146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, og hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Teitur Björn Einarsson.

Þetta mál hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður og hefur ekki náð framgöngu, nú síðast var 1. flutningsmaður Unnur Brá Konráðsdóttir, hæstv. forseti Alþingis.

Frumvarpinu er ætlað að fella úr gildi lög um orlof húsmæðra en þó er gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða að sveitarfélag geti heimilað orlofsnefnd að starfa áfram til 1. janúar 2019 sé rekstrarfé í sjóðum nefndarinnar. Við umfjöllun málsins á 144. löggjafarþingi komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að svigrúmið fyrir orlofsnefnd til að starfa áfram mætti ekki vera of þröngt þar sem margar nefndir hafi þegar skipulagt orlofsferðir eða hafið vinnu við skipulagningu slíkra ferða. Því er orlofsnefndum heimilað að starfa til 1. janúar 2019 til að veita þeim svigrúm til aðlögunar að breyttu lagaumhverfi. Sé enn til fé í sjóðum orlofsnefndar þegar hún lýkur störfum rennur það til baka til þess sveitarfélags sem lagði það fram. 1. janúar 2019, er þó ætlast til að lögin falli að fullu úr gildi enda er í þeim gert ráð fyrir að greitt sé til orlofsnefnda fyrir 15. maí ár hvert.

Rétt til orlofs á sérhver kona sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf. Lögin voru sett á þeim tíma þegar barnauppeldi og heimilishald var að mestu í höndum kvenna og stór hluti þeirra starfaði einungis á heimilum án þess að til kæmu launagreiðslur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt áunnist í jafnréttisbaráttu og barnauppeldi er nú sameiginlega á ábyrgð beggja foreldra. Konur eru virkari þátttakendur á vinnumarkaði en áður var og mynda meiri hluta þeirra nemenda sem stunda nám við háskóla landsins. Á þeim heimilum þar sem einungis annað foreldri vinnur utan heimilis eru mun meiri líkur en áður á því að feðurnir kjósi að sinna börnum og búi.

Verið hefur til skoðunar í lengri tíma að leggja niður orlof húsmæðra, m.a. með þeim rökum að um tímaskekkju væri að ræða, enda hafa lögin verið mjög umdeild frá jafnréttissjónarmiði. Þau sjónarmið hafa heyrst frá forystu orlofsnefndar húsmæðra og þar voru um aldamótin uppi spár um að lögin yrðu felld úr gildi innan tíu ára. Ég held því að við séum nokkurn veginn á pari við spá þeirrar forystu.

Vert er einnig að hafa í huga að orlof húsmæðra stendur jafnt þeim konum til boða sem starfa heima og á almennum vinnumarkaði. Því er um að ræða niðurgreiðslu orlofs fyrir ákveðinn hóp samfélagsins, þ.e. konum sem veita eða veitt hafa heimili forstöðu en ekki körlum sem eru í sömu stöðu. Vegna breytinga á vinnumarkaði og stöðu kvenna má ætla að stór hluti þeirra sem þegið hafa húsmæðraorlof undanfarinn áratug eigi lögbundinn rétt til orlofs.

8. febrúar 2012 kvað kærunefnd jafnréttismála upp úrskurð í máli þar sem deilt var um hvort orlofsnefnd Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar hún synjaði karli um að taka þátt í orlofsferð húsmæðra til Slóveníu. Niðurstaða kærunefndarinnar var að fyrirkomulagið sem lög nr. 53/1972 fælu í sér teldist sértækar aðgerðir sem væru heimilar skv. 2. mgr. 24. gr. jafnréttislaga, nr. 10/2008, og því hefði orlofsnefndin ekki brotið gegn þeim lögum með synjuninni.

Þá ætla ég að fara yfir sjálfseignarrétt sveitarfélaganna í þessu og þátt sveitarfélaganna. Það eru sveitarfélögin sem hafa kannski kallað hvað mest eftir þessu. Árið 2008 var gerður samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga þar sem m.a. er lögð rík áhersla á að sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sé virtur og að löggjöf og reglugerð sé með þeim hætti að sveitarfélög hafi svigrúm til að haga verkefnum sínum og athöfnum með hliðsjón af staðbundnum aðstæðum og viðhorfum. Á síðustu árum hafa mörg verkefni verið færð frá ríkisvaldi til sveitarfélaganna til að efla sveitarstjórnarstigið og gera verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skýrari og einfaldari. Þá hefur einnig verið haft uppi það sjónarmið að sveitarfélög séu færari en ríkið um að meta hvar þörf sé á fjármagni í félagsleg verkefni.

Með lögum nr. 61/1978 var sú breyting gerð að sveitarfélögunum einum bar að greiða til orlofs húsmæðra sem nemur 100 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins. Þessi upphæð tekur vísitölubreytingum og var fjárhæð framlagsins fyrir árið 2012 95,52 kr. á íbúa.

Það hefur samt komið fram í umsögnum frá Alþýðusambandinu og Kvenfélagasambandinu og fleirum við þetta mál áður að kannski sé ekki tímabært að gera þetta strax þar sem við séum ekki komin á þann stað sem við viljum helst vera komin á og markmiðunum ekki að fullu náð. Vilji sveitarfélög styrkja einstaklinga til orlofs er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að það sé gert á jafnréttisgrundvelli með tilliti til félagslegra viðmiða. Orlofsnefndir geta starfað áfram þrátt fyrir að lög um orlof húsmæðra falli úr gildi. Ekkert getur komið í veg fyrir að slíkir styrkir verði einnig veittir húsfeðrum og framkvæmdin þannig útvíkkuð og samræmd ríkjandi viðhorfum.

Afnám laga um orlof húsmæðra mun í raun gefa sveitarfélögunum meira svigrúm til að forgangsraða ráðstöfun fjármuna þannig að þeir verði veittir í þau verkefni sem sveitarfélögin sjálf telja brýnust. Aðstæður innan sveitarfélaga eru mismunandi. Sú skylda sem lögin setja á herðar þeirra er almenn. Af þeim sökum hafa einstök sveitarfélög í raun ekki haft svigrúm til að taka tillit til þess hvort þátttaka húsmæðra á vinnumarkaði er mikil eða lítil. Þá hefur sveitarfélögunum enn síður verið fært að taka tillit til annarra aðstæðna húsmæðra.

Þrátt fyrir að ljóst megi telja að staða kvenna sé ekki enn orðin jöfn stöðu karla þegar horft er til launakjara og atvinnuþátttöku verður ekki hjá því litið að viðhorf til vinnu og kjara kvenna hafa gjörbreyst. Fullyrða má að möguleikar þeirra hafi aukist a.m.k. sem þeirri viðhorfsbreytingu nemur. Af þeim sökum er orðið mjög erfitt að réttlæta þá jákvæðu mismunun sem lögin fela í sér. Að sama skapi er erfitt að réttlæta að almannafé verði áfram ráðstafað samkvæmt almennum lögum um orlof húsmæðra þegar forsendur þeirra hafa tekið svo miklum breytingum. Hefur spurning jafnvel vaknað um að hvaða marki húsmæðraorlof sé greitt til kvenna sem eigi vegna heimilisstarfa skertan orlofs- eða lífeyrisrétt. Í þeim erfiðu efnahagsaðstæðum sem ríkt hafa síðustu ár, þar sem sveitarfélögin leita allra leiða til þess að hagræða og nýta skattpeninga þegnanna sem best, er vart boðlegt að ríkið skyldi þau til að nota hluta þess takmarkaða fjármagns sem þau hafa til að mismuna íbúunum á grundvelli kynferðis.

Meðal annars hefur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvatt til þess að lögin verði felld brott.

Alþingi setti fyrst lög um orlof húsmæðra árið 1960 og gildandi lög eru frá 1972. Lögin eru sett í þeim anda sem ríkti þá og miðast við þjóðfélag þess tíma. Sem betur fer hefur ýmislegt breyst til batnaðar, margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttu og ljóst má vera að lögin eru í andstöðu við jafnréttissjónarmið. Það er því skylda Alþingis að afnema þau strax. Ekki má gera lítið úr þeim félagslegu áhrifum sem orlofsferðir húsmæðra hafa haft fyrir þær konur sem hafa farið. Verði lögin afnumin geta orlofsnefndirnar haldið áfram að skipuleggja ferðir kjósi þær svo. Aðkoma sveitarfélaganna yrði valkvæð og það sem mestu máli skiptir, íbúum væri ekki mismunað á grundvelli kynferðis.

Ég legg því til að þetta frumvarp fari til þóknanlegrar meðferðar allsherjar- og menntamálanefndar og verði svo samþykkt hér að því loknu.