mánudaginn var að tala niður sitt eigið afkvæmi, ef svo má segja, embætti umboðsmanns skuldara, og fann því allt til foráttu. Og á það skal minnst að það embætti kostar nú ríkissjóð 2.500 milljónir á ári eða 2,5 milljarða. Þetta er staðan.

Boðað hefur verið til útifundar á Austurvelli klukkan fjögur í dag og það verður gaman að fylgjast með því þegar hinar vinnandi stéttir mæta fyrir utan Alþingishúsið og láta til sín taka vegna þess að atvinnuleysi er mjög mikið þrátt fyrir að ríkisstjórnin láti hafa það eftir sér, sérstaklega hæstv. efnahags- og skattaráðherra, að hér sé lítið atvinnuleysi. En það er eins og hún átti sig ekki á því að Íslendingar hafa komið á fót nýrri útflutningsgrein undir forustu þessarar ríkisstjórnar en það er útflutningur á vinnuafli, og eru þá aðallega Íslendingar að flytja til Noregs.

Varðandi markmið frumvarpsins sem ég fór yfir hér í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal, er verið að leggja til að veiðigjöld verði lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Það er stefna Framsóknarflokksins að landsmenn fái rentu af þessari auðlind og við skulum ekki gleyma því út af hverju sjávarútvegurinn er orðinn auðlind. Hér var sett á kvótakerfi vegna ofnýtingar fiskstofna og um leið og einhvers konar takmörkunarkerfi eru sett á eins og kvótakerfi skapast að sjálfsögðu verðmæti. Það er svipað og þegar Evrópusambandið fór að setja á markað loftslagsheimildir. Þá var andrúmsloftið allt í einu orðin auðlind því að þá var hægt að kaupa og selja mengunarkvóta. Þetta vill oft gleymast í umræðunni.

Í markmiðsgrein frumvarpsins er gjaldið tvískipt. Eins og fram hefur komið vil ég meina að það sé hægt að túlka gjaldahliðina mjög rúmt. Fyrri hlutinn gæti rúmast undir því að kallast gjald en hitt er klár skattheimta.

Þegar við lesum svo greinargerðina sem fylgir frumvarpinu segir þar um 2. gr., markmiðsgreinina, með leyfi forseta:

„Í greininni er gerð grein fyrir þeim tveimur meginmarkmiðum með álagningu gjalda á sjávarútveg, þ.e. að greinin standi undir opinberum kostnaði við hana og að arður af fiskveiðiauðlindinni renni í sameiginlegan sjóð eiganda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Þarna er þjóðin túlkuð sem ríkissjóður. Ég er ekki viss um að allir séu sammála þeirri greiningu sem kemur fram í þessari grein, en um leið og er farið að tala um þennan sameiginlega sjóð, sem er þá sameign okkar allra, hugsar ríkisstjórnin þetta á þann hátt að fjármagnið renni inn í ríkissjóð og svo geti framkvæmdarvaldið útdeilt þessari rentu eins og því sýnist. Við erum að tala um að þessi skattur gæti jafnvel farið í greiðslu kostnaðarins við stjórnlagaþingið eða hvaða gæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem er. Við skulum heldur ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur nú þegar ráðstafað þessu gjaldi áður en lagasetningin hefur farið fram, sem mér finnst athugasemdarvert. Ég vil einnig gera athugasemd við 4. gr., um veiðigjaldsnefndina sem á að stofna. Með henni er verið að framselja lagasetningarvaldið hér til framkvæmdarvaldsins, til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, því að hann á að hafa það verkefni að skipa þrjá menn og aðra þrjá til vara í nefnd til fimm ára til að ákvarða sérstakt veiðileyfagjald. Að mínu mati fer þetta alfarið á móti öllum reglum þar sem stjórnvöld hafa ekki skýrt það enn þá almennilega hvort um gjald eða skatt sé að ræða. Þess vegna tek ég undir orð hv. þm. Péturs Blöndals að efnahags- og viðskiptanefnd á að sjálfsögðu að fá þetta til umræðu og til greiningar og fá til sín sérfræðinga til að svara þessum spurningum því að veiðileyfagjaldið er náttúrlega fyrst og fremst hugsað sem skattur.

Hér er oft búið að ræða það að nánast allir aðilar sem sendu inn umsagnir mótmæltu frumvarpinu og enginn treysti sér til þess að gefa því jáyrði sitt að láta það fara óbreytt inn í þingið og verða að lögum, m.a. Landsbankinn og það slær mig mjög vegna þess að Landsbankinn er í ríkiseigu. Við þekkjum nú hörmungarsöguna í kringum það þegar hæstv. efnahags- og skattaráðherra tók hann yfir af ríkinu og það er búið að vera ansi sviptingasamt í Landsbankanum eins og við munum, en hann er í raun eini ríkisbankinn því að hinir tveir voru einkavæddir af núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Það kemur fram í umsögn Landsbankans að bankinn telur sig þurfa að afskrifa 31 milljarð af bókfærðu virði verði frumvarp þetta samþykkt, frú forseti. Þetta er eftir breytingartillögurnar, eftir að ríkisstjórnin bakkaði með að gjaldið ætti að vera 18 milljarðar og fór niður í 15 milljarða. Fyrstu tvö árin fara í það að rétta af tap Landsbankans af frumvarpinu. Þetta er svipað eins og þegar virðisaukaskattskerfinu var umbylt í tíð þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar; það vantar 40 milljarða þar inn í.

Ríkisstjórnin er því hvergi með heildstæða sýn í þessum skattpíningaráformum sínum því að við það að leggja skatta á eina atvinnugrein eins og í þessu tilfelli er það bankakerfið sem geldur fyrir. Þetta er ótrúlegt hversu illa ríkisstjórnin vinnur sín mál og hefur aldrei yfirsýn yfir það sem hún er að gera, því að þó að það komi tekjur inn á einum stað verða enn meiri útgjöld á öðrum stað.

Það er alltaf að hrynja meira undan þessu frumvarpi og meira að segja sjálfur Seðlabanki Íslands kemur þar að. Hann hefur verið hliðhollur þessari ríkisstjórn, því miður, þótt hann eigi að vera sjálfstæður. Í Icesave-málinu lagði hann til dæmis fram álit og villandi og rangar upplýsingar upphaflega um hvað ætti að vera hér mikið til af aflandskrónum. Seðlabankinn talaði alltaf um að 600 milljarðar lægju inni en svo er komið í ljós að það eru 1.000 milljarðar, þannig að það hefur alltaf verið svolítill tvískinnungur í álitum Seðlabankans. En nú hefur Seðlabankinn talað og telur að veiðigjaldið hafi bein áhrif á arðsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Að lokum, frú forseti, langar mig til að benda á, vegna mótmælanna sem eru boðuð á Austurvelli klukkan 4, að íslenska sjávarútvegskerfið eins og það er uppbyggt, hefur hlotið tilnefningu til verðlauna fyrir stefnumótun sem er til þess fallin að skapa meiri lífsgæði fyrir núverandi og framtíðarkynslóðir. Þetta er sá grunnur sem íslenskur sjávarútvegur hefur byggst upp á undanfarna áratugi, allt frá því að lögin voru hér fyrst samþykkt árið 1990, með áorðnum breytingum. Ísland er tilnefnt til verðlauna fyrir framtíðarsýn og möguleika framtíðarkynslóða til að lifa af og verðlaunin verða veitt í september og kemur þá í ljós hvort Ísland hreppi þau. En þá kemur þessi verklausa ríkisstjórn fram með frumvarp sem á að kollvarpa þessu kerfi. Þetta er ekki hægt, frú forseti.



[15:03]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar áðan. Mig langar til að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga í fyrstu lotu, hið minnsta, þ.e. um stefnu flokks hennar í sjávarútvegsmálum eins og hún kristallast í landsfundarályktun flokksins þar sem segir m.a. í ályktun um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

„Stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.“

Þar segir einnig að nýtingarsamningar verði í um 20 ár.

Í stefnu Framsóknarflokksins segir sömuleiðis að í nýtingarsamningunum skuli kveðið á um veiðiskyldu og takmarkað framsal og sömuleiðis að gjald af nýtingu auðlindarinnar verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar

Ég geri ráð fyrir því að Framsóknarflokkurinn hafi farið vel yfir það frumvarp sem hér um ræðir og borið það saman við stefnu flokksins. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort sá hluti stefnunnar sem ég vitnaði til áðan samrýmist í grundvallaratriðum því sem fram kemur í frumvarpinu, þ.e. um leyfið, hóflega gjaldið, tímalengdina o.s.frv. Getum við verið sammála um þessi meginsjónarmið? Snýst ágreiningur okkar ef til vill fyrst og fremst um stærðir, hvað er hóflegt gjald, hvað það er mikið í krónum og aurum talið, hve mikið magn er í hluta 2?



[15:05]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi að ég gæti þakkað hv. þingmanni svarið, sem ég fékk reyndar ekki og virðist það vera skipulögð hernaðaráætlun stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi að hunsa mig í andsvörum einhverra hluta vegna. Það verður þá bara að hafa það. Þeir hafa verið að kalla eftir samræðum og skoðanaskiptum í ræðustól um málið, það verður þá ekki af því, að minnsta kosti ekki við mig að því er virðist og ætla ég ekkert að gera frekari athugasemdir við það.

Miðað við frumvarpið eins og það lítur út núna er gert ráð fyrir að um 77,3% af því sem eftir stendur, þ.e. af áætluðu EBITDA í sjávarútvegi miðað við árið 2011, að um 73% af því verði eftir í greininni, þ.e. í sjávarútveginum, útgerðinni og greininni allri, en 22,3% verði í raun það gjald sem lendir hjá eiganda auðlindarinnar, þ.e. okkur öllum. Gangi það eftir, nái frumvarpið fram að ganga, verður yfirstandandi ár, árið 2012, samt sem áður þriðja stærsta árið í sjávarútvegi nánast frá því að mælingar hófust hvað framlegð sjávarútvegsins varðar eða um 63 milljarðar. Aðeins tvisvar hefur framlegð sjávarútvegsins orðið meiri, þ.e. árið 2011 og 2009, og jafnt þessari tölu árið 2010.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvernig harmónerar það við þá skoðun hv. þingmanns, sem hefur áður komið fram í þessari umræðu, að það gjald sem lagt er til að lagt verði á sjávarútveginn í frumvarpinu muni leiða til þeirra hörmunga í sjávarútvegi sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni þegar hér verður þrátt fyrir allt þriðja stærsta framlegðin í sögu íslensks sjávarútvegs eftir hjá þeim sem eru að nýta auðlindina?



[15:07]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um mjög margt áhugaverð. Í þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að borist hafa allalvarlegar athugasemdir varðandi framsal skattlagningarvalds. Komið hafa fram athugasemdir um að frumvarpið fari á svig við stjórnarskrána og eru þau sjónarmið reifuð í nefndarálitum, sérstaklega hjá 1. minni hluta þar sem sagt er að frumvarpið veki áleitnar spurningar um hvort skýrleiki réttarheimildarinnar fyrir gjaldtökunni sé nægilega skýr og hvort hún sé fullnægjandi samkvæmt stjórnarskrá. Þá hefur verið varpað fram spurningum um hvort framsalið sé ekki of víðtækt. Stjórnarskráin segir, eins og við þekkjum, að skattlagningarvaldið sé hjá Alþingi en hér er í raun verið að framselja það til framkvæmdarvaldsins.

Varðandi hlutfallið þá er það náttúrlega ekki það sama á hverju ári. Síðan er talað um að komið gætu upp spurningar varðandi afturvirkni laga. Afturvirkni laga þykir nú aldrei góð, hún þykir nánast algjörlega óforsvaranleg þegar um er að ræða skattlagningu og stjórnarskráin leggur bann við slíkri skattlagningu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn hafi skoðað skattalegu hliðina á þessu, hvort hún sé sammála þessum athugasemdum og deili þessum áhyggjum með þeim fjölmörgu sem gert hafa athugasemdir og skrifað umsagnir um málið. Hvað er til ráða þegar lagt er fram frumvarp á Alþingi um veigamiklar skattahækkanir sem felur líklega í sér brot á stjórnarskrá?



[15:10]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum af því sem fram kemur í frumvarpinu með þeim sem hafa tjáð sig um það. Ég fór yfir muninn á sköttum og gjöldum í ræðu minni í gærkvöldi. Ég fór einnig yfir það í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal áðan að um gríðarlegt valdaframsal er að ræða eða réttara skattaframsal. Það virðist ekki nægja að framselja þetta vald til ráðherra, eins og stundum er gert í lögum með reglugerðarheimild, heldur segir í 4. gr. að ráðherra ætli sér að skipa þrjá menn sem ákvarða eiga gjaldtöku. Það er klárt brot á stjórnarskrá því að í 77. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að skattamálum skuli skipa með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Það er rökstutt í 77. gr. þannig að það er skýrt bann við því valdaframsali sem er í frumvarpinu, sér í lagi vegna þess að það á að nota eftir því hvernig vindar blása á hverju ári og eftir því að hverju nefndin kemst. Auðvitað er það ráðherra sem ber ábyrgð á nefndinni en valdaframsalið er gífurlega mikið hvað þetta varðar og sérstaklega þar sem um jafnviðkvæman málaflokk er að ræða og skattamál.

Varðandi afturvirkni laganna er hún líka skýrt brot á stjórnarskránni því að lög mega ekki undir neinum kringumstæðum vera afturvirk. Ef frumvarpið fer óbreytt í gegn eins og ríkisstjórnin leggur til þýðir það bara málarekstur næstu árin, kannski næstu áratugina, þar sem menn láta reyna á þennan rétt sinn.



[15:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þeir sem veita umsagnir telja upp að minnsta kosti fjórar greinar í frumvarpinu þar sem það brýtur gegn stjórnarskrá að þeirra mati. Þegar mál af þessu tagi liggur fyrir þinginu og nefndin hefur ekki orðið við því að skoða þessar alvarlegu athugasemdir í 2. umr. um málið, hvað telur þingmaðurinn að sé til ráða? Er ekki það eina rétta í stöðunni að senda málið til baka og byrja upp á nýtt ef menn hafa áhuga á því að leggja á veiðiskatt, eins og ætlunin er augljóslega samkvæmt frumvarpinu? Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé landsbyggðarskattur af því að meiri hluti þessara sjávarútvegsfyrirtækja starfar á landsbyggðinni. Ef menn hafa áhuga á að leggja fram slíkar skattatillögur, er ekki eina leiðin að þeir geri það þá í því formi sem lögin kveða á um og reyni að gera það þannig að það fari ekki gegn stjórnarskránni? Mér þætti mjög fróðlegt að heyra afstöðu hv. þingmanns varðandi framhald þessa máls. Ég sé enga aðra leið í málinu en þessa.

Síðan langaði mig líka að spyrja hv. þingmann, af því að það stendur til að samstöðumótmæli verði hér klukkan fjögur, hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því samráðsleysi sem viðhaft er í þessu máli. Menn hafa margoft komið í ræðustól, bæði á þessu ári og á undanförnum tveimur árum, eftir að ég og hv. þingmaður settumst á þing, og talað um að nú eigi að hafa samráð um hlutina og talað fyrir því, en síðan þegar á reynir í erfiðum og flóknum málum virðist mér þetta vera orðin tóm.



[15:14]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum mjög sammála, ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Þetta er því miður ekki eina málið þar sem hin svokallaða ríkisstjórn fer gegn umsagnaraðilum.

Það er búin að vera mjög þung umræða í vetur og vor um tillögur ríkisstjórnarinnar um að setja ákveðnar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki nokkur einasti aðili sem kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gat mælt með því að þetta mál hlyti þann framgang sem ríkisstjórnin ætlar sér í þeim efnum.

Eins gerist nú í þessu máli. Ég veit ekki hvar sú ríkisstjórn er stödd sem ekki getur hlustað á ráðgjöf. Líklega er staðan þessi vegna þess að hér er forsætisráðherra sem hefur sýnt það á sínum tæplega 35 ára þingferli að hún þarf ekki að hlusta á einn eða neinn og ráð hennar og skoðanir eru sem lög í þessu sambandi. Það er alveg óendanlega sorglegt að við skulum þurfa að sitja uppi með slíka ríkisstjórn nú þegar við gætum verið búin að koma atvinnulífinu af stað og bjargað skuldugum heimilum, en hér er spólað í sama farinu. Varðandi lagasetninguna og að það skuli yfir höfuð koma frumvörp fyrir þingið sem brjóta beinlínis gegn stjórnarskránni sýnir það sem ég hef svo oft talað fyrir að hér þarf að styrkja löggjafarvaldið. Það þarf að setja á stofn lagaskrifstofu Alþingis og styrkja þingið bæði faglega og fjárhagslega, en það er ekki vilji hjá núverandi ríkisstjórn til að gera það.

Varðandi samstöðuna vísa ég aftur til fyrri orða minna um núverandi hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra talar fyrir samráði en í hennar huga þýðir samráð: Ég ræð. Það er ekki samráð.



[15:16]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Ég hef í einni ræðu farið yfir helstu sjónarmið mín í því máli en náði þó ekki að ljúka máli mínu, talaði einhvern tímann eftir miðnætti fyrr í þessari viku, og langar því að hlaupa í stuttu máli yfir þau meginatriði í þessu máli sem ég hef athugasemdir við.

Frú forseti. Við lifum þá tíma í íslensku samfélagi að efnahagslífið þarf virkilega að taka sterkum tökum og styrkja þarf stöðu ríkissjóðs. Allir landsmenn hafa skilning á því. Flestallir sem ég hef heyrt í, sama hvar þeir starfa, hafa skilning á því að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum, sama hvar við erum. Og það höfum við Íslendingar öll gert.

Við höfum öll fundið fyrir þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin hefur farið í. Það er eitthvað sem við finnum fyrir í daglegu lífi okkar, t.d. varðandi heilsugæsluna og slíka þjónustu. En það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þegar verið er að skera niður þarf að mínu mati að gera það með heildarhagsmuni í huga þannig að þeir sem verða fyrir niðurskurði sjái að eitthvert jafnræði sé í því sem verið er að gera. Að sama skapi er mikilvægt þegar ríkissjóður er að reyna að auka tekjur sínar að það sé gert á sanngjarnan hátt, ekki sé gengið of nærri þeim sem gert er að greiða þá fjármuni sem ríkissjóður er að reyna að afla sér og að það sé gert skynsamlega þannig að sú skattheimta sem lögð er til valdi ekki því tjóni að viðkomandi aðilar nái ekki endum saman í fyrirtækjarekstri sínum, eða á þeim heimilum sem þeir reka.

Í þessu máli liggja fyrir fjölmargar umsagnir. Flestallar eru neikvæðar, leyfi ég mér að fullyrða. Í umsögn frá sérfræðingunum sem flestallir hafa vísað til hér, í álitsgerð þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, eru þessi sjónarmið tekin saman. Það er alveg ljóst að þeir treysta sér ekki einu sinni til að reikna út það gjald sem lagt er til vegna þess að aðferðafræðin sé svo skökk. Vissulega hafa verið lagðar fram ákveðnar breytingartillögur á þessu máli en engu að síður er mín skoðun sú að hér sé um að ræða allt of hátt gjald.

Ég skil heldur ekki af hverju ekki er talað um hlutina eins og þeir eru. Við erum hér að tala um skattheimtu, veiðigjald sem er í raun veiðiskattur og ég leyfi mér að fullyrða að þetta er landsbyggðarskattur vegna þess að meiri hluti þeirra fyrirtækja sem ætlunin er að leggja þessar stórauknu álögur á starfar á landsbyggðinni. Það birtist okkur í þeim háværu mótmælum sem berast hvaðanæva af landsbyggðinni, frá sjávarútvegsbyggðunum.

Það er ekki eingöngu svo, frú forseti, að þessar athugasemdir berist frá útvegsmönnum, að þeir einir hafi áhyggjur. Því fer fjarri. Við erum hér með athugasemdir frá sveitarfélögum, frá Alþýðusambandinu, frá sjómönnum og landverkafólki og flestöllum þeim sem starfa í þessari grein. Það er því ekki hægt að segja að hér sé um að ræða mál sem varðar eingöngu okkur sem hér stöndum og förum með löggjafarvaldið og útvegsmenn. Það er fjarri því að svo sé.

Frú forseti. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein okkar. Við eigum að vera stolt af því. Mér finnst stundum í umræðunni, þegar við erum að tala saman, bæði hér í þinginu og þegar horft er á það sem nær inn á síður fjölmiðlanna og í sjónvarp, að menn séu svolítið búnir að gleyma því að það er sjávarútvegurinn sem skapar gríðarlegar gjaldeyristekjur hér á landi og hefur í raun gegnum árin lagt undirstöðu að okkar góða velferðarkerfi og okkar góða samfélagi.

Þegar á brattann er að sækja í íslensku samfélagi og í íslensku efnahagslífi þurfum við að búa að sterku atvinnulífi. Sem betur stendur sjávarútvegurinn traustum fótum. Við eigum miklar auðlindir í hafinu sem við berum vonandi gæfu til að nýta allri þjóðinni til hagsbóta. Auðvitað er ekki sama hvernig það er gert og auðlindin í hafinu er takmörkuð. Og þegar takmörkuð auðlind er til skiptanna og settar eru reglur um hvernig eigi að skipta henni, um nýtinguna á henni, þá verða aldrei allir sáttir. Það gildir einu hvaða kerfi við búum til utan um takmarkaða auðlind, það verða aldrei allir sáttir.

Ég stend ekki hér og held því fram að núverandi kerfi sé gallalaust, alls ekki. Bent hefur verið á fjölmarga þætti sem vert er að skoða. En þegar fara þarf í slíkt tel ég mjög mikilvægt að það sé gert í samvinnu og í samráði líkt og ég taldi að meiningin væri varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hélt að flestallir stjórnmálamenn, sama úr hvað flokki þeir væru, hefðu talað þannig á ákveðnum tíma og meira að segja sest saman til nefndarstarfa sem skilaði ákveðinni niðurstöðu. En síðan birtist okkur það mál sem er reyndar enn fast í atvinnuveganefnd, um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, og nú hefur verið blásið til samstöðufundar kl. 4 á Austurvelli til að mótmæla samráðsleysinu í þessum tveimur málum. Það segir okkur að hér er ekki nógu vel að verki staðið og ég hef áhyggjur af því.

Á sínum tíma var sett á það fiskveiðistjórnarkerfi sem er við lýði í dag og það hafði afleiðingar. Það leiddi til fækkunar fiskiskipa, fækkunar sjómanna og fækkunar fiskvinnslustöðva og til mikillar hagræðingar í greininni. Þetta er það sem gerðist. Þessar breytingar voru á sínum tíma mjög sársaukafullar, höfðu miklar afleiðingar fyrir margar sjávarbyggðir í landinu og enn þann dag í dag hafa þær afleiðingar áhrif á afstöðu fólks til sjávarútvegskerfisins. Óánægja hefur mælst með þetta kerfi í skoðanakönnunum, vissulega. En við megum ekki gleyma því af hverju ráðist var í að setja þetta kerfi á fót og hvernig ástandið var í íslenskum sjávarútvegi áður en kerfið kom til.

Kostir þessa kerfis eru þeir að ríkisstyrkir eru úr sögunni og landsmenn þurfa ekki að búa við stanslausar gengislækkanir vegna hagsmuna sjávarútvegsins. Auðvitað kostaði hagræðingin störf á sínum tíma, eins og ég sagði hér áðan, en við höfum í staðinn fengið aukinn arð af fiskveiðiauðlindinni, skynsamlegri fjárfestingu. Það er það sem skiptir meginmáli. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Kerfið okkar er ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og það verður að fara yfir hvaða atriðum menn geta komið sér saman um að breyta. En ég tel mikilvægast af öllu að menn reyni að vinna saman að því.

Frú forseti. Andstæðingar þessa kerfis stjórna nú landinu okkar og hafa lagt fram þessi tvö frumvörp sem ég leyfi mér að tala um bæði í einu. Ég tel þau tengjast það sterkum böndum að maður geti ekki eingöngu horft á frumvarp til laga um veiðigjöld, við hljótum að þurfa að vita á hvaða grunni sjávarútvegurinn á að standa, sjávarútvegurinn sem við ætlumst til að geti greitt þessi veiðigjöld. Það þarf að horfa á bæði málin í senn. En fyrir mér birtist þetta þannig að stefna ríkisstjórnarinnar sé í raun í því falin að ríkisvæða aflaheimildirnar og skattleggja greinina allt of mikið. Ég tel að þegar þetta tvennt fari saman fáum við ekki björgulega niðurstöðu og ekki niðurstöðu sem er íslenskri þjóð í hag. Þess vegna fer alltaf jafnmikið fyrir brjóstið á mér þegar þeir þingmenn sem styðja þetta mál koma hér fram og segjast leggja þessar breytingar til í ljósi almannahagsmuna. Það séu almannahagsmunir að breyta kerfinu á þennan hátt. Ég get einfaldlega ekki séð samhengi þarna á milli.

Forsætisráðherra sagði hér í ræðu eða andsvari, líklega fyrir tveimur dögum, að breytingarnar væru gerðar með jafnræði í huga, til að gæta jafnræðis. Auðvitað má ekki gleyma því að hér er verið að leggja til ofurskattlagningu á eina grein. Það þarf að horfa á jafnræðið frá öllum hliðum, ekki bara út frá þröngri sýn forsætisráðherra.

Það er niðurstaða þeirra sérfræðinga sem skoðað hafa þetta mál að sá skattur sem lagður er til hér sé langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins. Þessi veiðiskattur mun veikja sjávarútvegsplássin en 80 til 90% aflaheimilda hefur verið úthlutað til skipa á landsbyggðinni þannig að við sjáum að þetta er landsbyggðarskattur. Við sjáum það af viðbrögðum sjávarútvegsbyggðanna hér víða um landið að þau hafa þungar áhyggjur af þessu.

Það er augljóst að afleiðingar þessara gríðarlegu skattahækkana verða þær að fyrirtækin munu þurfa að hagræða enn frekar. Og hvað þarf þá að gera? Það þarf að fækka starfsfólki og það þarf að reyna að draga saman í launum til starfsmanna fyrirtækjanna, það er augljóst. Þess vegna sjáum við þessa miklu samstöðu gegn þessu máli, þeirra sem starfa í landi, þeirra sem sigla út á sjó og afla hráefnisins um borð í skipin og síðan þeirra sem reka sjávarútvegsfyrirtækin, auk þeirra fjölmörgu sem reka þjónustufyrirtæki og þjónusta þessa mikilvægu atvinnugrein.

Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein og við þekkjum það að þegar hann verður fyrir áfalli verður öll íslenska þjóðin fyrir áfalli. Áhrifin af skattheimtunni munu til lengri tíma verða þau að draga úr tekjum ríkisins af sjávarútvegi. Og hvað gerist þá? Þá versna lífskjör almennings í landinu. Enn og aftur, frú forseti, skil ég ekki hvernig hægt er að fara fram með þetta mál og tala um almannahagsmuni og þá síður um hitt málið sem ég má varla ræða hér, um fiskveiðistjórnarkerfið sem enn er í nefnd.

Þær breytingar sem lagðar voru fram á þessu máli, þar sem sérfræðingar og fjármálaráðherra hafa sagt að áætlað sé að þær muni lækka fjárhæðina sem mun renna í ríkissjóð niður í 15 milljarða kr., segja mér að þetta gjald sé enn of hátt. Auk þess sem þær breytingar svara ekki þeim viðamiklu athugasemdum sem borist hafa og varða það að þetta stangist allt saman á við stjórnarskrána þar sem hér sé verið að framselja skattlagningarvald til nefndar. Samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi Íslendinga með skattlagningarvaldið og ákvæði sem kveða á um skatta verða að vera skýr og gerðar eru athugasemdir við hvort tveggja í þeim álitum og umsögnum sem borist hafa.

Frú forseti. Ég nefndi það í upphafi máls míns að við lifum erfiða tíma í efnahagslífi okkar, og auðvitað skortir á tekjur til ríkissjóðs og jafnframt þarf frekari samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs, en við megum ekki verða of svartsýn. Við eigum auðvitað þessar miklu auðlindir, bæði í jarðhita og vatni og í sjónum og ekki síst eigum við mannauð. Þess vegna erum við rík og við megum ekki gleyma því. Þó að þessi ræða mín og sú umræða sem hér hefur farið fram hafi á köflum verið frekar neikvæð þá megum við ekki gleyma þeirri staðreynd.

Við erum að tala um gríðarlega mikla auðlind sem við eigum samanborið við aðrar þjóðir á heimsvísu. Við erum bara 300.000 manna þjóð og eigum miklar aflaheimildir og möguleika til að nýta gríðarlega miklar auðlindir. Það er okkar helsti styrkur og þess vegna hef ég haldið því fram að okkur beri að halda sjálfstæði okkar í hvívetna og ekki fórna þessum náttúruauðlindum, eða yfirstjórninni á þeim, með því að ganga til dæmis í Evrópusambandið. En það er annað mál sem ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma í að tala um hér.

Það er annað orð sem stjórnarliðar nota í sífellu til að rökstyðja mál sitt um það að koma þurfi þessum breytingum á. Það er réttlæti. Víða í ræðum hefur mikið verið talað um réttlæti og að taka þurfi veiðiréttindin af þeim sem nú hafa þau, úthluta þeim á einhvern annan hátt, koma þeim til ríkisins sem muni svo einhvern veginn deila þeim á aðra. En þá spyr maður: Hverja aðra? Hverjir eiga aðrir að sækja sjóinn og skapa þau verðmæti sem þjóðarbúinu eru svo nauðsynleg? Og þá líka: Hvenær eru réttlætinu náð? Þegar allir Íslendingar fá einn fisk eða einn hlut eða hvernig á þetta eiginlega að vera, hvenær er réttlætinu náð?

Það er auðvelt að nota stór orð eins og réttlæti, jafnræði, almannahagsmuni o.s.frv. þegar verið er að halda fram ákveðnum málflutningi. En þegar maður skoðar rökin þá nær maður ekki alveg hvernig fólk hugsar þetta. Ég er stolt af því að við eigum þessa sterku atvinnugrein. Ég er stolt af því fólki sem fer og veiðir fiskinn okkar, kemur með aflann að landi, fer síðan inn í landvinnsluna og skapar enn meiri verðmæti úr því sem búið er að draga að landi. Ég er stolt af fólki sem hefur barist fyrir því að efla fyrirtæki sín og byggt upp markaði erlendis til að koma okkar góða hráefni í verð. Ég tel mig ekki vera þess umkomna að segja: Heyrðu, nú má ég. Ég ætla að fara og veiða fisk, ég kann þetta betur en þú.

Það fólk sem starfar í þessari grein, hvort sem við erum að tala um landverkafólk, sjómenn eða útvegsmenn, kann þetta og gerir þetta afskaplega vel og hefur með eigin framtaki byggt upp starf sitt og fyrirtæki sín. Þetta er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Hún skilar miklum gjaldeyristekjum í íslenskt þjóðarbú og mér er það nánast óskiljanlegt hvers vegna menn ráðast í það að vega að grundvelli þessarar atvinnugreinar á þessum miklu óvissutímum.

Við þekkjum það öll sem fylgjumst með umræðunni að þörf er á mikilli fjárfestingu í sjávarútveginum. Við vitum að þeir sem starfa í greininni hafa lýst því yfir að þeir geti einfaldlega ekki farið í fjárfestingar vegna þess að óvissan sé svo mikil um framtíðina. Menn geta ekki farið í að endurnýja skipaflotann eða fiskvinnsluna vegna þess að menn vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Og það er ekki út af óvissu sem skapast af náttúrunnar völdum, það er ekki vegna hættu á að hér verði aflabrestur, það er ekki vegna þess að við höfum ofveitt auðlindina. Nei, það er út af stjórnmálamönnum, það er út af okkur sem hér störfum, okkur sem að mínu viti eigum að eyða öllum okkar kröftum í að efla reksturinn, að reyna að rétta af hallann á íslenskum fjárlögum, að reyna að efla atvinnulífið þannig að það geti skilað meiri tekjum til ríkisins. Nei, í staðinn fyrir að einbeita okkur að því stöndum við hér og ræðum frumvarp þar sem lagðar eru til þvílíkar skattahækkanir á grundvallaratvinnugrein okkar að menn hafa siglt flotanum í land til að geta komið á samstöðufund og mótmælt samráðsleysinu í málinu. Þetta er staða sem ég tel að við eigum öll að hafa miklar áhyggjur af, að ekki sé talað um það frumvarp sem enn er í atvinnuveganefnd.

Ég er stolt af því að við eigum íslenskan sjávarútveg sem grundvallaratvinnugrein. Ég er stolt af því fólki sem starfar innan þeirrar greinar. Ég er ánægð með að við eigum arðbæran sjávarútveg sem skilar arði án þess að fá til þess styrki úr ríkissjóði. Ég er stolt af því fólki sem fer með aflann á markað, sem selur hann erlendis í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg, til dæmis hjá Evrópuþjóðunum. Ég tel að við eigum að vera stolt af þessari staðreynd og klappa á bakið á því fólki sem fer í þessu erfiðu verkefni og skapar þessi miklu verðmæti. Þetta snýst jú um verðmætasköpun, með því að auka verðmætasköpun aukum við hagsældina í landinu, við aukum hana ekki með því að skattleggja grundvallaratvinnugreinina okkar í drep.



[15:37]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við erum stolt af því fólki sem sækir sjóinn og stendur að markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Það sinnir störfum sínum af stakri prýði og skilar mikilli arðsemi til íslensks samfélags. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að eitt af mikilvægustu verkefnum okkar er að rétta hallann á ríkissjóði svo við höldum ekki áfram að safna skuldum sem lenda á börnum okkar og hlaða óbærilegum vaxtabyrðum á komandi kynslóðir

Ég varð því nokkuð undrandi þegar hv. þingmaður talaði um að skattleggja þessa grein í drep. Er hv. þingmaður ekki stoltari en svo af þessari grein að hún telji veiðileyfagjald upp á 9,50 kr. á þorskígildiskíló vera of mikið fyrir greinina, að hún geti ekki til viðbótar skilað rúmlega 20 kr. á kílóið eða svo þegar gengið er með hætti sem það er í dag og verð á afurðum, olíuverð og framlegðin er jafngríðarleg í greininni og raun ber vitni? Telur hv. þingmaður að einhver útgerðaraðili muni afþakka að sækja sjó upp á það að skila um það bil 30 kr. á kílóið í ríkissjóð við núverandi aðstæður? Telur hv. þingmaður að skortur sé á nýjum aðilum til að hasla sér völl og fjárfesta ef þeir fá að sækja þennan sama fisk upp á þau býtti að borga um það bil 30 kr. á kílóið? Er hv. þingmaður ekki stoltari en svo af íslenskum sjávarútvegi að hún telji að hann sé ekki í færum til að borga um það bil einn tíunda af því sem menn hafa verið að borga fyrir leigu á þessum sömu heimildum á markaði? Hvað á hv. þingmaður eiginlega við? Telur hún að þetta sé grein sem geti staðið undir einhverju og skilað einhverju í sameiginlega sjóði eða ekki?



[15:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ég stolt af íslenskum sjávarútvegi og þeim arði sem hann skilar í þjóðarbúið, eins og ég fór yfir í löngu máli í ræðu minni. En hv. þingmaður getur ekki skautað fram hjá fjölmörgum álitum sem borist hafa um málið, meðal annars frá sérfræðingum sem telja gjaldið vera allt of hátt. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður, sem telst nú vera einn helsti sérfræðingur annars stjórnarflokksins í efnahags- og skattamálum, getur talað með þeim hætti um þessi mál.

Þeir sérfræðingar sem skilað hafa álitum, og ég vitna sérstaklega til þeirra ágætu manna, Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, hafa lagt mat á gjaldið og telja það vera allt of mikið. Síðan komu reyndar breytingartillögurnar fram og þar erum við að tala um að minnsta kosti 15 milljarða kr. Ég tel að það sé allt of mikið.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að við vissum öll að við þyrftum að leggja okkar af mörkum nú þegar efnahagsástandið er eins og það er í dag. Þar er ég líka að tala um fyrirtækin í landinu, ekki bara einstaklingana. En það gengur ekki að segja: Nú, við ætlum bara að skattleggja greinina svona mikið og ef menn vilja ekki taka því, þau fyrirtæki sem eru fyrir í greininni, mega einhverjir aðrir koma í staðinn. Hvers konar virðing er það fyrir þeim sem þegar starfa í greininni, þeim sem byggt hafa upp öflug fyrirtæki og viðskiptasambönd erlendis til að koma íslenskum afla, íslenskum vörum, frá okkur þannig að við fáum sem hagstæðast verð fyrir hann?

Hv. þingmaður minntist ekki á eitt í andsvari sínu sem ég óska eftir að hann gefi álit sitt á, þó að kannski sé ekki tilhlýðilegt að gagnspyrja í andsvari, það varðar athugasemdir sem gerðar eru gagnvart stjórnarskránni og þeirri skattheimtu sem hér er lagt upp með, skattheimtu sem er að mínu mati andstæð stjórnarskránni.



[15:41]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það síðastnefnda tel ég fulla ástæðu til að fara yfir það hvort í einhverjum atriðum kunni að vera um að ræða framsal löggjafarvaldsins á skattlagningarvaldi, það er tæknilegt úrlausnarefni sem ég tel þó mikilsvert að farið verði yfir.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður kallar ofurskattlagningu þá var athugasemdum þeirra sérfræðinga sem þingmaðurinn vísaði sérstaklega til að verulegu leyti mætt í breytingartillögum við 2. umr. og veiðigjaldið lækkað umtalsvert. Það stendur nú í rétt liðlega 30 kr. í því mikla góðæri sem nú er í sjávarútvegi en mun lækka í 9,50 kr. ef hagurinn versnar.

Við eigum ekkert að tala í milljörðum eða prósentum eða vísa í einhverjar skýrslur. Við erum Íslendingar, við vitum býsna mikið um fisk. Það er ekkert mjög flókið að fjalla bara um gjaldið sem krónur á hvert kíló, það skilja flestir Íslendingar. Hvort það er sanngjarnt eða ósanngjarnt að borga á bilinu 9,50 kr. upp í kannski 35 kr. fyrir einkaréttinn á því að veiða þorskígildiskíló á Íslandsmiðum held ég það sé hverjum manni augljóst að það er bara sanngjarnt endurgjald.

Það lýsir mikilli virðingu fyrir þeim sem stundað hafa sjóinn og sinnt mörkuðunum að láta þá áfram njóta mesta hluta aflans á Íslandsmiðum, einkaréttar á þeim aðgangi, á svona sanngjörnu verði. Hv. þingmaður hefur talað fyrir markaðslausnum og þeirri hugmynd að markaðurinn einn verðleggi rétt. Ég get fullyrt það við hv. þingmann að ef við byðum þessar sömu heimildir á markaði yrði verðið margfalt það endurgjald sem ríkið fer fram á í þessu frumvarpi. Það sýnir og sannar að það er sanngjarnt endurgjald sem ríkið fer fram á.



[15:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður skautar algjörlega fram hjá aðalatriðunum í andsvari sínu. Hann svarar spurningu minni varðandi stjórnarskrána á þann veg að það þurfi að skoða þetta. Hvenær á að skoða þetta? Þegar búið er að lögfesta frumvarp sem gengur samkvæmt fjölmörgum athugasemdum gegn fjórum ákvæðum stjórnarskrárinnar? Eru það eðlileg vinnubrögð af hálfu Alþingis? Ég fagna því að sjálfsögðu að hv. þingmaður telji rétt að skoða það, en hvenær á að gera það?

Varðandi upphæð skattsins eða fjárhæðina sem innheimtist þá hentar það hv. þingmanni að tala um ákveðna krónutölu en ekki um heildina. Það er vegna þess að sagt er að hér sé um að ræða 15 milljarða kr. en ekki hafa verið lögð fram nein gögn eða útreikningar sem styðja það. Þá hefur ekki verið reiknað út hver ívilnunin af bráðabirgðaákvæði II getur orðið, alla vega liggja ekki nein gögn fyrir um það að mínu viti. Engin úttekt hefur farið fram á því hvort það nægir til að afstýra þeim ömurlegu afleiðingum sem nefndar voru í þeim umsögnum sem bárust við frumvarpið óbreytt. Hefði ekki verið eðlilegt að skoða það sérstaklega hverjar afleiðingarnar af þessu bráðabirgðaákvæði yrðu á skuldugar útgerðir?

Frumvarpið mun bitna hart á útgerðinni, sérstaklega þeim sem ekki eru með fiskvinnslu. Öllum er ljóst, þar á meðal hv. þingmanni að því er mér heyrist, að verulegar efasemdir eru um hvort frumvarpið samrýmist stjórnarskrá. Það er komin fram full sönnun á því að frumvarpið er enginn grundvöllur til álagningar skatts, það er í raun ekki hægt að nota það, það þarf að henda því út um gluggann og byrja upp á nýtt. Ef menn vilja leggja á landsbyggðarskatt í formi veiðiskatta þarf að gera það þannig að það samrýmist stjórnarskrá og á þann hátt að lagðar séu fram einhverjar tölur sem sýna okkur að ekki sé gengið of nærri greininni. Meðan það er ekki gert held ég að engin samstaða náist um málið og (Forseti hringir.) að það verði ekki afgreitt í þinginu.



[15:46]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það í ræðu í gær hvort ekki væri rangt heiti á þessu frumvarpi, hvort það ætti ekki að heita frumvarp til laga um landsbyggðarskatt. Ég hef fært rök fyrir því að það sé réttnefni á frumvarpinu. Um 90% þeirra útgerða sem hafa veiðiheimildir eru jú staðsettar úti á landi og ansi margar í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi sem nær frá Siglufirði til Djúpavogs. Þar eru Akureyri, Húsavík, Fjarðabyggð, Vopnafjörður og Þórshöfn.

Ég fór yfir þær fjölmörgu umsagnir sem hafa borist frá sveitarstjórnum í mínu kjördæmi. Ég taldi rétt að gera það vegna þess að hér hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans komið fram og sakað okkur um sérhagsmunagæslu fyrir kvótakónga og sægreifa. Á það þá við um þá sveitarstjórnarmenn sem skrifa undir þær umsagnir og eru í Samfylkingunni eða í Vinstri grænum? Ég spyr vegna þess að hvert einasta álit sem borist hefur frá sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum í Norðausturkjördæmi varar sterklega við að frumvörpin séu samþykkt á þann veg sem þau eru sett fram.

Ég ætla að leyfa mér að gagnrýna annað sem ég tel vera grafalvarlegt mál og það er að íbúum á landsbyggðinni er endalaust stillt upp hverjum á móti öðrum. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að það væri jú hægt að taka aukinn skatt af útgerðinni og nota til að greiða niður vaxtagjöld. Ég get ekki séð að sá sé tilgangurinn með þessum veiðileyfagjöldum, það er búið að ráðstafa þessum fjármunum í einstök verkefni. Fjárlaganefnd Alþingis er algjörlega sniðgengin. Þar erum við nú einmitt að ræða um að ráðherrar eigi ekki að geta komið fram og lofað upp í ermina, hvorki með ætlaðar tekjur né hvert fjármunir eigi að fara. Við höfum samþykkt þingsályktunartillögu sem gerir það að verkum að þetta vald á að koma aftur hingað inn á Alþingi.

Vandi ríkissjóðs er mikill, það sýna því allir skilning. En hvaðan skyldu þó tekjurnar vera að koma? Úr sjávarútveginum? Já, vissulega. Eins og verið hefur í marga áratugi. Ekki er svo langt síðan Samfylkingin fór að ræða það héðan úr ræðustól að menn þyrftu ekki að hafa miklar áhyggjur af sjávarútveginum, hér væri komið bankakerfi sem gæti staðið undir þeim tekjum. Skyldu þeir þingmenn hafa haft rangt fyrir sér? Ég er ansi hræddur um það.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar tekið lán frá stóriðjufyrirtækjum, álframleiðendum, inn í framtíðina. Til hvers? Jú, til að fegra stöðu ríkissjóðs í dag. Verið er að taka lán sem mun bitna á komandi kynslóðum vegna þess að þeir fjármunir munu ekki koma tvisvar inn í ríkissjóð. Með ofurskattlagningu á útgerðina er einfaldlega verið að skerða … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna í hliðarsal að trufla ekki þingfundinn.)

Virðulegi forseti. Þetta truflaði mig ekki neitt.

(Forseti (ÁI): Þingfundinn.)

Ég þakka forseta samt fyrir að lækka aðeins í þeim þarna frammi.

En svo ég haldi nú þræði í því sem ég var að reyna að segja þá er einfaldlega ekki endalaust hægt að ganga að mjólkurkúnni. Þú mjólkar hana ekki ef þú ert búinn að höggva undan henni lappirnar og það vita hv. þingmenn.

Af hverju stöndum við ekki hér og ræðum tillögur hinnar svokölluðu sáttanefndar? Af hverju gerum við það ekki? (HHj: Við erum að því.) Við erum nefnilega ekki að því. Tillögurnar sem komið hafa fram frá hæstv. ríkisstjórn voru ekki einu sinni byggðar á réttum reikningsgrunni, taka átti um 50 milljarða út úr greininni. Svo koma menn og viðurkenna mistök, allt í lagi, menn gera mistök og það er ágætt að stíga fram og viðurkenna það. En það á eftir að leiðrétta hið ofurháa veiðigjald sem mun bitna á sjávarútveginum hringinn í kringum landið.

Virðulegi forseti. Nú vantar klukkuna sex mínútur í fjögur. Klukkan fjögur hefst borgarafundur úti á Austurvelli og mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort til standi að fresta þingfundi á meðan fundarhöld fara fram hér fyrir utan húsið.

(Forseti (ÁI): Nei, hv. þingmaður.)

Nei, er svarið. Ég held að Alþingi hefði átt að sýna sjómönnum og fiskverkafólki þá virðingu að gera hlé á þingstörfum þannig að þingmenn geti farið út og tekið í höndina á fólki og kynnt sér með beinum hætti og milliliðalaust hvað fólkið í landinu hefur að segja. Á Austurvelli verða samankomnir sjómenn og fiskverkakonur og -menn og það fólk er að mótmæla eins og sveitarstjórnirnar í landinu. Menn geta haft ýmis orð um stjórnarandstöðuna, gott og vel, en það er alvarlegt mál að beina þeim orðum líka til allra þeirra ágætu sveitarstjórnarfulltrúa sem eru sammála um að of langt sé gengið og að um landsbyggðarskatt sé að ræða.

Hvernig stendur á því að landshlutum er endalaust att saman? Ekki er nóg með að taka eigi veiðiheimildir úr Norðausturkjördæmi og færa eitthvert annað heldur hefur ríkisstjórnin reynt að etja saman einstökum vegaframkvæmdum úti á landi. Nú er meira að segja svo langt gengið að gefið er í skyn að þessi ofurskattlagning geti gert það að verkum að farið verði í samgönguverkefni og jafnvel verði minni niðurskurður í heilbrigðismálum.

Landsbyggðin skal borga ef hún vill fá eitthvað en samt er það þannig — og það er ágætt að hv. þm. Helgi Hjörvar heyri það — að landsbyggðin fær ekki nema brot af því sem hún greiðir í skatttekjur. Búið er að sýna það og sanna, Háskólinn á Akureyri hefur gert skýrslu sem sýnir það og sannar, að þeir fjármunir sem renna í ríkissjóð skila sér ekki til baka í Norðausturkjördæmi. Tökum eitt sem dæmi. Við í fjárlaganefnd höfum verið að berjast fyrir því að menningarstarfsemi úti á landi verði styrkt. En hvað gerist hjá núverandi ríkisstjórn? Sá menningarsamningur sem gerður var á svæði Eyjafjarðar var skorinn niður um 50% af núverandi ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Þetta rennur allt í sömu áttina. Ef landsbyggðin vill fá eitthvað þá skal hún borga. Mér svíður það líka að á meðan til stendur að skattleggja sjávarútveginn, með tilheyrandi skaða fyrir byggðirnar í landinu, þá er ríkisstjórnin reiðubúin að veita skattaívilnanir annars staðar, hún veltir því ekkert sérstaklega fyrir sér.

Virðulegur forseti. Nú er borgarafundurinn að hefjast hér fyrir utan. Ætlar forseti að standa við það að fresta ekki þingfundi á meðan ræður verða haldnar hér fyrir utan? — Þögn er væntanlega sama og samþykki í þessu tilviki þannig að ég lít svo á að fyrri orð standi. Ég held samt, virðulegur forseti, að við mundum auka virðingu Alþingis með því að gera stutt hlé, klukkutíma eða svo, svo að við getum farið út og rætt við þá sem eru að berjast fyrir atvinnu sinni.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað komið fram og sagt: Við erum að vinna eftir hinni svokölluðu sáttaleið. Sumir hafa gengið svo langt að segja að þetta sé allt nánast samhljóða stefnu Framsóknarflokksins. Það kvað svo sterkt að því að þingflokkurinn, allir sem einn, skrifaði undir sérstaka yfirlýsingu þar sem því er algjörlega hafnað að frumvörpin séu í ætt við það sem við framsóknarmenn höfum lagt fram. Um leið sögðum við að við mundum berjast gegn þeim úr ræðustól Alþingis.

Mig langar til að benda á einn lítinn grundvallarmun. Við tölum um auðlindarentu, það er rétt. En það þýðir samt ekki að hugsunin á bak við hana sé sú sama og hjá ríkisstjórnarflokkunum. Hjá ríkisstjórnarflokkunum rennur það allt saman í ríkissjóð og svo fær ráðherra valdheimildir til að dreifa því eftir því sem honum þykir best.

Dr. Níels Einarsson hjá stofnun Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri segir í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að frumvarpið boði fremur flókið og þunglamalegt kerfi þar sem ráðherra tekur sér mikið vald …“

Það var ekki hugsunin í stefnu Framsóknarflokksins, síður en svo. Við vildum að hluti auðlindarentunnar mundi renna til greinarinnar sjálfrar, til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Það var það sem við lögðum upp með. Við töldum nauðsynlegt að nýir aðilar gætu sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auðga þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá vildum við — og það er mikilvægur punktur — að hluti gjaldsins mundi renna aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til einkum til mótvægis því að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótarskattlagningu sérstaklega á landsbyggðinni.

Umsögn kom frá Langanesbyggð sem hefur þurft að glíma við mikla fólksfækkun í gegnum árin. En að undanförnu hefur atvinnulíf í Langanesbyggð staðið í nokkrum blóma. Af hverju? Vegna þess að þar er öflugur sjávarútvegur sem Ísfélag Vestmannaeyja hefur rekið og fjárfest verulega í. Þar er einnig öflug útgerð sem gerir út bátinn Geir ÞH og sér mörgum fjölskyldum í sveitarfélaginu farborða. Fiskvinnslufyrirtækið Toppfiskur skapar einnig fjölda starfa á staðnum. Í umsögninni sem kemur frá sveitarstjórn sem í eru allra flokka menn segir að auðlindagjald sé landsbyggðarskattur. Og þetta er á landsvæði sem hefur verið eitthvert það viðkvæmasta á landinu. Einnig má benda á umsagnir frá Vesturbyggð, Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði — Suðurfjörðunum — sem eru í svipaða átt, og frá Bolungarvík. Þetta eru álit sem koma frá viðkvæmustu svæðum landsins.

Í umsögn Langanesbyggðar segir:

„Sú gríðarlega harkalega og í raun ofsafengna skattlagning sem boðuð er í frumvarpinu mun á skömmum tíma ríða íslenskum sjávarútvegi að fullu.“

Grýtubakkahreppur — ég vek athygli á að sveitarstjórinn mun halda ræðu á Austurvelli innan skamms. Ég hefði svo sannarlega, virðulegi forseti, viljað hlusta á þá ræðu. Grenivík er ekki stórt byggðarlag en það á allt sitt undir því að á svæðinu sé öflug fiskvinnsla. Í umsögn þeirra segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að slík gjaldtaka sem boðuð er í frumvörpunum er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. En það er vísasta og skjótvirkasta leiðin til að leggja fjölmargar sjávarbyggðir í rúst og er Grenivík engin undantekning. Einnig mun ríkissjóður finna verulega fyrir skaðanum þegar búið verður að knésetja sjávarútveginn.“

Maður skyldi þá ætla að ríkisstjórnin væri að breyta sjávarútvegsmálum eins og þeir lögðu til samkvæmt sinni stefnu. Vandamálið var að sú stefna, byggð á ómálefnalegum popúlisma í gegnum árin, stóðst ekki nánari skoðun. Nú eru þingmenn meiri hlutans orðnir algjörlega afhuga því að gjörbylta kvótakerfinu, þeir ætla bara að skattleggja það í drep.

Ég held að við þurfum núna að horfa á þá gjá sem myndast hefur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, okkar ágætu höfuðborgar sem er höfuðborg alls landsins. Einn forsetaframbjóðandinn, Þóra Arnórsdóttir, lét hafa þau orð eftir sér eftir að hún ferðaðist um landið — ég skildi hana þannig og vona að ég fari rétt með — að hún hefði ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu gjá sem orðin væri á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Samt er hún fréttamaður í fremstu röð og maður skyldi ætla að Ríkisútvarpið sinnti landsbyggðinni jafnvel þó að svæðisbundnu stöðvarnar hafi illu heilli verið lagðar niður á sínum tíma. En það er gott, og því ber að fagna, þegar fólk áttar sig á þeirri gjá sem myndast hefur. Sú gjá er á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar, það er enginn annar sem ber ábyrgð á þeirri gjá sem myndast hefur á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Af hverju ræðum við ekki þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að sem snýr að því að mótuð verði byggðastefna fyrir allt landið? Það skiptir öllu máli að mótuð verði heildstæð byggðastefna til að minnka þá gjá og það bil sem verið hefur á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Það gengur ekki að fólk standi á Austurvelli trekk í trekk til að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar.



[16:07]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að halda því til haga að þær umsagnir sem lesið var úr eru um frumvarpið eins og það var þegar það kom fyrst fram en það hefur tekið allnokkrum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar, einkum sá þáttur er lýtur að veiðigjaldinu sem lækkað hefur verið mjög verulega frá því sem var þegar þessar umsagnir voru gefnar.

Það er alltaf spurningin: Hvað er sanngjarnt veiðigjald? Veiðigjaldið eins og það er núna í frumvarpinu nemur 9,50 kr. á þorskígildiskíló, sem á að renna til þess að kosta ýmsa þjónustustarfsemi við sjávarútveginn og ekki til neins annars. (Gripið fram í.) Við það bætist síðan í stórkostlega góðu árferði eins og nú er að þegar gengi krónunnar er í sögulegu lágmarki og allar aðstæður hinar hagfelldustu eigi greinin að skila liðlega 20 kr. til viðbótar inn í sameiginlega sjóði landsmanna.

Fyrst hv. þingmanni finnst það óhæfilegt er eðlilegt að kalla eftir því hvað hv. þingmanni finnst sanngjarnt að greitt sé í sameiginlega sjóði fyrir einkaréttinn fyrir afnotum af auðlindinni. Eru það þá 20 kr. á kílóið eða 10 kr. eða kannski bara 2 kr. eins og var í tíð Framsóknarflokksins? Það væri mikilvægt að fá það fram hjá hv. þingmanni. En ég harma að verið sé að reyna að etja saman landsmönnum úr ólíkum landshlutum. Ég veit ekki betur en að hér í Reykjavík séu höfuðstöðvar Brims og Granda, að hér sé Ögurvík og fjöldi annarra öflugra útgerðarfyrirtækja. Ég minni á að skattlagning á umframhagnað í sjávarútvegi er skattlagning á gróða eigendanna, ekki á starfsemina í byggðunum. Það er sá gróði sem hingað til hefur verið nýttur m.a. til þess að kaupa Toyota-umboðið í Reykjavík, til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum, í Kaupþingi, í Glitni, til þess að kaupa verslunarfermetra í Kringlunni og Smáralind. Þessi umframhagnaður hefur að langminnstu leyti farið út í byggðirnar og það á ekki að etja saman venjulegu fólki úr ólíkum landshlutum á Íslandi því að málið snýst um að almenningur fái eðlilegt endurgjald af þeim stórgróða sem annars fer í fjárfestingar af slíku tagi.



[16:09]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður geri sér ekki grein fyrir því að 90% allra veiðiheimilda eru úti á landi, hvorki meira né minna. Sá hagnaður sem orðið hefur vegna krónunnar, sem hefur vissulega bjargað Íslendingum í þeim þrengingum sem við glímum nú við, hefur farið til nýsköpunar og atvinnulífs á svæðunum.

Það er þess vegna sem allar þessar ályktanir koma frá sveitarstjórnum úti á landi. Af hverju skyldu sveitarstjórnirnar, sem í eiga sæti samflokksmenn hv. þm. Helga Hjörvars og líka félagar úr Vinstri grænum, skrifa undir þessar ályktanir?

Ég er því algjörlega ósammála að frumvarpið hafi tekið allnokkrum breytingum. Það sem breyttist var það að menn gátu leiðrétt þau mistök sem sett voru fram í reiknireglunni og gerðu það að verkum að skattlagningin, sem átti að vera afturvirk, hefði numið um 50 milljörðum kr. Það er eðlilegt að menn leiðrétti svona mistök, guði sé lof. Ég skal líka segja hv. þingmanni að við framsóknarmenn höfum sagt að við séum reiðubúnir að samþykkja veiðigjald sem nemur þeirri fjárhæð sem lögð var til í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012, það nemur um 9,5 milljörðum kr. ef ég man það rétt, það er um það bil sú fjárhæð.

Ég hef gagnrýnt þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa komið fram og sagt hvað þeir vilja, en ég átta mig líka á því að með því að segja hvað við erum tilbúnir að samþykkja gefum við höggstað á okkur sem ríkisstjórnin hefur ekki hikað við að nýta sér. Ég efast ekki um að þingmaðurinn muni gera það hér á eftir.



[16:12]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá höfum við fengið það fram og mér finnst það fagnaðarefni að hv. þingmanni þyki hæfilegt að greiddar séu um 20 kr. í endurgjald fyrir hvert þorskígildiskíló á Íslandsmiðum. Um það erum við ekki sammála, við teljum í stjórnarflokkunum að menn séu í færum til að standa skil á liðlega 30 kr., sérstaklega þegar til þess er horft að þar er um að ræða 1/5 af framlegðinni í greininni. Það eru gjöld upp á 15 milljarða á grein sem leggur fram 80 milljarða kr. En í aðalatriðum eru þetta ólíkar áherslur í skattlagningu, ekki er um neinn grundvallarágreining að ræða og ekki er tilefni fyrir hv. þingmann eða flokksfélaga hans til að standa í málþófi hér dögum saman því að það er ósköp hversdagslegt að stjórnarmeirihluti kunni að vilja fara í ögn meiri skattálögur í einhverri tiltekinni atvinnugrein en stjórnarandstaðan. Hann verður bara að njóta síns lýðræðislega meiri hluta til að ráða slíkum málum til lykta. Það kann að vera meiri ágreiningur um fiskveiðistjórnarmálið, það er svo annað mál.

Ég geld enn varhuga við því að verið sé að etja saman fólki á ólíkum landsvæðum, því að við sem talað höfum fyrir auðlindagjöldum í sjávarútvegi höfum líka talað fyrir auðlindagjöldum í orkuiðnaði. Það eru sannarlega gjöld sem fyrst og fremst legðust á virkjanir hér á suðvesturhorninu og á þá miklu notkun og það háa verð sem er á orku á suðvesturhorninu í hagkvæmri dreifingu. Það mundi að miklu leyti jafna myndina og skiptingu milli landshluta. Auk þess legg ég áherslu á að sá umframhagnaður sem hér er verið skattleggja hefur því miður ekki skilað sér í byggðunum fyrst og fremst heldur í öðrum og óskyldum fjárfestingum í útlöndum og á höfuðborgarsvæðinu. Það er þess vegna mikil einföldun að tala um að það sé sérstakur landsbyggðarskattur þó að menn ætli sér að fá hluta af þeim mikla umframgróða inn í sameiginlega sjóði áður en hann rennur til fjárfestinga á höfuðborgarsvæðinu og í útlöndum.



[16:14]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn grafinn. Það er endalaust verið að gefa í skyn að þessi hagnaður, sem er vissulega af útgerðinni, renni í einhver gæluverkefni úti í löndum. Þá ætla ég að endurtaka: Af hverju skyldu þá allar þessar sveitarstjórnir lýsa yfir óánægju sinni og tala um landsbyggðarskatt? Allir þessir sveitarstjórnarmenn eru bara venjulegt fólk sem vill gæta hagsmuna byggðarlaga sinna en ekki einhverra sérhagsmuna. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður mundi sjá sóma sinn í því að hlusta á svar mitt við spurningum sínum en ekki hlaupa í burtu.

Hér er um ögn meiri skattahækkanir að ræða. Ég held að hv. þingmaður geri sér enga grein fyrir því hversu miklir peningar 6 milljarðar kr. eru og hvað hægt er að gera við 6 milljarða kr. í dag. Það er rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í eitt og hálft ár, hvorki meira né minna, og Háskólans á Akureyri í svipaðan tíma. Það eru engar smáfjárhæðir sem hv. þingmaður gerir lítið úr og svo segir hann að þingmenn stjórnarandstöðunnar etji saman landsbyggð og höfuðborg. Hverjir skyldu nú vera að því aðrir en ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir? Eru það ekki þeir sem segja: Við ætlum að taka peninginn og setja í samgönguverkefni. Var það ekki það sem þeir sögðu, að sniðganga fjárlaganefnd Alþingis algjörlega, vaða yfir hana á skítugum skónum? Hverjir skyldu vera að etja saman einstaka landshlutum með því að lofa að taka aflaheimildir frá einu byggðarlagi og setja þær í annað?

Svo sagði hv. þingmaður að við byggjum við stórkostlega gott árferði þegar verðbólgan hefur verið yfir 6% síðustu 12 mánuði. Ég held að ég og hv. þingmaður lifum ekki í sama veruleika, frú forseti.



[16:16]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þingmanni að eðlilegt væri að fresta þingfundi á meðan fundurinn væri hér úti og þá mundi kannski verða hlustað á það sem þar væri sagt. En því miður hef ég ekki mikla trú á því að þingmenn stjórnarflokkanna muni hlusta frekar en fyrri daginn enda eru þeir mjög sjaldséðir hér í salnum og taka lítinn þátt í umræðunni.

Hv. þingmenn, stjórnarliðar, koma hér og halda því fram að það sé ofboðslega gott árferði í sjávarútvegi, sem það sannarlega er sem betur fer eftir reyndar mörg mögur ár þegar gengið var mjög sterkt. En þegar farið er svona glæfralega fram í skattlagningunni, af því að nú vitum við að fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið í sögulegu lágmarki meðal annars vegna þeirrar óvissu sem er í kerfinu, vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann það þá ekki varhugavert og það þurfi að skoða sérstaklega vel þegar menn skoða áhrifin af skattlagningunni hvort það hafi áhrif á einmitt það að menn fari í fjárfestingar til að tryggja okkur sem hæsta verð og bestan aðgang að mörkuðunum þannig að við fáum í reynd besta verð sem völ er á?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í andsvörum áðan og hvort hann geti tekið undir það sem mér fannst mjög sérkennilegt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að gera athugasemdir við ræðu hv. þingmanns um að verið væri að etja saman höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, en á sama tíma að halda því fram að þeir sem starfa í sjávarútvegi séu allir að kaupa bílaumboð eða séu í braski og einhverju svoleiðis og hafi í raun og veru nýtt alla fjármunina sem eru í greininni til þeirra hluta en ekki til þess að byggja upp í samfélögunum þar sem þeir starfa.



[16:19]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður er bara ekki vanur þessari nýju og röggsömu stjórn hæstv. forseta en hana ber að þakka.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni, það er í rauninni galið að við, tveir þingmenn, skulum standa hér og ræða um hið mikilvæga mál sem umfjöllun fer fram um á sama tíma hér úti á Austurvelli, og að hæstv. forseti skuli ekki fresta fundum eins og virðingarvert væri að gera að mínu mati.

Ég vil svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um leið og ég þakka fyrir fyrirspurnir hans. Það skiptir öllu máli að hér sé hagkvæmur og arðsamur sjávarútvegur. Þegar við loksins fórum að veiða af kappi og færðum fiskveiðilögsöguna úr 50 mílum og síðan upp í 200 mílur komumst við út úr moldarkofunum. Þá gátum við farið að byggja upp mennta- og heilbrigðiskerfi sem var jú hér áður fyrr talið lofsvert, en í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa verið höggvin skörð í þau.

Það er ótrúlegt að hlusta á þann málflutning að eigendur fyrirtækja séu að arðræna þjóðina þegar við vitum að þeir standa fyrir störfum víðs vegar um landið. Ég hef ítrekað sagt að ég er reiðubúinn að berjast fyrir sjómönnum, fiskverkakonum og -mönnum og öllum þeim sem vinna við afleidd störf tengd sjávarútvegi hringinn í kringum landið. Það er það sem við eigum að horfa til á meðan haldinn er borgarafundur á Austurvelli þar sem tillögum stjórnarinnar er mótmælt harðlega.



[16:21]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem hann kom töluvert inn á í ræðu sinni. Það er einhvern veginn þannig að hv. þingmenn gera sér ekki allir grein fyrir því að með því að fara inn í sjávarbyggðirnar með fyrirhugaða skattlagningu — sem áætluð er á næsta ári um 15 milljarðar fyrir utan það að skerða aflahlutdeildirnar og aflamarkið, þetta liggur kannski nærri 20 milljörðum þegar allt er tínt saman — þá er verið að taka það út úr þeim samfélögum. Hv. þingmaður reyndi að benda á það í ræðu sinni og varaði við þeim afleiðingum sem það hefur til uppbyggingar í viðkomandi samfélögum hvort heldur sem það er í afleiddum störfum, beinum störfum eða öðrum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Á sama tíma hafa ríkisstjórnarflokkarnir komið fram með þeim hætti að skera á niður alla grunnþjónustu á landsbyggðinni. Skilaboðin eru því skýr, það á skera meira niður og pína fólk til að borga fleiri skatta, þennan landsbyggðarskatt.

Því vil ég spyrja: Ef lögð yrðu á mjög há gjöld, t.d. á Orkuveitu Reykjavíkur, það er náttúrlega viðurkennt að hún hefur yfir auðlind að ráða sem er heita vatnið, mundu hv. þingmenn þá ekki gera sér grein fyrir því að það gæti kannski haft áhrif á búsetuskilyrðin á höfuðborgarsvæðinu ef hækka þyrfti heita vatnið eða kyndinguna hjá fólki um helming eða eitthvað slíkt? Það gefur augaleið að það yrði með þeim hætti.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki mikilvægt að fylgjast með hvað muni gerast við þessa skattlagningu. Í sumum tilfellum, eins og hv. þingmaður vitnaði reyndar til í ræðu sinni, er verið að taka meira núna í hækkun á auðlindagjaldinu en heildartekjur viðkomandi sveitarfélaga.



[16:23]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á þeim mikla og góða meiri hluta sem er úti á Austurvelli að andmæla tillögum ríkisstjórnarinnar. Þegar maður horfir hér yfir, við höfum ágætt útsýni, þá er mikill meiri hluti sem ræðir og vill breytingar á þeim tillögum sem hér eru til umræðu. Það er vissulega einhver hópur sem vill skattleggja og breyta en hann er fámennur og lítið fer fyrir honum eftir því sem ég best veit.

Þetta snýst að sjálfsögðu um störf úti á landi. Það að segja að verið sé að etja saman höfuðborg og landsbyggð er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það mundi heyrast hljóð úr horni svo sannarlega, virðulegur forseti, ef orkureikningar borgarbúa mundu hækka.

Málflutning minn má samt ekki skilja þannig að við á landsbyggðinni viljum höfuðborginni og þeim sem þar búa allt hið versta. Ég lærði það á mínu heimili að maður ætti að standa upp og verja sig þegar á manni væri brotið en maður þyrfti að passa sig á því um leið að valta ekki yfir andstæðinginn eða þann sem manni er att upp á móti. Það er það sem ég upplifi á landsbyggðinni núna, höfuðborgin býr við alla stjórnsýsluna, Alþingi er hér, stofnanir flestar, langflestar sem draga til sín ótrúlega mikið fjármagn og hér stendur til að byggja hátæknisjúkrahús í fyrsta áfanga fyrir 60 milljarða og samtals fyrir 100 milljarða. Það er ekki góður leikur, virðulegur forseti.



[16:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða um hugsanlega sátt á milli stríðandi fylkinga. Á Austurvelli er annars vegar hópur sem er á móti því frumvarpi sem við ræðum hér og svo hins vegar hópur sem er á móti þeim hópi sem er að mótmæla. Mér sýnist því að það sé svona lauslega séð 1/3 á móti 2/3. Það er ekki nógu gott, virðulegi forseti, að sjávarútvegsmálin séu í þeim farvegi, að menn séu meira að mótmæla en að vinna uppbyggilega að því að finna lausnir. Mér finnst að allt ferlið síðustu 20–30 árin hafi meira verið valdabarátta en að menn leiti sameiginlega að lausn.

Ég fór í gegnum það í ræðu minni áðan að allt grundvallast þetta á setningunni: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Í þessu eru nokkur óljós atriði. Menn vita nokkurn veginn hvað nytjastofnar eru, menn vita líka nokkurn veginn hvað Íslandsmið eru, en sameign er ekki alveg klárt hugtak. Og íslensk þjóð er heldur ekki hugtak sem mér finnst vera nægilega vel sinnt, mér finnst menn skauta of létt í gegnum það.

Sumir tala endalaust um að þeir þekki vilja þjóðarinnar, þjóðin vill þetta og þjóðin vill hitt. Mér sýnist nú ef menn fara að skoða þetta að það sé hugtakanotkun sem — ég veit ekki hvað ég á að segja — er mikið notuð hjá einræðisherrum í heiminum. Þeir vita oft gjarnan hver er skoðun þjóðar sinnar og tala fyrir hönd hennar. Ég hef ekki hugmynd um hver skoðun íslenskrar þjóðar er. Ég tala reyndar við fólk, ég heyri skoðanir á facebook, ég les blöðin og veit svona nokkurn veginn hvaða skoðanir fólk hefur en ég get ekki sagt að ég viti hver skoðun þjóðarinnar sé og held ég hafi aldrei nokkurn tíma reynt að koma með skoðun þjóðarinnar. Hún kemur náttúrlega best fram í kosningum hjá þeim hluta þjóðarinnar sem tekur þátt í kosningunum.

Við erum að ræða hérna mikla hagsmuni. Auðlindin við Ísland er óskaplega arðbær, og ég ætla að fara lauslega í gegnum nokkra þætti. Þrátt fyrir gífurlega hlekki sem eru á útgerð á Íslandi — sumir hafa sagt að til að stunda útgerð á Íslandi þurfi menn fyrst að læra lögfræði, alla vega fara í smákúrs, þó að þeir séu jafnvel að gera út trillu þurfi þeir að vita hvaða lög gilda um útgerðina fram og til baka. Svona reglur sem eru sérreglur fyrir íslenska útgerð og ekki fyrir önnur fyrirtæki í landinu hamla og virka eins og hlekkir á útgerðinni. Ég sé oft útgerðina fyrir mér eins og kraftmikinn risa í hlekkjum sem dröslast áfram og nær góðum árangri þrátt fyrir þá af því að auðlindin er arðbær. En fyrir þjóðina er þetta ekki arðbært að leggja svona hlekki á útgerðina. Þess vegna mundi ég vilja að útgerðin bæri akkúrat enga hlekki en, eins og ég gat um áðan, að fundin yrði önnur leið til að koma þessari hugsun um sameign þjóðarinnar til þjóðarinnar. Hún gengur út á það, eins og ég gat um áðan, að taka 1/40 af auðlindinni og dreifa henni á alla íbúa landsins sem hafa verið skattskyldir síðustu fimm ár sem og börnin þeirra.

Þetta mundi þýða algjöra markaðsvæðingu. Sumir eru kannski ekkert voðalega hlynntir markaðsvæðingu og tala um nýfrjálshyggju og annað slíkt, en ég held nú samt að flestir vilji að markaðurinn ákveði verð á vöru, svona flestir. Kannski má undanskilja einhverja hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru ekki alveg hlynntir markaðskerfi og samkeppni, en ég held að flestir aðrir þingmenn í grunninn taki undir það að samkeppni ákveði verðið.

Eitt dæmi. Hér er ákveðið að hækka grunngjaldið, almennt veiðigjald úr 8 kr. í 9,50 kr. Hver í ósköpunum fann þetta út? Hver ákvarðaði þetta gjald? Hvernig var það fundið? Einhver nefnd hv. Alþingis sest niður og ákveður að það eigi að vera 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló sem menn eigi að greiða fyrir þá þjónustu sem felst í fiskveiðistjórn, eftirliti og öðru slíku. Þetta á að sjálfsögðu að koma fram í markaði, það er markaðurinn sem á að finna út úr því: Hvað vill útgerðin og hvað getur útgerðin greitt fyrir kvótann, fyrir heimildina? Þá kemur þetta í ljós og þarf ekki að ákvarðast ofan frá, frá Alþingi.

Sama er með hinar hugmyndirnar sem menn eru með. Það er alltaf eins og Alþingi sé að reka eitt heljarinnar hlutafélag og ákveði verð hingað og þangað. Ég tel að það sé miklu betra að markaðurinn ákveði verðið eins og reyndar er gert víðast hvar. Þegar ég kaupi brauð úti í búð er það ekki einhver ráðherra sem ákveður verðið á því brauði. Það var reyndar einu sinni reynt hér á Íslandi, það hét vísitölubrauð, og þá var allt verð ákveðið ofan frá. En menn eru löngu hættir við svoleiðis hugmyndafræði og vilja hafa markað.

Ég held að í stað þess að slást svona fram og til baka og koma með hugmyndir um að leggja eitthvað sem ég kalla sovétkerfi á útgerðina, sem verður gífurlegt helsi á hana, ættu menn að hugleiða það og skoða í alvöru að koma með eitthvert markaðskerfi sem felst í því að dreifa kvótanum á þjóðina og síðan mundi hvert heimili reyna að selja sína heimild. Útgerðarmenn gætu keypt, þeir sem veiða ódýrast og selja dýrast gætu borgað hæst verð fyrir aflahlutdeildina eða veiðihlutdeildina. Ég mundi vilja hafa framsal gjörsamlega frjálst vegna þess að það hefur sýnt sig, og flestir eru því sammála, að því frjálsara sem framsal er því arðbærari er útgerðin. Með frjálsara framsali yrði meiri samkeppni inni í greininni og því meiri samkeppni. Þeir sem eru markaðssinnaðir hafa þá trú að samkeppni lækki verð til neytenda og ákvarði réttlátt verð á allar vörur. Við ættum að stefna að þessu, frú forseti, en ekki að keyra stöðugt yfir hvert annað á annan hvorn mátann. Mér finnst frumvarpið sem við ræðum — og alveg sérstaklega frumvarpið sem ekki er hér til umræðu, þ.e. frumvarpið um fiskveiðistjórn, það er alveg skelfilegt.

Eitt lítið dæmi. Við framsal á heimildum á að borga 3% til ríkisins af heimildinni. Ef það er gert 22 sinnum, t.d. ef menn eru að skipta á þorski og ýsu og síðan á ýsu og karfa og svo aftur til þess að fá fram hagræðingu í því að ein útgerð sérhæfi sig í einni tegund, sem er mjög arðbært, það getur verið mjög sniðugt fyrir útgerð að sérhæfa sig bara í loðnu eða bara í kola eða einhverju slíku, þá eru við hvert einasta framsal tekin 3%. 22 framsöl helminga þá veiðiheimild sem viðkomandi útgerðarmenn áttu. Og jafnvel þó að framsalið færi í hring er það helmingað, 0,97 í 22. veldi er hálfur. Allt í þessum frumvörpum miðar að því að færa kvótann hægt og bítandi, mismunandi hratt til ríkisins. Og það sem er verst í því frumvarpi sem við ræðum ekki núna en er enn þá í nefnd er að eftir 20 ár eigi allt framsal að vera bannað.

Þá segja menn: 20 ár, það er nú alveg nógu langur tími. En sá tími líður, frú forseti, og eftir 15 ár eru fimm ár eftir og þá yrði allt í uppnámi í greininni, ég lofa því. Það er sívaxandi spenna að myndast þarna, sívaxandi óvissa um framhaldið. Það var nákvæmlega það sama með sáttanefndina sem kom með hugmynd sína, að hún var ekki hugsuð til frambúðar heldur eingöngu í stuttan tíma. Það átti að gerast á 15 árum og síðan á átta árum en hvað gerðist eftir þau 23 ár, það gat enginn sagt mér. Þær lausnir sem menn hafa fundið hingað til eru ekki varanlegar. Ég skora á menn að leita og skoða aðrar lausnir eins og þá sem ég hef komið með, sem óneitanlega færir kvótann til þjóðarinnar á ákveðnum tíma en eykur um leið verðmæti eigna útgerðarinnar.



[16:36]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem er önnur ræða hans sem ég hlýði á í dag. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur, eins og ég sagði fyrr í dag, sett sig afar vel inn í málefni sjávarútvegsins og unnið sínar eigin tillögur en ekki tillögur Sjálfstæðisflokksins sem hann tilheyrir og fylgir að málum á þingi. Tillögur hv. þingmanns eru að mörgu leyti ágætlega útfærðar og auðskiljanlegar. Að flestu leyti er auðvelt að átta sig á því hvernig leikreglurnar eiga að vera og hvert markmiðið er, eins og hv. þingmaður sagði áðan, þ.e. að það náist að koma hér á fullkomnu markaðskerfi með aflaheimildum í sjávarútvegi.

Má ekki segja sem svo að hv. þingmaður sé í raun að leggja til með tillögum sínum hina fullkomnu fyrningarleið ef markmiðið er að innkalla allar heimildirnar og dreifa þeim síðan til einstaklinga í samfélaginu sem fá þá að minnsta kosti ígildi heimilda til að framselja eða selja? Þá mundi myndast markaður meðal þjóðarinnar allrar og smátt og smátt safnaðist þetta saman þar sem það er hagkvæmast, samkvæmt tillögum hv. þingmanns. Er þetta ekki nánast hin hreina, tæra fyrningarleið sem leiðir síðan til fullkominna markaðslausna, eins og hv. þingmaður telur að sé besta leiðin hvað það varðar? Ég get alla vega ekki skilið það með öðrum hætti. Hv. þingmaður er í það minnsta ekki fylgjandi þeim niðurstöðum, sem ég fór yfir fyrr í dag, sem komið hafa fram frá fjölmörgum aðilum í skýrslum og tillögum sem unnar hafa verið hér jafnt og þétt á síðustu tveim áratugum. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt skilið hjá mér varðandi tillögur hv. þingmanns að hann vilji innkalla allar aflaheimildir, dreifa þeim til hvers einasta (Forseti hringir.) Íslendings og þá muni myndast hér hið fullkomna markaðskerfi í sjávarútvegi?



[16:38]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann um þann farveg sem þessi mál, stjórn fiskveiða og veiðigjaldamálið eru komin í. Úti á Austurvelli er nú fjölmennur fundur þar sem saman eru komnir sjómenn og þeir sem tengjast útgerðinni og þar eru haldnar málefnalegar ræður, menn eru að fara yfir málin. Á sama tíma er þar annar hópur sem efnt hefur til mótmæla. Hann blæs í háværa lúðra og hlustar ekki á neina ræður. Það er greinilega mikil gjá sem hefur myndast þarna á milli. Til dæmis heyrði ég þegar ég var þarna úti áðan að þegar einn ræðumaðurinn ræddi um að veiðigjöldin væru sannarlega landsbyggðarskattur, var hrópað úr þessum háværa hópi: Niður með landsbyggðina. Ég vil biðja þingmanninn um að segja mér hvort hann sé sammála því að telja megi að taka eigi svo hátt veiðigjald úr byggðunum sem er kannski 10–12 sinnum hærra en það sem þegar hefur farið þaðan í dag.

Sú gjá sem margir hafa óttast í mörg ár að sé að myndast á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar virðist vera að dýpka vegna þeirrar öfgapólitíkur, sem ég vil kalla svo, þegar ríkisstjórnin gengur mjög harkalega fram án þess að hafa samráð við hagsmunaaðila, án þess að hafa samráð við sveitarfélögin. Þær umsagnir sem komu til atvinnuveganefndar voru allar á einn veg, hvort sem þær voru frá sveitarfélögunum, sem er hitt stjórnsýslustigið með kjörnum fulltrúum í landinu, alveg óháð flokkum — því að í þessum sveitarfélögum sitja auðvitað margir mismunandi flokkar — eða frá öðrum umsagnaraðilum. Ég vildi heyra álit þingmannsins á því hvort hann óttist ekki að þessi gjá og umræðan um landsbyggðina versus höfuðborgarsvæðið, sé að dýpka, m.a. af völdum ríkisstjórnarinnar og umræðunnar um þessi frumvörp.



[16:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Lengi hafa verið miklar deilur og risið úfar með mönnum sem eru fylgjandi óbreyttu ástandi og hinum sem vilja að þjóðin fái hlutdeild í kvótanum en í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga stendur að nytjastofnar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Mér finnst sú deila heldur hafa versnað og gagnkvæm rök hafa fjarlægst hvort annað. Menn ræða ekki hver við annan heldur hver fram hjá öðrum. Mér finnst markmiðið vera að berja á andstæðingnum í staðinn fyrir að ræða við hann. Það kristallast úti á Austurvelli en það er líka inni í þingsal og endurspeglast í orðræðunni sem oft og tíðum er mjög hvöss og hörð og ekki miðuð að því að finna sameiginlegar lausnir.

Ég benti á lausn sem ég þykist hafa hugsað út. Hún þarf ekki að vera sú albesta en ég hef ekki séð neina aðra sem er jafngóð eða betri. Sú lausn sem ríkisstjórnin kemur fram með er greinilega bara til að keyra yfir. Það er ekkert hugsað um hag útgerðarinnar, það er búið til eitthvert kerfi sem ekki er bundið einhverjum markaði eða einhverju slíku. Ríkið á að vera allt um lykjandi og ég hef þá trú að það sé bara ekki gott. Slík tilraun var gerð í Sovétríkjunum í 70 ár og tókst ekki vel. Ég held því að menn þurfi og verði að skoða einhverjar nýjar lausnir. Og vissulega er það rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta er landsbyggðarskattur vegna þess að sérhver aukning á skattheimtu er ekki til annars en að að byggja upp ríkisvaldið sem er í Reykjavík.



[16:43]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í því áliti og umsögn sem Þóroddur Bjarnason prófessor sendi með til atvinnuveganefndar er fjallað dálítið um áhrif á byggðaþróun og hversu slæmar afleiðingarnar verða af því kerfi sem við höfum sett upp, til dæmis varðandi hluta 2 sem verið er að skilgreina betur í nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða. Það tengist auðvitað veiðileyfagjaldinu að nokkru leyti, strandveiðum, byggðaívilnunum og því sem þar er. Ekki hefur tekist að byggja upp byggðirnar með þessum hætti.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir fór ofan í greinaskrif Vífils Karlssonar þar sem segir að 75% af umsvifum ríkisins séu í Reykjavík en aðeins 40% af skatttekjunum. Ef við erum sammála um að veiðigjaldið með þessari háu álagningu, án þess að það fari beint aftur til þeirra svæða þar sem auðlindin er og þar sem rentan verður til, renni síðan allt til ríkisins, hvaða aðrar leiðir sjáum við fyrir okkur? Hvaða aðrar leiðir sér hv. þingmaður fyrir sér? Það hefur til að mynda verið rætt um að aflaheimildirnar verði meira skilyrtar, þessi pottur 2, að annars vegar verði skilyrtar aflaheimildir og óskilyrtar, þessar skilyrtu gætu meðal annars tengst löndun og vinnslu eða einhverju slíku. Svo er auðvitað hinn möguleikinn að menn hreinlega taki fjármunina og færi þá aftur til í veiðigjaldafrumvarpinu, einhver ákveðin hlutföll. Hvernig líst hv. þingmanni á það? (Forseti hringir.) Þriðja leiðin væri auðvitað sú að menn færu í stórfelldan flutning á opinberri þjónustu út á land til þess að tryggja meira jafnræði hvað þetta varðar.



[16:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af einhverjum ástæðum eru 80% af útgerðinni úti á landi. Það stendur hvergi í lögum og ég hef hvergi séð neitt sem þvingar útgerðina út á land. Það virðist því vera að útgerðin sé hagkvæmust úti á landi. Eftir því sem maður gerir umhverfi útgerðarinnar liprara, eftir því sem við léttum meiri hlekkjum af útgerðinni, sem er, eins og ég sagði áðan, dugmikill risi sem skjögrar um með gífurlega hlekki, og svo á að stórauka þá, þá held ég að hún muni leita út á land vegna þess að þar er styst á miðin, þar er sérþekkingin og mjög margt ætti að leiða til þess að útgerðin leiti þangað.

Það sem þetta frumvarp gerir hins vegar er að setja stóraukna skatta á útgerðina þannig að mörg fyrirtæki munu fara á hausinn. Það er viðurkennt. Menn segja bara: Það er allt í lagi, jú, fyrirtæki þurfa að fara á hausinn. En hvert einasta fyrirtæki sem fer á hausinn skilur eftir sig sár. Fólk missir vinnuna. Það getur vel verið að það komi nýtt fyrirtæki í staðinn en það skilur eftir sig sár. Það er það sem ég held að sveitarfélögin óttist, þ.e. áhrif frumvarpsins, vegna þess að skattlagningin er hreinlega of mikil. Hún er of brött og of mikil og þó að búið sé að milda það töluvert held ég að hún sé enn þá of brött fyrir utan það að það er ekkert sjálfgefið að sjávarútvegur gangi vel eins og fyrstu þrjú árin eftir hrun þegar gengið er í lágmarki. Ég ætla að vona að menn reikni ekki með því að gengið haldist svona lágt, að lífskjör þjóðarinnar haldi áfram að vera svona léleg og að fjölskyldurnar eigi áfram að blæða fyrir lágt gengi. Ef gengið hækkar versnar staða útgerðarinnar og þá er hún ekki lengur í færum til að borga til dæmis 9,50 kr. á kíló fyrir utan hitt gjaldið.



[16:47]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar ég kom á þing fyrir mörgum árum síðan átti ég í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal og fannst ekki tilefni til að svara síðara andsvari hans, ég féll frá orðinu og taldi ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um það efni sem við ræddum. Það varð til þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal varð gríðarlega reiður og sár og fór í ræðustól undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta og sakaði mig um lítilsvirðingu í sinn garð sem þjóðkjörins fulltrúa og þar fram eftir götunum. Ég tók það mjög alvarlega og hef síðan leitast við að svara öðrum þjóðkjörnum fulltrúum þegar þeir beina til mín andsvörum. Þó að við kunnum að hafa ólíkar skoðanir eða vera ósáttir það þá er það bara skylda okkar við lýðræðislega umræðu að sinna því.

Það kom mér þess vegna mjög á óvart að hv. þingmaður skyldi ekki sýna hv. þm. Birni Val Gíslasyni þá virðingu (Forseti hringir.) að svara andsvari hans. Ég hef síðan verið upplýstur um að það hafi verið gert skipulega (Forseti hringir.) í umræðunni í dag. Ég vara sannarlega við því hér að menn fari með skipulögðum hætti að taka enn eitt skrefið til þess að grafa undan virðingu þessarar stofnunar með því að stunda einelti (Forseti hringir.) af þessu tagi. (Gripið fram í.)



[16:49]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls varðandi það mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi áðan. Það er ekki rétt að menn hafi með skipulögðum hætti neitað að fara í andsvör, ég held að það sé ekki rétt fyrir virðingu Alþingis, ég tek undir það. Ég hef hins vegar ákveðinn skilning á því að umræðan, sem verið hefur um það mál sem við höfum rætt hér í nokkra daga og hefur harðnað alveg gríðarlega í samfélaginu og í þingsal, hefur haft þær afleiðingar að ýmsir þingmenn hafa farið út af sporinu í orðum og orðavali. Það er óheppilegt og þess vegna er það umhugsunarefni fyrir þingið og forsætisnefndina hvernig við getum tryggt að þingmenn gæti betur orða sinna hver í garð annars og að þeim starfsháttum sem við viðhöfum í þinginu.



[16:50]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti tekur undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um að það væri mikilsvert ef vinnubrögð og orðaskipti í þingsal yrðu bætt.



[16:50]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt frumvarp, sögulegt frumvarp leyfi ég mér að segja þó að það orð sé nú stundum dálítið ofnotað, því að hér er á ferð frumvarp sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs leggur fram og stígur með því skref sem engin ríkisstjórn undanfarin 25 ár hefur viljað stíga, þ.e. að tryggja að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í arðinum af nýtingu þeirrar auðlindar sem hún á sameiginlega sem eru nytjastofnarnir á Íslandsmiðum.

Á hverju byggir ríkisstjórnin þessa aðgerð? Jú, hún byggir hana fyrst og fremst á því að framfylgja gildandi lögum. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem verið hefur í gildi um áratugaskeið er kveðið berum orðum á um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskstofnum á Íslandsmiðum kom fyrst inn í þingið í frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem lagt var fram í byrjun desember 1987 og varð að lögum 8. janúar 1998.

Ákvæðið um þjóðareign er efnislega óbreytt í lögunum sem sett voru 1990 en í þeirri lagasetningu var bætt við, af hálfu ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Borgaraflokksins, afar mikilvægu ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Í athugasemdum við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða árið 1990 sagði, með leyfi forseta:

„Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talið myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“

Þessi sama hugsun, um þjóðareign náttúruauðlinda, kemur afar skýrt fram í frumvarpi stjórnlagaráðs sem verið hefur til umfjöllunar hér í þinginu og mun nú góðu heilli verða lagt undir álit þjóðarinnar í sérstakri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu á hausti komanda. Þar segir í 34. gr. um náttúruauðlindir, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Síðan kemur setning sem ég tel að svari spurningu sem ég hef heyrt ýmsa þingmenn spyrja að hér í þessari umræðu, um muninn á þjóðareign og ríkiseign:

„Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Þeir flokkar sem stjórnað hafa landinu lengst allra á lýðveldistímanum og lungann af þeim tíma sem ákvæðið um þjóðareign á nytjastofnum sjávar hefur verið í gildi hafa valið að hafa inntak þessa ákvæðis um þjóðareign að engu. Annars vegar með því að koma því þannig fyrir að auðlindaarðurinn hefur nær allur setið eftir í greininni sjálfri í stað þess að renna til eigandans að verulegu leyti og í öðru lagi með því að haga stjórn fiskveiða eins og um varanlegan eignarrétt kvótahafa væri að ræða.

Um þetta snýst málið í reynd. Hver á fiskinn í sjónum? Er það útgerðin eða er það þjóðin? Lögin segja skýrt að það skuli vera þjóðin og það er erindi núverandi ríkisstjórnarflokka Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að virða þjóðareignarákvæði laga um stjórn fiskveiða með því að tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut í auðlindaarðinum rétt eins og kapítalistar í landi hirða arð af eignum sínum, hvort sem það eru fyrirtæki, peningalegir fjármunir eða annað.

En hvernig hefur framkvæmdin verið fram að þessu? Hefur þjóðin fengið sanngjarna hlutdeild í arðinum af nýtingu sameignar sinnar, sanngjarnt veiðigjald fyrir að veita tilteknum hópi manna sérleyfi til að nýta þessa takmörkuðu og afar verðmætu auðlind? Nei, því miður hefur svo ekki verið.

Í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar koma fram greinargóðar upplýsingar um það veiðigjald sem útgerðin hefur í reynd greitt á liðnum árum. Þar kemur fram að á árunum 2005–2009 greiddi útgerðin veiðigjald sem fór lækkandi með hverju árinu úr tæpum 650 milljónum fiskveiðiárið 2005–2006 niður í einungis 126 milljónir fiskveiðiárið 2008–2009.

Ef við skoðum hve hátt hlutfall þetta veiðigjald er af framlegð útgerðarinnar á þessum árum kemur í ljós að það byrjar í 1,5% árið 2006, fer síðan stiglækkandi og er komið niður í 0,7% árið 2008 og endar í því að vera 0,17% af framlegð útgerðarinnar árið 2009. Það ár var framleiðnin 67 milljarðar en útgerðin knúði veiðigjaldið niður í 126 milljónir meðan hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Auðvitað er það rétt að bakgrunnur þeirrar ákvörðunar var að bregðast við áhrifum stökkbreyttrar skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja vegna gengisfalls krónunnar og bankahruns en eins og við sjáum á tölum um framlegð greinarinnar er ljóst að þar var býsna langt gengið.

Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað veiðigjaldið verulega í áföngum. Það nam rúmum milljarði 2009–2010, eða tæpum 2% af framlegð ársins 2010, hækkaði í 3 milljarða eða 4% af áætlaðri framlegð síðasta árs og stefnir í að verða tæp 6% af framlegð yfirstandandi árs miðað við spá um 78 milljarða framlegð.

Þá erum við komin að nútímanum, þessu frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að til viðbótar almennu veiðigjaldi upp á 4,5 milljarða komi sérstakt veiðigjald sem verði tengt afkomu greinarinnar og er áætlað að það gjald skili 15 milljörðum í sameiginlega sjóði landsmanna, eða vel innan við fimmtungi af væntri framlegð sjávarútvegsfyrirtækjanna á komandi ári.

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frumvarp hefur verið mjög tilfinningaþrungin og LÍÚ hefur keyrt mikla auglýsingaherferð í samfélaginu í anda þess sem við þekkjum frá sérhagsmunaöflum í Ameríku, gegn þessum frumvörpum. Þeir hafa gert því skóna að um sé að ræða aðför að sjávarútveginum, slátrun, muni leiða til gjaldþrota og gott ef ekki hruns greinarinnar eins og við þekkjum hana. Sá hræðsluáróður hefur hlykkjast um samfélagið, inn í samfélög sjómanna og landverkafólks, inn á heimili vítt og breitt um landið og skapað ugg og ólgu á mörgum heimilum enda miklir hagsmunir undir. Fyrir okkur þingmenn er mikilvægt að greina þessi sjónarmið og leggja mat á það hvort raunverulega sé um að ræða hættu á hruni einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar eða hvort skýringarinnar á málflutningi LÍÚ sé að leita annars staðar.

Fyrst um getu greinarinnar til að borga umrædd veiðigjöld. Í fyrsta lagi er gagnlegt að skoða samanburð á framlegð útgerðarfyrirtækja rúman áratug aftur í tímann, frá árinu 2001. Þá kemur í ljós að meðaltalsframlegðin hefur verið um 46 milljarðar á þessu tímabili. Hvað gerist ef við leggjum 15 milljarða veiðigjald á útgerðina miðað við áætlaða framlegð þessa árs? Jú, við sjáum að útgerðin situr eftir með 63 milljarða til að borga fjármagnskostnað af skuldum sem hafa hríðlækkað eftir hrun og gera ráð fyrir afskriftum. 63 milljarðar eru rúmlega 40% yfir meðaltalsframlegð síðustu 11 ára og ef það ríður sjávarútvegsfyrirtækjunum í landinu að fullu þá ættu þau að vera löngu fallin miðað við framlegð síðustu ára, miðað við stökkbreyttar skuldir, miðað við bankahrun o.s.frv. En það eru þau hins vegar ekki, greinin stendur vel og útlitið er gott. Fyrirsjáanleg aukning aflaheimilda í lykiltegundum á komandi fiskveiðiári gefur væntingar um afbragðsframlegð, metframlegð, í greininni.

Ef við skoðum síðustu gögn sem liggja fyrir, um raunverulega afkomu sjávarútvegsins byggða á skattframtölum fyrir árið 2010, kemur í ljós að framlegð greinarinnar á því ári nam tæpum 69 milljörðum kr. Ef við drögum frá þeirri fjárhæð bókfærðar afskriftir ársins og vaxtagjöld og síðan það veiðigjald sem við ræðum hér miðað við breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar þá sitja enn eftir rúmir 33 milljarðar kr. í hagnað hjá útgerðinni í landinu. Já, en á þá ekki eftir að taka tillit til skattpíningar núverandi ríkisstjórnar? gæti einhver sagt. Skoðum það. Útgerðin borgaði á því ári 1,8 milljarða í skatt samanlagt, útgerð stærri skipa 1.436 milljónir og smábáta 340. Það er nú ekki meira en svo að vera sama krónutala og útgerðin borgaði í skatt árið 2004 en verðlag hefur síðan hækkað um 55%.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er einfaldlega sú að kenningin um að álagning sérstaks veiðigjalds muni ríða sjávarútveginum að fullu og keyra þessa mjólkurkú samfélagsins fram af hengifluginu stenst engan veginn. Áfram verður rekinn blómlegur sjávarútvegur í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps. Hitt er annað mál að frumvarpið er staðfesting nýrra tíma í stefnumótun sjávarútvegsmála í landinu. Það er ekki lengur LÍÚ sem hefur húsbóndavald í sjávarútvegsráðuneytinu og útgerðarmenn munu þurfa að deila arðinum af auðlindanýtingunni með þjóðinni sem vera ber og alltaf skyldi verið hafa. Það er auðvitað bylting í ákveðnum skilningi sem LÍÚ á erfitt með að horfast í augu við og gefur okkur tilefni til að rifja upp fortíðina þegar kvótakerfinu var komið á laggirnar.

Sú saga öll staðfestir þá sorglegu fortíð þegar almannahagsmunir viku fyrir sérhagsmunum, hvernig sérhagsmunaaðilar úti í bæ sögðu stjórnvöldum fyrir verkum og teiknuðu sjálfir það umhverfi sem stjórnvöld hefðu með réttu átt að móta. Ég leyfi mér að vitna í bók af þessu tilefni, ævisögu manns sem gegndi stöðu sjávarútvegsráðherra á árunum 1980–1983, með leyfi forseta:

„Kvótakerfinu var komið á með hraði um áramótin 1983 til 1984. Það var sett á fót án þess að umtalsverð umræða færi fram á vettvangi stjórnmálanna eða í sjávarútvegsráðuneytinu. Þegar ég yfirgaf ráðuneytið grunaði mig ekki hversu skammt væri í að Kristján Ragnarsson“ — sem var framkvæmdastjóri LÍÚ á þessum tíma — „hefði sitt fram. Ég leit ekki svo á að hugmyndir um byggðakvóta væru úr sögunni. Í mínum huga var umræðan rétt að hefjast.

Jón B. Jónasson, yfirmaður fiskveiðistjórnunardeildar sjávarútvegsráðuneytisins, hefur staðfest í viðtali vegna skrásetningar þessarar bókar að innan ráðuneytisins hafi ekkert verið unnið að undirbúningi kvótakerfis í líkingu við það sem komið var á, hvorki í sjávarútvegsráðherratíð minni né raunar haustið 1983. Vinna að útfærslu kvótakerfisins hófst ekki fyrr en Halldór Ásgrímsson, eftirmaður minn í sjávarútvegsráðuneytinu, hafði fengið lög þess efnis samþykkt á Alþingi 28. desember 1983. Þar var ráðherra veitt víðtækt vald til að stjórna veiðum og ákvarða kvóta.

Hins raunverulega uppruna kvótakerfisins þarf ekki að leita langt yfir skammt. Fiskiþing gerði samþykkt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar haustið 1983 þar sem sjónarmið Landssambands íslenskra útvegsmanna varð ofan á. Landvinnslan og þeir sem vildu að fiskvinnslan fylgdi byggðum urðu undir. Í þessari samþykkt Fiskiþings er að finna ákvæðin sem kvótakerfið byggist raunverulega á. Þar segir meðal annars að kvóti skuli skiptast á skip miðað við veiðireynslu þriggja undangenginna fiskveiðiára og til eins árs í senn. Auk þess er kveðið á um að framsal úthlutaðs aflakvóta milli skipa skuli vera leyfilegt og þessi ákvæði í samþykkt Fiskiþings hafa öll gengið eftir og orðið að lögum þótt ekki hafi þau öll náð fram að ganga í fyrstu atrennu árið 1984.

Aðdragandi þess að sett var á kvótakerfi í sjávarútvegi á Íslandi er saga sem ekki hefur enn verið skráð þótt undarlegt megi virðast. Þegar hagsmunaaðilar í útgerð höfðu komið sér saman um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi treystu stjórnmálamenn sér ekki til að ganga gegn þeirri niðurstöðu. Halldór Ásgrímsson studdi stefnu LÍÚ og féllst á rök útgerðarmanna fyrir kvóta á skip, tillögur mínar um byggða- eða löndunarsvæðiskvóta voru endanlega jarðaðar.“

Svo mörg voru þau orð Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í ævisögu sinni.

Ég ætla ekki að fjalla meira um kvótakerfið í þessari ræðu, þetta frumvarp fjallar um veiðigjaldið sérstaklega en kvótakerfið er undir í öðru frumvarpi sem vonandi fæst rætt hér innan tíðar.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um það hvaða þýðingu það getur haft fyrir samfélag okkar ef frumvarpið verður að lögum. Eins og ríkisstjórnin hefur lýst yfir er ætlunin að nota 17 milljarða kr. af veiðigjaldi næstu þriggja ára til að fjármagna fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015. Þar er meðal annars gert ráð fyrir nýjum Herjólfi og framkvæmdum í Landeyjahöfn en einnig á að hraða gerð Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga og efla nýsköpun, skapandi greinar, atvinnuþróun og sóknaráætlanir landshluta. Við ættum öll í þinginu að geta sameinast um að tryggja þessa mikilvægu uppbyggingu innviða samfélagsins með löglega kjörnum stjórnvöldum í stað þess að berjast með kjafti og klóm gegn þeirri góðu áætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni farið yfir forsögu málsins varðandi ákvæðið um þjóðareign nytjastofna á Íslandsmiðum, mun á þjóðareign og ríkiseign, hvernig frumvarpið mun hafa áhrif á afkomu sjávarútvegsins, hvernig þeim áfanga er loksins náð eftir áratugabaráttu, ef frumvarpið verður að lögum, að þjóðin fái sanngjarnan hlut af arðinum af nýtingu þessarar sameignar þjóðarinnar og samanburðinn við þann smánarlega hlut sem sat eftir hjá ríkissjóði sem vörsluaðila þjóðarauðlindarinnar, þann smánarlega hlut sem kom í hlut ríkisins af auðlindaarðinum þar til þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Ég tel mig hafa hrakið þær fullyrðingar að þetta frumvarp muni knésetja sjávarútveginn í landinu. Hann getur auðveldlega borgað þetta veiðigjald því að hagnaður greinarinnar eftir að veiðigjöld hafa verið greidd verður áfram mun meiri en við höfum átt að venjast í þessari grein undanfarinn áratug og það er vel.



[17:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ræðuna. Hann segir að þetta sé allt ljómandi gott, það eigi að taka peninga af útgerðinni og setja þá í fjárfestingaráætlun og allir fái vinnu við hæfi og voða gaman. En það skyldi þó ekki vera að það gæti tapast atvinna hjá sjávarútveginum á móti? Einhvers staðar þarf að spara þessa peninga eða minnka fjárfestingar. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er þarna ekki verið að lofa einum of miklu?

Þar fyrir utan er það nefnt í áætlunum og ræðum stjórnarliða og sjávarútvegsráðherra sjálfs að miklar sveiflur hafa verið í þessu gjaldi síðustu tíu árin og það hefur gerst að gjaldið hefur farið nánast niður í núll. Hvað ef það gerist á næsta ári og þarnæsta ári? Hvað verður þá um þessa fjárfestingaráætlun þar sem búið er að ráðstafa þessum peningum?

Hv. þingmaður talaði líka endalaust um þjóðina. Maður verður dálítið þreyttur. Það er eins og hv. þingmaður þekki þjóðina, bara svona persónulega, spjalli við hana á morgnana og viti nákvæmlega hvað hún vill. Jafnframt segir hann að þjóðin sé það sama og ráðherra. Getur verið að Steingrímur J. Sigfússon, sem á að víla og díla með þetta allt saman, sé þjóðin? Að það sé maðurinn sem hv. þingmaður spjallar alltaf við á morgnana?

Það er nefnilega djúp gjá á milli Jóns og Gunnu, sem vinna í verslun eða í frystihúsi eða eitthvað slíkt, og ríkisvaldsins sem stýrt er af stjórnmálamönnum sem eru að ná sér í atkvæði með strandveiðum eða pottum eða einhverju slíku. Það er djúp gjá þarna á milli. Það uppgötva Jón og Gunna í fyrsta lagi þegar þau þurfa að borga skattana til „þjóðarinnar“, til ríkisins.



[17:09]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Hann kemur inn á nokkur atriði sem ég ætla að leitast við að svara.

Það var nú ekki alveg þannig að ég lofaði hér himnaríki og eintómum blómasöng eða að allir fengju vinnu við sitt hæfi en ég lofaði því að sjávarútvegurinn mundi lifa ágætu lífi eftir samþykkt þessa frumvarps og rakti það í löngu máli. Staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn hefur verið vel rekinn undanfarin ár, skuldirnar hafa lækkað góðu heilli undanfarin missiri og framleiðnin eykst hröðum skrefum, er áætluð 78 milljarðar á þessu ári og væntingar um að enn betur horfi með kvótaaukningu sem vonandi verður staðreynd á næsta fiskveiðiári.

Ég fjallaði hins vegar um þjóðareignina, það er hárrétt. Ég fjallaði ekki mikið um þjóðina sem slíka, ég held við hv. þingmenn í þessum sal þekkjum hana álíka vel. Það er enginn einn sem getur gerst holdgervingur þjóðarinnar, að sjálfsögðu ekki, en umræðan um þjóðareignina skiptir afar miklu máli. Ég fór yfir það að grundvallarmunur er á þjóðareign og ríkiseign í þeim skilningi að ríkiseignum getur ríkisvaldið ráðstafað á hverju ári með því að samþykkja fjárheimildir í fjárlögum en grundvallaratriðið varðandi þjóðareign er að þær megi ekki framselja eða láta af hendi varanlega á einn eða neinn hátt, og eins og ég fór yfir er það hluti af frumvarpi stjórnlagaráðs sem þjóðin verður spurð álits á í kosningu í haust.

Stóra málið er þetta: Þetta frumvarp snýst einmitt um þjóðareignina og hvort menn hyggjast taka mark á 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það hefur ekki verið gert í 25 ár í þessu landi, (Forseti hringir.) auðlindaarðurinn hefur nær allur setið eftir í atvinnugreininni, í sjávarútveginum, (Forseti hringir.) og sá er sannarlega ekki tilgangur 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.



[17:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þm. Skúli Helgason þekkir þjóðina jafn vel og ég þá þekkir hann hana ekki neitt. Ég þekki ekki þjóðina, ég hef ekki spjallað við hana. Hún er ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki í mínum huga. Það er gífurlegur munur á ríki og þjóð, og í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að arðurinn af auðlindinni, sem sumir segja á helgistundum að sé þjóðareign og segja svo amen á eftir, renni til ríkisins. Arðurinn rennur í ríkishítina, hann er til ráðstöfunar fyrir þingmenn og ráðherra til að ráðstafa og kaupa sér atkvæði fyrir.

Þetta er einmitt málið og í þessu liggur misskilningurinn. Menn ætla sér að taka þessa þjóðareign og senda arðinn af henni til ríkisins. Fjármagnið á að fara í þessa fjárfestingaráætlun, sem er eflaust rosalega vinsælt, frú forseti, og skaffar mörg atkvæði í næstu kosningum.



[17:12]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki meiningin að þessi hlutdeild í veiðigjaldinu sem er tengd fjárfestingaráætluninni fari inn í ríkishítina. Hún á einmitt ekki að fara í að reka hefðbundna starfsemi ríkisins heldur í uppbyggingu innviða, í tímabundna uppbyggingu í þrjú ár, sem tekur mið af því að gengið í sjávarútveginum er fallvalt eins og í öðrum atvinnugreinum, eða við skulum frekar gera ráð fyrir því að það verði ekki eintómt góðæri í þessari grein.

Þetta kallast skynsamleg ráðstöfun slíkra fjármuna, þegar vel gengur þá kemur mikið inn í gegnum veiðigjaldið, þegar gefur á bátinn kemur minna inn. Það er grundvöllurinn undir fjárfestingaráætluninni, að reyna að nýta fjármunina til að byggja upp samgöngur í landinu sem mikil þörf er fyrir, byggja upp ýmsar vaxandi greinar í atvinnulífinu, sem notið hafa lítils stuðnings fram að þessu, o.s.frv.



[17:13]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í markmiðum þessa frumvarps sem við ræðum hér og um stjórn fiskveiða, ef við tökum þau sameiginlega, kemur fram að það eigi að treysta atvinnu og byggð í landinu, stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Skúla Helgason út í þær athugasemdir sem við höfum fengið frá ýmsum verkalýðsfélögum og hvernig hann vilji bregðast við þeim. ASÍ telur að of langt sé gengið í frumvarpinu með sértækum aðgerðum sem veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og spyr að því hvaða áhrif þær hafi á launahlutfall fiskverkafólks og sjómanna í sjávarútvegi og spyr hvort framtíð sjávarútvegsfyrirtækjanna sé stefnt í voða með sérstaka veiðigjaldinu.

Það segir frá einu stéttarfélagi, með leyfi forseta:

„Ljóst er að brottflutningur aflaheimilda […] mun rýra kjör verkafólks og getur orðið til lækkunar fasteignaverðs auk annarra óæskilegra áhrifa.“

Það segir í annarri ályktun stéttarfélags:

„Aðalfundur […] skorar á ríkisstjórn Íslands að framkvæma ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald muni hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni.“

Ég held áfram að vitna í ummæli verkalýðsfélaga og ég vil taka það fram að margir fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar og fluttu þar ákveðin rök fyrir sínum áhyggjum.

Það segir hér áfram:

„Það er ámælisvert að stjórnvöld hafi ekki framkvæmt ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin munu hafa í för sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni. SGS hefði talið eðlilegt að slík rannsókn hefði farið fram áður en svo viðamiklar breytingar á stjórn fiskveiða væru gerðar.“

Og áfram í annarri ályktun:

„Rétt er að geta þess að hundruð félagsmanna starfa í þessari grein bæði til sjós og lands (Forseti hringir.) og af því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir félagsmenn að ekki sé verið að gera þannig breytingar á stjórn fiskveiða að þær ógni atvinnuöryggi þeirra. (Forseti hringir.) sem starfa í greininni.“

Hvernig vill hv. þingmaður bregðast við þessum ályktunum frá stéttarfélögum í landinu?



[17:16]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir innlegg hans. Hann sýnir okkur fram á þann boðskap sem hefur komið frá ýmsum aðilum, t.d. í stétt launþega, við því frumvarpi sem var lagt fram og atvinnuveganefndin hefur haft til meðferðar.

Ég held að það hafi komið í ljós í meðferð þessa máls að meiri hluti nefndarinnar hafi brugðist við með því að leggja fram breytingartillögu um að veiðigjaldið verði lækkað umtalsvert frá því frumvarpi sem kom inn í þingið. Ég held að ekki sé ekki hægt að halda öðru fram en að það að fara með veiðigjaldið úr 23 til 25 milljörðum niður í 15 milljarða sé ansi myndarlegt skref niður á við. Það er að mínu mati órækur vitnisburður um að menn eru einmitt að bregðast við þeim röddum sem hafa haft hátt um það að þetta væri of langt gengið.



[17:17]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, nefndin lét sérfræðinga vinna skýrslu og skoða einmitt áhrif veiðigjaldsins. Þeir sérfræðingar sem fjölluðu alveg sérstaklega um þessa þætti og gagnrýndu þá í umsögnum sínum, standa við þá gagnrýni óbreytta eins og frumvörpin eru lögð fram í dag, þrátt fyrir þá lækkun veiðigjaldsins sem kemur fram í breytingartillögum og þær smávægilegu breytingar sem stendur til að gera á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu. Með öðrum orðum taka þeir undir þær miklu áhyggjur stéttarfélaganna sem ég vitnaði í og er í raun tilhlýðilegt að vitna í á þessum degi þegar þúsundir félagsmanna standa úti á Austurvelli til að eiga orð við Alþingi. Sérfræðingarnir breyttu engu í niðurstöðum sínum í skýrslunni þrátt fyrir lækkunina á veiðigjaldinu.

Getur hv. þingmaður fallist á að sjónarmið þessara verkalýðsfélaga sem deila skoðunum með (Forseti hringir.) fjölmörgum sveitarfélögum hringinn í kringum landið, sem sendu sambærilegar athugasemdir, (Forseti hringir.) sýni að við séum ekki komin alla leið, það þurfi að vinna betur með málið í þeim sáttafarvegi sem við í stjórnarandstöðunni á þinginu höfum lagt til?



[17:18]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti það í ræðu minni að ég tel að sjávarútvegurinn geti mjög vel borið það veiðigjald sem lagt er upp með í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar og rökstuddi það meðal annars með því að benda á það að þegar við tökum þá framlegð sem fyrirsjáanleg er í greininni á þessu ári upp á 78 milljarða og drögum 15 milljarða frá, erum við samt sem áður með meðaltalsframlegð sem er langt yfir þeirri framlegð sem greinin hefur skilað undanfarinn áratug og rúmlega það. (Gripið fram í.) Ef þetta væri einhvers konar náðarhögg værum við ekki með neinn sjávarútveg í landinu í dag, það er staðreynd málsins.

Síðan er ég þeirrar náttúru að ég held að menn eigi alveg fram á síðasta dag að reyna að freista þess að laga þau frumvörp sem eru til meðferðar í þinginu. Viðamikið frumvarp eins og þetta eigum við að sjálfsögðu að reyna að laga alveg fram á lokadag. (Forseti hringir.) En ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki of langt gengið varðandi veiðigjaldið (Forseti hringir.) og það sé mjög mikilvægt að þessir fjármunir skili sér í sameiginlega sjóði landsmanna.



[17:20]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Hann gerði að umtalsefni upphaf kvótakerfisins og þær meginhugmyndir sem lágu kerfinu til grundvallar í upphafi og tók fram, ef ég skildi hann rétt, að hann teldi að kerfið hefði fyrst og fremst verið mótað eftir höfði og hugmyndum Landssambands íslenskra útvegsmanna í árdaga þess.

Mig langar til að biðja þingmanninn um að gera aðeins betur grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hann færir hér inn í umræðuna. Er þingmaðurinn að segja að það hafi verið gerð einhver grundvallarmistök þegar kvótakerfinu var komið á? Á þeim tíma lá fyrir og var óumdeilt að gríðarlega mikil offjárfesting var í greininni og ofveiði á íslensku stofnunum. Hvaða mistök voru það þá, ef þingmaðurinn er að halda því fram, eins og mér heyrist, sem menn gerðu í upphafi? Ekki síst er mikilvægt að fá þetta fram vegna þess að ég tel að það hafi verið kvótakerfið og þá ekki síst frjálsa framsalið sem var innleitt hér með atkvæðum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingríms J. Sigfússonar, sem var grundvöllur að þeirri hagræðingu sem átti sér stað í greininni upp úr árinu 1990. Gögn sýna að það var fyrst þegar frjálsa framsalið komst á sem einhver afgangur varð af útgerð á Íslandi síðustu áratugi.

Veiðigjaldið sem við ræðum hér er síðan forsenda þess að ríkið geti gert eitthvert tilkall til þess að fá hlutdeild í þeim afgangi. Mér finnst því skorta á skýringar frá hv. þingmanni hvað það sé í eðli kvótakerfisins sem hann segir að hafi brugðist frá upphafi, það hafi verið rangt (Forseti hringir.) gefið eða lagt af stað með röngum forsendum, þegar við sjáum (Forseti hringir.) árangurinn af kerfinu í dag.



[17:22]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa fyrirspurn, hún er afar mikilvæg. Ég vil taka það skýrt fram að ég dró fram þessar hugleiðingar eða þessa tilvitnun í ævisögu Steingríms Hermannssonar til þess að draga fram hvað það var í raun og veru sem réði þessari einstæðu stefnumótun sem skilar sér í kvótakerfinu íslenska á sínum tíma. Það er ekki vönduð stefnumótun á vettvangi stjórnvalda heldur fyrst og fremst tillögur og sjónarmið frá þessum mikilvæga hagsmunaaðila í greininni.

Ég dreg ekki dul á það að kvótakerfið sem kerfi sem takmarkar sókn í auðlindina, dregur úr ofveiði, dregur úr offjárfestingu o.s.frv., er afar mikilvægt fyrirbæri sem við þurfum að standa vörð um. En það sem ég tel að hafi farist illa í þessu verkefni, það sem hafi í raun valdið því að stöðugar deilur hafa verið um fiskveiðistjórnarkerfið eiginlega alveg síðan það var sett á laggirnar lúti að jafnræði og atvinnufrelsi í fyrsta lagi en ekki síður að því að í raun og veru hafa stjórnvöld ekki tekið neitt mark á þessu ákvæði í 1. gr. um þjóðareignina. Eðlileg hlutdeild í afrakstrinum af nýtingu þessarar auðlindar sem þó er samkvæmt lögum í sameign okkar allra hefur ekki skilað sér til þjóðarinnar. Þar var ekki rétt gefið í upphafi og við freistum þess að leiðrétta það með þessu frumvarpi.



[17:24]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar og mér heyrist að hv. þingmaður sé mér sammála um það að varanleiki í úthlutun aflaheimilda, hvort sem það er með ótímabundnum hætti eða með langtímasamningum, sé annar grundvöllurinn að hagræðingu og arðsemi í greininni og hin forsendan er sú að einhver framseljanleiki sé í kerfinu. En gott og vel, eftir þessa ræðu hv. þingmanns finnst mér skorta á svör við eftirfarandi spurningu: Hvenær telur þingmaðurinn að útgerðin sé komin með of mikinn hagnað?

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að útgerðin skili arðinum með margvíslegum hætti til þjóðarinnar. Þegar við tölum um þjóðareign erum við ekki bara að leggja grunn að því að hægt sé að setja gjald á viðkomandi aðila sem fái nýtingarheimildir, við erum líka að segja: Þessa auðlind verður að nýta með sjálfbærum hætti og til heilla fyrir þjóðina alla. Það gerum við meðal annars með því að tryggja útgerðinni hagstæð rekstrarskilyrði. Þannig borgar hún hærri skatta (Forseti hringir.) og getur staðið undir háum launum og skapað okkur mikil útflutningsverðmæti. En hvenær er útgerðin komin í umframhagnað? (Forseti hringir.) Hvenær er hún komin í svo mikinn hagnað að við þurfum að taka af henni auðlindarentu?



[17:25]
Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvenær er útgerðin komin með of mikinn hagnað? Mér finnst þetta ekki áhugaverð spurning. Ég tel að það sé ekki markmið þessarar vegferðar að keyra niður hagnað útgerðarinnar, þvert á móti. Við viljum öll að þessari atvinnugrein gangi vel, það hjálpar öllum á endanum að þessi atvinnugrein eins og allar aðrar í landinu skili sínu.

Ef við ætlum hins vegar að ná sátt um þessa atvinnugrein er afar mikilvægt að fólk upplifi það þannig að það sé rétt gefið, að þjóðin fái sanngjarnan hlut í afrakstrinum af nýtingu auðlindarinnar og það er kjarni málsins. Um það snýst allt þetta mál. Og það sem er afar mikilvægt að hafa í huga er að hér er ekki hefðbundin atvinnugrein undir, þetta er ekki eins og verslun og viðskipti þar sem menn setja á fót sitt fyrirtæki og hefja síðan kaup og sölu. Hér er verið að sýsla með takmarkaða auðlind sem þjóðin á sameiginlega og kvótakerfið byggir síðan á því að úthlutað er sérleyfum til þess að nýta þessa auðlind. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem þjóðin og sjávarútvegurinn verða að deila arðinum.



[17:27]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Í dag hefur komið í ljós hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkisstjórnin, sem ber ábyrgð á því ástandi sem orðið er í samfélaginu, gengur fram með öfgum, gengur fram með yfirlýst pólitísk markmið sem ganga þvert gegn þeim markmiðum sem sömu stjórnarflokkar setja fram í markmiðsgreinum frumvarpa. Frumvörpin eru síðan því marki brennd að nánast hver einasta grein gengur þvert gegn þeim markmiðum sem menn setja sér.

Hér koma þingmenn, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, og eru sammála um markmiðin en þau eru að byggja upp öfluga og þjóðhagslega atvinnugrein sem skilar sem mestum arði til þjóðarbúsins. Um það eru allir sammála. Síðan leggja menn fram öfgafulla stefnu sem hreinlega verður til þess að samfélagið titrar allt.

Ég var úti á Austurvelli áðan. Það var ekki ánægjuleg tilfinning að standa þarna úti þar sem eru friðsamleg mótmæli og haldnar málefnalegar ræður af útgerðarmönnum, af sjómönnum, úr fólki úr sveitarfélagageiranum og öðrum geirum, og það er annar hópur mættur til leiks sem æpir allan tímann jafnhátt að hverjum einasta sem talar. Þessari gjá sem dýpkar og dýpkar á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis ber ríkisstjórnin alla ábyrgð á. Gjáin var til, hún hefur verið að myndast í langan tíma. Það hefur meðal annars komið fram að 75% af umsvifum ríkisins eru í Reykjavík en aðeins 40% teknanna. Höfuðborgarsvæðið hefur allt stjórnkerfið og hið ríkisstyrkta menningarlíf, hefur alla möguleika á hinu og þessu. Þegar sú staða er uppi finnst mönnum einfaldlega of langt gengið að sömu aðilar ætli að koma inn í atvinnugrein sem byggir á landsbyggðinni — 87% útgerðarinnar er gerð út frá landsbyggðinni vegna þess að það er hagkvæmast — og taka jafnvel 10% af veltu þessara fyrirtækja og segja að það sé einhver umframhagnaður, alveg óháð því hvernig reksturinn og staða fyrirtækjanna er. Þá segja menn: Hingað og ekki lengra. Þá halda menn samstöðufund á Austurvelli og reyna að koma sjónarmiðum sínum þar á framfæri, skila inn ályktun til þingflokkanna þar sem þeir biðja Alþingi um að fara vandlega yfir frumvörpin, vanda sig og gera ekkert sem mundi raska þeim möguleika að ná þeim markmiðum sem allir eru sammála um að eigi að ná, markmiðum um hagkvæmni og þjóðhagslegan afrakstur af þessari atvinnugrein sem og öðrum.

Niðurstaðan er sú að gjáin dýpkar. Þeir sem vilja ekki hlusta æpa að öllum sem tala og ég hef satt best að segja, frú forseti, upplifað það sama hér í þingsal. Hér hafa þó nokkrir stjórnarliðar tjáð sig um þessi mál og ekki síst veiðigjaldið af því að við erum auðvitað að ræða það, en það hefur engu að síður blandast við stjórn fiskveiða af eðlilegum ástæðum vegna þess að þau mál eru ákaflega samtengd. Hér koma menn og segja: Mér finnst bara eðlilegt að taka 15 milljarða — en sú tala er nú orðin 6, 7, jafnvel 10 milljarða afsláttur af þeim gölnustu öfgum sem voru lagðar fram upphaflega í frumvarpi sem var svo illa unnið, frú forseti, að sérfræðingarnir sem atvinnuveganefnd fékk til að skoða verkið sögðu: Við gátum ekki notað þetta frumvarp og við notuðum bara raunverulegu tölurnar. Ef við miðuðum aðeins við frumvarpið var ekki um 70% skattlagningu að ræða heldur 140%. Þegar menn eru búnir að fara yfir þetta og skoða í reynd verður hreinlega að viðurkennast að frumvörpin komu allt of seint inn og voru allt of illa unnin, þannig að þingið hefur vart haft möguleika á að vanda sig við verkið. Eðlilegast hefði kannski verið að ýta þeim frá.

Annað alvarlegt atriði kom fram í ályktuninni sem þingflokksformennirnir fengu og það var að menn kröfðust þess að það yrði haft samráð. Í atvinnuveganefnd þar sem ég á sæti spurði ég alla þá sem komu fyrir nefndina — þetta kemur fram í nefndaráliti mínu — hvort haft hefði verið samráð við þá, hvort sem það voru hagsmunaaðilar í greininni eða fulltrúar sveitarfélaga eða ríkisstofnana, við gerð þessara frumvarpa. Svarið var alltaf það sama: Nei, það var ekki. Þess vegna er það mjög eðlileg krafa frá þeim sem stunda útgerð í landinu og vinna við þessa atvinnugrein að haft sé samráð við þá þegar slíkar hugmyndir, öfgafullar hugmyndir, sprottnar úr pólitískum jarðvegi, koma fram á tímum þegar við ættum öll að vera sammála um að taka höndum saman og komast í gegnum kreppuna saman. Við erum 320.000 manna þjóð og ættum að lifa í sátt og samlyndi í landi með gríðarleg tækifæri til framtíðar ef við nýtum náttúruauðlindir okkar á skynsaman hátt, sem við höfum t.d. borið gæfu til í sjávarútveginum. Kvótakerfið sem margir stjórnarliðar sérstaklega tala mjög harkalega gegn er einmitt það kerfi sem hefur skapað þessa gríðarlega góðu stöðu samfélagsins og atvinnugreinarinnar.

Nú er aftur á móti uppi sú staða að sérfræðingar meta það svo í greinargerð um veiðigjaldið að umtalsverður fjöldi fyrirtækja muni fara á hausinn, þau standi ekki undir gjaldinu vegna þess að þau eru svo skuldsett. Síðustu ár hefur útgerðin greitt inn í bankakerfið 23, 24 milljarða á hverju einasta ári. Landsbankinn mat það þannig að ef þessi frumvörp færu í gegn óbreytt mundi afskriftaþörfin aukast um 31 milljarð. Landsbankinn er í eigu þjóðarinnar. Ætla menn að taka úr hægri vasanum og færa í þann vinstri? Þetta er því miður því marki brennt að hér er farið fram með allt of miklum flumbrugangi, öfgahætti, hér er gengið fram af offorsi í því að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar. Menn koma í ræðustól Alþingis, þeir blogga og skrifa greinar og æsa upp þá sem ekki hafa sett sig inn í staðreyndir um grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og segja að allir, þjóðin öll eigi rétt á hluta í arðinum.

Auðvitað á þjóðin rétt á hluta í arðinum og hún fær gríðarlegan hluta í arðinum. Tökum dæmi. Einn kolmunnatúr sem útgerð fer í skilar 80 milljónum í veltu. Hvað skyldi stór hluti af þeim tekjum fara beint til ríkisins í dag? Jú, það er meira en 1/4 hluti sem fer þangað. Það er því ekki þannig að ekkert af tekjum útgerðarinnar í dag renni til þjóðarinnar.

Tökum árið 2011 sem dæmi. Auðlindagjald var upp á 4,5 milljarða, sem er talsvert hærra en verið hefur enda útgerðin í stakk búin til þess að borga hóflegt gjald. Á sama tíma, vegna þess að það hefur myndast hagnaður í greininni, mun greinin sennilega greiða um 5 milljarða í tekjuskatt. Það fara því 9,5 milljarðar í opinbera skatta, veiðigjöld og tekjuskatt sem fara til þjóðarinnar. Á þessu ári eru menn með hugmyndir um að hækka þessa upphæð nærri þrefalt, þeir byrjuðu fimmfalt og enda í 2,5. Er það sanngjarnt, er það réttlátt? Er réttlátt að hluti fyrirtækja í þessari atvinnugrein fari á hausinn vegna þess að menn hafa ekki gefið sér tíma til þess að skoða afleiðingar frumvarpsins? Er það sanngjarnt, er það réttlátt að menn hafi ekki gefið sér tíma í að hreinlega endurskrifa frumvarpið um stjórn fiskveiða vegna þess að það hefur svo mikil neikvæð áhrif sem mun gera atvinnugreinina ófæra um að vera hagkvæma, ófæra um að skila þjóðhagslegum arði, ófæra um að standa undir þessum veiðigjöldum? Er það réttlátt, er það skynsamlegt? Nei, það er óskynsamlegt og óréttlátt og skilar þjóðinni engum tekjum, frú forseti, það er vandinn.

Þess vegna þurfum við að leggjast yfir það hvað er hóflegt gjald. Við þurfum að svara því út frá þessari spurningu: Hvað er það sem útgerðin getur skilað til ríkisins? Og við þurfum líka að vera tilbúin til þess að ræða það alvarlega hvernig við erum að skattleggja landsbyggðina umfram það sem hún er skattlögð í dag, sem er verulegt. Önnur hver króna sem til verður á landsbyggðinni rennur beint í ríkiskassann sem er meira en í öðrum byggðarlögum. Þetta á síðan að bætast við, tíu sinnum hærri upphæð á að renna frá landsbyggðinni til ríkisins án þess að menn hafi sýnt á spilin, án þess að þeir hafi sýnt hvernig þeir ætli að koma þessum fjármunum út aftur. Er ekki skynsamlegast að fólkið á svæðunum geri það sjálft, (Forseti hringir.) eða er skynsamlegast að ríkið og stjórnmálamenn standi í því vafstri? Ég segi nei við því.



[17:37]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessar breytingartillögur sem gerðar voru á frumvörpunum milli umræðna. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa ekki verið lagðir fram neinir útreikningar á því með hvaða hætti þetta mun enda. Fullyrt er í umsögnum um frumvarpið, eins og það var lagt fram upphaflega, að þetta muni hafa skelfilegar afleiðingar á þau fyrirtæki sem fyrir eru og meiri hluti þeirra fyrirtækja sem eru í þessum rekstri muni ekki lifa það af að taka á sig slíka skattlagningu. Engin úttekt hefur að mínu viti verið gerð á því hvaða áhrif það bráðabirgðaákvæði sem gert er ráð fyrir nú, sem varðar skuldsett fyrirtæki, ívilnun til þeirra, muni hafa.

Ég held að þegar verið er að taka svona ákvarðanir um að leggja gríðarlega mikla skatta á atvinnugrein og helstu sérfræðingar segja að slíkir skattar hafi geigvænlegar afleiðingar hefði verið nær hjá meiri hluta nefndarinnar, fyrst verið var að breyta þessari tillögu, að láta fara fram eitthvert mat á því hvaða afleiðingar breytingin mundi hafa.

Mig langar að vita, af því að hv. þingmaður er í þessari nefnd, hvort þetta hafi ekkert komið til tals eða hvort fólki í þessari ágætu nefnd finnist þessi vinnubrögð forsvaranleg. Ég hélt að við værum hér að reyna að taka upplýstar ákvarðanir sem byggja á einhverjum gögnum en ekki hentistefnuákvarðanir til að menn geti bjargað sér úr klípu sem þeir eru vissulega komnir í í þessu máli miðað við allar þær umsagnir sem fram eru komnar.



[17:39]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg laukrétt að sú greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu er eina greinargerðin sem hefur verið gerð. Annar sérfræðinganna sem vann þá greinargerð hefur vissulega komið fyrir nefndina og fjallað um breytingartillögurnar og sagt, eins og ég hef greint frá í fyrri ræðum, að þær séu allar til bóta, sumar augljósar og hefðu í raun og veru átt að standa í frumvarpinu en aðrar eru afleiðingar þess að aðferðafræðin sem lögð er til í frumvarpinu er vonlaus, hún er útilokuð. Þær lagfæringar sem eru sannarlega jákvæðar byggja á einhverju sem er vonlaust.

Með tilliti til þess, ef menn breyta ekki þeim hugmyndum sem eru í frumvarpinu um stjórn fiskveiða, sem hafa gríðarleg áhrif á möguleika greinarinnar á að standa undir veiðigjöldum, var niðurstaða sérfræðingsins sú að hann stæði við þá niðurstöðu sem kemur fram í greinargerðinni þess efnis að fyrirtækin gætu ekki með góðu móti staðið undir þessu öðruvísi en að lenda í vandræðum og verða gjaldþrota sum hver af völdum þess.

Það er mjög áhugavert að heyra umræðu stjórnarliðanna sem koma ýmist í pontu og halda því fram að sjávarútvegurinn sé gjaldþrota og það skipti því engu máli hvernig við högum okkur eða koma og segja að sjávarútvegurinn standi svo vel að hægt sé að skattleggja hann upp á 25 milljarða leikandi. Það er auðvitað fráleitur málflutningur þegar menn koma hingað upp og segja: Það er mitt mat að sjávarútvegurinn geti greitt 15 milljarða — og að við séum búin að lækka gjaldið svo mikið í breytingartillögunum. Ég held að ég hafi sagt það í gær að ef menn hefðu lagt fram 100 milljarða veiðigjald og lækkað það síðan um 85 milljarða, væru þeir þá ekki frábærlega góðir? Það er jafnlítill grunnur sem liggur á bak við þá skoðun. (Forseti hringir.) Það þarf að fara yfir það (Forseti hringir.) hvort greinin þoli 15 milljarða eða 10 eða jafnvel eitthvað (Forseti hringir.) minna.



[17:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Upplýsingar eru akkúrat lykillinn að því að fá einhvern botn í málin og geta tekið ákvarðanir sem teljast þokkalega gáfulegar. Hér virðist vera rennt blint í sjóinn og þeir sem tala fyrir þessum vinnubrögðum eru agalega hissa á því að við séum ekki kát yfir því að það sé þó búið að lækka gjaldið. Ég skil einfaldlega ekki hvernig menn fara að því að stjórna heilli þjóð ef þeir geta ekki einu sinni lagt fram útreikninga á því hvernig þeir hugsa hlutina. Maður hefur smááhyggjur af því ef þetta birtist okkur svona í þessu máli hvernig öll önnur mál eru vaxin hjá þeim sem stjórna landinu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, því að í nefndaráliti 1. minni hluta, þ.e. frá sjálfstæðismönnum í atvinnuveganefnd, er mikið talað um stjórnarskrána og þar birtist að a.m.k. fjögur stjórnarskrárákvæði stangast á við þetta frumvarp. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom í andsvar við mig fyrr í dag og sagði að rétt væri að skoða það, þetta atriði þyrfti að skoða. Ég spurði hv. þingmann hvenær ætti að gera það því að við erum í 2. umr. um þetta mál og ég heyri ekki betur en svo að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sé mikið í mun að við samþykkjum þetta mál óbreytt.

Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum með mér og öðrum þingmönnum að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá en stjórnarliðar ætli sér engu að síður að keyra málið í gegn? Er þetta ekki eitthvað sem ber að hafa áhyggjur af? Er þetta ekki eitthvað sem við einsettum okkur að gera ekki þegar við sátum í þingmannanefndinni svokölluðu (Forseti hringir.) og lögðum til bætt vinnubrögð í þinginu? (HHj: 63:0.)



[17:44]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir að það er ákaflega mikilvægt. Og af því að hér var kallað fram í af hv. þm. Helga Hjörvar 63:0 þá er það rétt að fullkomin samstaða var um það í þinginu að menn ætluðu að breyta vinnubrögðunum. Það hefur augljóslega ekki verið gert. Það var líka samdóma álit í þeirri skýrslu, 63:0, að fordæma þau vinnubrögð sem stjórnsýslan hefði stundað á árunum fyrir hrun. Ef við höfum engu breytt stöndum við sennilega í þeim sporum að geta fordæmt stjórnsýsluna síðan þá líka.

Það hefði t.d. verið skynsamlegt að koma á laggirnar lagaskrifstofu Alþingis. Það er mál sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði fram á fyrsta ári þessa kjörtímabils en meiri hlutinn hefur tafið í nefnd, geymt í nefnd allan þann tíma og neitað að taka út. Hæstv. forsætisráðherra setti síðan upp lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu sem var ekki tilgangur eða meining þeirra sem sátu í þingmannanefndinni að yrði gert. Þá mundu svona mál ekki koma inn án þess að þau hefðu fengið skoðun á því hvort þau brytu stjórnarskrána eður ei.

Það eru eitt eða tvö atriði sem menn telja sig hafa tekið á í breytingartillögunum, sem létta þrýstingnum af því að um stjórnarskrárbrot sé að ræða, en engu að síður er frumvarpið því marki brennt að það er ekki nægilega vel ígrundað, það er mjög flókið. Það skilja þetta mjög fáir og þurfa virkilega að leggjast yfir það til að ná niðurstöðu í það mál. Ein afleiðing af því er sú að þegar menn setja fingurinn upp í vindinn og segja: Ja, 15 milljarðar, það er ágætt, það er bara hóflegt — og gleyma til að mynda því að með þessum breytingartillögum á að létta álögunum af þeim sem eru skuldsettir. Það þýðir í raun og veru að verið sé að leggja 25 milljarða álag, hlutfall, á þá sem eru skuldlitlir. Var það meiningin? Var meiningin að láta þá sem hafa hagað sér að margra mati mjög skynsamlega, hafa fjárfest á eðlilegan hátt og eru skuldlitlir, að þeir yrðu skattlagðir í botn (Forseti hringir.) þannig að þeir gætu ekki fjárfest og byggt upp samfélagið sitt á næstu árum? (Forseti hringir.) Var það meiningin?



[17:46]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum ræðuna. Ég er raunar ósammála honum um margt, ég er mjög ósammála honum í grundvallaratriðum og málflutningi margra samflokksmanna hans sem mér sýnist að sé bara ætlað að ala á ósætti og andúð innan samfélagsins með því að margítreka það að tilteknir stjórnmálaflokkar sem eru í stjórn reyni að auka andstöðu og koma af stað styrjöld milli höfuðborgar og landsbyggðar. Því er ég hjartanlega ósammála, ég tilheyri engum slíkum hópi og hef aldrei gert. Mér finnst umræðan raunar vera komin niður fyrir öll velsæmismörk þegar svona er talað.

Ég veit að hv. þingmaður er vel upplýstur og lesinn um útgerðina á Íslandi og tjáir sig þannig. Þess vegna vildi ég spyrja hann einnar spurningar og hún er þessi: Hver hefur meðalhagnaður íslenskra útgerðarfyrirtækja verið fyrir skatt, eigum við segja síðastliðin fimm ár? Hve mikill hefur hann verið að meðaltali síðastliðin tíu ár? Ef þessi árabil henta ekki getur þingmaðurinn valið önnur árabil svolítið nær okkur í tíma.



[17:48]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er gersamlega ósammála hv. þm. Magnúsi Norðdahl um að ég og samflokksmenn mínir séum að ala hér á einhverri óvild. Ekki vorum það við sem stóðum fyrir því að espa upp þjóðina og koma af stað öllu þessu ósætti. Ekki vorum það við sem stóðum fyrir Evrópusambandsumsókninni sem skipt hefur þjóðinni í tvær fylkingar. Ekki vorum það við sem gengum fram með þeim pólitíska ofsa sem kallað hefur fram mótmæli, til að mynda í dag þar sem koma fram svona gríðarlegar andstæður. Ég heyrði það þegar ég var úti á Austurvelli í dag að það skipti engu máli hver talaði þar, þó að þar kæmi sveitarstjóri af landsbyggðinni sem talaði um landsbyggðarvinklana hrópuðu þeir sem voru að mótmæla LÍÚ — og þeir máttu það svo sem alveg, mótmælin voru til þess: Niður með landsbyggðina. Ekki egndi sá sem hér stendur til þess eða bjó til þessar aðstæður. Það voru ríkisstjórnarflokkarnir sem hv. þingmaður tilheyrir.

Varðandi spurningarnar sem hv. þingmaður setti fram um meðaltalshagnað síðustu fimm eða tíu ára og eitthvað slíkt þá er ég ekki með það á hraðbergi. En ég get sagt hv. þingmanni að hér hefur margt af hans fólki talað um, og það er rétt, að tekjuskattur útgerðarinnar til margra ára, kannski síðustu tíu ára fyrir utan síðasta ár, hefur verið um það bil milljarður. Það er lág tala þannig að hagnaðurinn hefur verið lítill. Aftur á móti hefur tekjuskatturinn aukist snarlega. Hann var 2,7 milljarðar á árinu 2010, meðal annars vegna þess að það gekk betur og vegna þess að menn greiða nú niður skuldir sínar og eru með raunverulegan hagnað. Tekjuskatturinn á árinu 2011 verður væntanlega um 5 milljarðar og enn hærri á árinu 2012 vegna þess að menn greiða nú niður skuldir sínar.

Frumvarpið sem hér er lagt fram mun hafa þær afleiðingar að tekjuskatturinn verður lægri og fjöldi fyrirtækja fer á hausinn. Það segja sérfræðingar sem þekkja greinina miklu betur en við hv. þingmenn, bæði sá sem hér stendur, (Forseti hringir.) þó að ég sé ekki í atvinnuveganefnd, og hv. þm. Magnús Norðdahl.



[17:50]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki taka undir það að ríkisstjórnin sé að egna til óeiningar í samfélaginu þegar leitast er við að finna niðurstöðu í málum sem hafa um langt skeið verið deiluefni og tekist hefur verið á um í kosningum og þjóðin hefur verið nokkuð skipt í afstöðu sinni til. Þá er nauðsynlegt að reynt sé að leita svara við þeim spurningum sem fá þarf svör við, meðal annars um afkomu útgerðarinnar og stöðu hennar. Það þarf að fá niðurstöðu um hvað það þýðir fyrir Ísland að taka aðra stöðu í samfélagi þjóðanna eða halda þeirri stöðu sem hún er með. Ég held að þær aðgerðir sem miða að því að gera þetta efli ekki ófrið. Hins vegar finnst sumum þingmönnum það ágætt fyrir sinn hatt að halda því fram að svo sé. Ég er þeim mjög ósammála um slík vinnubrögð og tel að þau séu ekki til mikils sóma.

Hv. þingmaður nefndi þó að minnsta kosti hagnaðartölur fyrir árin 2010 og 2011 þó að hann hafi ekki haft tölurnar nákvæmlega á hraðbergi, en vegna þess að gerð er mjög stíf krafa í umræðunni um að hagnaður útgerðarinnar verði eftir í heimabyggð vil ég spyrja þingmanninn að því beint út, líka fyrir þessi tilteknu ár: Hve stór hluti þessa hagnaðar hefur verið fjárfestur í verkefnum í Reykjavík, þ.e. í fyrirtækjum og fasteignum í Reykjavík og nágrenni? Hve stór hluti hefur verið fjárfestur erlendis og hve stór hluti hefur verið fjárfestur í beinum verkefnum á landsbyggðinni?



[17:52]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það að ríkisstjórnin leitist við að ná niðurstöðu og sátt í ágreiningsmálum hefði til dæmis verið snjallt í Evrópusambandsmálinu að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi fara í þá vegferð.

Varðandi stjórn fiskveiða, ef menn vilja ná niðurstöðu og sátt, hv. þm. Magnús Norðdahl, hefði verið skynsamlegast að hafa samráð við þá sem tengjast þessu máli, bæði hagsmunaaðila í greininni, sveitarfélög og sem flesta. Þá hefðu menn verið að reyna að ná niðurstöðu í ágreiningsmálum, ég er sammála því. En það er eins með þetta eins og markmið frumvarpsins, menn setja sér háleitar hugmyndir um hvað þeir ætla að gera og gera svo bara eitthvað allt annað og reyndar alveg þveröfugt satt best að segja, þeir búa til ágreining og efna til ófriðar eins og við sáum á Austurvelli í dag, því miður.

Varðandi þær fjárfestingar og hve mikill hluti hafi verið fjárfestur hér og þar og erlendis get ég bara sagt: Það hefur ekki verið nægilega kannað. Það er hins vegar vitað að fjárfesting í sjávarútvegi og reyndar í atvinnulífinu á Íslandi er í sögulegu lágmarki, meðal annars vegna þess að greininni er haldið í fullkominni óvissu. Það er líka sannleikur að þrátt fyrir hástemmdar og frasakenndar yfirlýsingar, ekki síst þingmanna Samfylkingarinnar, um að það sé svo og svo mikið af skuldum sjávarútvegsins orðið til vegna fjárfestingar erlendis, að af þessum 360 eða allt að því 400 milljörðum sem greinin skuldar eru 30 milljarðar ótengdir greininni, það eru nú öll ósköpin. Auðvitað er það há tala en það er ekkert í líkingu við það sem menn hrópa hér úr þessum ræðustól. Greinin hefur meira og minna verið að byggja sig upp og þess vegna er hagnaðurinn að aukast. Kvótakerfið hefur hjálpað til og menn hafa gengið skynsamlega fram og horft til langs tíma við að byggja upp fiskstofnana. Þeir hafa veitt skynsamlega (Forseti hringir.) og byggt upp markað. Þess vegna stendur Ísland vel (Forseti hringir.) þegar til lengri tíma er litið ef við hættum að beita öfgapólitík.



[17:54]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefði breytt þessu máli mjög mikið ef það hefði verið betur undirbúið þegar það var sent til Alþingis til umsagnar, meðferðar og ákvörðunar. Hví segi ég það, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að eins og málið var lagt fram mátti vera ljóst og það gat engum dulist að það mundi kalla fram mjög hörð viðbrögð allra þeirra sem starfa í sjávarútvegi. En það mundi ekki síður kalla fram hörð viðbrögð þeirra sem eru í forustu fyrir sveitarstjórnir víðs vegar um landið vegna þess að ef frumvarpið hefði farið hér í gegn óbreytt, eins og lagt var upp með, hefði það svo augljóslega valdið mjög þungum búsifjum hringinn í kringum landið.

Hvernig hefði átt að standa að frumvarpinu, virðulegi forseti? Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði átt að senda hugmyndir sínar, án þess að lýsa þeim út í hörgul, til háskólasamfélagsins og til þeirra sem starfa í greininni, sem hafa besta og gersta þekkingu á þessum málum, og kalla eftir viðbrögðum, kalla eftir umsögnum, taka þetta saman. Og þegar frumvarpið kæmi fram væri búið að lýsa því til hvaða athugasemda hæstv. ráðherra vildi taka tillit og hvernig þess sæist stað í frumvarpsdrögunum og við hvaða athugasemdum hæstv. ráðherra vildi ekki bregðast og þá rökstuðninginn fyrir því. Þannig búið hefði málið fengið allt öðruvísi umfjöllun í þinginu og átökin hefðu ekki orðið jafnharkaleg og raun ber vitni.

Það er ákveðin hætta fólgin í því þegar lagt er af stað með þær hugmyndir að setja fram reiknireglu um það hvernig afkoma í greininni myndast. Hættan felst í því að í staðinn fyrir að leita að hagkvæmustu lausnunum fari menn um of að horfa á reikniregluna og hvernig hún kemur sem best út fyrir viðkomandi rekstur. Það getur leitt til niðurstöðu sem er fjarri því að hámarka hag þjóðarinnar af auðlind sinni. Það getur til dæmis leitt til þess að menn dragi úr fjárfestingum og tækniþróun en reiði sig frekar á að auka vinnuaflið og halda um leið niðri launum. Það er viss hætta á slíku þegar búið er að setja upp einhvers konar reikniformúlur sem menn ætla að nota til að meta hvernig áhrif þær hafa á reksturinn.

Þess vegna held ég að það sé miklu affarasælla, ef menn ætla sér á annað borð að setja eitthvert svona gjald á, að miklu einfaldari háttur verði hafður á við álagningu slíks gjalds vegna þess að sú aðferðafræði og hugmyndafræði sem að baki lá var að grípa ætti utan um auðlindarentu. Sú aðferð sem þarna kemur fram grípur ekki utan um auðlindarentuna. Ég held að langflestir hv. þingmenn séu nú sammála því og það hefur komið fram hjá fræðimönnum sem skoðað hafa málið, þar á meðal prófessorum í þessum fræðum við Háskóla Íslands, að þessi reikniformúla gerir það ekki. Þá er betra að sleppa slíkum reiknikúnstum og hafa gjaldtökuna einfalda.

Ég er þeirrar skoðunar og ég hef lýst henni, að til lengri tíma litið varðandi arðinn af þessari auðlind njóti þjóðin þess best að annars vegar sé fjárfest í greininni og haldið áfram að þróa greinina og styrkja samkeppnisstöðu hennar við annan sjávarútveg og annan matvælaiðnað á erlendum mörkuðum, ég tel að þannig njóti þjóðin ávaxta af auðlindinni með því að arðsemin eykst. Hins vegar tel ég að sá umframarður sem verður til í greininni — og reyndar fer þetta saman, þ.e. fjárfestingar í því að bæta tækni — renni um leið út úr kjarnagreininni inn í ýmis iðnfyrirtæki, tæknifyrirtæki. Það er ekki tilviljun að Samtök iðnaðarins hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp. Hins vegar er eðlilegt, sem reyndar er auðvitað meira umdeilt og maður hefur heyrt ýmsar skoðanir á því, að sá auður sem verður til eftir að þessum fjárfestingum sleppir renni í aðrar áttir, að fjárfest sé í öðrum greinum. Með því verða til fjárfestingar og þá verða til störf og tækifæri. Með því að auður í samfélaginu vex smám saman verða til tækifæri fyrir sífellt fleiri. Það er einmitt mergur málsins og það er rangt að halda því fram að eina leiðin fyrir þjóðina til að njóta arðs af fiskveiðiauðlindinni sé sú að ríkið taki allan arðinn eða stóran hluta hans til sín. Það er bara röng hugsun að mínu mati.

Ég vil aðeins gera hér að umtalsefni orðræðuna og umræðuna sem á sér stað um þessi mál. Ég verð að segja eins og er að það veldur mér nokkrum áhyggjum þegar verið er að ræða þessa hluti hversu stutt er í það hjá mörgum hv. þingmönnum og reyndar víða í samfélaginu að grípa til slagorða á borð við sérhagsmuni, sérhagsmunagæslu, kvótagreifa o.s.frv. Ég tel að þegar menn horfa á þær röksemdir sem færðar hafa verið fram gegn þessari gjaldtöku blasi við að sú hugsun sem að baki er, þ.e. hugsunin um almannahagsmuni og hvernig íslensku þjóðinni reiði best af, hvernig við nýtum best auðlindir okkar og með hvaða hætti. Menn eru sammála um markmiðin, menn eru sammála um að við viljum að hagur þjóðarinnar eflist jafnt og þétt en menn eru ósammála um leiðirnar.

Þegar mikill og stór hópur sveitarstjórnarmanna skrifar undir áskorun til ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að breyta þessum málum er það ekki vegna þess að allir þessir einstaklingar, nafngreindir einstaklingar, einstaklingar sem hafa notið trúnaðar og trausts í heimabæjum sínum, ganga erinda einhverra ákveðinna manna heldur gera þeir það fyrst og fremst til að gæta að hagsmunum heildarinnar, til gæta að hagsmunum byggðarlaga sinna. Eða eru menn virkilega þeirrar skoðunar að það sé í lagi að halda því fram að bara af því að menn eru ósammála ríkisstjórninni, bara vegna þess að menn eru ósammála þessum frumvörpum sé þar með hægt að stimpla viðkomandi einstaklinga og kalla málflutning þeirra einhvers konar hræðsluáróður eða hagsmunagæslu? Auðvitað er það ekki svo.

Ég tók eftir því, virðulegi forseti, á þeim útifundi sem haldinn var á Austurvelli að þar voru haldnar ræður sem voru bæði efnislega góðar og ágætlega rökfastar. En á meðan á ræðuhöldunum stóð var stanslaust púað og hrópað. Mér fannst það nokkuð táknrænt. Ég er þeirrar skoðunar að þegar menn grípa til slagorðanna og orðaleppanna og þegar menn byrja að púa og hrópa hafi rökin þrotið. Við eigum að rökræða hér inni og það er sjálfsagt að rökræða um hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér. En við eigum að geta verið sammála um það, allir hv. þingmenn, að við viljum reyna að tryggja sem best hag allrar þjóðarinnar. Ég er ósammála þeirri hugsun og þeirri skoðun að það verði best gert með því að hækka skatta og álögur á einstakar atvinnugreinar.

Af því að spurt var um afkomu í sjávarútvegi blasir tvennt sem menn sjá þegar þeir skoða afkomutölur: Annars vegar að afkoman í greininni breyttist mjög eftir að kvótakerfið var tekið upp, eftir að séreignarréttarkerfi í sókninni var tekið upp og sérstaklega eftir að viðskipti með aflaheimildir voru leyfð. Það er reyndar eitt af þeim fáu verkum sem ég styð sem vinstri stjórnin stóð að á sínum tíma.

Hins vegar er áberandi að það koma löng tímabil þar sem afkoman er ýmist óviðunandi, rétt við núllið eða jafnvel neikvæð, þannig að stundum árar vel og stundum illa. Sumir horfast ekki í augu við það og segja: Nú þarf að grípa í af því að afkoma sjávarútvegsins er svo góð. En þá kemur upp sú spurning: Hvað var þá sagt þegar afkoman var vond, þegar gengið var allt of hátt skráð, þegar skera þurfti harkalega niður og eignir fólksins úti um allt land hrundu í verði? Menn sátu fastir í húsum sínum, atvinnulausir, við þessar erfiðu aðstæður. Ég man ekki eftir því að þá hafi verið staðinn vörður um að gerðar yrðu einhverjar sérstakar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn, enda var rétt að gera það ekki, mönnum var ætlað að þreyja þorrann og þeir gerðu það. En þá er svolítið umhendis að segja að þegar vel gengur eigi það allt saman meira og minna að renna í ríkissjóð. (Forseti hringir.) Ég vildi taka það fram og vona að hv. þingmenn hafi það í huga, virðulegi forseti.



[18:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en ég held að áhyggjur hans af því að auðlindarentan sé ekki tekin með þeirri aðferð sem notuð er í frumvarpinu séu ástæðulausar. Norðmenn nota sömu aðferð og eru flestum þjóðum færari í því að tryggja almenningi hlutdeild í auðlindarentunni. (Gripið fram í.) Með sama hætti reikna þeir skatta á orkufyrirtækin í landi sínu eins og gert er hér í þessu frumvarpi um sjávarútveginn.

Í öðru lagi hafði þingmaðurinn áhyggjur af því að frumvarpið mundi hafa áhrif á hegðan manna í fyrirtækjunum sem tæki þá mið af þeim reiknireglum sem settar hefðu verið. Það eru sömuleiðis ástæðulausar áhyggjur vegna þess að reiknireglurnar eiga við um greinina í heild sinni en ekki einstök fyrirtæki. Þetta er ekki skattlagning á einstök fyrirtæki. Það er því lítil hvatning til þess að haga sér í rekstri sínum til að hafa áhrif á leikreglurnar því að hvert og eitt fyrirtæki getur lítil áhrif haft á reiknireglurnar. Þess vegna er það ekki hvatning til undanskota heldur þvert á móti rík hvatning til þess að menn hagræði svo sem kostur er því að gjaldið er lagt almennt á greinina alla.

Það er auðvitað hægt að nota fleiri aðferðir við að ákvarða auðlindarentu og ein þeirra er að gera það á markaði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann teldi það vera farsælli leið að láta útgerðarmennina bara bjóða í aflaheimildirnar á markaði og hvað hann héldi að verðmyndunin mundi þá verða á hinum frjálsa markaði á hverju kílói aflaheimilda á ári, hvað menn væru tilbúnir til að borga fyrir það einkaleyfi, hvort það væru 50 kr., 100 kr., 200 eða 300 kr. eins og við höfum séð á leigumarkaðnum á köflum.



[18:07]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að ég og hv. þm. Helgi Hjörvar erum mjög ósammála um þá grundvallarspurningu hvort um sé að ræða eignarréttindi á sókn eða ekki. Verðmæti kvótanna í viðskiptum endurspeglar væntingar manna um framtíðarhagnað en það hefur gerst þannig núna á töluvert löngum tíma að greinin hefur verið að kaupa út þá sem voru með óhagkvæmar útgerðir, gerði það á sínum tíma, þannig að sóknargetan minnkaði og menn borguðu fyrir það. Menn borguðu sem sagt öðrum fyrir að hætta og þeir fjármunir runnu að stórum hluta til dæmis til lánastofnana sem voru í eigu íslenska ríkisins, Landsbankans, Útvegsbankans á sínum tíma o.s.frv.

Síðan hafa menn verið að skuldsetja sig til að auka hagkvæmni í greininni eins og kom fram hjá einum ágætum hv. þingmanni að af þessum u.þ.b. 400 milljarða skuldum er einungis lítill hluti, kannski 20–30 milljarðar, vegna fjárfestinga utan greinarinnar sem bendir til þess, virðulegi forseti, að greinin hefur nú þegar — og það sést í gegnum skuldastöðuna — verið að fjárfesta til framtíðar til að auka verðmæti. Þess vegna er sú spurning sem hv. þingmaður leggur fram um það hvert verðið yrði ef þetta yrði allt saman boðið upp — til að fá eitthvert mat á auðlindarentunni með þeim hætti yrðu menn að horfa fram hjá þeim kostnaði sem nú þegar hefur verið lagður í það að mynda þessa auðlindarentu.

Enn og aftur, sú aðferð sem er í frumvarpinu og var lögð til grundvallar við að meta auðlindarentu hefur fengið algjöra falleinkunn hjá þeim sem hafa skoðað þetta mál og hafa til þess sérþekkingu. Hitt er annað mál þegar um er að ræða auðlind eins og t.d. í Noregi þar sem ríkið getur sagt með sanni að þar sé um að ræða ríkisauðlind, eins og er með olíuna þar og orkuna þar sem, eins og hjá okkur, ríkisnýtingarsaga er mjög sterk. Þar gilda bara önnur sjónarmið.



[18:09]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, ég held að það hafi verið óvenjulega heiðarlegt í þessari umræðu vegna þess að þingmaðurinn gengst einfaldlega við því að hann hafi önnur sjónarmið um eignarréttinn á auðlindinni en við sem tölum fyrir frumvarpinu, ef ég skil hv. þingmann rétt og hann leiðréttir mig þá í síðara svari sínu, þ.e. að það sé háð einkaeignarrétti. Það sé sem sagt fiskurinn í sjónum og rétturinn til að veiða hann, hann sé eign útgerðarmannanna en ekki almennings í landinu og ríkisins. Þá er auðvitað eðlilegt að menn hafi önnur sjónarmið um það hvað er hæfilegt veiðigjald ef menn telja að þetta sé eign útgerðarmannanna en ekki almennings.

Það sem hér er gert ráð fyrir í veiðigjald er að greinin greiði 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló til að standa straum af hluta af kostnaðinum við þjónustu við sjávarútveginn. Ég vil þá annars vegar spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé óhæfilegt gjald, 9,50 kr., til að standa undir Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og hluta kostnaðar við Landhelgisgæsluna og öðru slíku. Hins vegar er gert ráð fyrir því að í gríðarlega góðu árferði eins og nú er sé greinin að skila liðlega 20 kr. og byggir sannarlega á því að þetta sé eignarréttur almennings, aðgangurinn að auðlindinni og fiskurinn í sjónum. Úr því að þingmanninum þykir það vera óhæfilega hátt endurgjald hvað þætti honum þá sanngjarnt endurgjald? Ættu menn bara að halda sig við þessar 9,50 kr. eða teldi hann að í árferði eins og það er í dag mætti það vera 10 kr. betur eða hvað finnst hv. þingmanni sanngjarnt í þessu efni?



[18:11]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt mergurinn málsins. Ég er þeirrar skoðunar og flutti fyrir því rök í fyrstu ræðu minni að um væri að ræða eignarréttindi á sóknarréttinum en hins vegar hefði íslenska ríkið algjöran fullveldisrétt yfir fiskstofnunum og gæti tekið ákvarðanir um heildarafla og annað slíkt. Síðan bæri að nýta þessa stofna og það væri hlutverk ríkisins að tryggja það að sem mestur afrakstur skilaði sér til þjóðarinnar og þar erum við hv. þingmaður ósammála um hvernig það gerist og með hvaða hætti það gerist best.

Ég hjó eftir einu. Ég hjó eftir því þegar hv. þingmaður talaði um hver ætti veiðiréttinn, þá sagði hv. þingmaður, virðulegi forseti: Almenningur og ríkið. Nú er málið það að hér hefur gjarnan verið talað um þjóðareign og hv. þm. Skúli Helgason var spurður að því fyrr í dag hvað hann ætti við með hugtakinu þjóðareign og hann sagði að þar væri verið að ræða um ríkiseign sem ekki mætti framselja. Í máli hans kom hvergi fram sú hugmynd að einhvers konar önnur almannaeign væri þar fyrir utan. Ég held að það sé einmitt málið. Hér er bara um að ræða ríkiseign og ekkert annað. Svo geta menn haft mismunandi reglur um það hvort framselja megi þær eða ekki og um þetta snýst deilan að hluta.

Hvað varðar krónutölu í þessu gjaldi er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að við tveir erum ósammála um það hvernig þessi eignarréttur hefur myndast og hvernig auðlindarentan hefur myndast. Ég endurtek: Allar þessar æfingar, þær reiknikúnstir um það hvernig á að leggja á auðlindagjald þegar svo augljóst er að það gjald grípur ekki utan um auðlindarentuna, þær eru allar gagnslausar.

Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn eigi að greiða fyrir alla þá þjónustu og eigi að greiða það upp í topp sem hann nýtur af hálfu ríkisins, hafrannsóknir, fiskveiðieftirlit og annað slíkt, hann á auðvitað að greiða það, það er eðlilegt. Ég er síðan þeirrar skoðunar að þjóðinni gagnist það best að arðurinn verði síðan eftir í þessum fyrirtækjum, það gagnist best fyrir landsbyggðina og hinar dreifðu byggðir og þjóðina alla að þannig sé að þessu staðið frekar en að þetta renni inn í ríkissjóðinn og ég og hv. þingmaður förum að véla um þá fjármuni.



[18:14]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Ég fór yfir það í ræðu minni í gær hver þessi grundvallarágreiningur er á milli okkar, getum við sagt, svona hugmyndafræðilegur, um tilurð einkaeignarréttar og hvernig honum skuli ráðstafað eins og þá kom fram, sem ég vona að þingmaðurinn hafi hlustað á því að ég gerði máli hans góð skil í ræðu minni, að þar er ég ekki sammála honum. Ég er sem sagt ekki sammála því að ég geti átt hús, leyft öðrum afnot af því og að sá afnotaréttur viðkomandi aðila verði ævarandi eign hans. Það er og verður leiguréttur, óbein eignarréttindi. Þannig hef ég kosið að skilgreina það.

Aðallega vildi ég benda á að menn hafa oft og tíðum tekið upp ágreining um hvað sé þjóðareign og spurt að því, stundum meira að segja með þjósti. Ég held að hollt væri fyrir þá sem þannig spyrja að lesa sig í gegnum stutt og mjög aðgengileg fræðirit sem hægt er að nálgast á vef Alþingis úr þingræðum þar sem vitnað hefur verið til dæmis til nefndarálita sem dr. Gunnar Thoroddsen samdi við breytingar þegar hann var formaður stjórnarskrárnefndar frá 1973–1983. Vísa má til ræðu hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, þegar hann lagði fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni, og síðast en ekki síst til þeirrar samantektar sem dr. Jóhannes Nordal gerði síðast á árinu 2000. Við skulum ekki þvæla okkur í ágreining um þetta. Ég er því ekki sammála þingmanninum um að þarna sé einhver vafi á.



[18:16]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar þá líkingu eða það dæmi sem hv. þingmaður tók varðandi húseign og það að mönnum, öðrum aðila, sé leyft að nýta hana tímabundið, þá er ég ósammála forsendunni, þ.e. ég tel að það hafi aldrei verið þannig að ríkið hafi átt húsið, ef svo má segja. Ég tel að það hafi aldrei verið þannig að ríkið hafi átt sóknarréttinn og síðan framselt hann eða leigt hann til annarra. Ég tel að það sé einmitt á grundvelli hefðarréttar og vitnaði í ræðu minni til þeirra hugmynda sem eiga upphaf sitt hjá John Locke og öðrum heimspekingum sem hafa fjallað um þetta. Reyndar tel ég að hér sé á ferðinni eitt af þeim grundvallarmálum stjórnmálanna, þ.e. hvernig eignarréttur verður til og á hvaða forsendum og hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkisvaldið lýsir því yfir að allar auðlindir sem ekki eru nú þegar í eigu einhvers aðila, einkaeign eða opinberri eigu, verði hér eftir í eigu ríkis. Ég tel það hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Hvað varðar hugtakið þjóðareign hef ég kallað mjög eftir því að menn kalli hlutina sínum réttu nöfnum. Hér kom fram, eins og ég nefndi áðan, í svari frá hv. þm. Skúla Helgasyni sá skilningur hans að um sé að ræða þjóðareign, það þýði ríkiseign sem ekki megi framselja. Gott og vel, þá skulum við bara kalla þetta það. Við skulum þá bara kalla það það að veiðirétturinn verði sem sagt ríkiseign og ekki megi framselja hann, gott og vel, það er þá einhver niðurstaða.

Af því að hv. þingmaður vitnaði til fræðirita vil ég gjarnan benda hv. þingmanni á skrif Sigurðar Líndals í Úlfljóti, 1. tbl. þessa árs, þar sem hann fer mjög rækilega yfir þetta hugtak, hvað það þýðir. Niðurstaða hans er einmitt sú að hugtakið þjóðareign eitt og sér hefur ekki merkingu fyrr en menn líta á það sem svo að um sé að ræða ríkiseign, því að hugtakið eitt og sér er mjög illa til þess fallið að fara til dæmis inn í stjórnarskrá, óvissan sem því fylgir er bara það mikil. En hugtakið ríkiseign er alveg skýrt og það er vel við hæfi að slíkt fari inn í stjórnarskrá, virðulegi forseti.



[18:18]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er svolítið merkilegt ef það er virkilega þannig að þingmaðurinn haldi því fram að fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, góðir og gegnir og sumir af okkar færustu lögfræðingum og fræðimönnum á sviði stjórnskipunarréttar í þeim ágæta flokki viti ekki hvað þeir leggi fram á Alþingi. Má vera að rétt sé, ég skal ekki deila um það, en ég er hins vegar sammála þeim í þessu efni og tel ekki vera neinn vafa á því.

Ég vil nota þennan stutta andsvaratíma til að fara í raunveruleg andsvör en ekki meðsvör og svona huggulegheit eins og hér eru stundum og segja að mér finnst rangt að leggja út af mótmælafundinum á Austurvelli með þeim hætti sem þingmenn hafa verið að gera. Ég held að sá fundur hér úti sýni okkur akkúrat að hann er táknrænn fyrir þann ágreining getum við sagt sem er í samfélaginu um auðlindina okkar og hann er okkur áminning um það að okkur ber nauðsyn til að ná sátt um það og það á að vera sameiginlegt markmið okkar.

Ég er líka sammála þingmanninum um að við eigum ekki að vera að nota orðaleppa og slagorð. En á sama tíma verð ég að segja að ég sit hér sem þingmaður míns stjórnmálaflokks undir stöðugum árásum nákvæmlega af þeim toga. Ég hlusta á það að ég sé andstæðingur landsbyggðarinnar, ég sé að gera árás á atvinnuvegi landsins. Ég hlusta á þingmenn segja hér að verið sé að ráðast á landsbyggðina. Það eru slagorð, árás á landsbyggðina, og mér finnst þau ósmekkleg. Ég er mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður sé, að ég tel, sammála mér um að þetta sé ekki uppbyggileg umræða.



[18:20]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur hvað varðar þjóðareignina, þá er ég þeirrar skoðunar að eins og orðið er notað í núgildandi fiskveiðistjórnarlögum lúti það að þessum fullveldisrétti ríkisins, ríkið hafi rétt til þess að ákvarða til dæmis heildarafla á fiskimiðunum í kringum Ísland rétt eins og ég tel að sú hugmynd að þjóðin eigi Ísland, að íslenska þjóðin eigi Ísland, hreyfi í engu því að bændur geti haft séreignarrétt á nýtingu á afmörkuðum svæðum landsins. En það hreyfir hvergi við valdi ríkisins til að setja um það almennar málefnalegar reglur sem eiga að lúta að því að auka sem best hag alls almennings. Þannig skil ég þetta nú.

Hvað varðar orðræðuna, það sem ég átti við þegar ég vísaði til fundarins hér fyrir utan í dag — ég er ekkert á móti því að menn haldi mótmælafundi, síður en svo, en mér fannst svolítið merkilegt þegar ég fór út og hlustaði á ræður að þar voru fluttar ræður sem voru innihaldsríkar, sem höfðu vissulega eitthvað að segja, menn gátu verið ósammála þeim, en ég tók eftir því að það var stanslaust verið að hrópa og reyna að kæfa niður ræðumennina. Ég held að það sé ekki skynsamlegt og ekki gott.

Varðandi það sem hv. þingmaður situr undir, og flokkur hans, að verið sé að gera árásir á landsbyggðina, ég ætla ekki neinum þingmanni það vitandi vits og viljandi að gera slíkt og ég hef aldrei tekið mér slík orð í munn. En ég er þeirrar skoðunar að afleiðingar þessa frumvarps, verði það að lögum, verði alvarlegar fyrir landsbyggðina, þær verði alvarlegar fyrir atvinnulífið úti á landi og þær verði alvarlegar fyrir byggðaþróunina á landsbyggðinni. Það er það sem skiptir máli og undir þeirri gagnrýni verða hv. þingmenn, virðulegi forseti, að sitja.



[18:22]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt á hv. Alþingi hvað menn teygja oft lopann um skilning sem er svo augljós. Síðustu hv. ræðumenn töluðu um frumuppsetningu, hvernig eignaraðild hefði orðið til o.s.frv. Ég veit ekki betur en að nánast allir þingmenn á Alþingi Íslendinga séu sammála um að auðlindin í hafinu, fiskurinn, sé sameign og eign allra landsmanna, þjóðarinnar. Hvort þar er fjallað um tæknilega lögfræðileg atriði skiptir ekki máli í sjálfu sér heldur að rétturinn og eignin er hjá þjóðinni allri og á að vera það. Síðan geta verið margar leiðir til að nýta þessa eign. Frá því að svokallað kvótakerfi var sett á hefur lykillinn í kerfinu verið að hluti aflans væri framseljanlegur, leigjanlegur, þó að margir telji, og ég er einn þeirra, að það megi framselja of hátt hlutfall. Ég tel að það eigi að lækka það niður í að minnsta kosti 75%, jafnvel 80%. Þessi atriði skipta miklu máli í því sem við erum að véla um.

Það kom fram greinilegur misskilningur og þekkingarleysi sem er ekkert venjulegt hjá hv. þm. Helga Seljan — Helga Hjörvar, fyrirgefðu, forseti. Það er svona þegar maður var á sínum tíma á þingi með góðum mönnum eins og Helga Seljan, þá rifjast þeir upp. Hann spurði hvort ekki væri þá skynsamlegt að allt þetta dæmi byggðist á uppboði á aflaheimildum án þess að tala nokkuð um tímasetningar eða annað. Það þýðir ekki að spyrja svona eins og um sé að ræða tómstundaveiði. Menn geta ugglaust spurt svona án þess að það raski nokkurri skynsemi ef um er að ræða einn dag í á, kannski tvo eða þrjá, en ekki í atvinnugrein sem þarf að skipuleggja sig til langs tíma vegna fjárfestinga, markaða o.fl. Mann rekur í rogastans þegar svona spurningar eru bornar upp í alvöru og líka þegar aðrir þingmenn eru spurðir hvað sé heppilegt gjald. Hvað er heppilegt gjald? Það eina sem ræðst í þeim efnum er að menn skoði ofan í kjölinn, fari ofan í saumana á því hvaða möguleikar eru á gjaldtöku þannig að viðkomandi atvinnugrein geti haldið áfram við eðlilegar aðstæður, eðlilegan arð, eðlilega endurnýjun o.s.frv. Þessi umræða er öll í tómri vitleysu, tómri tjöru, og það er alveg skelfilegt þegar svona er fjallað um þá atvinnugrein landsins sem er burðarásinn í velferðarkerfi Íslendinga.

Það er líka merkilegt að upplifa það að í dag var mjög sérstæður fundur á Austurvelli. Nær hundrað skipa floti landsmanna úr öllum landsfjórðungum kom siglandi til höfuðborgarinnar, til Reykjavíkurhafnar, líklega 70–80 skip, með um 1.300 sjómenn til að mæta til fundar á Austurvelli. Sjómenn af öllum þessum flota mættu mjög vel. Þar fyrir utan var kannski á fundinum heldur meiri fjöldi, ugglaust margir tengdir sjómönnum en einnig þeir sem vilja sýna þeim samstöðu. Það má ætla að þarna hafi verið um 3.500–4.000 manns. Gamall þjóðhátíðarhaukur sem hefur stjórnað og verið á þjóðhátíðum í áratugi flaskar ekki á að meta þann fjölda.

Á þessum stóra fundi var lítill hópur sem vildi ekki leyfa sjómönnum, landverkafólki, útvegsmönnum og talsmönnum sveitarfélaga að flytja sjónarmið sín á fundinum. Það er fólkið sem hefur á fyrri missirum verið á fundum á Austurvelli, fengið frið til að tjá sig og lagt höfuðáherslu á að menn fengju að segja sína skoðun. Þetta fólk, virðulegi forseti, stóð núna í yfir 70 manna hópi og baulaði og hrópaði ókvæðisorð, reyndi að trufla fundinn. Hvað er að þessu fólki? Ekki ætla ég að svara því en það er eitthvað mikið að.

Hins vegar er jafnframt ástæða til að spyrja: Hvað kemur til að fréttastofa Ríkisútvarpsins talar um þennan fund eins og eitthvert hjóm? Í fjögur-fréttum útvarpsins var sagt frá því að það hefðu verið nokkrir sjómenn á Austurvelli en aðallega hefðu verið mótmælendur sem voru að mótmæla LÍÚ og sjómönnum og landverkafólki og sveitarfélögum í landinu. Hvaða kjaftæði er þetta? Hvað er að fréttastofu Ríkisútvarpsins að leyfa sér svona bull og þvaður?

Það er komið að því að Alþingi Íslendinga fjalli um fréttastofu Ríkisútvarpsins og þær villur sem hún leggur fram í fréttaflutningi fyrir landsmenn. Þetta er einfaldlega ekki hægt. Allir ræðumenn á fundinum á Austurvelli í dag voru fulltrúar landverkafólks, sjómanna, sveitarfélaga og útgerðarmanna. Allir lögðu þeir fram kröfu um að ríkisstjórn Íslands drægi til baka þau frumvörp sem í umræðunni eru um breytingar á fiskveiðistjórn, hver einasti ræðumaður, og svo hlær Ríkisútvarpið að þessu. 1.300 sjómenn koma til Reykjavíkur, til höfuðborgarinnar, í fyrsta skipti í sögu höfuðborgarinnar, í fyrsta skipti í sögu heimsins siglir slíkur fjöldi skipa inn í höfn höfuðborgar til að mótmæla ríkisstjórn Íslands og það var smáfrétt í útvarpinu. Hverjum hentaði það? Hvað er að þessu liði?

Ef þeir hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina hefðu einhvern metnað ættu þeir eftir svona fund þar sem afl Íslands var að tala, fólkið sem skapar grunninn í þjóðfélagi okkar, að segja af sér á stundinni og biðjast afsökunar. Þetta er svo alvarlegt mál. Nei, það var bara skemmtisigling hjá 70–80 stærstu fiskiskipum landsins að sigla um langan veg til höfuðborgarinnar til að mótmæla niðurrifi ríkisstjórnarinnar á landinu öllu, byggðunum, vinnu þessa fólks, öllu því sem fólkið treystir á.



[18:32]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki gert að því að hv. þm. Árna Johnsen, sem hélt hérna skammarræðu yfir Ríkisútvarpinu, hafi ekki líkað fréttaflutningurinn, hann vill eflaust fá að hafa einhver áhrif á hann. Það er ekki það sem við ræðum hér, við ræðum hér frumvarp um veiðigjöld. Þingmaðurinn getur vissulega haft ákveðnar skoðanir á því hvort fréttir af því séu honum samboðnar eða ekki en frumvarpið stendur þrátt fyrir það.

Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni áðan að erfitt væri að segja til um hve há veiðigjöld, eða auðlindagjöld eða hvað sem við köllum þau, ættu að vera í sjávarútvegi eða hvernig ætti að taka tillit til þess, sjávarútvegurinn eða greinin þyrfti að hafa eðlilegan arð af rekstri sínum og starfsemi þannig að eðlileg endurnýjun yrði og þá væntanlega af búnaði, skipum og slíku. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni.

Það er líka kjarni þess frumvarps sem við ræðum í dag að veiðigjaldið verði svo nátengt afkomunni og arðseminni í greininni að það fylgi því mjög hratt eftir hvort sem vel gengur eða illa þannig að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, njóti þá þess arðs sem þar er og að arðsemin verði eftir í greininni að langstærstum hluta þannig að hún geti endurnýjað sig og rekið sig eðlilega.

Það hefur ekki verið þannig á undanförnum árum og áratugum. Íslenski flotinn hefur elst jafnt og þétt, ég veit að hv. þingmaður þekkir það frá sínum heimaslóðum. Hann hefur elst jafnt og þétt og ekki hefur verið eðlileg endurnýjun í íslenskum sjávarútvegi allt of lengi vegna þess að arðsemin hefur ekki verið næg. Hún er það núna. Þjóðin á rétt á sínum hlut í arðseminni sem verður að langstærstum hluta eftir í greininni sjálfri eins og frumvarpið og þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið við það gefa til kynna.



[18:35]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi umfjöllun RÚV sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni þá er svo sem hægt að segja frá því að kannski hafi verið brotið í blað í sögu Spegilsins, þess merka útvarpsþáttar, því að þessa stundina á sér þar stað samtal við sérfræðing atvinnuveganefndar, Daða Má Kristófersson, þar sem hann fer yfir afleiðingar frumvarpanna á byggðir í landinu, sjávarútvegsbyggðirnar, og sjávarútvegsfyrirtækin og fer yfir það sem hann telur vera ágalla á því kerfi. Kannski hafa þeir vaknað til lífsins þarna á RÚV og áttað sig á því að kominn væri tími til að veita innsýn í umræðuna á málefnalegan hátt en vera ekki bara í því sem þeir hafa verið í síðustu daga og vikur. Það er alla vega mjög áhugavert þetta viðtal sem ég náði að mestu leyti að heyra áðan.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom inn á það hér áðan að arðsemi hefði loks aukist í sjávarútvegi og að fyrirtækin hefðu ekki getað endurnýjað sig með eðlilegum hætti. Nú geta þau það. Heimaeyin er til dæmis nýlega komin. Það hefur líka verið nefnt í tengslum við þær skerðingar og þau útgjöld sem eru boðuð í frumvörpunum að fjórða hvert ár þurfi Útgerðarfélagið Vísir í Grindavík að láta ríkið fá nýja Heimaey. Annað hvert ár þurfi Vísir að smíða fyrir sig nýjan línubát og láta hann til ríkisins. Þannig virka þessi frumvörp í reynd í dag, þessar yrðu afleiðingarnar fyrir útgerðina. Ég vildi heyra álit hv. þingmanns á því hvaða afleiðingar hann telur þetta hafa á fjárfestingar og endurnýjun skipaflota útgerðarinnar.



[18:37]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur sagt hér. Ef ákveðið hefur verið að í Speglinum hjá Ríkisútvarpinu verði talað við einhvern sem gagnrýnir það sem ríkisstjórnin leggur til er brotið blað. Því ber að fagna að tekin séu fyrir fleiri sjónarmið en það sem hefur að öllu jöfnu tíðkast í daglegu verklagi fréttastofu Ríkisútvarpsins sem er ekki fréttastofa heldur málstofa, hún er málflutningsstofa og Spegillinn er eins konar hæstiréttur í því dæmi. Það er með ólíkindum hvernig hlutirnir eru dregnir þar upp svo að pólitískur fnykur er af vinnubrögðum og verklagi. Helst er það, eins og dæmin sanna, í þágu Samfylkingarinnar en stundum fær garmurinn hann Ketill að fljóta með, Vinstri grænir. Þetta er það sem við Íslendingar búum við í nútímaþjóðfélagi.

Varðandi arðsemina þá er það alveg klárt að hagræðing undanfarinna ára hefur þýtt að skuldsetning hefur aukist vegna þess að svokallaður auðlindaarður hefur að verulegu leyti farið út úr greininni þegar kvóti hefur verið keyptur. Til þess hafa menn neyðst við skerðingu aflaheimilda til að geta haldið rekstrinum gangandi.



[18:39]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn fór aðeins yfir fundinn á Austurvelli í ræðu sinn. Það var mjög áhugaverður fundur en boðað hafði verið til mótmæla gegn þeim áformum ríkisvaldsins að leggja þvílíkar álögur á sjávarútvegsfyrirtækin og byggðirnar í landinu að þau muni ekki geta risið undir því.

Ég var líka þarna úti í dag og það sem sló mig var sú gjá sem sannarlega hefur myndast á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og hefur reyndar verið að myndast í langan tíma. Það endurspeglast reyndar oft og tíðum í orðræðu í þingsal í ýmsum málum. Hún var býsna breið þarna úti því að þar var líka hópur sem mótmælti mótmælafundinum og gerði að mönnum stöðug hróp allan tímann, það var sama hver talaði og um hvað. Mér skildist að sá hópur hefði komið þarna saman til að mótmæla LÍÚ en það skipti engu máli hver talaði. Þegar sveitarstjóri í litlu sjávarplássi úti á landi talaði voru gerð hróp að honum og þegar sá ágæti sveitarstjóri rakti hver áhrif frumvarpanna yrðu á landsbyggðina var hrópað: Niður með landsbyggðina. Ég verð að segja eins og er að það fór um mig hrollur og allt að því ótti yfir því að þessi gjá væri að dýpka svo mjög.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta sé allt á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna sem hafa gengið fram með offorsi og öfgum, ekki bara í þessu máli heldur í fleiri málum, t.d. í Evrópusambandsmálinu þar sem þjóðin hefur sannarlega verið klofin í tvær fylkingar, og þarna sjáum við afleiðingarnar, gjá sem erfitt verður að brúa aftur.



[18:42]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði að ríkisstjórn sem ætlar að stjórna af viti nái sátt um stóru málin. Hvort sem um er að ræða fiskveiðistjórn, Evrópusambandið, rammaáætlun eða stjórnarskrá, svo að dæmi séu tekin, þarf að vinna að sátt. Ef ekki næst sátt er ekki tímabært að afgreiða hlutina. Það verður að vinna til sátta en ekki vinna með afli, með hnjánum eða olnbogunum, hvað þá með hælunum eins og hv. ríkisstjórn gerir. Þetta er grundvallaratriði.

Það er rétt að alvarlega breið gjá er að myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og ég tel að ríkisstjórn sem vinnur svo óskipulega og ófaglega eins og sú sem nú situr beri mikla ábyrgð á því að sú gjá er að breikka og dýpka. Öllu er fruttað áfram með afli og aðferðum sem ekki eiga að vera til staðar.

Það er líka mikil gjá að myndast milli fréttastofu Ríkisútvarpsins og lífsins í landinu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins lítur landsbyggðina alla hornauga. Hún sinnir henni ekki, hún segir ekki frá henni, hún ræktar ekki sjónarmiðin, hún gefur ekki færi og það veldur því að fyrr en seinna mun molna undan Ríkisútvarpinu, jafnvel hjá okkur sem höfum endalaust varið það sem mikilvægan þátt í íslensku þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Það var þröngur hópur sem mótmælti samstöðufundinum á Austurvelli en það var merkilegt að eina draslið sem eftir varð á svæðinu lá þar sem sá hópur stóð.



[18:44]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um frumvarp til laga um veiðigjöld, sem ég kýs að kalla veiðiskatt, hefur staðið dágóða stund og það er svo sem að vonum. Þetta er mikið mál og umdeilt í samfélaginu og fullkomin ástæða til þess fyrir okkur að fara rækilega yfir þessi mál til að gera okkur grein fyrir afleiðingum slíkra gjalda, hvort þau nái hinum yfirlýstu markmiðum og hvort einhverjir beri skaða af sem engin ástæða væri til.

Þegar maður fer yfir þessa umræðu kemur mjög margt upp í hugann sem áhugavert væri að ræða sérstaklega. Ástæða er til að fara yfir margt af því sem hér hefur verið haldið fram og ég ætla að freista þess að gera það að einhverju leyti á þeim fáu mínútum sem ég hef.

Ég hef eftir þessa umræðu nokkrar áhyggjur af ýmsum ástæðum sem mér finnst vert að vekja athygli á. Í fyrsta lagi hefur hún að nokkru leyti farið þannig fram að menn hafa ekki fjallað um efnisatriðin heldur frekar talað til manna með mjög sérkennilegum hætti. Hér á ég til dæmis við það þegar einstakir hv. þingmenn, og raunar fleiri sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, hafa kosið að gera lítið úr því fólki sem hefur haft ýmislegt við frumvarpið að athuga. Þeir hafa reynt að láta líta svo út sem það fólk gangi erinda einhverra hagsmunaaðila, það tjái í raun ekki eigin hug, það tali ekki út frá eigin brjósti, það segi ekki eigin skoðanir heldur endurspegli eða endurómi skoðanir einhverra annarra og hafi jafnvel verið keypt til þess. Mér liggur við að segja að þessu hafi verið haldið fram.

Umræða af þessu tagi er ekki samboðin nokkrum manni, hvorki okkur þingmönnum né þeim sem taka þátt í henni utan þingsalarins. Við hljótum að minnsta kosti að bera þá lágmarksvirðingu fyrir þeim sem tjá sig um þessi mál, jafnvel þó að við séum ósammála þeim, að við reynum að fjalla um skoðanirnar en gerum ekki lítið úr því fólki sem heldur þeim fram.

Ég tel til dæmis að það starfsfólk sem stóð þúsundum saman úti á Austurvelli í dag, frá sjávarútvegsfyrirtækjunum, hafi komið þangað að eigin ósk. Það var enginn þvingaður til að mæta á þennan fund. Þar tjáði fólk hug sinn. Ég stóð sjálfur í hópnum dágóða stund og hitti að máli fjölmarga sjómenn og fleiri sem ég kannast við úr þessum hópi. Það fór ekkert á milli mála að þetta fólk var mjög einlægt í áhyggjum sínum og andstöðu við þau frumvörp sem við ræðum þessa dagana á Alþingi.

Hið sama vil ég segja um ályktanir þeirra funda sem haldnir hafa verið úti um landið eða undirskriftir áhafna á skipum sem hafa sent okkur skoðanir sínar. Þetta fólk verðskuldar ekki að talað sé um það sem taglhnýtinga einhverra, heldur er þetta fólk að tjá hug sinn í þessu mikla máli. Þetta fólk hefur rökstudda ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu sinni og kjörum.

Bent hefur verið á að jafnvel eftir þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpi til laga um veiðigjöld verða áhrifin af lagasetningunni neikvæð, sérstaklega þegar við skoðum frumvörpin tvö í samhengi. Ég ætla ekkert að gera lítið úr ýmsum þeim breytingum sem þar er verið að boða en ég held að flestir geti samsinnt þessu sem hafa skoðað þessi mál.

Eins og fram hefur komið í áliti fræðimanna sem hafa skoðað þessi mál er ljóst að þetta mun til dæmis hafa áhrif á launakjör sjómanna. Það er ekkert einkamat mitt. Fyrir atvinnuveganefnd komu fulltrúar sjómannasamtakanna í landinu og þeir voru ekki mjög myrkir í máli. Þeir sögðu einfaldlega að ef þessi frumvörp gengju eftir, eins og þeir höfðu þau þá á borðum sínum, teldu þeir að hlutaskiptakerfi sjómanna væri hrunið. Það kerfi er grundvöllur launaútreikninga sjómanna eins og við vitum sem þekkjum þarna til. Þá yrði að hverfa frá því hlutaskiptakerfi sem ég hygg að almenn sátt hafi verið um í þjóðfélaginu. Ég man að minnsta kosti ekki eftir að menn hafi talað fyrir því að setja upp einhvers konar fastlaunakerfi til sjós, að minnsta kosti ekki í fiskveiðum.

Það eru gríðarleg tíðindi þegar það spyrst út að forustumenn sjómanna, sem núna standa einmitt í kjarasamningum við útvegsmenn, skuli vera þeirrar skoðunar að frumvörpin geri hvorki meira né minna en að raska grundvelli launamála sjómanna í heild. Það eru gríðarleg tíðindi og þess vegna geta menn ekki leyft sér að gagnrýna málflutning sjómanna og starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækjanna þegar því er ljóst af mati sínu að frumvörpin hafi þessi miklu áhrif á launakjör þess.

Annað atriði sem mig langar að nefna í þessu sambandi er sú kenning sem sérstaklega hefur verið borin upp í þessum ræðustól við þessa umræðu að þar sem verið er að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið af hálfu hv. meiri hluta atvinnuveganefndar sé verið að rýra tekjur ríkisins. Menn hafa reiknað sig upp í það að ef þetta er skoðað lækki tekjur ríkisins af veiðigjaldinu um 10 milljarða kr. á einhverju tímabili, mig minnir á þremur til fimm árum. Þessi forsenda stenst að sjálfsögðu ekki.

Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að forsendurnar fyrir veiðigjaldinu eins og það var lagt fram í frumvarpsformi á sínum tíma voru í raun aldrei til staðar. Þá er ég ekki tala um skekkjuna stóru sem birtist í lagatextanum, þá er ég bara að tala um þau markmið sem birtust í athugasemdum við frumvarpið, um 25 milljarða veiðigjald ef reiknað er út frá afkomu 2010. Að mati þeirra sem skoðað hafa þessi mál höfðu fyrirtækin aldrei neinar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur til að standa undir þessari miklu gjaldtöku.

Þessar tekjur hefðu einfaldlega ekki innheimst ef menn hefðu keyrt veiðigjaldsfrumvarpið áfram, óbreytt frá því sem var, með hærri tölu án þess að taka tillit til skulda manna vegna kvótakaupa, svo ég taki bara einhver atriði sem máli skipta í þessu samhengi. Þetta var með öðrum orðum fugl í skógi en ekki í hendi og því er mjög sérkennilegt þegar menn tala á þann veg að það sé einhver gjafagjörningur til handa útvegsmönnum þegar verið er að lækka þessa gjaldtöku þegar við blasir að engar forsendur voru fyrir gjaldtökunni.

Það er mikið áhyggjuefni, og mér finnst við þurfa að ræða það hér, hvernig á því stendur að þegar farið er af stað í umtalsverðar breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi hafi ekki verið hugað nægilega vel að þessu. Við höfum verið með gjaldtöku í sjávarútvegi í um það bil áratug. Að sönnu hefur sú gjaldtaka verið tiltölulega lág sum árin. Ástæðan hefur meðal annars verið lág framlegð, sérstaklega vegna þess að gengi krónunnar var á tímabili allt of sterkt. Önnur ástæða er sú að við þurftum að skera þorskaflakvótann niður, t.d. á árinu 2007. Tekið var tillit til sérstakra aðstæðna eins og niðurskurðar í þorskinum á sínum tíma og þá var flutt frumvarp um að undanþiggja þorskinn tímabundið frá veiðigjaldinu til þess einfaldlega að gera fyrirtækjunum kleift að takast á við 33% skerðingu þorskkvóta, þriðjungssamdrátt í tekjum af þorskveiðunum. Á sínum tíma var líka tekin sú ákvörðun að lækka, og ég hygg afnema, veiðigjaldið í rækjunni af sömu ástæðu. Mönnum var ljóst að það voru engar forsendur fyrir því að viðhalda því veiðigjaldi.

Það er galli við veiðigjaldskerfið eins og það er í dag að þegar það er hækkað mjög mikið koma fram alls konar hliðarverkanir sem sannarlega eru til staðar í prinsippinu í því kerfi sem við höfum búið við en eru hins vegar ekki mjög skaðlegar vegna þess að gjaldið hefur ekki verið ýkja hátt. Í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 kemur fram að mat nefndarinnar sé að leggja eigi á veiðigjald en það eigi hins vegar að vera hóflegt. Hugmyndafræðin gekk út af fyrir sig út á það að hægt væri að leggja á hóflegt veiðigjald með þessari aðferð en það væri ekki hægt ef það ætti að vera mjög hátt. Þess vegna er þetta frumvarp komið út í miklar ógöngur eins og það er lagt fram.



[18:54]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann fjallaði að miklu leyti um umræðuna eins og hún hefur þróast undanfarna daga. Það er eðlilegt því að það er mikið áhyggjuefni hvernig stjórnarliðar hafa kosið að ræða þetta mál. Menn ræða það ekki út frá kostum og göllum ákveðinna liða frumvarpanna, heldur nánast eingöngu nú orðið með uppnefningum og með því að búa sér til andstæðing og skipa mönnum svo í lið eftir því sem þeir telja henta.

Sú mynd er dregin upp að þeir sem ekki eru fylgjandi áformuðum breytingum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum gangi sérstaklega erinda LÍÚ. Menn kjósa einfaldlega að líta fram hjá þeim fjölmörgu umsögnum sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum reynt að vekja athygli á í umræðunni. Þar á ég við umsagnir frá sérfræðingum, frá Alþýðusambandi Íslands og ekki hvað síst frá sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Ef uppnefningar stjórnarliða ættu að halda væru þetta allt fulltrúar einhverra sérhagsmunaafla.

Ég er í raun að lýsa því yfir að ég hef áhyggjur af þessari umræðu, rétt eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég tel sérstakt tilefni til að fjalla um það hvernig hefur verið haldið á henni. Hver er að mati hv. þingmanns ástæðan fyrir því að menn kjósa að setja umræðuna í þetta far? Ég hef mína kenningu um það. Hún er sú að stjórnarliðar telji að LÍÚ séu ekkert sérstaklega vinsæl samtök á Íslandi, hafi takmarkað fylgi og þess vegna henti best að reyna að búa til andstæðinga úr þeim og setja alla aðra andstæðinga, og það eru nánast allir þeir sem hafa skoðað málið á faglegan hátt, undir þann sama hatt. Menn telja sig búna að skilgreina LÍÚ sem einhvers konar gæslumenn sérhagsmuna og að þar með sé hægt að setja aðra undir sama hatt.



[18:57]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kaus að gera þessa umræðu að umræðuefni í ræðu minni og þar með má kannski segja að ég hafi ekki verið að fjalla um efni frumvarpsins en mér fannst réttur tími til þessa núna. Þessari umræðu hefur aðeins undið fram og ég verð að játa að það hefur valdið mér vaxandi áhyggjum hvernig hún hefur þróast.

Ég ætla ekkert að undanskilja sjálfan mig, ég hef stundum tekið of djúpt í árinni í þessari sjávarútvegsumræðu eins og í ýmissi annarri umræðu, það er svo sem enginn dómari í eigin sök. Ég held samt að við eigum að bera að minnsta kosti þá virðingu hvert fyrir öðru að gera mönnum það ekki upp að þeir séu ekki að tjá sinn eigin hug. Við getum haft skoðanir og við getum þess vegna hjólað í manninn en við eigum ekki að gera honum það upp að hann gangi hér einhverra erinda af annarlegum hvötum.

Af hverju kjósa menn svo mjög í þessari umræðu að stilla Landssambandi íslenskra útvegsmanna upp við vegg? Það er vegna þess, sem blasir við öllum, að tekist hefur að sverta þau ágætu samtök. Þau hafa örugglega gert ýmislegt sem þau hefðu betur látið ógert, eins og gengur og gerist í lífinu, en þau hafa auðvitað sínar ástæður fyrir málflutningi sínum. Þau hafa að mínu mati lagt margt gott inn í þessa umræðu, eins og álitin sem þau kynntu fyrir atvinnuveganefnd, að mínu mati burðarmikil álit.

Ég var áðan úti á fundinum. Þar talaði til dæmis duglegur sjómaður innan vébanda Landssambands smábátaeigenda, Þorvaldur Garðarsson í Þorlákshöfn. Hann flutti mjög fína ræðu. Ég hef áður heyrt hann tala um sjávarútvegsmál og mér fannst það sem hann sagði eiga mikið erindi inn í umræðuna. Undir ræðu hans hljómaði kór fámenns en mjög háværs hóps þar sem reynt var að kaffæra málflutning þessa manns sem hafði mikið fram að færa, hefur hafist af sjálfum sér, rær sjálfur sínum bát og gerir hann út af miklum dugnaði og myndarskap. Ég held að við hefðum öll mjög gott af því að heyra sjónarmið slíks manns og ekki síst þessi háværi hópur sem vildi ekki heyra það sem þarna fór fram og, það sem verra var, vildi ekki gera öðrum kleift að heyra það sem fór fram á fundinum.



[18:59]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held það sé mjög mikilvægt að við ræðum það hvernig þessi umræða hefur þróast. Það hvernig umræða um þetta mál hefur verið afvegaleidd varðar ekki bara þetta tiltekna mál sem við ræðum núna heldur er hætt við því að stjórnmálaumræða, umræða um mikilvæg hagsmunamál þjóðarinnar, fari í auknum mæli að snúast um svipaða hluti ef við þingmenn sammælumst ekki um það að reyna að bæta þar úr, og vonandi gera það flestir. Við þurfum að ræða þessi mál út frá rökum og staðreyndum en ekki ímyndarherferð eins og ríkisstjórnin hefur reynt að gera í þessu máli.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það að við ættum að láta það okkur (Forseti hringir.) að kenningu verða, þingmenn almennt, hvernig þessi umræða hefur afvegaleiðst og reyna þá að læra af því, ekki bara fyrir sjávarútvegsmálin heldur í öðrum málum líka.



[19:01]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel allar forsendur hafa verið fyrir því að þessi umræða hefði getað verið mjög málefnaleg. Stundum hefur hún líka verið það, ég ætla ekki að halda því fram að hún hafi öll verið á þann veg sem ég tók dæmi um.

Í fyrsta lagi voru lögð fram frumvörp þar sem vissar andstæður kristölluðust, gagnstæð sjónarmið. Þar með var hægt að segja sem svo að búið væri að leggja grunn að einhverri umræðu þar sem menn gætu togast á um þau gagnstæðu sjónarmið. Hitt sem vakið hefur athygli mína í þessu er að umsagnaraðilar, sem hafa komið fyrir atvinnuveganefnd eða sent henni umsagnir, hafa lagt svo mikið í þetta. Þetta eru svo vönduð gögn. Það eru úttektir, þetta er ekki bara einblöðungur eða fáein almenn orð á blaði, þetta er byggt á vönduðum úttektum frá lögfræðingum, endurskoðendum o.s.frv. Menn hafa sem sagt gert sér grein fyrir því að hér væri mikið í húfi og að menn þyrftu að vanda sig og þess vegna voru öll efni til þess að hér gæti farið fram efnismikil umræða. Ég tel reyndar (Forseti hringir.) að þannig umræða, t.d. um veiðigjaldið og reyndar stjórn fiskveiða, hafi farið fram í atvinnuveganefnd en hún hefur einhvern veginn ekki skilað sér alveg inn í umræðuna hér.



[19:02]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Nú sitjum við báðir í atvinnuveganefnd og höfum þar af leiðandi verið á sama báti að skoða þessi mál í nefndinni. Ég vil spyrja þingmanninn út í þann hluta ræðunnar þar sem hann ræddi um hóflegt veiðigjald og þær hugmyndir sem við höfum svo sannarlega farið yfir í fyrri ræðum. Er hv. þingmaður sammála mér um að frumvarpið sé hálfgerð hrákasmíð að því leyti að aðferðafræðin gengur einfaldlega ekki upp? Felst ekki í þeirri niðurstöðu meiri hlutans að leggja fram breytingartillögu um að færa verkefnið til veiðigjaldsnefndarinnar og útfæra aðferðafræðina upp á nýtt, í raun viðurkenning á því að þetta gangi ekki upp, að það þurfi sérfræðinga til þess að finna rétta leið til þess að meta rentuna? Það kemur bersýnilega og vel fram í greinargerð Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar að þeir gagnrýna mjög aðferðafræðina sjálfa.

Það virðist hafa verið hugmyndin hjá þeim sem smíðuðu frumvarpið að veiðigjaldið væri einhvers staðar í kringum 24 milljarða þó að það hafi endað í 50 milljörðum og 140% skattlagningu. Síðan hafa menn sagt að með ýmsum aðgerðum og breytingartillögum sé talan orðin 15 milljarðar. Meðal annars er tekið tillit til skuldsettra fyrirtækja. Hin spurning mín er þá kannski sú hvort þingmanninum finnist það í sjálfu sér sanngjarnt. Getur það hugsanlega haft þær afleiðingar að fyrirtæki sem ekki eru skuldsett greiði veiðigjald eins og um væri að ræða 25 milljarða veiðigjald, vegna þess að hlutfallslega taki þau miklu stærri hluta á sig? Er sanngjarnt af ríkisvaldinu að setja þann hluta yfir á fyrirtæki sem hafa farið varlega í fjárfestingum?



[19:04]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við spurningunni um hóflegt veiðigjald er dálítið flókið. Í fyrsta lagi þurfa menn að vita hver hinn lagalegi rammi verður að öðru leyti, þ.e. ramminn í kringum veiðistjórnarfyrirkomulagið. Í öðru lagi þurfa menn að átta sig á því að staða fyrirtækja innan greinarinnar er mjög misjöfn. Í þriðja lagi þarf að átta sig á því að staða einstakra útgerðarflokka innan þessa útgerðarhóps er líka mjög misjöfn þannig að það sem kann að vera hóflegt fyrir einn er það alls ekki fyrir annan.

Einn vandinn sem við stóðum frammi fyrir í þessu máli var sá, þegar menn voru komnir af stað með svo hátt veiðigjald upp á 15 milljarða, ég tala nú ekki um 25 milljarða, að sum fyrirtæki höfðu farið í tiltölulega nýlegar fjárfestingar. Hvaða hópur var það? Við höfum kallað þá nýliða, við höfum stundum kallað þá einyrkja. Ég hygg að pólitískt séð hafi verið býsna mikill áhugi á því að slíkir aðilar gætu dafnað áfram í sjávarútveginum. Hluti af þeim hópi hefur starfað innan krókaaflamarksins og átti ekki margra kosta völ. Krókaaflamarkið var að þróast þannig að menn voru að kaupa sér aflaheimildir og þeir voru að stækka bátana vegna þess að heimildir til að stækka bátana fengust ekki fyrr en fyrir um tíu árum síðan.

Lagaumhverfið sem við bjuggum til fyrir rúmum áratug síðan var því tiltölulega nýtt og það leiddi af sér að menn fóru að fjárfesta og auðvitað voru margir af þeim nýjustu að fjárfesta líka í aflamarkinu. Gagnstætt því sem menn hafa haldið fram þá hefur nefnilega verið talsverð endurnýjun og nýliðun í sjávarútvegi, sem betur fer. Það er auðvitað þessi hópur sem við vorum að reyna að halda utan um og ég hef sagt, þó að ég viti að það er sannarlega ekki óumdeilt, að ég tel að það sé mjög vel verjandi og hafi raunar verið algjörlega nauðsynlegt miðað við það frumvarp sem við höfum hér í höndunum að búa til sérstök úrræði fyrir þessa aðila.

Mér er hins vegar alveg ljóst að frá sjónarhóli þeirra sem hafa til dæmis eldri fjárfestingar, þeirra sem hafa kannski farið sér hægar í fjárfestingar, hljómar þetta eins og það sé ósanngjarnt en við höfum líka verið að beita þessum aðferðum gagnvart skuldugum heimilum í landinu svo dæmi sé tekið.



[19:07]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, við getum verið sammála um að það hafi að minnsta kosti verið niðurstaðan í nefndinni að nauðsynlegt væri að koma til móts við skuldsetninguna, klárlega. Þegar þessi frumvörp voru kynnt gaf hæstv. ráðherra yfirlýsingu um að hér kæmu fram breytingar á skattalögum, væntanlega ekki fyrr en í haust, í þá átt að kvótakaup almennt yrðu afskrifanleg. Þá er hin spurningin kannski sú hvort það væri ekki nauðsynlegt að það kæmi fram, þá mundi ekki skipta máli hvernig slík kvótakaup hefðu farið fram, fyrir eigið fé, með skuldsetningu eða yfirtöku á öðru fyrirtæki. Og þar sem við erum markvisst að mismuna með þessum hætti, í því ljósi og í ljósi varúðarsjónarmiða, þurfi upphæð gjaldsins að vera hófleg (Forseti hringir.) þannig að ekki sé verið að ganga allt of nærri hinum fyrirtækjunum.



[19:08]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það finnst mér einmitt vera kjarni málsins. Nú erum við að feta okkur á nýja slóð og hugmyndin er sú að auka veiðigjaldið. Gleymum því ekki að veiðigjaldið er í dag 4,5 milljarðar kr., ætlunin er að fara með það upp í 15. Það er rúmlega þreföldun á því veiðigjaldi sem hefur verið og niðurstaðan mun, eins og hv. þingmaður segir, fyrir einstakar útgerðir verða mjög margbreytileg af þeim ástæðum sem við vorum að fara yfir, þessu nýja ákvæði um að taka sérstaklega tillit til skuldugra útgerða.

Þegar þetta frumvarp var lagt fram var boðað að lagt yrði fram frumvarp sem lyti að skattamálum og skattalegri meðferð kvótans og kvótinn yrði gerður að nýju afskrifanlegur. Hann hafði verið talinn afskrifanlegur en síðan breyttist það með frægum hæstaréttardómi sem leiddi síðan til þess að þáverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp um það að eignfæra bæri kvótann en ekki að gera hann afskrifanlegan. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að borga tekjuskatt. Það gagnast hins vegar ekki útgerðum sem eru mjög skuldugar, þær borga hvort eð er ekki tekjuskatt. Það mundi að vísu búa til meira skattalegt tap sem nýttist (Forseti hringir.) mönnum inn í framtíðina en dygði ekki til þess að bjarga stöðu skuldugustu útgerðanna.



[19:09]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni ræðu hans. Hv. þingmaður sagðist hafa staðið í hópnum úti á Austurvelli áðan og áttað sig á því að þarna voru sjómenn að mótmæla því að frumvarpið sem hér um ræðir hefði áhrif á launakjör þeirra og það þóttu hv. þingmanni gríðarleg tíðindi.

Þetta er gömul saga og ný. Um þetta hafa deilur af þessu tagi alltaf staðið, ætíð og ævinlega. Um hvað stendur núverandi kjaradeila útgerðarmanna og sjómanna? Hún stendur nákvæmlega um þetta, að fá sjómenn til að taka aukinn þátt í rekstri skipanna, í rekstri útgerðarinnar, núna í augnablikinu aukinn þátt í olíukostnaði. Ég hljóp hér fram meðan hv. þingmaður var að tala og prentaði út efni um kjaradeilu frá 1994, bara fyrir tilviljun. Um hvað snerist hún? Hún snerist nákvæmlega um þetta, menn voru að reyna að koma í veg fyrir það að útgerðir neyddu áhafnirnar til að kaupa kvóta á sínum tíma.

Þetta er nákvæmlega það sama og engin ný tíðindi, um þetta hafa alltaf staðið deilur. Fyrir þessu hafa sjómenn alltaf þurft að berjast, í hvert einasta skipti. Það má kannski geta þess að árið 1994 var deilan leyst með bráðabirgðalögum á Alþingi. Ég man ekki hvort hv. þingmaður sat á þingi á þeim tíma, en þetta var eitt af þeim fjölmörgu skiptum sem kjaradeila sjómanna var leyst með bráðabirgðalögum og þeir sendir út á sjó í skjóli þeirra laga.

Hvers vegna ætti sú hótun að vera virk núna að sjómenn eigi að taka þátt í þessum kostnaði þegar það liggur fyrir samkvæmt frumvörpunum ásamt breytingartillögunum, verði það gert að lögum, að afkoman sem eftir verður í útgerðinni, í greininni, sú þriðja mesta í sögu íslensks sjávarútvegs? Aðeins tvisvar áður mun það hafa gerst að arðurinn hafi verið meiri en væntanlega verður í ár, ef lögin taka gildi. Hvers vegna ætti þá að krefja sjómenn um að taka þátt í þeim launakostnaði ef það hefur ekki verið gert áður af sömu ástæðu? Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað sker þessa deilu frá öðrum hvað þetta varðar?



[19:12]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram umræðu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hóf áðan um þá umræðu sem farið hefur fram um þessi frumvörp undanfarna daga af hálfu stjórnarliða. Ég nefndi reyndar í andsvari við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að mér þætti tilefni til þess fyrir þingið að nota þetta sem tækifæri til að þingmenn allir lærðu af þessu máli og nýttu þann lærdóm til að fara betur yfir mál í framtíðinni. Þar reyndi ég að fara bil beggja, að vera kurteis, skulum við segja, í garð hv. stjórnarliða, vegna þess að auðvitað hafa það fyrst og fremst, og eiginlega eingöngu, verið stjórnarliðar sem hafa kosið að ræða þetta mál út frá allt öðru en rökum.

Fáir hv. stjórnarliðar hafa treyst sér til að koma hér og verja greinar frumvarpsins, færa fyrir því rök að öll þau fjölmörgu álit sem borist hafa Alþingi vegna þessa máls, formleg álit, meðal annars álit sérfræðinga sem hv. atvinnuveganefnd bað sjálf um, séu öll röng. Þess í stað hafa stjórnarliðar brugðist við með því að uppnefna menn, búa til grýlu — þeir telja raunar að sér hafi orðið töluvert ágengt í því að búa til grýlu úr LÍÚ og þegar þeirri vinnu var lokið reyndu þeir að setja sem flesta undir þann hatt, flokka alla sem leyfðu sér að gagnrýna þetta frumvarp sem einhvers konar talsmenn LÍÚ í málinu. Þá skipti engu máli hversu margir það voru, hversu fróðir þeir voru um þessi mál, hvers lags rök þeir höfðu fram að færa, hvaða hópum þeir tilheyrðu, hvort það var verkafólk í landi, sjómenn eða sérfræðingar, nei, allir sem leyfðu sér að gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar voru skilgreindir sem gæslumenn sérhagsmuna. Þar með eru væntanlega sveitarstjórnir um allt land, fulltrúar fólksins sem þar býr, gæslumenn sérhagsmuna, þeir sérfræðingar sem fengnir voru til að meta málið eru gæslumenn sérhagsmuna og jafnvel ASÍ líka. Þeir sem leyfa sér að gagnrýna stjórnvöld og þau frumvörp sem fulltrúar stjórnarliðsins treysta sér ekki einu sinni til að verja sjálfir, eru skilgreindir sem fulltrúar sérhagsmuna.

Þannig leyfa menn sér að fara í umræðu um þetta mikilvæga hagsmunamál, grunnatvinnuveg þjóðarinnar, út frá uppnefningum einum saman og ofnotuðum frösum, sem eru nú reyndar þekktir úr íslenskri stjórnmálasögu en hafa flestir legið í dvala frá því á millistríðsárunum. En það er eins og sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins séu nýstignir út úr tímavél á leið af fundi hjá kommúnistaflokknum á millistríðsárunum, þannig er málflutningurinn.

Undir þann málflutning er ýtt, ekki bara úr ræðustól Alþingis heldur einnig í fjölmiðlum. Það var sama þó að hátt á fimmta hundrað manns kæmu saman til fundar í Vestmannaeyjum, sjómenn og landverkafólk, til þess að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar og gagnrýna það mjög harðlega í sameiginlegri samhljóða yfirlýsingu í lok fundar, litið var fram hjá því. En hv. þm. Skúli Helgason kom hins vegar hér upp og lýsti því yfir að útgerðarmönnum sem rækju sjávarútvegsfyrirtæki væri, eins og hv. þingmaður orðaði það, skítsama um starfsmenn sína. Það var sagt frá því í fréttum. Hins vegar var minna fjallað um fundinn í Vestmannaeyjum og þá fjölmörgu fundi sem haldnir hafa verið eða þær ályktanir sem komið hafa frá fólki sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Sjávarútvegur og velferð hans er nefnilega spursmál um hagsmuni þjóðarinnar allrar en ekki örfárra manna eins og gefið hefur verið í skyn, meðal annars af hæstv. forsætisráðherra. Störfum í sjávarútvegi hefur að vísu fækkað, þ.e. þeim sem vinna beint við greinina, en á hinn bóginn hefur störfum í tengdum greinum, í sjávarklasanum svokallaða, fjölgað. Það er jákvæð þróun en hún hefur eingöngu verið möguleg vegna þess að hér var komið á kerfi sem gerði mönnum kleift að búa til verðmæti úr þessari auðlind á sama tíma og aflaheimildir voru skornar niður ár eftir ár. Þær eru nú aðeins lítill hluti af því sem þær voru á árunum í kringum 1980 þegar sjávarútvegurinn var rekinn með viðvarandi tapi, þegar hann var baggi á ríkissjóði, þegar ríkið þurfti hvað eftir annað að vera að grípa inn í til þess að bjarga fyrirtækjum í sjávarútvegi, fella gengið til að halda sjávarútveginum gangandi, enda þótt menn veiddu þá miklu meira en þeir gera nú.

Þrátt fyrir samdráttinn í veiðum tókst að gera greinina arðbæra, ekki bara fyrir fyrirtæki sem starfa beint við sjávarútveg heldur fyrir fjöldann allan af tengdum greinum, þannig að sjávarútvegurinn hefur fjölgað störfum á Íslandi undanfarna áratugi með vexti sjávarklasans, eins menn kalla það. Öll þessi störf eru að sjálfsögðu háð því að hér sé rekið hagkvæmt og arðbært sjávarútvegskerfi, kerfi sem framleiðir raunveruleg verðmæti.

Ef menn taka úr sambandi þá hagkvæmni þannig að gat kemur á og það fer að flæða inn sökkva öll þessi fyrirtæki með og þar með tapast þúsundir starfa. Það er ekki bara tala sem ég nefni út í loftið, sérfræðingar sem reiknað hafa út áhrifin af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur reynt að troða í gegn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau setji þúsundir starfa í uppnám. En þegar sérfræðingarnir skila niðurstöðu sem gengur gegn tillögum stjórnarflokkanna verður lítið úr öllum fyrirheitunum um fagleg vinnubrögð og mikilvægi þess að hlusta á þá sem best þekkja til á hverju sviði. Þá gleymist það mjög skyndilega vegna þess að öll fögru orðin sem höfð voru um breytt vinnubrögð í þinginu, vandaðri vinnubrögð, fagleg vinnubrögð, voru innihaldslaus. Innihald þeirra var því miður ekkert meira en innihald orðanna um sægreifana og hina illu útgerðarmenn, sem gefið er í skyn af hálfu stjórnarliðsins að séu það. Allt eru þetta innantóm orð.

Þegar menn ætla að ráðast í breytingar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og gera það á svo veikum forsendum, eingöngu á innantómum orðum, annars vegar skömmum og uppnefningum og hins vegar fyrirheitum um fagleg vinnubrögð sem ganga svo ekki eftir vegna þess að ekki finnst einn einasti sérfræðingur sem er tilbúinn til að mæla tillögunum bót, hvernig bregðast menn þá við? Sjá þeir að sér og draga í land, eins og maður hefði haldið að þeir hlytu að gera þegar það blasir við þeim svart á hvítu hvers lags vitleysa hefur verið soðin saman hér? Nei, menn sjá því miður ekki að sér. Viðbrögðin verða þau að bæta enn í fúkyrðaflauminn, útvíkka samsæriskenningarnar þannig að heilu landshlutarnir og stéttirnar eru orðin þátttakendur í einhvers konar samsæri um hagsmunagæslu.

Sú nálgun gengur ekki lengur á þetta mál, frú forseti. Eftir umræðu dagsins í dag og dagsins í gær verða þingmenn stjórnarliðsins að fara að taka sér tak og ræða þetta mál út frá rökum. Þeir geta svo sem gert tilraun til þess að verja eitthvað af þeim breytingum sem þeir leggja til hér en það verður að gerast á grundvelli raka en ekki (Forseti hringir.) innihaldslausra uppnefninga.



[19:23]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ræðu hans sem snerist að stórum hluta um umræðuhefðina um þetta mál. Að miklu leyti var ræða hans kannski ekki í þá átt sem hér hefur oft verið rætt um, þ.e. að bæta verði umræðuhefðina, alla vega skildi ég þær setningar, (Gripið fram í.) sem hljómuðu einhvern veginn á þann veg að stjórnarliðar væru eins og dregnir út úr tímavél sovéska kommúnistaflokksins og að heldur hefði verið bætt í fúkyrðaflauminn hjá þeim o.s.frv., sem þess konar innlegg í umræðuna. Ég ætla þá að vona að hv. þingmaður hafi verið að meina annað, að við ættum tala öðruvísi um sjávarútveginn en gert hefur verið því að það hefur verið helsti akkilesarhællinn á umræðunum, ekki bara núna heldur árum og áratugum saman, þ.e. hin ofsalega umræða um greinina á alla kanta, í stjórnmálunum, innan greinarinnar, milli sjómanna og útgerðarmanna, milli stjórnmálamanna og útgerðarmanna, milli stjórnmálamanna og sjómanna, eins og ég hef farið yfir hér áður. Það er það sem háð hefur greininni að stórum hluta. Þegar deiluefnin eru tekin frá og skoðuð og greind er ekki svo margt sem stendur eftir. Þannig hefur það nú verið. Ég hef reynt að gera það á undanförnum árum og á fjölmörgum fundum allt í kringum landið til að einangra það sem út af stendur í helstu deiluefnunum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum eins og hún birtist í landsfundarsamþykkt þar sem annars vegar er gert ráð fyrir að farin verði blönduð leið í sjávarútvegsmálunum sem byggi á aflahlutdeild skipa og hins vegar sé byggt á byggðasjónarmiðum og atvinnusjónarmiðum, þ.e. að þessu verði skipt upp í tvo hluta og gerður 20 ára samningur og að greitt verði gjald fyrir það. Í ályktun landsfundar Framsóknarflokksins segir að það sé hóflegt gjald tengt afkomu greinarinnar, sem er eiginlega það sem frumvarpið sem við tölum um hér grundvallast á, nátengt afkomu greinarinnar. (Forseti hringir.) Hvernig fellur stefna Framsóknarflokksins að sjónarmiðum frumvarpsins hvað þetta varðar?



[19:25]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að lýsa ánægju með yfirlýsingar hv. þingmanns í fyrri hluta andsvars hans en vonandi voru það ekki innihaldslausar yfirlýsingar.

Hvað varðar stefnu Framsóknarflokksins er rétt sem hv. þingmaður nefndi að hún felur í sér upptöku hóflegs gjalds. Gjaldið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir er ekki hóflegt. Það þarf ekki að hafa mín orð fyrir því, það nægir að líta til mats sérfræðinga á því.

Eðlilegasta leiðin til þess að leggja á gjald tengt afkomu greinarinnar, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega að væri í stefnu flokksins, er að líta til hagnaðar. Ég held að það sé vænlegasta leiðin til að leggja á sanngjarnt gjald og taka mið af aðstæðum hvers fyrirtækis fyrir sig að menn líti til hagnaðar ólíkt því sem er í þessum tillögum þar sem ekki er tekið tillit til ólíkra aðstæðna fyrirtækja.



[19:26]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það eru ekki innihaldslaus orð af minni hálfu að reyna að tala málefnalega um sjávarútveginn og efnislega um þau frumvörp sem að honum snúa. Þannig hef ég reynt að ræða um þessi mál, um sjávarútvegsmálin fyrst og fremst, og sérstaklega þó hin síðari ár. Ég hef reynt að draga mig út úr þeim átökum sem allt of oft hafa einkennt alla umræðu um þessa grein og skaðað hana umfram annað. Þau hafa svert ímynd greinarinnar bæði inn á við og út á við, sérstaklega þó fyrir þá sem starfa í greininni og hafa heldur haldið sig til hlés, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, vegna þess að þeir hafa þá oft verið tengdir við ýmis hagsmunaöfl og sagðir vera handbendi útgerðar, stéttarfélaga eða annarra sem hagsmuna eiga að gæta.

Framsóknarflokkurinn átti fulltrúa í endurskoðunarnefnd laga um stjórn fiskveiða sem starfaði 2009 og 2010, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, sem starfaði þar með ágætum ásamt öllum þeim sem komu þar að.

Meginniðurstaða þess hóps var sú, eins og segir í skýrslu hópsins, með leyfi forseta:

„[A]ð gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað frá ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. […] Meiri hluti starfshópsins er sammála um að mæla með því að aflaheimildum verði skipt í „potta“ [þ.e. tvo hluta] þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, s.s. byggðakvóti …“ o.s.frv.

Þetta er ekki útfært, þetta eru meginsjónarmiðin. Þau meginsjónarmið eru að mínu mati það sem við ræðum um í þessu frumvarpi og ræddum varðandi það frumvarp sem enn er í atvinnuveganefnd. Er þingmaðurinn sammála mér um þessi meginsjónarmið? Deilum við þá ekki um hugmyndafræðina sem slíka, um sjónarmiðin, prinsippin? Greinir okkur þá fyrst og fremst á um tölur og upphæðir stærða í pottum og krónur í veiðigjaldi?



[19:28]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fram kom í sáttanefndinni eru menn sammála um meginsjónarmið og þess vegna hefði átt að vera hægt að vinna málið í sæmilegri sátt ef einhver vilji hefði verið til þess af hálfu stjórnarliðsins. Það hefði átt að vera hægt að ná sátt í þessu máli milli þingflokka hér í þinginu og vinna málið þannig að það stæðist skoðun fagmanna, en menn kusu að fara ekki þá leið. Það er hins vegar enn þá hægt að breyta þeirri stefnu og það er hægt að ná víðtækri sátt vegna þess að eins og hv. þingmaður nefnir eru menn sammála um meginnálgunina.

Það er hins vegar ekki sama hvernig menn framkvæma hlutina, hvernig útfærslan er, eins og við sáum á gölnum tillögum stjórnarliða um svokallaða þjóðaratkvæðagreiðslu, skoðanakönnun um stjórnarskrá, sem voru eingöngu til þess fallnar að villa um fyrir almenningi en höfðu ekkert með það að gera að bæta stjórnarskrána. Þar voru þeir sem gagnrýndu þá aðferðafræði sakaðir um að vilja ekki breyta stjórnarskrá. Það sama á við í þessu. Það á að vera hægt að ná saman um skynsamlegar leiðir ef menn annars vegar hafa fyrir því að ræða við annað fólk og eru hins vegar tilbúnir að hlusta á ábendingar sérfræðinga. En þegar menn eru tilbúnir í hvorugt, hvorki að taka mark á alvarlegum viðvörunum sérfræðinga né að ræða yfir höfuð við stjórnmálamenn aðra en þá sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum í þinginu á meðan á undirbúningi stendur, fer eins og farið hefur með þetta mál hér. Það hefði ekki þurft að fara svo því að það er rétt sem hv. þingmaður nefndi strax í byrjun, það ætti að vera hægt að ná sátt um grundvallaratriðin.



[19:30]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hefur verið sagt við þessa umræðu, sjávarútvegsumræðuna, hún hefur ótrúlega lítið breyst. Ég held að ég hafi tekið þátt í hinni pólitísku umræðu um sjávarútvegsmál í rúmlega 20 ár, allar götur frá því að ég kom fyrst á þing, 1991. Sjávarútvegurinn allur hefur gjörbreyst, vinnslan, veiðarnar, markaðsstarfið, vöruþróunin og allt sem tilheyrir. En það er eitt sem ekki hefur breyst og það er umræðan um sjávarútveginn, hún hefur staðnað, hún hefur fest þar sem hún var árið 1991 og menn eru enn allt of fastir í sama farinu og tala eingöngu um veiðihlutann af allri þeirri miklu virðiskeðju sem sjávarútvegurinn er.

Það vekur meðal annars með manni ugg í þessu frumvarpi að svo virðist sem menn hafi lítið lært. Lagt er fram frumvarp sem ætlað er að gera miklar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsins, annars vegar með því að breyta leikreglunum á markaðnum sjálfum, t.d. með því að vaða inn í aflahlutdeildirnar og eyðileggja það kerfi sem við höfum byggt upp sem sannarlega hefur skilað miklum árangri. Um það bera allir vitni sem hafa skoðað þetta, innlendir auðlindahagfræðingar, erlend fræðirit o.s.frv. Hins vegar er hið mikla veiðigjald sem núna er verið að setja á. Hvorki var lagt efnahagslegt né rekstrarlegt mat á það hver áhrifin yrðu áður en frumvörpin voru lögð fram.

Nú hefur stærsti viðskiptabanki sjávarútvegsins, Landsbanki Íslands, lagt sitt mat á þetta. Og hver er niðurstaðan? Hann hefur skoðað afkomu 124 fyrirtækja sem eru með um 90% kvótans og komist að þeirri niðurstöðu að ef þessi frumvörp yrðu samþykkt mundu 74 þeirra fara á hausinn. Hjá þeim 74 fyrirtækjum vinna 4 þús. manns. Nú segja menn kannski: Það er allt í lagi, þessi fiskur verður veiddur og þessi 4 þús. störf verða til. En hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þessi staða muni kollvarpa byggðunum, geti gert það að verkum að þessi (Forseti hringir.) 4 þús. störf yrðu unnin einhvers staðar annars staðar? Og hvert er álit hv. þingmanns á þeim sjónarmiðum að það skipti ekki máli þó að 74 fyrirtæki fari á hausinn og 4 þús. manns missi vinnuna sína, það verði til vinna einhvers staðar annars staðar í staðinn?



[19:33]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágætt að hv. þingmaður skyldi nefna Landsbankann og það mat sem hann hefur lagt á stöðu greinarinnar og getu hennar til að standa undir þessum tillögum ríkisstjórnarinnar. Þar er nefnilega komið enn eitt dæmið um það að menn líta ekki á heildaráhrifin. Þeir reikna sér gríðarlegar tekjur af því að hækka gjaldið svo og svo mikið en reikna ekki kostnaðinn af þeim störfum sem tapast og gleyma því alveg að ríkisbankinn Landsbankinn er helsti lánveitandi sjávarútvegsins. Ef menn ráðast í þessar breytingar og þær hafa þau áhrif sem sérfræðingar hafa spáð, að stór hluti fyrirtækja í greininni fari í þrot, verði gjaldþrota, tapar ríkisbankinn Landsbankinn á því og þar með ríkið.

Menn líta iðulega alltaf bara á aðra hlið dæmisins þegar þeir reikna út áhrif frumvarpa ríkisstjórnarinnar. Það á ekki bara við um þetta mál heldur fjölmörg mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og raunar á það oft og tíðum líka við um forsendur fjárlaga. Ég nefni sem dæmi fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem ekki var reiknað með neinum kostnaði neins staðar annars staðar á móti.

Hv. þingmaður nefndi líka þau rök sem hv. stjórnarliðar hafa haldið hér fram um að fiskurinn verði veiddur áfram. Þó að 4 þús. manns missi vinnuna fá einhverjir aðrir, hugsanlega að einhverju leyti sama fólkið, störf annars staðar við að veiða fiskinn. Það sem gleymist í röksemdafærslu af þessu tagi er að það er ekki sama hvort fiskur er veiddur og seldur á hagkvæman hátt, hvort hann skapar verðmæti, eða hvort illa er staðið að veiðunum og fiskurinn seldur á lægra verði, hvort kerfið sem slíkt ýtir undir (Forseti hringir.) hagkvæmni og verðmætasköpun eða ekki.



[19:35]
Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að setja þessa umræðu okkar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í annað samhengi, þetta: Þegar sáttanefndin var að störfum skoðaði hún sérstaklega áhrifin af því ef sú leið yrði farin sem boðuð var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að minnsta kosti Samfylkingin hafði á sinni stefnuskrá sem fólst í því að fyrna kvótann á 20 árum. Það þýddi 5% fyrningu á ári í 20 ár og þannig yrði kvótinn innkallaður að öllu leyti.

Við fengum okkar færustu sérfræðinga til að skoða þessi mál. Það gerði Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sem fór ofan í málin. Niðurstaða þeirra var sú að ef þetta yrði gert færu 48% fyrirtækjanna á hausinn, fyrirtæki sem héldu utan um 48% kvótans. Þetta varð til þess að stjórnarliðar treystu sér ekki til að ganga áfram þá leið sem boðuð hafði verið í stjórnarsáttmálanum og að minnsta kosti í stefnuskrá annars flokksins. Þetta taldi ég raunhæfa og ábyrga afstöðu af fulltrúum stjórnarliðanna í sáttanefndinni.

Nú er hins vegar lagt fram frumvarp sem felur í sér með óyggjandi hætti, eins og ég hef greint frá, að mati Landsbankans, okkar stærsta lánardrottins í sjávarútvegi, að af 124 fyrirtækjum færu 74 á hausinn, með 4 þús. starfsmenn. Þá hefði maður ímyndað sér, ef allt hefði verið eðlilegt, að þessir sömu fulltrúar stjórnarflokkanna hefðu reynt að taka álíka ábyrga afstöðu og þeir gerðu í sáttanefndinni og sagt: Við getum auðvitað ekki samþykkt svona frumvarp sem setur meiri hluta fyrirtækjanna lóðbeint á hausinn. Við hljótum þess vegna að leggja þessi frumvörp til hliðar, vinna málin aðeins betur, reyna að ná meiri sátt, ræða við hagsmunaaðila, fara yfir þetta með fræðimönnum — vonandi með stjórnarandstöðunni líka til að mynda hina breiðu sátt — og að minnsta kosti sýna jafnábyrga afstöðu (Forseti hringir.) og þeir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna sem sátu í sáttanefndinni og komust að þessari niðurstöðu þá, (Forseti hringir.) í september 2010.



[19:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað sætir furðu að menn skuli nú bregðast við með þessum hætti, þ.e. með því að líta einfaldlega fram hjá öllum aðvörunum sérfræðinga, í ljósi þess hversu miklu eðlilegri og skynsamlegri viðbrögðin voru hjá að nokkru leyti sama fólki þegar aðrar hugmyndir en álíka óhagkvæmar voru til umræðu í sáttanefndinni. Munurinn er þó líklega sá að með vinnu sáttanefndarinnar hafði málið eðli máls samkvæmt verið sett í sáttafarveg. Þar ætluðu menn sér, helst allir og að minnsta kosti sem flestir, að ná sameiginlegri niðurstöðu. Kosturinn við samvinnu er sá að þegar menn einsetja sér að ná sameiginlegri niðurstöðu er mjög erfitt fyrir afmarkaðan hóp að reyna að keyra áfram mál sem stenst ekki skoðun af hálfu þeirra sem best þekkja til.

Það voru líklega stærstu mistökin við undirbúning þessa máls núna að vinna það ekki í breiðari hópi, annars vegar pólitískt og hins vegar með aðstoð sérfræðinganna sem þekkja best til og hefðu verið í stakk búnir til að reikna út áhrifin af tillögunum meðan málin voru í vinnslu.

En ég átti eftir að ljúka fyrra andsvari mínu, frú forseti. Hv. þingmaður benti á rök sem mjög hefur verið haldið á lofti, þ.e. að fiskurinn verði áfram veiddur og því þurfi menn ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hvort svo og svo mörg fyrirtæki fari í þrot. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega fráleitur málflutningur enda verður af því mikið tjón þegar fyrirtæki verður gjaldþrota og það er miklu dýrara, erfiðara og tímafrekara að skapa hvert eitt nýtt starf (Forseti hringir.) en að viðhalda einu starfi sem þegar hefur verið skapað.



[19:40]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarpið um veiðileyfagjöldin. Ég ætla að byrja á að taka undir það sem fram kom í andsvörum milli hv. þingmanna hér áðan, í raun og veru hefur allt breyst í þessu nema umræðan eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti réttilega á. Ég tel mikilvægt að þar líti allir sér nær, sama hvort það eru hagsmunaaðilar, stjórnmálaflokkar eða hver sem það er. Það hefur verið galli við þessi fiskveiðistjórnarmál alveg frá upphafi að stærstu og mestu yfirlýsingarnar hafa ekki verið greininni til framdráttar.

Það vita allir að áætluð gjaldtaka upp á 15 milljarða mun hafa áhrif, það gefur augaleið. Hve mikil áhrif hefur það? Ef ég tala fyrst út frá ríkissjóði koma væntanlega þessir 15 milljarðar í ríkissjóð en við ættum kannski líka að staldra við þá spurningu hvort það séu nettóáhrif. Hvaða áhrif hefur það að taka þessa fjármuni út úr sjávarútvegsbyggðunum? Þýðir það að þau fari í minni uppbyggingu og kaupi þar af leiðandi minni þjónustu? Já, að mínu mati gefur það augaleið. Það dregur þá saman tekjustofnana þar og eins hjá sveitarfélögum sjávarbyggðanna.

Áðan var komið inn á það sem sneri að Landsbanka Íslands. Maður staldrar við það sem kemur fram í umsögn frá Landsbankanum, að gangi frumvörpin bæði eftir muni Landsbankinn þurfa að afskrifa 31 milljarð. Eins og allir vita er ríkið meirihlutaeigandi í Landsbankanum þannig að það segir sig alveg sjálft að mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir nettóáhrifunum. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta hv. þingmann halda því fram að þessi gjaldtaka út úr sjávarbyggðunum muni ekki hafa nein áhrif, enda liggur það í augum uppi.

Í þessu máli er verið að fanga svokallaða auðlindarentu út úr veiðum og vinnslu, ég kalla hana reyndar landsbyggðarskatt. Henni er skipt upp í bolfisk og uppsjávarfisk, þ.e. uppsjávarveiðiheimildir. Ég er alveg sannfærður um að þetta mun koma misjafnlega niður á einstaka útgerðarflokkum, annars vegar útgerðum sem eru með vinnslu og hins vegar þeim sem ekki eru með vinnslu og eins líka mismunandi á milli útgerðarflokka. Það er því mjög mikilvægt að það verði skoðað sérstaklega hvaða áhrif þetta muni hafa og ég vænti þess að það verði gert þegar niðurstaðan verður komin.

Ég hlýt að gera athugasemdir við það, og hef gert það áður, að þegar menn fara að ráðstafa skatttekjunum inn í ákveðin verkefni, sem eru mér ekki að skapi, þ.e. í svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar — hér á að fara að leggja vegi og bora göng fyrir hluta af veiðigjaldinu — minnir það á þá aðferðafræði sem notuð er við hina svokölluðu IPA-styrki sem við ræddum hér fyrir nokkrum dögum.

Við skulum líka staldra aðeins við það sem fram kemur í umsögn ASÍ. Útreikningar ASÍ sýna að ef krónan styrkist um 20% — auðvitað eru ekki miklar líkur á því, það verður að halda því til haga — hríðlækkar veiðileyfagjaldið, það lækkar um rúmlega helming. Þá er líka mikilvægt að við ræðum það efnislega hvort skynsamlegra sé að greiða gjaldið meira í nútímanum, þ.e. að menn greiði gjaldið nánast jöfnum höndum á því ári sem verið er að skapa verðmætin en ekki eftir á eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað í framhaldinu og þá í samstarfi og sátt við þá sem starfa í greininni. Samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir að álagt gjald á viðkomandi ígildi fyrir fiskveiðiárið 2012–2013 sé ákveðin krónutala. Þetta er verkefni sem við þurfum að skoða og treysta á að verði gert.

Það var líka mjög áberandi sem kom fram á fundinum í gær hjá Brimi þar sem sýnt var fram á að svokölluð auðlindarenta væri þannig að þegar menn veiddu eina tegund, sem í þessu tilfelli var gulllax, væri auðlindarentan við veiðarnar 172%. Það var sýnt fram á það með tölulegum gögnum, þ.e. það þarf ekkert að efast um það eða giska á það eins og oft er gert í þessum umræðum. Þegar verið var að veiða makríl hjá sama fyrirtæki og raunkostnaðartölur skoðaðar var auðlindarentan 13,6%. Það er mjög mikilvægt að þetta verði skoðað og metið og vegið hvernig menn ætla að innheimta svokallaða auðlindarentu, þ.e. landsbyggðarskatt.

Þorskígildisstuðlarnir eru gallaðir og þar kristallast misræmi gagnvart gulllaxi og makríl. Við stöndum þá líka frammi fyrir þeirri spurningu, og verðum að taka heiðarlega umræðu um hana, hvort skynsamlegra sé, þegar verðmæti viðkomandi fisktegunda er vegið og metið, að menn borgi bara ákveðið fyrir kílóið af þeim fiski sem þeir eru að fara að veiða, ekki gagnvart þessari auðlindarentu í þorskígildisstuðlunum. Þá er hvatinn til þess að menn geri sem mest verðmæti úr þeim tegundum sem viðkomandi útgerðarfélög eru að fara að veiða. Þá sitja allir við sama borð.

Athyglisvert væri að skoða skýrasta dæmið um þetta. Ég nefndi makrílveiðarnar en þau skip sem til að mynda veiða makrílinn og frysta hann og vinna hann úti á sjó fá kannski fimm til sex sinnum hærra verð til útgerðarinnar á þeim tíma en þeir sem bræða hann. Fyrirtæki sem veiðir makrílinn og frystir um borð fær kannski 250 kr. fyrir kílóið. Þá er hlutaskiptakerfi um borð í skipunum og 40% af þessum 250 kr. fara til áhafna skipanna sem hafa miklar tekjur og borga þar af leiðandi skatta til samfélagsins, bæði tekjuskatt og útsvar til sveitarfélaganna.

Ef við snúum þessu við og skoðum sama útgerðarfélag sem er með annað skip sem veiðir makrílinn og landar honum í bræðslu er verðið kannski 40–50 kr. Þá gefur það augaleið að tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaganna munu lækka mjög mikið vegna þess að þá hafa sjómennirnir 40% af þessum 50 kr. í stað 250 kr. Þar hrapar þá skattstofn ríkisins og sveitarfélaganna. Þegar þetta sama fyrirtæki er kannski búið að bræða makrílinn — og það er auðvitað umhugsunarefni hvort yfir höfuð eigi að leyfa það nema í algjörum undantekningartilfellum, bara hreinlega þegar eitthvað kemur upp á — er launakostnaðurinn við bræðsluna mjög lítill. En þegar upp er staðið er nettóniðurstaða útgerðarinnar og vinnslunnar í þessu tilfelli, ef það er á sömu hendi, kannski sambærileg. Það gildir þá einu fyrir útgerðarfélagið hvort aflinn er bræddur eða frystur en klárlega verður tekjufall hjá ríkissjóði og sveitarfélögunum af því að skatttekjurnar miðast við hlutaskiptakerfið.

Það verður líka að hafa í huga að hitt frumvarpið, um fiskveiðistjórnina, hefur ekki verið afgreitt úr nefndinni en það verður að setja þessi tvö frumvörp í samhengi. Þeim mun meiri sem breytingarnar þar verða, eins og stefnt er að, minnkar geta útgerðarinnar til að greiða svokallað auðlindagjald, þ.e. landsbyggðarskatt sem ég kalla svo. Auðvitað verða menn að sýna á öll þau spil sem þar eru áður en hægt verður að afgreiða þetta frumvarp endanlega. Annað væri mjög óábyrgt.



[19:50]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans hér áðan. Það hefur verið talsvert rætt um það hér í dag í tengslum við þau mótmæli sem hafa verið úti á Austurvelli — eða hvað á að kalla það, jú, mótmæli voru það víst — að sjómenn væru að verja kjör sín, þeir væru að verja launin sín og það væri ástæðan fyrir því að þeir væru þarna úti með útvegsmönnum og öðrum, sveitarstjórnarfulltrúum og fleirum, og þeir teldu að þetta frumvarp mundi skerða kjör þeirra.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála því. Nú veit ég að hann þekkir vel til greinarinnar og gerir út sjálfur og allt það. Munu sjómenn að hans mati verða látnir borga veiðigjaldið sem verður lagt á ef þetta frumvarp verður að lögum?



[19:51]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að sjómenn ákveði sjálfir að taka þátt í þessum samstöðufundi. Við vitum það auðvitað öll sem erum hér inni, held ég hljóti að vera, að afkoma útgerðarinnar á viðkomandi tíma endurspeglast í því hvað í raun og veru útgerðin getur greitt til sjómanna, þó að ég geri mér grein fyrir því að þegar menn taka veiðigjöldin ætli þeir að taka launin til hliðar áður en þeir reikna svokallaða auðlindarentu. Þá verðum við að hafa í huga að á árunum 2012–2013 á að greiða fasta krónutölu í auðlindagjald eða svokölluð veiðigjöld.

Ég held líka, án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það, að sjómenn séu að minna á og verja starfsumhverfi sitt. Þá komum við aftur að því sem var verið að ræða hér á undan að sú öfgafulla umræða sem hefur verið í áratugi af öllum hlutaðeigandi aðilum, (Forseti hringir.) hvort sem það eru hagsmunaaðilar eða stjórnmálaöfl, hefur skaðað ímynd greinarinnar.



[19:52]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tel fullt tilefni til að þakka hv. þingmanni svarið við andsvari mínu. Ég ætla að halda mig á sömu slóðum varðandi þátttöku sjómanna í því að greiða þetta gjald. Ég fór yfir þetta áðan í andsvari við ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, sem ég fékk reyndar ekki svar við.

Hvernig stendur á þeirri hættu, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson telur vera eða telur líklega, að sjómenn þurfi að greiða þetta gjald, þegar staðreyndin er sú að verði frumvarpið að lögum verður eftir innan greinarinnar þriðja hæsta framlegð í sögu íslensks sjávarútvegs? Aðeins tvisvar, á árinu 2011 og 2009, hefur framlegðin verið hærri. Á árunum þar á undan, alveg frá 2001–2008, var hún miklu lægri. Hvernig stóð á því að sjómenn voru ekki krafðir um aukið framlag þá þegar (Forseti hringir.) afgangurinn var minni? Hvers vegna á að krefja þá um það núna (Forseti hringir.) þegar afgangurinn er margfalt meiri?



[19:53]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þýði ekkert fyrir okkur að horfa fram hjá því að hlutaskiptakerfinu sem hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég var komið á löngu fyrir gjaldtöku svokallaðs veiðigjalds eða auðlindarentu. Við vitum að þegar verið er að skipta upp kökunni eiga sjómenn eftir mismunandi útgerðarflokkum ákveðinn hluta af henni. Ef þetta trappast upp með þeim hætti að menn hækka alltaf auðlindagjaldið, hækka það og hækka, mun það á endanum koma niður á sjómönnum, það gefur augaleið. Ég held að við nálgumst það ekki með þeim hætti.

Síðan á hv. þingmaður auðvitað að þekkja það jafn vel og ég — ég tók það sérstaklega fyrir í ræðu minni — að ef menn ná ekki að fanga þetta auðlindagjald eða hvaða auðlindagjald sem er betur en stefnt er að, þ.e. annars vegar gagnvart uppsjávarveiðum og hins vegar gagnvart bolfiskveiðum, mun gjaldið lenda mjög mismunandi á einstaka útgerðarflokkum. Þá er ekkert óeðlilegt að það smitist út í launakjör sjómanna. Ég skil áhyggjur sjómanna af því (Forseti hringir.) að þetta muni á endanum að einhverju leyti bitna á kjörum þeirra.



[19:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Nú er ljóst að þeir sem reka útgerðarfélög, hvort sem þau eru lítil eða stór, og starfsfólk þeirra standa saman og hafa mótmælt því að hér séu lögð fram mál sem ógna atvinnuöryggi þeirra. Ekki nóg með það heldur eiga margir aðrir býsna mikið undir þessari atvinnugrein. Þegar við nokkrir þingmenn löbbuðum niður á bryggju í dag sáum við þar fjöldann allan af bílum merktum hinum og þessum fyrirtækjum sem voru að þjónusta skipin í höfninni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við að reynt hafi verið að meta það hvaða áhrif þessi vondu frumvörp hafi á fyrirtæki sem þjónusta þau skip og þær útgerðir sem um ræðir. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir heildarmyndinni þegar farið er af stað í æfingar sem þessar.



[19:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi svo sem ekkert annað en að lesa umsagnir frá sveitarfélögunum þar sem menn vara við þeim áhrifum sem frumvörpin hafa á þau samfélög. Auðvitað smitast þetta um allar lífæðar, hvort sem er á landsbyggðinni eða Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það hefur komið fram að stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn er á höfuðborgarsvæðinu. Allir sem vilja vita og vilja viðurkenna vita að ef svo háar upphæðir eru teknar út úr greininni kemur það auðvitað niður á henni með þeim hætti að ekki verður fjárfest meira, fjármagn verður ekki nýtt í frekari uppbyggingu, markaðsstarf eða hvaðeina sem menn finna upp á.

Áhyggjur margra í sjávarbyggðunum snúa að því að þessi fyrirtæki eru burðarásinn í samfélögunum, það þekkjum við hv. þingmaður vel. Þau styðja við íþróttafélög, björgunarsveitir og líknarfélög. Það gefur því augaleið að þetta mun hafa áhrif á þau samfélög, að vísu miklu (Forseti hringir.) meira en önnur sem treysta minna á sjávarútveg.



[19:57]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega rétt hjá hv. þingmanni að þessi fyrirtæki, mörg hver, eru burðarásar í samfélögum þar sem þau eru. Ég held að Knattspyrnufélag Grindavíkur hafi sent frá sér ályktun í dag þar sem vakin var athygli á því hversu miklu þessi fyrirtæki skipta. Menn verða vitanlega að hafa í huga að þessi þorp okkar og bæir úti á landi hafa ekki eða lítinn aðgang að bönkum og tryggingafélögum og slíkum fyrirtækjum, verslunum, sem styðja við bakið á slíkri starfsemi í borginni.

Það sem skiptir líka máli er að um leið og keðjan í þorpunum fer að rofna, þegar einhver sérfræðingur missir vinnuna vegna samdráttar, getur það haft keðjuverkandi áhrif því að samfélögin eru svo lítil.

Ég held að það vanti einmitt samfélagslegt mat á hvaða áhrif þessi frumvörp geta haft á þessi litlu samfélög.



[19:58]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það verður að skoða þau samfélagslegu áhrif sem frumvörpin hafa á fyrirtæki og byggðir eða í raun og veru á ríkissjóð í heild sinni og þar af leiðandi afkomu fólksins, þjóðarinnar, eins og sagt er.

Við skulum heldur ekkert horfa fram hjá því, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, að við erum að ræða þessi mál samhliða. Það er búið að sýna aðeins á spilin í hinu málinu í þessari svokallaðri samningaviðleitnisnefnd eða hvað á að kalla hana. Við höfum fengið viðbrögð við frumvörpunum og erum að fara yfir umsagnir. Síðan er búið að gera breytingar á veiðigjaldafrumvarpinu og taka málið úr nefnd og sýna þær tillögur. Auðvitað þyrfti að skoða þær mun betur til að geta verið fullviss eða verið nær því að geta gert sér í hugarlund hvernig þær breytingar draga í raun og veru úr áhrifum á viðkomandi sveitarfélög því að það er mismunandi hvernig það er þó að búið sé að dempa þetta allt niður, það verður að viðurkennast.



[20:00]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína í ræðu þingmannsins áðan að hann fjallaði um rentu í einstökum tegundum. Því langaði mig að spyrja hv. þingmann sem hefur auk þess að vera þingmaður reynslu úr sjávarútveginum, hvernig hann meti þær hugmyndir sem liggja til grundvallar í „hrunvarpinu“ um að reikna upp rentu á vinnsluna og hvernig það til að mynda spilar inn í rentu á einstökum tegundum. Þær eru auðvitað mjög misverðmætar og fyrirtækin hafa aðgang að mismunandi mörkuðum og þar af leiðandi getur ávinningurinn af einstökum tegundum verið mjög mismikill. Þess vegna langar mig að heyra álit þingmannsins á þeirri aðferðafræði að meta rentu í vinnslu og láta útgerðina (Forseti hringir.) greiða í raun og veru rentuna í vinnslunni.



[20:01]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem ég kom inn á í ræðu minni, það er dálítið flókið að fanga rentuna bæði í veiðum og vinnslu og setja síðan yfir á útgerðir. Síðan eru sumar útgerðir með vinnslu og aðrar ekki og útgerðarflokkarnir mismunandi þannig að þetta er dálítið flókið. Þess vegna tók ég það aðeins fyrir í ræðu minni hvort ekki væri æskilegt að skoða það í framhaldinu hvort menn mundu setja hugsanlega bara krónutölu á viðkomandi tegund, úthlutuðu bara á hverja fisktegund fyrir sig og væru ekki að flækja ígildunum saman við það af því að þorskígildisstuðlarnir eru sumir hverjir gallaðir. Við munum það til dæmis í fyrra þegar við vorum að fjalla um makrílinn að hann var um 0,19 ígildi á móti þorski sem er þá 20% eða 1/5 af þorskinum en verðmætin voru kannski langt frá því — það var svo mikil skekkja á milli verðmæta og stuðla. Þetta þarf (Forseti hringir.) að skoða mjög vel í svokallaðri auðlindanefnd.



[20:02]
Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæst. forseti. Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem við í minni hlutanum í atvinnuveganefnd höfum gagnrýnt hvað harðast og það er einnig gert í mjög mörgum umsögnum og í greinargerð sérfræðinganna var m.a. bent á að þetta væri mjög svo sérkennileg aðferðafræði og matskennd og væri mjög ólíkleg til þess að meta á réttan hátt. Þar var meðal annars bent á fordæmi úr raforkulögunum þar sem farin er allt önnur leið. Sérfræðingarnir bentu á að það gæti einmitt verið skynsamlegri leið að fela sérfræðingum eða einhverri nefnd að meta virði á fisktegundunum þegar þær kæmu inn í vinnsluna til þess að fá út hina raunverulegu rentu og nota þá raunverulegar tölur en ekki matskenndar tölur eins og í þessu frumvarpi.

Því væri áhugavert að heyra álit þingmannsins á því hvort ekki hefði verið skynsamlegra (Forseti hringir.) að fara slíka leið þar sem menn væru með raunverulegar tölur en ekki meðaltalstölur og plattölur, eftir hverjum er síðan lagt á gjald.



[20:03]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta rétt ábending hjá hv. þingmanni og þetta er eitt af því sem ég kom inn á í ræðu minni. Það er líka varhugavert þegar við hækkum gjaldið svona tiltölulega bratt eins og verið er að gera núna að þá getur þessi skekkja haft miklu meiri áhrif en ef menn eru að hækka gjaldið í þrepum.

Ég nefndi það í ræðu minni að mér fannst þetta koma mjög skýrt fram á fundinum hjá Brimi í gær þar sem menn sýndu fram á að auðlindarentan í einni tegund fangaði til dæmis 172% en í annarri 13,6%. Meðaltalið er auðvitað eitthvert ákveðið vægi en skekkjan á milli tegunda er hins vegar hrópandi. Þar var ekki verið að fjalla um ágiskaðar tölur heldur bara rauntölur út úr rekstri fyrirtækisins. Þetta er auðvitað eitt af því sem verður að skoða mjög vandlega.

Síðan er spurning um hvort það eigi að setja krónutölu á viðkomandi tegund því að þá er auðvitað gerð sú krafa, alveg sama hver fær að veiða hana, að menn fái hámarksverðmæti út úr henni, hvatinn er í þá veruna.



[20:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það væri æskilegt ef gjaldið væri þróað þannig að það legðist nákvæmar á einstakar tegundir. Einmitt þess vegna er varlega af stað farið en ekki bratt eins og hv. þingmaður sagði. Nú þekkir hv. þingmaður einkar vel til útgerðar og ég vil þess vegna spyrja hann hvort hann telji að fast gjald upp á 9,50 kr. fyrir þorskígildiskíló og breytilegt gjald í þessu árferði sem bætir við kannski rúmlega 20 kr. á hvert kíló, verði til þess að einhver útgerðarmaður muni setja það fyrir sig eða kjósa að veiða ekki upp á þau býti. Sömuleiðis ef einhverjir standa ekki undir þeim gjöldum, hvort hv. þingmaður telji að það verði skortur á nýjum aðilum sem væru tilbúnir til þess að greiða fyrir þær veiðiheimildir sem hér er gert ráð fyrir. Og loks hvað hv. þingmaður telur að yrði boðið í þessar heimildir ef þær væru (Forseti hringir.) boðnar á almennum markaði. Eru það 100 kr. eða 150 kr. eða 300 kr.? (Forseti hringir.) Um það bil hvaða stærð telur þingmaðurinn að þar væri um að ræða?



[20:06]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér um ákveðinn uppboðsmarkað. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um það að ég tel allar útgerðir standa undir svokölluðu fastagjaldi eða grunngjaldi sem á að standa undir kostnaði af rekstri viðkomandi stofnunar sem þjónustar sjávarútveginn, hvort heldur sem það er Fiskistofa eða Hafrannsóknastofnun eða aðrar. En við verðum líka að átta okkur á því, og það veit hv. þingmaður jafn vel og ég, að þegar menn taka hagræðinguna út úr greininni eins og til dæmis í seinna frumvarpinu, er erfitt að segja nákvæmlega til um það hvort eðlilegt gjald sé 20 kr., 30 kr. eða 40 kr., því að það ræðst auðvitað af því hvernig hitt málið endar. Hv. þingmaður hlýtur að geta verið mér sammála um það vegna þess að það er svo misjafnt hvernig þetta hefur lagst á. Ég veit að hv. þingmaður þekkir hvernig það er með svokallaða potta þar sem fjórar fisktegundir borga inn í, á sama tíma og menn verða fyrir skerðingum. Til dæmis hefur ýsukvótinn verið skertur um rúm 50% á þremur árum. (Forseti hringir.) Í þannig stöðu verða menn alltaf að vega hlutina og meta og það verður að ná þessu meira niður á einstaka útgerðarflokka til þess að menn geti farið í vitræna umræðu um það hvað útgerðirnar þola í raun og veru.



[20:07]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um það hygg ég í aðalatriðum, að að óbreyttu kerfi standi greinin í öllum meginatriðum undir þessu gjaldi enda sé tekið tillit til þeirra skulda sem menn hafa stofnað til frá 2002 og til þessa dags. Það verður auðvitað að horfa á ákveðna fortíð í þessu og gefa mönnum svigrúm til þess að afskrifa þann kvóta sem þeir hafa keypt og greiða þær skuldir sem þeir hafa stofnað til í því sambandi.

Þá hlýtur maður líka að spyrja um nýjar tegundir, hvort hv. þingmaður telji að það sé ástæða til þess að fara öðruvísi með til að mynda makrílinn sem eru sannarlega ekki veiðiheimildir sem menn hafa greitt fyrir heldur eru heimildir sem hefur rekið hér á fjörur okkar á allra síðustu missirum. Væri eðlilegt að menn greiddu miklum mun meira fyrir þær heimildir en heimildir í öðrum tegundum sem gengið hafa kaupum og sölum?



[20:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það enn og aftur að við hv. þm. Helgi Hjörvar erum sammála um það hversu mikilvægt er að hafa hagræðið og hagkvæmnina í greininni til þess að hún geti staðið undir þeim auðlindagjöldum sem henni er ætlað að greiða á hverjum tíma. Það gefur augaleið að eftir því sem hagkvæmnin er meiri í greininni getur hún borgað meira í auðlindagjöld eða það sem ég vil kalla landsbyggðarskatt.

Hv. þingmaður nefnir í þessu sambandi makrílinn. Þá verðum við líka að átta okkur á því að það er kannski ekki alveg sanngjarnt að setja þetta upp þannig því að á þeim tíma voru ákveðin skip að veiða makrílinn og þau fá núna 70% viðmiðun út á það sem þau veiddu. Ég hef hins vegar sagt það oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og oftar en þrisvar og get sagt það einu sinni enn, að það voru gerð stór mistök þegar menn voru að búa til viðmiðunina en þá var verið að veiða makrílinn í gúanó. Ég tók einmitt undir ákvæði í svokölluðu skötuselsfrumvarpi um að setja inn ákveðna veiðiskyldu af því að við vorum að sóa verðmætum (Forseti hringir.) og það megum við ekki gera.



[20:09]Útbýting:

[20:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn frú forseta. Í 4. mgr. 10. gr. þingskapa segir um lengd þingfunda, með leyfi forseta:

„Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til klukkan 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, sbr. 74. gr. Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“

Eins og hæstv. forseti veit var slík tillaga ekki borin upp, ekkert samkomulag var um lengri þingfund og ætti hæstv. forseta að vera kunnugt um það líka. Þess vegna er það alveg klárt að hæstv. forseti er að brjóta þingsköp og geri ég athugasemd við það. Ég vil einnig að það sé skýrt að hæstv. forseta mátti vera það ljóst að hætta væri á því að farið yrði fram yfir reglulegan fundartíma þar sem iðulega er gert (Forseti hringir.) ráð fyrir andsvörum og þetta er regla sem mér skilst á starfsfólki þingsins að sé mjög vel farið eftir.



[20:12]
Forseti (Álfheiður Ingadóttir):

Forseti tekur undir með hv. þingmanni að það var ekki rétt reiknað hjá forseta sem reiknaðist svo til að andsvörum yrði lokið klukkan þrjár mínútur yfir átta og taldi að það mundi kannski sleppa í stað þess að slíta umræðunni í miðjum andsvörum. Því miður gekk það ekki eftir og biðst forseti velvirðingar á því.

Nú verður þessari umræðu frestað.