71. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 151. löggjafarþingi.
Fjarfundur haldinn laugardaginn 12. júní 2021 kl. 09:03


Mætt:


Nefndarritarar:
Björn Freyr Björnsson
Elín Valdís Þorsteinsdóttir

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:04
Fundargerðir 69. og 70. fundar voru samþykktar.

2) 469. mál - þingsköp Alþingis Kl. 09:04
Tillaga um að afgreiða málið frá nefndinni var samþykkt.

Að nefndaráliti minni hluta standa Jón Þór Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson.

3) 850. mál - þingsköp Alþingis Kl. 09:05
Tillaga um að afgreiða málið frá nefndinni var samþykkt.

Að nefndaráliti meiri hluta standa Jón Þór Ólafsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Þórarinn Ingi Pétursson. Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

4) 466. mál - stjórnarskrá lýðveldisins Íslands Kl. 09:06
Formaður lagði til að málið yrði afgreitt frá nefndinni til 2. umræðu.

Gengið var til atkvæða um tillöguna.

Jón Þór Ólafsson og Andrés Ingi Jónsson greiddu atkvæði með tillögunni. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir studdi afgreiðsluna.

Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þórarinn Ingi Pétursson greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Var tillaga um að afgreiða málið frá nefndinni felld.

Kolbeinn Óttarsson Proppé lagði fram eftirfarandi bókun:
Sem framsögumaður í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur til stjórnskipunarlaga hef ég unnið að því að ná samstöðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um málið. Eftir því sem nær hefur dregið þinglokum hefur mér þótt einboðið að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi myndu ekki bera gæfu til að ná saman um stóru ágreiningsmálin í frumvarpinu. Nú hafa formenn flokka náð samkomulagi um þinglok þar sem ekki er gert ráð fyrir umræðum um stjórnarskrá.

Ég hef borið þá von í brjósti að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti náð saman um einhverjar breytingar og flokkarnir fylgt þeim í samkomulagi í gegnum þingið. Ég óskaði eftir afstöðu fulltrúa allra flokka innan nefndarinnar um hvaða breytingar það væru sem þeir gætu sætt sig við að gera, með það fyrir augum að búa til úr því sameiginlegt nefndarálit ef efni stæðu til. Bæði bárust skrifleg og munnleg svör og með því að lesa þau saman er ljóst að það sem hægt væri að leggja fram í sátt nefndarinnar er svo veigalítið að vart getur talist forsvaranlegt að setja fram. Miðað við svörin er aðeins sátt um ákvæði um íslensku sem ríkismál.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með þau málalok, þar sem ég vonaði að Alþingi bæri gæfu til að ráðast í löngu tímabærar breytingar á ýmsu í stjórnarskránni, þó ekki væri annað nefnt en ákvæði um forseta Íslands. Mikilvægt er að sú góða vinna sem frumvarpið byggir á fari ekki til ónýtis og ég treysti því að það mikla samráð og annað starf sem fór fram í vinnu umrædds frumvarps, bæði áður og eftir að það var lagt fram, nýtist áfram.

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson lögðu fram eftirfarandi bókun:
Við álítum þá leið sem farin hefur verið á þessu kjörtímabili við endurskoðun á stjórnarskrá, þar sem tilteknir kaflar eða ákvæði eru tekin fyrir, heppilega og geta leitt til niðurstöðu um breytingar á ákvæðum sem víðtæk sátt er um í samfélaginu. Í vinnu nefndarinnar höfum við nálgast málið opin fyrir því að mögulega þyrfti að gera breytingar á einstökum ákvæðum frumvarpsins ef það mætti leiða til sameiginlegrar niðurstöðu. Það hefur ekki náðst en það starf sem fór fram við vinnslu umrædds frumvarps, bæði áður og eftir að það var lagt fram, nýtist áfram.

Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson lögðu fram eftirfarandi bókun:
Frumvarp forsætisráðherra kom inn í þingið í ágreiningi þrátt fyrir langan undirbúningstíma og viðamikið nefndarstarf, sem formenn allra flokka á Alþingi tóku þátt í. Ólíkar skoðanir um ýmis efnisatriði málsins komu fram við fyrstu umræðu í þinginu og hafa einnig birst í starfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ekki hefur tekist að samræma þessi sjónarmið og telja undirritaðir því ekki neinar forsendur til þess að ljúka afgreiðslu frumvarpsins á þinginu, sem senn lýkur.

5) Önnur mál Kl. 09:13
Þorsteinn Sæmundsson ræddi um afhendingu skýrslu setts ríkisendurskoðanda ad hoc um Lindarhvol.

Nefndin ræddi starfið framundan.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 09:17