148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er ákveðið sjónarmið. Ég held að mál yrðu kannski síður líkleg til að vera sett fram í einhverjum popúlískum tilgangi eða vanhugsuð og illa þróuð ef öllum væri ljóst frá upphafi að léleg mál myndu bara falla á nei-i, ef það væri hefð fyrir því að þingmenn myndu hreinlega draga mál til baka sem væru illa unnin og vinna þau frekar.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hélt að ég hefði farið nokkuð vel yfir það að í ýmsum Norðurlöndum og reyndar ýmsum öðrum löndum ef út í það er farið er einmitt þetta viðhaft, að mál lifi milli þinga en þó innan kjörtímabils. Það er ekkert hálf með það. Þetta er bókstaflega gert. Ég býð hv. þingmanni að lesa frumvarpið og greinargerð þess ef hann misskildi þetta eitthvað.

En mig langar til að spyrja á móti: Sér hv. þm. Brynjar Níelsson í raun og veru ekkert vandamál, ekki nokkurt einasta vandamál við það að sóa, og ég kalla það að sóa, heilu vinnuvikunum, tugum klukkutíma, ár eftir ár, í það eitt að ræða sömu gömlu hugmyndina sem hefði fyrir löngu annaðhvort átt að samþykkja eða hafna? Sér hv. þingmaður ekki neitt að þessu?