Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 789  —  542. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,
Sigurrós Þorgrímsdóttir, Anna Kristín Gunnardóttir, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2005, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, þar með talið að tryggja að fundnar verði raunhæfar tölur um stofnstærðir jafnt friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður- Atlantshafi.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2005 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22.–24. ágúst 2005. Ályktun ráðsins var efnislega á þessa leið:
    Vestnorræna ráðið hvetur landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands til að efna til samstarfs um að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, þar með talið að tryggja að fundnar verði raunhæfar tölur um stofnstærðir jafnt friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður-Atlantshafi.
    Hvalveiðar í vestnorrænum löndum byggjast á fornri venju. Ofveiðar á hvölum um aldir hafa þó valdið því að hvalastofnar í Norður-Atlantshafi hafa minnkað stórlega. Nauðsynlegt er að halda áfram stöðugum rannsóknum á hvölum til að tryggja að með tíð og tíma skapist forsendur fyrir fjölbreyttari hvalveiðum á fleiri tegundum en nú, svo framarlega sem rannsóknir færa sönnur á að tegundirnar megi veiða á sjálfbæran hátt.
    Á því leikur enginn vafi að það er von og vilji Vestur-Norðurlanda að hvalveiðar verði aldrei stundaðar á hafsvæðum landanna nema á sjálfbæran hátt. Af sömu ástæðu hafa öll vestnorrænu löndin stutt alþjóðlegan samning um fjölbreytileika lífríkis hafsins. En nákvæmar og áreiðanlegar tölur um marga hvalastofna í vestnorrænum höfum skortir. Þetta á einnig við um hvalastofna sem vegna fyrri tíma veiðiálags hafa verið friðaðir árum saman.
    Vestnorræna ráðið álítur mikilvægt og réttmætt að vestnorrænum hvalastofnum verði með lagasetningu og kvótum tryggð framtíð í hafsvæðum landanna. Það er von Vestnorræna ráðsins að stjórnir þessara þriggja landa vinni að því að styrkja hvalarannsóknir á einhverjum viðeigandi vettvangi, t.d. í Norður-Atlantshafsspendýraráðinu. Ráðið hvetur því vestnorræn stjórnvöld til að hafa samráð um að tryggja að áfram verði skipst á þekkingu um talningu og skráningu hvalastofna í Norður-Atlantshafi.
    Með því að tryggja nákvæma talningu hvalategunda á vestnorrænum hafsvæðum tryggja Vestur-Norðurlönd sér einnig sterka stöðu í umhverfismálum og auka líkurnar á að komið sé í veg fyrir ofveiði ef í ljós kemur að einhver hvalategund er sjaldgæfari en álitið hafði verið. Með þetta í huga hvetur Vestnorræna ráðið vestnorræn stjórnvöld til að vinna saman að því að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, m.a. að tryggja með talningu raunhæfar upplýsingar um stofnstærðir hvala í Norður-Atlantshafi, bæði friðaðra og kvótaveiddra. Hvatt er til þess að tölulegar upplýsingar séu staðfestar með talningu, bæði úr lofti og á legi, og talningin fari fram í samvinnu við og með aðstoð viðeigandi samtaka á hverjum stað.