148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvað eru öryrkjar í augum ríkisstjórna, bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna? Erum við fjórða flokks þegnar eða algerlega utan garðs? Þá vil ég sérstaklega taka til dæmi í sambandi við nýjungar. Nú er rafbílavæðingin á fullu. Það sem er eiginlega furðulegast af öllu er að það er eitt bílastæði fyrir rafbíla fyrir fatlaða sem ég veit um og það er við IKEA. Eitt. Þar af leiðandi segir maður að nú eigi að fara að rafbílavæða hringinn í kringum landið og það eru ekki stæði. Öryrkjar eiga ekki að fara hringinn í kringum landið því að það þarf alveg sérstakan útbúnað.

Því miður eru fæstar hleðslustöðvar rafbíla aðgengilegar fyrir fatlað fólk og engar reglur eru til um aðgengi slíkra hleðslustöðva. Erlendis hafa verið settar reglur um að a.m.k. 4% eða eitt af hverjum 25 bílastæðum eigi að vera aðgengilegt. Hvað hleðslustöðvar varðar hefur bandaríska orkustofnunin mælt fyrir um að ein af hverjum sjö eigi að vera aðgengileg.

Næstkomandi mánudag stendur málefnahópur ÖBÍ fyrir málþingi á alþjóðlegum degi aðgengis þar sem einmitt þetta mál verður rætt. Ég er búinn að senda inn fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það hvernig verður tekið á þessu máli. Mér finnst að ríkisstjórnin hefði nú átt að geta gefið yfirlýsingu á þessum degi um að það verði hvergi hvikað frá þessu og rafbílavæðing og rafbílastæði fyrir öryrkja verði mannsæmandi og allir geti notað þessa nýjung.