49. fundur
atvinnuveganefndar á 141. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, fimmtudaginn 28. febrúar 2013 kl. 13:38


Mættir:

Jón Gunnarsson (JónG), kl. 13:38
Jónína Rós Guðmundsdóttir (JRG), kl. 13:38
Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM), kl. 14:28
Logi Már Einarsson (LME), kl. 13:38
Ólína Þorvarðardóttir (ÓÞ), kl. 13:38
Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ), kl. 13:38
Þór Saari (ÞSa), kl. 13:38

Nefndarritari: Benedikt Sveinbj. Benediktsson

Bókað:

1) Fundargerð. Kl. 15:14
Dagskrárliðurinn var ekki ræddur.

2) 447. mál - stjórn fiskveiða Kl. 13:50
Á fund nefndarinnar komu Helgi Jóhannesson og Steingrímur Hauksson frá Siglingastofnun, Bárður Guðmundsson og Páll Jóhann Pálsson. Þá voru Aðalsteinn Þorsteinsson og Sigurður Árnason frá Byggðastofnun gestir nefndarinnar í gegnum síma. Gestirnir kynntu nefndinni afstöðu til málsins og svöruðu spurningum nefndarmanna að því loknu.

3) Önnur mál. Kl. 13:40
ÞSa lagði fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúi Hreyfingarinnar/Dögunar mótmælir harðlega meðferð og afgreiðslu frumvarps til laga um Stjórn fiskveiða (mál 570) í Atvinnuveganefnd Alþingis. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun það festa í sessi núverandi kvótakerfi með 20 ára nýtingarsamningum sem valda því að ríkið verður að fullu skaðabótaskylt ef reynt verður að breyta kerfinu innan þess tíma. Frumvarpið afhendir núverandi útgerðum kvótann til 20 ára í stað eins árs í senn og þegar haft er í huga að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári var um 251 milljarður króna þá er hér verið að afhenda örfáum aðilum auðlind að verðmæti að upphæð um 5.000 milljarða, já fimm þúsund milljarða, án þess að beint gjald komi fyrir. Efnahagsleg áhrif frumvarpsins verða gríðarleg og sú þróun byggðar í landinu sem hefur átt sér stað frá lögfestingu frjálsa framsalsins á aflaheimildum verður fest í sessi til frambúðar. Meirihluti Atvinnuveganefndar undir stjórn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur (VG) og Ólínu Þorvarðardóttur (Samfylkingu) hefur hafnað því að þessi áhrif verði metin og gengur þar með fram af miklu ábyrgðarleysi í störfum sínum.
Vinnubrögð meirihluta Atvinnuveganefndar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi í þessu máli eru með miklum ólíkindum og algerlega óskiljanleg, því verði frumvarpið að lögum er um að ræða mesta auðlindarán í sögu þjóðarinnar. Frumvarpið gengur og þvert gegn auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár sem nú er í meðferð Alþingis.
Samþykki Alþingi málið óbreytt mun þess verða formlega óskað við Forseta Íslands að hann synji lögunum samþykkis og að þjóðin öll fái þá í framhaldinu tækifæri til að segja álit sitt á málinu."
Nefndin ræddi stuttlega um 570. mál, stjórn fiskveiða (heildarlög).

Fundi slitið kl. 15:14