148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

hæfi dómara í Landsrétti.

[15:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil kannski árétta að réttaróvissa er fyrirséð, burt séð frá dómum Hæstaréttar. Það er það sem ég er að biðja hæstv. ráðherra um að bregðast við. Það er fyrirséð að efasemdir verði uppi um hæfi dómara til að taka fyrir mikilvæg mál í þeirri mikilvægu réttarbót sem Landsréttur er. Ég spyr ráðherra að því hvernig hún hyggist bregðast við því, burt séð frá niðurstöðum Hæstaréttar.

Mig langar að minna hæstv. ráðherra á orð sem hún lét falla fyrir ekki svo löngu í umræðum um stefnuræðu:

„Kæru landsmenn. Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið — eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.“

Ég spyr ráðherra: Er ástæða til þess að bíða? Er ekki rétt að réttlætinu sé fullnægt núna?