Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 599  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 sést vel að fjárhagsstaða ríkissjóðs hefur batnað verulega frá hruni og ljóst að margar þær nauðsynlegu aðhaldsaðgerðir og breytingar á skattkerfinu sem gripið var til í kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008 hafa skilað árangri.

Í milljörðum kr. Fjárlagafrumvarp Breytingartillaga
við 2. umr.
Samtals
Frumtekjur 679,7 5,1 684,8
Frumgjöld 606,6 10,6 617,2
Frumjöfnuður 73,1 -5,5 67,6
Vaxtatekjur 16,6 -0,9 15,8
Vaxtagjöld 74,4 -1,8 72,6
Vaxtajöfnuður -57,8 1,0 -56,9
Heildartekjur 696,3 4,2 700,6
Heildargjöld 681,0 8,8 689,8
Heildarjöfnuður 15,3 -4,6 10,7

    Það vekur hins vegar miklar áhyggjur hvernig hið aukna svigrúm í ríkisfjármálum er nýtt. Það nýtist þeim sem mest hafa á milli handanna á kostnað þeirra sem eru á lægstu laununum og millitekjufólks. Aldraðir og öryrkjar sem eru hópar sem eiga oft í miklum fjárhagserfiðleikum eru skildir eftir, kjör þeirra fylgja ekki þróun lágmarkslauna og eru ekki leiðrétt afturvirkt í samræmi við launaþróun og launaleiðréttingar ráðamanna. Viðmiðunarmörk barnabóta og vaxtabóta fylgja ekki verðlagsþróun og eru mun lægri en áður. Á sama tíma er dregið úr þrepaskiptingu skattkerfisins þannig að fólk með 700.000 kr. í tekjur á mánuði fær 6.000 kr. á mánuði í skattalækkun en fólk á lægstu tekjunum nýtur lækkananna ekki á neinn hátt. Einstaklingum, 25 ára og eldri, sem vilja í bóknám er haldið frá framhaldsskólunum og vísað á aðrar dýrari leiðir til náms.
    Þetta er forgangsröðun sem jafnaðarmenn hafna og sýnir að ríkisstjórnin hefur ekki getu til að byggja upp réttlátt samfélag sem tryggir öllum betri lífskjör. Við þetta bætist að ekkert bólar á marglofuðu nýju húsnæðisbótakerfi, húsaleigubætur hækka ekki í samræmi við loforð sem voru gefin í tengslum við skuldaniðurfellinguna þar sem leigjendur voru skildir eftir. Engin fjárframlög fara í aðgerðir til að mæta alvarlegum húsnæðisvanda ungs fólks sem situr fast í fátæktargildru á leigumarkaði. Sá vandi bitnar helst á börnum leigjenda en mörg þeirra skortir efnisleg gæði samkvæmt tölum Hagstofunnar.
    Ríkisstjórnin sem nú situr hefur alltaf sett starfsemi Landspítalans í uppnám við fjárlagagerð sína. Það er athyglisvert í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga stjórnarþingmanna um að forgangsraða eigi í þágu þjóðarsjúkrahússins. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir að spítalinn geti á komandi ári staðið við nýgerða kjarasamninga, sinnt nauðsynlegu viðhaldi eða stytt nægilega of langa biðlista sem lengdust enn vegna verkfalla á árinu sem er að líða. Ofan á þetta bætist að fjárlög gera ekki ráð fyrir að spítalinn fái framlög til að mæta fólksfjölguninni, breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar eða hraðri fjölgun ferðamanna. Aftur á móti er tekið tillit til þessara þátta í samningum við sérgreinalækna og aðra einkarekna heilbrigðisþjónustu. Það er merki um ranga forgangsröðun stjórnvalda í heilbrigðisþjónustunni.
    Í því samhengi hafa jafnframt verið kynnt áform um aukinn einkarekstur í heilsugæslunni sem er ófjármagnaður í breytingartillögum stjórnarflokkanna við 2. umræðu fjárlaga. Það lýsir miklu skilningsleysi á vanda íslensks heilbrigðiskerfis að tefla auknum einkarekstri fram sem einu lausninni á vanda þess. Að það skuli gert án skýrrar stefnumörkunar eða umræðu í samfélaginu vekur eðlilega upp ótta um að stefnt sé að því að veikja opinbera þjónustu enn frekar og auka kostnaðarþátttöku sjúklinga. Sérstaklega þegar horft er til þess að ekki er verið að stíga mikilvægustu skrefin í heilbrigðismálum sem eru aukin fjárframlög til opinberra stofnana. Þær hafa haldið úti góðri þjónustu á miklum niðurskurðartímum sem hófust fyrir hrun. Nú er komið að þolmörkum, skýr merki þess eru m.a. alvarleg staða á Landspítalanum og lítil nýliðun heimilislækna.
    Nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins eru látnar sitja á hakanum. Of hæg uppbygging á ferðmannastöðum, nánast engar nýjar vegaframkvæmdir og ófullnægjandi vetrarþjónustu á vegum úti bitnar illa á íbúum landsbyggðarinnar. Byggðastefna sem byggir á handhófskenndum hugmyndum um uppbyggingu álvers á Skagaströnd og útdeilingu peninga frá forsætisráðuneytinu í húsafriðun er ekki líkleg til árangurs. Sóknaráætlun landshluta er vanfjármögnuð og önnur ný verkefni eða áætlanir um að skapa ný og verðmæt störf eru ekki til. Allt þetta á sama tíma og atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem einna mest bera úr býtum er sleppt við eðlileg auðlindagjöld.
    Í frumvarpinu eru of litlar fjárfestingar í almenningssamgöngum og orkuskiptum sem mundu nýtast í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og íbúum um land allt. Loftlagssjóði þarf að gera mögulegt að sinna hlutverki sínu með myndarbrag.
    Við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 voru góð tækifæri til að skapa enn betra samfélag, byggt á sanngjarnri skiptingu þeirra gæða sem við eigum á Íslandi og leggja grundvöll að þjóðfélagi sem stenst samanburðinn við önnur Norðurlönd. Þau tækifæri liggja enn ónýtt og haldið er áfram á braut sem allir sjá að mun leiða til aukinnar misskiptingar þar sem forréttindahópar munu búa við betri stöðu en aðrir. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er ekki að finna trúverðuga sóknarstefnu sem er líkleg til að stöðva flótta Íslendinga frá landinu.

Almannatryggingar.
    Samfylkingin telur að bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun lágmarkslauna. Telja verður að 69. gr. laga um almannatryggingar hafi verið sett til að verja þá fyrir kjaraskerðingu sem fá greiddan lífeyri. Nú þegar lágmarkslaun hækka hlutfallslega meira en önnur laun í landinu er sanngirniskrafa að bætur almannatrygginga fylgi þeirri þróun. Jafnframt hefur Samfylkingin lagt það til að aldraðir og öryrkjar fái kjör sín bætt afturvirkt frá 1. maí 2015, líkt og kjarasamningar á almennum markaði gera ráð fyrir. Fordæmi fyrir slíku er frá gerð kjarasamninga árið 2011 en þá var þessi leið farin við hækkun bóta almannatrygginga og kom hækkunin fram um mitt árið en ekki beðið með hækkun til áramóta.
    Eftirfarandi tafla sýnir umsamdar kjarabætur vorið 2015 og breytingar á kjarasamningi VR og Flóabandalagsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ljóst er að ef bætur almannatrygginga hækka hlutfallslega minna en lægstu launin munu kjör aldraðra og öryrkja versna í samanburði við þau.
    Eftirfarandi myndir sýna þróun greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins í samanburði við lægstu launin.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutfallslegur munur milli lífeyris almannatrygginga og lægstu launa verður neikvæður á árinu 2015 ef hækkunin verður ekki afturvirk til 1. maí 2015 og í samræmi við hækkun lægstu launa. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað lækkun skatta á þá sem eru vel aflögufærir en haft þá stefnu að halda lífeyri undir lágmarkslaunum og auka þar með ójöfnuð í landinu. Þessu mótmælir Samfylkingin harðlega.

Landspítali.
    Mikið skilningsleysi virðist ríkja á stjórnarheimilinu á þörfum Landspítalans. Þjóðarsjúkrahúsið á við mikinn vanda að stríða og stjórnendur og starfsfólk spítalans hafa fært rök fyrir því að nauðsynlegt sé að bæta fjármunum í reksturinn ef viðhalda eigi núverandi þjónustustigi. Bæði sjúklingar og fagmenn hafa lýst því að ekki verði lengur unað við stöðuna eins og hún er. Aldrei hafi verið jafn erfitt að finna legupláss fyrir sjúklinga að sögn lækna.
    Aukning á þjónustuþörf er um 1,7% árlega vegna fólksfjölgunar og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar sem leiðir til þess að álagið á sjúkrahúsið eykst ár frá ári. Ekki er gert ráð fyrir þessari aukningu í fjárveitingum til sjúkrahússins og jafngildir það sjálfstæðri niðurskurðarkröfu á heilbrigðisþjónustuna. Rétt um milljarður króna ætti að leggjast til Landspítalans vegna fjölgunar sjúklinga ár hvert. Á sama tíma er gert ráð fyrir aukinni þjónustuþörf í samningum við sérgreinalækna sem vinna á einkareknum starfsstöðvum. Samningurinn við sérgreinalækna gerir ráð fyrir að sjúklingum fjölgi vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar og þeir fái aukinn kostnað vegna þess greiddan en opinbera heilbrigðiskerfið og þjóðarsjúkrahúsið eiga að skera niður fyrir þeim kostnaði sem magnaukningunni fylgir. Þessi forgangsröðun er með öllu óásættanleg.
    Við þetta bætast deilur á milli velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um útreikninga á kostnaði við nýtt vaktaskipulag lækna sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Að mati velferðarráðuneytisins vantar 400 millj. kr. upp á að kostnaðurinn við samninginn sé að fullu bættur sjúkrahúsinu. Samfylkingin hefur farið fram á það að Ríkisendurskoðun leysi úr þessari deilu fyrir afgreiðslu fjárlaga enda væri það viðbótarkrafa um niðurskurð á Landspítalanum upp á 400 millj. kr. ef útreikningur velferðarráðuneytisins reynist réttur en útreikningur fjármála- og efnahagsráðuneytisins látinn standa.
    Auk rekstrarvanda sníðir húsnæði Landspítalans starfseminni þröngan stakk. Undanfarin ár hefur viðhaldi bygginga verið slegið á frest með þeim afleiðingum að húsnæðið er í einhverjum tilfellum heilsuspillandi. Við þessar aðstæður er ómögulegt að una og Samfylkingin tekur undir kröfur stjórnenda um aukið fé til viðhalds svo bæta megi úr þar sem ástand bygginga spítalans er hvað alvarlegast.
    Fjárveitingar til endurnýjunar og viðhalds húsnæðis, tækjakaupa og framþróunar hefur undanfarin ár verið hér á landi með því allra lægsta sem um getur í OECD-löndum. Að meðaltali verja OECD-löndin 0,5% af vergri landsframleiðslu í þessa liði sem samsvarar 10 milljörðum kr. ár hvert. Ef miðað er við önnur Norðurlöndin, t.d. Danmörku, væru um 14 milljarðar kr. eyrnamerktir til þessara liða. Við Íslendingar höfum hins vegar varið sem svarar 0,1% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingar í innviðum heilbrigðisþjónustunnar og erum þar í næstneðsta sæti OECD-landanna, á milli Grikklands og Mexíkó. Það er fróðlegt að hafa þessar staðreyndir í huga þegar fjárveitingar til þessara mála eru metnar og þegar ríkisstjórnin stærir sig af forgangsröðun í ríkisfjármálum.

Heilsugæsla.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir hækkun til heilsugæslunnar einkum vegna heimahjúkrunar, fleiri sálfræðinga á höfuðborgarsvæðinu og fjölgun heimilislækna um fjóra, einnig á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að leggja lokahönd á nýtt kostnaðarmat fyrir sjúklinga með ólíka sjúkdóma sem leiða á til þess að með hverjum sjúklingi fylgi ákveðin fjárupphæð. Þannig verði fjármunum skipt á milli heilsugæslustöðva eftir fjölda sjúklinga sem þeim er ætlað að sinna.
    Í breytingartillögum með frumvarpinu er lagt til að 70 millj. kr. verði nýttar til að greiða húsaleigu í átta mánuði fyrir þrjár heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Í texta sem kynnt var í fjárlaganefnd 23. nóvember sl. með tillögunni segir: „Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að bjóða út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu til að auka aðgengi íbúanna að þjónustunni.“ Í nýju skjali með breytingartillögum meiri hlutans er búið að fella þessa setningu brott. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku fjárframlagi á árinu 2016 til rekstrar þessara nýju heilsugæslustöðva heldur eiga þeir sem óska eftir því að reka stöðvarnar að sýna fram á að þeir muni fá til sín sjúklinga til að sinna. Sjúklingunum fækkar þá um leið á þeim heilsugæslustöðvum sem fyrir eru starfandi og fjármunir til reksturs þeirra dregst saman að sama skapi. Ef ætlunin er að styrkja heilsugæsluna með þessum hætti er erfitt að sjá fyrir sér árangurinn. Helsti vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er fjárhagsvandi og útboð rekstrar er frekar líklegt til að bæta á þann vanda. Sænska ríkisendurskoðunin hefur tekið út einkareknar heilsugæslustöðvar í Svíþjóð og niðurstaðan sýndi að í hverfum þar sem efnaminna fólk býr og félagsleg vandamál eru tíð, versnaði heilbrigðisþjónustan við einkareksturinn.
    Umræða um stefnumótun í íslenska heilbrigðiskerfinu verður að vera gegnsæ og uppi á borðum. Greinilegt er að áform eru um að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu frá því sem nú er og það ætlar ríkisstjórnin að gera án umræðu í samfélaginu og á Alþingi. Það vekur upp tortryggni og grun um að mæta eigi vanda fjárvana heilbrigðiskerfis með aukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga. Um það verður ekki sátt.

Öldrunarmál.
    Málefni aldraðra eru öll meira og minna í óvissu nú um stundir. Engin áætlun hefur litið dagsins ljós um uppbyggingu hjúkrunarheimila og of mörg dæmi eru um að aldraðir komist ekki af sjúkrahúsi því pláss á hjúkrunarheimilum eru ekki til staðar. Aldraðir eru óöruggir með stöðu sína og framtíð og óttast að vera upp á börn sín eða ættingja komin þegar þau geta ekki lengur búið heima hjá sér. Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar í málaflokknum bitnar ekki síst á fátækustu eldri borgurunum, þeim sem búa við lökustu stöðuna félagslega og á fjölskyldum þeirra. Kallað er úr öllum áttum á stefnumörkun og uppbyggingu hjúkrunarrýma þar sem þeirra er þörf. Á sumum svæðum landsins er biðtími eftir þjónustu slíkur að skömm er að.

Málefni fatlaðs fólks.
    Það er ámælisvert að svo mikilvægur málaflokkur sem málefni fatlaðs fólks hafi verið látinn reka á reiðanum á kjörtímabilinu. Sveitarfélögin telja að um rúman milljarð vanti í málaflokkinn auk þess sem þau vilja að kostnaðarhlutdeild ríkisins vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hækki úr 20% í 30%. Fram hefur komið að nokkur þjónustusvæði hafa viðrað þá skoðun sína af fullri alvöru vegna hallareksturs í málaflokknum að réttast væri að skila málaflokknum aftur til ríkisins. Um hluta þessa fjárhagslega ágreinings hefur nýlega náðst samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga og því má gera ráð fyrir að tillaga því til staðfestingar komi fram fyrir 3. umræðu fjárlaga.
    Staðan er sérstaklega alvarleg fyrir þá 55 einstaklinga sem eru með NPA-samninga, en þegar hefur þurft að skera niður þjónustu við þá og ekki er vitað hvert framhaldið verður. Fólk er sett í lífshættulega stöðu auk óvissunnar sem fylgir því að vita ekki hvort það hafi til frambúðar frelsi til að stjórna eigin lífi. Gera verður ráð fyrir því að lausn á fjármögnun NPA hafi ekki verið skilin eftir í nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga og að samkomulagið í heild samrýmist lögum í málaflokknum og samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fæðingarorlof.
    Forgangsmál Samfylkingarinnar á yfirstandandi þingi er frumvarp til laga um hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi í 500 þús. kr. í áföngum til ársins 2018. Jafnframt er lagt til að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði til samræmis við lengingu fæðingarorlofs sem samþykkt var á Alþingi árið 2013 sem síðar var fallið frá.
    Miklar breytingar hafa orðið á töku feðra á fæðingarorlofi síðastliðin ár. Hlutfall feðra sem taka fæðingarorlof hefur lækkað hratt eða úr 85% árið 2009 í 76% árið 2014. Í því samhengi er gjarnan bent á að árið 2014 var hlutfall foreldra sem fengu hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði 28,4%. Hlutfall mæðra var 17% en hlutfall feðra um 41%. Ljóst er að lágar hámarksgreiðslur hafa áhrif á fæðingarorlof feðra og er hækkun nauðsynleg til þess að jafna stöðu foreldra og rétt barna.
    Þegar sitjandi ríkisstjórn tók við völdum í maí 2013 breyttist forgangsröðun í ríkisfjármálum. Í árslok 2013 voru samþykkt lög um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem fólu m.a. í sér að fallið var frá því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði. Framlag ríkisstjórnarinnar til foreldra ungra barna var að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi um 20.000 kr. í 370.000 kr. frá og með 1. janúar 2014. Sú fjárhæð hefur ekki verið hækkuð síðan og ekki er gert ráð fyrir hækkun hennar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Verði það niðurstaðan munu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi ekki hækka í þrjú ár.
    Bæta þarf stöðu barnafjölskyldna og brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Að lengja fæðingarorlofstímabilið í 12 mánuði er markvert framlag ríkisins í þá átt. Áætluð útgjöld Fæðingarorlofssjóðs vegna foreldra á vinnumarkaði miðað við hækkun hámarksgreiðslu eru samtals 10.156 millj. kr. á árinu 2016. Það er hækkun um 1.706 millj. kr. til viðbótar við áætlað framlag í fjárlagafrumvarpinu.

Barnabætur.
    Samfylkingin telur að breyta eigi barnabótum og takmarka tekjuskerðingar verulega líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þannig verði staða barnafólks jöfnuð. Ríkisstjórnin leggur til að árið 2016 skerðist barnabætur við 200.000 kr. mánaðarlaun hjá einstaklingum og við 400.000 kr. samanlögð mánaðarlaun sambýlisfólks. Þetta leiðir til þess að afar fáir foreldrar fá óskertar barnabætur og markmið um jöfnun á stöðu heimila næst ekki. Að lágmarki ætti að bæta stöðuna þannig að miðað sé við að heimili sem lifa á lágmarkslaunum fái óskertar barnabætur, en á árinu 2016 verða lágmarkslaun 270.000 kr.
    Allar greiningar á stöðu heimila landsins á undanförum árum sýna að staða barnafjölskyldna er erfiðust og of mörg börn hér á landi búa á heimilum í fjárhagsvanda. Barnabætur eru ætlaðar til þess að jafna stöðu barnafólks í landinu og bæta þannig hag barna.

Flóttamenn.
    Samfylkingin hefur lagt fram þingsályktun þar sem lagt er til að íslenska ríkið taki á móti að minnsta kosti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum, enda fjölgar flóttafólki hratt og staða þess fer versnandi.
    Samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar verður stefnt að því að minnsta kosti 100 flóttamönnum verði boðin dvöl hér á landi árið 2015, 200 árið 2016 og 200 árið 2017. Sérstök áhersla verði lögð á móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og flóttafólks annars staðar frá sem er í sambærilegri stöðu og þeir viðkvæmu hópar flóttamanna sem Ísland hefur tekið á móti undanfarin ár í samstarfi við Flóttamannahjálpina. Vegna langvarandi stríðsástands í Sýrlandi skal jafnframt unnið að aukinni fjölskyldusameiningu Sýrlendinga, m.a. með því að heimila tímabundið veitingu dvalarleyfa til aðstandenda Sýrlendinga sem búsettir eru á Íslandi.
    Ríkisstjórn Íslands hefur lagt til við Alþingi að varið verði 2 milljörðum króna í móttöku flóttafólks á árunum 2015 og 2016. Gert er ráð fyrir 825 millj. kr. aukaframlagi á árinu 2015 vegna móttöku flóttamanna og til að takast á við fjölgun hælisleitenda. Gert var ráð fyrir 1 milljarðs kr. framlags á yfirstandandi ári en samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að hluti þeirrar fjárhæðar eða 175 millj. kr. falli ekki til fyrr en á árinu 2016 og að framlög við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2016 verði aukin til samræmis við það. Gert er ráð fyrir að aukin framlög fari í að mæta auknum kostnaði vegna fjölgunar hælisleitenda og til að auka málshraða, í aukinn stuðning við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök og móttöku á flóttamönnum frá Sýrlandi.
    Markmið um að mæta auknum kostnaði vegna hælisleitenda og auka málshraða eru nauðsynleg, en auka þarf við framlög til móttöku fleira flóttafólks. Miðað við þær forsendur sem gefnar eru má áætla að eingöngu sé gert ráð fyrir móttöku um 50 flóttamanna á árinu 2016.
    Neyðin í Evrópu og í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum Sýrlands orðin mikil og íslenska ríkið verður að axla ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp. Í nágrannaríkjunum hefur Svíþjóð tekið á móti miklum fjölda fólks á þessu ári eða um 190 þúsund manns. Í Noregi hafa stjórnvöld sett viðmið um að taka við ríflega 500 manns á ári móti hverjum 330 þúsund íbúum. Finnland og Danmörk hafa einnig lagt sitt af mörkum þótt í minna mæli sé. Öll ríki verða að leggja sitt af mörkum og dreifa verður byrðunum jafnt. Í því samhengi er tillaga um að Ísland taki á móti að lágmarki 500 manns á þremur árum bæði hófleg og eðlileg.
    Aukinn stuðningur við innflytjendur er nauðsynlegur. Þar vegur þyngst íslenskukennsla útlendinga og starfsemi Fjölmenningarseturs.

Menntun.
    Samfylkingin leggur ríka áherslu á að framhaldsskólar verði aftur opnir öllum aldurshópum. Með fjárlögum fyrir árið 2015 voru settar fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum. Jafnvel þótt mennta- og menningarmálaráðherra segi að skólum sé ekki bannað að taka við bóknámsnemendum sem náð hafa 25 ára aldri er skólunum svo þröngur stakkur sniðinn að flestum þeim sem sóttu um skólavist á þeim aldri var hafnað. Afleiðingar þessarar menntastefnu ríkisstjórnarinnar hafa nú, aðeins einu ári seinna, komið í ljós. Í framhaldsskólunum hefur nemendum 25 ára og eldri fækkað um 447 í bóknámi og um 295 í list- og verknámi, alls um 742 einstaklinga. Skilaboðin um fjöldatakmörkun hafa augljóslega orðið til þess að þeir sem eru 25 ára eða eldri sækja síður um skólavist og telja sig ekki lengur velkomna í framhaldsskólana.
    Nokkur fjöldi fólks hefur flosnað upp úr framhaldsskólanámi eða orðið að hætta vegna ýmissa ófyrirsjáanlegra aðstæðna svo sem veikinda eða fjárskorts. Mörg þeirra hafa farið aftur í framhaldsskóla í heimahéraði sínu eftir 25 ára aldur og hafa lokið stúdentsprófi og háskólaprófi í kjölfarið. Þau starfa um allt land, í leikskólum, grunnskólum, á heilbrigðisstofnunum og í tæknigreinum svo dæmi séu tekin. Landsbyggðin hefur treyst á menntun og störf þessara einstaklinga. Nú er búið að loka fyrir þessa leið. Það er mikill missir fyrir einstaklingana sem hafa ekki tækifæri til að styrkja stöðu sína með öðrum hætti. Missirinn verður ekki síður mikill fyrir samfélagið í heild til lengri tíma litið.
    Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu ef hækka á menntunarstig þjóðarinnar. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ferðast um landið og talað um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hann aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Þeim er í staðinn boðið að flytjast búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum, Reykjavík eða í Borgarfirði eða stunda dreifnám við þá skóla með ærnum tilkostnaði. Enginn vafi er á að með þessari ráðstöfun mun opinberum störfum á landsbyggðinni fækka enn frekar og erfiðara verður að fá fólk með fagmenntun til starfa.
    Háskólastarf þarf einnig að styrkja og minnt er á að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa um árabil tekið við fleiri nemendum en þeir hafa fengið greitt fyrir.

Menning.
    Það er eitt af forgangsverkefnum að styrkja menningarstarfsemi með öflugum hætti nú þegar staða ríkissjóðs hefur batnað. Á erfiðum tímum eftir efnahagshrunið var skorið niður til menningarstarfs eins og á öllum sviðum samfélagsins. Harðast kom niðurskurður niður á smærri söfnum og setrum víða um land. Því er það forgangsverkefni að styrkja menningarsamninga landshlutanna svo heimamenn geti forgangsraðað til menningarmála þar sem þörfinni verður best mætt. Sjálfstætt starfandi leikhús eiga líka í vanda sem þarf að leysa á árinu 2016 og Listskreytingasjóð þarf að endurreisa. Bókmenntasjóð þarf að styrkja sérstaklega og minni hlutinn gerir tillögu þar um. Íslenska óperan þarfnast stuðnings sem meiri hlutinn leggur til vegna hárrar húsaleigu. Óskiptur sjóður mennta- og menningarráðuneytisins til að útdeila styrkjum á sviði listgreina þar sem umsóknir eru afgreiddar eftir auglýsingu og úrvinnsluferli hefur einnig sætt miklum niðurskurði og úr því þarf að bæta nú og á næstu árum. Ofantalið með samanlögðum breytingartillögum meiri hluta og minni hluta fjárlaganefndar eru ásættanleg fyrstu skref til þess að gefa til baka til menningarmála nú þegar ríkissjóður hefur rétt úr kútnum eftir efnahagshrunið.

Þjóðskjalasafn.
    Ýmsar breytingar eru lagðar til á 6. gr. fjárlagafrumvarpsins sem er heimildargrein. Þar er m.a. eftirtektarvert að óskað er eftir heimild til að selja húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg 162 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði. Þjóðskjalasafnið er stærsta safn frumheimilda um sögu íslensku þjóðarinnar og þróun byggðar og mannlífs í landinu og er þess vegna sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi hér á landi byggjast á. Þjóðskjalasafnið er skjalasafn allrar þjóðarinnar og hefur almenningur aðgang að safninu, bæði í afgreiðslu þess og á lestrarsal. Tengsl safnsins og samskipti við stjórnsýsluna í landinu eru mikil og fræðasamfélagið leitar einnig gagna á safninu. Sökum þessa er mikilvægt að safnið sé aðgengilegt almenningi og staðsetning þess eins miðsvæðis í höfuðborginni og unnt er. Í stefnu fyrir safnið sem samþykkt var og gefin út á síðasta ári segir um staðsetningu: „Öll meginstarfsemi Þjóðskjalasafns verði á einum stað við Laugaveg í Reykjavík.“ Heimildarákvæðið um að selja húsnæðið kemur því á óvart og vekur upp spurningar um hvar stjórnvöld sjái fyrir sér starfsemina. Ef stjórnvöld hyggjast selja Laugaveg 162 undir hótel eða lundabúðir og flytja safnið úr alfaraleið lýsir það engu öðru en þekkingarleysi á starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands og mikilvægi góðs aðgengis að þjónustu þess.

Ferðaþjónusta.
    Fjölgun ferðamanna á undanförnum árum kallar á skýra stefnumótun og aukna fjárfestingu sem mun styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni. Verja þarf vinsæla ferðamannastaði fyrir ágangi og auka aðdráttarafl ferðamannastaða um allt land. Þannig verður hægt að dreifa ferðamönnum betur um landið og auðveldara verður að taka á móti fleiri ferðamönnum. Stefnuleysi stjórnvalda um rekstrarumhverfi þessarar ört vaxandi atvinnugreinar er himinhrópandi. Þar skortir bæði stefnumörkun varðandi uppbyggingu ferðamannastaða en auk þess er fjárhagslegu rekstrarumhverfi greinarinnar ábótavant. Fyrir liggur að fjárfestingar í greininni eru umtalsverðar og fjárfestar vaða blint í sjóinn hvað hana varðar því engin er stefnumörkun stjórnvalda sem styður það að fjárfestingarnar muni borga sig til langs tíma.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra boðaði strax sumarið 2013 að fjármagna ætti uppbyggingu ferðamannastaða með náttúrupassa. Frumvarpið var andvana fætt og enn sýnir ríkisstjórnin og ferðamálaráðherrann getuleysi sitt í að láta ferðamennina fjármagna nauðsynlega uppbyggingu með neyslusköttum. Það sér hver maður að illa mun fara fyrir atvinnugreininni í heild sinni ef henni er leyft að stækka svo hratt án þess að innviðir samfélagsins séu styrktir til að taka á móti slíkum fjölda ferðamanna. Mikið mæðir á vinsælustu ferðamannastöðunum og nauðsynlegt er að setja aukinn kraft í að dreifa ferðamönnum um landið og jafna álag á náttúruperlur. Vegna fjölda ferðamanna hefur álag einnig aukist mikið á lögreglu, heilsugæslu og á vegakerfi landsins án þess að stjórnvöld grípi í taumana með þeim hætti sem nauðsynlegt er.

Löggæsla.
    Samfylkingin telur brýnt að veita meira fjármagni til lögreglunnar en sem nemur hallarekstri síðasta árs. Ný og kostnaðarsöm verkefni bíða lögreglunnar sem nauðsynlegt er að ráðast í af alvöru.
    Þar ber helst að nefna átak sveitarfélaga og lögreglunnar gegn heimilisofbeldi. Áhyggjum hefur verið lýst af því að ekki sé mögulegt að grípa inn í þau alvarlegu mál nægilega tímalega og með afgerandi hætti. Ætlunin er að lögreglan og félagsþjónusta sveitarfélaganna vinni saman að því að aðstoða fjölskyldur á markvissan hátt, tryggja öryggi barna og veita þeim stuðning. Málin verði rannsökuð betur og upplýsingar um úrræði og eftirfylgd meðal þolenda aukin. Afar mikilvægt er lögreglan geti sinnt þessum málum af festu.
    Álag á lögreglu vegna fjölgunar ferðamanna hefur aukist um allt land frá árinu 2012 þegar mikil fjölgun varð á komum erlendra ferðamanna. Hér á eftir má sjá mynd frá ríkislögreglustjóra sem sýnir fjölda mála þar sem kennitala aðila að verkefnum eða skylduverkum er erlend annars vegar og brot grunaðra eða kærða hins vegar. Myndin sýnir fjölgun mála síðustu ár með skýrum hætti.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    *jan.–sept. 2015

    Aftur á móti hefur lögreglumönnum ekki fjölgað í takt við fjölda mála og því er nokkuð ljóst að þjónusta við íbúa sem ekki varðar líf og limi fólks hlýtur að sitja á hakanum.
    Hér á eftir er mynd sem sýnir fjölda íbúa og ferðamanna á hvern lögregluþjón eftir árum. Fjölgun ferðamanna á hvern lögregluþjón er sláandi og við því þarf augljóslega að bregðast.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að 400 millj. kr. verði varið til þess að styrkja löggæsluna í landinu. Lögreglu- og sýslumannsembættin standa misvel fjárhagslega og sum þeirra glíma við verulegan hallarekstur. Í árslok 2014 var hallinn einmitt tæpar 400 millj. kr. Verði viðbótin látin renna upp í hallarekstur embættanna mun þeim fjármunum ekki verða varið til nýrra verkefna eða til að taka á þeim vanda sem blasir við í rekstri og verkefnastöðu embættanna.
    Í textanum með breytingartillögu meiri hlutans er rætt um að úthlutun fjármuna til lögregluumdæma miðist við niðurstöður úttektar á þjónustu og öryggisstigi.
    Í umræðum um tillöguna í fjárlaganefnd kom einnig fram að innanríkisráðherra hafi lagt áherslu á landamæravörslu og fjölgun ferðamanna við útfærslu tillagnanna. Ljóst er að mun hærri upphæð þarf til að mæta veikleikum í starfsemi lögreglunnar. Halli embættanna var í lok ársins 2014 eins og eftirfarandi tafla sýnir:

Ríkislögreglustjóri -30,6
Lögregluskóli ríkisins -3,7
Lögreglustjórinn á höfurborgarsvæðinu -116,9
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum -25,6
Sýslumaðurinn í Borgarnesi -31,4
Sýslumaður Snæfellinga -12,1
Sýslumaðurinn á Blönduósi -7,7
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki. -10,6
Sýslumaðurinn á Akureyri -55,2
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði -17,6
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum -9,2
Sýslumaðurinn á Selfossi -47
Halli samtals á árinu 2014: -367,6

Samgöngur.
    Ráðast þarf í nýjar framkvæmdir í vegagerð og viðhald vegna aukins álags af ferðamennsku og leggja ríkari áherslu á uppbyggingu almenningssamgangna.
    Fjárfesting í nýjum framkvæmdum í vegagerð er nú í sögulegu lágmarki og viðhaldi vega víða ábótavant. Afar mikilvægt er að ráðin sé bót á þessu með viðbótarfjárframlagi til vegagerðar. Álag á vegakerfið vegna fjölgunar ferðamanna veldur sliti og vegna umferðaröryggis er ekki hægt að una við ástandið eitt ferðamannasumarið enn. Það sama má segja um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Víða um land kemur skert þjónusta niður á íbúunum og getur valdið fjárhagslegu tjóni þeirra sem treysta á að vegir séu hreinsaðir af snjó eftir þörfum. Auk þess geta stjórnvöld ekki kallað eftir fleiri ferðamönnum allt árið ef ekki á að setja fjármuni til þess að greiða fyrir vetraþjónustu á vegakerfinu. Með bættum almenningssamgöngum er bæði um sjálfsagða þjónustu við íbúa að ræða en ekki síður sýna stjórnvöld ábyrgð vegna loftslagsbreytinga ef lögð er áhersla á tíðar og góðar almenningssamgöngur um allt land.

Húsnæðismál.
    Samfylkingin hefur lagt til aðgerðaráætlun til að taka á bráðum vanda í húsnæðismálum. Í þeim aðgerðum felst að aukið sé án tafar framboð á leiguhúsnæði, haldið aftur af hækkun leiguverðs og kaupendum gert mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð.
    Ef frá er talin lækkun, en ekki niðurfelling eins og fjallað er um í 2. tölul. hér á eftir, á virkri skattbyrði af leigutekjum úr 14% í 10% og áform um uppbyggingu á 400 leiguíbúðum á næsta ári er engin fjárframlög sjáanleg í fjárlögum næsta árs til að mæta alvarlegri stöðu á húsnæðismarkaði. Það eru mikil vonbrigði að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi ekki flutt frumvörp sem eru líkleg til að breyta húsnæðismarkaðinum til betri vegar. Þrátt fyrir margítrekuð loforð um umbætur, sem voru seinast gefin við undirritun kjarasamninga í vor, er lítið um efndir og samstaða á vinnumarkaði sett í uppnám vegna stefnu- og úrræðaleysis stjórnvalda.
    Fyrir nærri tveimur árum eða við lok 143. löggjafarþings samþykkti ríkisstjórnin þingsályktun Samfylkingarinnar um bráðaðagerðir í húsnæðismálum og vísaði henni til ríkisstjórnar. Því miður hefur ekkert gerst síðan þá. Allt þetta kjörtímabil hefur Samfylkingin rætt mikilvægi þess að grípa til aðgerða til að mæta gríðarlegum vanda á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð hefur hækkað mikið og margt ungt fólk getur ekki keypt sína fyrstu íbúð auk þess sem mikill skortur er á leiguíbúðum. Margir eru því í þeirri erfiðu stöðu að geta hvorki keypt né leigt sómasamlegt húsnæði.
    Forusta ríkisstjórnarinnar hefur margoft lofað aðgerðum á leigumarkaði. Fólkið sem var skilið út undan í skuldaleiðréttingunni fær samt enga úrlausn og enga hækkun á húsaleigubótum. Leigjendum var aftur lofað hærri húsaleigubótum sem mótvægisaðgerð vegna hækkunar matarskatts við síðustu fjárlagagerð en þau loforð hafa heldur ekki verið efnd.
    Þörf er á að styðja við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ræður ekki við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki fest kaup á húsnæði né leigt á almennum leigumarkaði. Þessi hópur býr við mikið óöryggi í húsnæðismálum og ber allt of háan húsnæðiskostnað sem hlutfall af tekjum. Rannsóknir sýna að börn sem búa í leiguhúsnæði eru líklegri en önnur börn að búa við skort. Bráðaaðgerðir eru nauðsynlegar. Þær aðgerðir þurfa að auka án tafar framboð á leiguhúsnæði, halda aftur af hækkun leiguverðs og gera kaupendum mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð.
    Nauðsynlegt er grípa til margvíslegra aðgerða til að tryggja öllum húsnæði við hæfi. Bent er á ítarlega þingsályktun Samfylkingarinnar sem var endurflutt nú í haust en hefur ekki fengist rædd (15. mál á 145. löggjafarþingi www.althingi.is/altext/145/s/0015.html). Þar eru lagðar til aðgerðir í níu liðum og efst á blaði er hækkun húsaleigabóta samhliða upptöku nýs húsnæðisbótakerfis:
     1.      Fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga um nýjar húsnæðisbætur sem tryggi leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði með vaxtabótum.
     2.      Fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga sem undanþiggi tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Skilyrði verði að húsaleiga verði ekki hærri en meðalleiguverð á því svæði þar sem íbúðin er, til að halda aftur af hækkunum á leiguverði. Auk þess verði skilyrði að um sé að ræða almenna húsaleigu til a.m.k. tólf mánaða og leigusamningar kveði á um forgangsrétt leigjanda til áframhaldandi leigu. Einnig verði tryggt að slíkar tekjur skerði ekki bætur almannatrygginga.
     3.      Fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki verði veitt viðbótarlán með ríkisstuðningi til að fjármagna kaupin.
     4.      Fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi á haustþingi frumvarp til laga um bundna húsnæðissparnaðarreikninga sem veiti skattafslátt til kaupa á fyrstu íbúð eða búseturétti.
     5.      Fjármála- og efnahagsráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar minni leiguíbúða.
     6.      Umhverfis- og auðlindaráðherra geri Alþingi í skýrslu grein fyrir því endurmati á byggingarreglugerð sem þegar hefur farið fram, til að greiða fyrir byggingu minni og ódýrari íbúða til leigu, og leggi fram áætlun um frekari skref í því efni.
     7.      Ríkisstjórnin gangist fyrir breytingum á reglum til að auðvelda sveitarfélögum kaup á félagslegum íbúðum á þann veg að skuldir sveitarfélaga vegna íbúðarkaupa falli ekki undir skuldaþak sem sveitarfélög mega ekki fara yfir og að hækkuð verði mörk um fjölda þeirra félagslegu íbúða sem hvert sveitarfélag geti fengið niðurgreitt lán til kaupa á.
     8.      Félags- og húsnæðismálaráðherra verði falið að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðismál sem tryggi sveitarfélögum sambærilega niðurgreiðslu vaxtakostnaðar frá ríkinu hvort sem lánsfé er fengið hjá Íbúðalánasjóði eða á markaði.
     9.      Ríkisstjórnin gangist fyrir samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Stofnstyrkir ríkis og sveitarfélaga geti numið allt að 20% af byggingarkostnaði nýrra leiguíbúða. Ríki og sveitarfélög geti veitt fyrirgreiðslu í formi lóða á kostnaðarverði eða annarrar eftirgjafar opinberra gjalda, sem hluta af stofnstyrk. Styrkveiting verði háð því að leigufélag lúti ýmiss konar skilmálum, svo sem um langtímaútleigu, takmarkanir á arðgreiðslum, bann við sölu einstakra íbúða sem styrkveiting taki til og að fyrst um sinn fari tiltekið hlutfall íbúða til fólks með tekjur undir tilteknum tekju- og eignamörkum.


Sóknaráætlun.
    Samfylkingin leggur mikla áherslu á að fjármunum sem um munar verði varið til sóknaráætlunar landshluta og að unnið verði markvist að því að bæta búsetuskilyrði um allt land.
    Á síðasta kjörtímabili var í fyrsta sinn unnin heildstæð sóknaráætlun með víðtæku samráði. Ráðist var í gerð sóknaráætlana landshluta og stefnumótandi byggðaáætlun unnin með nýjum hætti. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili og byggist á alþjóðlega viðurkenndu verklagi sem vænlegt er til árangurs. Með sóknaráætlun eru aukin völd og ábyrgð færð til heimamanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Markmið sóknaráætlunar er að nýta fé betur, auka skilvirkni í samskiptum landshlutasamtaka við ríkisvaldið, stuðla að langtímaáherslum í stefnumótun og tengja þær við stefnu ríkisins í byggðamálum.
    Auka þarf fjárframlög til sóknarætlunar landshluta eigi tilgangur og markmið hennar að nást. Þegar skrifað var undir fyrstu samninga um sóknaráætlanir í mars 2013 var 73 verkefnum úr öllum landshlutum tryggðar 620 millj. kr. Þar af voru 400 millj. kr. fjármagnaðar af ríkinu.
    Þverpólitísk sátt er meðal sveitarstjórnarmanna um sóknaráætlun landshluta enda er áætlunin unnin á grundvelli mikillar faglegrar vinnu þar sem aðkoma heimamanna í hverjum landshluta var tryggð og dýrmæt þekking þeirra á svæðunum nýtt.

Fjarskipti.
    Bætt fjarskipti eru eitt brýnasta byggðamálið sem við stöndum frammi fyrir. Aukið framlag til ljósleiðaravæðingar er góðra gjalda verð en engan tíma má missa og því er mikilvægt að hraða framkvæmdum. Háhraðatengingar þurfa að ná í allar dreifðar byggðir til að tryggja jafnræði á milli svæða við ákvörðun fólks og fyrirtækja um staðsetningu. Fjöldamargar hefðbundnar atvinnugreinar reiða sig nú á öflugt netsamband og þar má nefna sem dæmi bæði landbúnað og fiskvinnslu. Háhraðatenging er forsenda fjölbreyttra lausna í menntamálum á landsbyggðinni og auðveldar samrekstur menntastofnana um langan veg. Háhraðatengingar eru auk þess mikilvægur stuðningur við nýsköpun, uppbyggingu ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina í heimabyggð. Fjölmargar byggðir eru varla í posahæfu sambandi, svo dæmi sé nefnt, og geta því illa nýtt tækifæri í ferðaþjónustu. Því er afar mikilvægt að flýta uppbyggingunni og Samfylkingin fagnar auknu fjármagni til þessara framkvæmda á árinu 2016.

Ríkisútvarpið.
    Samfylkingin er mótfallin frekari lækkun útvarpsgjaldsins og telur nauðsynlegt að tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum í menningarmálum, sem og öryggis- og lýðræðishlutverkinu og átt raunhæfan möguleika á að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Það er mat stjórnar og stjórnenda Ríkisútvarpsins að lengra verði ekki gengið í hagræðingu hjá fyrirtækinu miðað við núverandi þjónustu enda hafi gríðarlega mikið verið hagrætt á síðustu árum. Mikilvægt er að útvarpsgjaldið gangi óskert til stofnunarinnar eins og til var ætlast með fjölmiðlalögum. Stjórnarmeirihlutinn lækkaði útvarpsgjaldið úr 19.400 kr. í 17.800 kr. árið 2014 og lét gjaldið ekki ganga að fullu til stofnunarinnar, þrátt fyrir að fram hafi komið að lækkun gjaldsins mundi leiða til frekari niðurskurðar. Hefði útvarpsgjaldið verið áfram 19.400 kr. og gengið að fullu til Ríkisútvarpsins hefði verið kominn grunnur undir rekstur sem héldi, bæði hvað dagskrá varðar og viðhald á dreifikerfi. Í fjárlagafrumvarpi þessa árs er lagt til að útvarpsgjaldið lækki enn frekar og þá í 16.400 kr. Ljóst er að lækkun gjaldsins kallar á verulegan niðurskurð og breytingu á hlutverki stofnunarinnar.
    Í Rannsóknarskýrslu Alþingis um orsök og afleiðingar bankahrunsins er fjallað um hlutverk fjölmiðla sem fjórða valdsins. Í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og fylgdi sem skýring á þingsályktunartillögu, sem allir þingmenn samþykktu, kemur eftirfarandi fram sem sannarlega er tilefni til að minna á nú þegar deilt er um rekstur Ríkisútvarpsins: „Ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins er mikil en þar hlýtur ábyrgð Ríkisútvarpsins að vega þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku.“ Augljóst er að tryggja verður fjárhag Ríkisútvarpsins svo það geti staðið undir þessum kröfum Alþingis.

Skattkerfisbreytingar.
    Samfylkingin telur að halda eigi þriggja þrepa skattkerfi en ekki að fækka þrepunum í tvö. Þá ætti að lækka tryggingagjald og auðvelda þannig litlum og meðalstórum fyrirtækjum að hækka laun.
    Í fjárlögunum fyrir árið 2016 verður töluverður tekjumissir miðað við árið 2015 vegna skattkerfisbreytinga. Með breytingunum sem verða komnar að fullu til framkvæmda árið 2017 á að fella eitt þrepið úr skattkerfinu en þau eru þrjú í dag. Fólk með 700.000 þús. kr. í tekjur mun njóta mestrar skattalækkunar og ráðstöfunartekjur þess hækka um 12.000 kr. á mánuði. Á sama tíma munu ráðstöfunartekjur fólks með lægstu launin hækka um innan við 1.000 kr. Myndin sýnir hvernig skattalækkunin hefur áhrif á ráðstöfunartekjur eftir launum einstaklinga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Breytingin á tekjuskattskerfinu sýnir skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á aðstöðu tekjulægsta hóps þjóðfélagsins. Sérstaklega þegar horft er til þess að stjórnarflokkarnir vilja ekki að aldraðir og öryrkjar njóti sömu kjarabóta og fólk með lág laun á vinnumarkaði.
    Samfylkingin telur afnám þrepaskiptingar skattkerfisins draga úr getu ríkisins til að fjármagna öflugt velferðarkerfi sem þjónar öllum og vera aðgerð sem eykur á ójöfnuð hér á landi. Nýjar rannsóknir virtra aðila, t.d. hagfræðingar OECD sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr velmegun ríkja. Greiningar þeirra benda til að tekjuójöfnuður hafi mælanleg áhrif í þá átt að minnka hagvöxt. Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóðfélags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri.
    Ef draga á lærdóm af nýjustu rannsóknum hefði farið betur á að lækka skatthlutfallið í lægri þrepum núverandi kerfis frekar en að taka eitt þrep út. Þá væri öflug aðgerð að lækka tryggingagjald, sem er skattur á laun sem vinnuveitendur greiða, og auðvelda þeim þannig að hækka laun starfsmanna. Lækkun trygginagjalds nýtist best litlum og meðalstórum fyrirtækjum og fyrirtækjum sem reiða sig á þekkingu, hugvit, hönnun og annan mannauð. Nánari umfjöllun um afstöðu Samfylkingarinnar til fyrirhugaðra skattbreytinga árið 2016 er að finna í minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um 2. mál á 145. löggjafarþingi, ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

Áætlun um losun hafta.
    Á næsta ári stefnir í að miklir fjármunir renni í ríkissjóð vegna nauðasamninga við fallin fjármálafyrirtæki. Þær fjárhæðir verða í samræmi við áætlanir sem settar voru fram af síðustu ríkisstjórn. Mikilvægt er að nota fjármunina sem renna í ríkissjóð til að greiða niður skuldir, lækka árlegar vaxtagreiðslur og koma í veg fyrir þenslu. Varað er við því að nota svigrúmið sem skapast til að kaupa kosningasigra í næstu alþingiskosningum með óábyrgum loforðum.
    Kynning á niðurstöðum samningaviðræðna við kröfuhafa þrotabúanna var skrautsýning og ekki til þess fallin að auka traust á þeirri leið sem valin var. Að fara samningaleiðina frekar en að láta þrotabúin borga stöðugleikaskatt er afdrifarík ákvörðun sem meira samráð hefði þurft að hafa um og kynna með mun skýrari hætti. Látið var í það skína að lánalengingar og erlend fjármögnun væri ígildi stöðugleikaframlags sem það er sannanlega ekki. Leggja þarf fram betri greiðslujafnaðargreiningu sem sýnir fram á að í kjölfar nauðasamninganna sé hægt að hefja haftaafnámsferli sem fullnægi erlendri fjárfestingaþörf íslenskra lífeyrissjóða og tryggi að allir sitji við sama borð.
    Rétt er að minna á að með lögum, sem ekki nutu stuðnings sitjandi ríkisstjórnarflokka, frá mars 2012 var búin til sú samningsstaða sem nauðasamningarnar við föllnu fjármálafyrirtækin byggjast nú á. Gera má ráð fyrir umtalsverðum tekjum vegna aðgerða í tengslum við losun fjármagnshafta. Eftirfarandi mynd sýnir hvernig stöðugleikagjaldið og aðrar ráðstafanir breyta stöðu ríkissjóðs.

Stöðugleikaframlag Skattar Kröfur í
eigu ESÍ
Alls
Glitnir 229 11 27 267
Kaupþing 127 11 40 179
Landsbanki Íslands 23 8 14 45
Alls 379 30 81 491

    Í fjárlagafrumvarpinu er þó einungis gert ráð fyrir 170 milljörðum kr. af þeim fjármunum sem vænst er að renni í ríkissjóð með stöðugleikaframlaginu. Það fjármagn verður nýtt til að bæta ríkissjóði tekjutap af sérstökum skatti fjármálafyrirtækja að hámarki 40 milljarða kr. og til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Greiddar verða eftirstöðvar af skuldabréfi Seðlabankans og að vaxtakostnaður ríkissjóðs af bréfinu verði af þeim sökum 3,7 milljörðum kr. lægri á næsta ári en í ár. Því má ljóst vera að Alþingi muni fjalla frekar um ráðstöfun stöðugleikaframlagsins þegar málin hafa skýrst hvað það varðar.

Rannsókn á einkavæðingu bankanna.
    Alþingi hefur samþykkt að setja á stofn rannsóknarnefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna. Það er afar mikilvægt að sú rannsókn verði gerð áður en sala á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum fer fram svo læra megi af þeirri reynslu. Alþingi ályktaði að skipa ætti þriggja manna rannsóknarnefnd sem rannsakaði einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003. Í ályktuninni er gert ráð fyrir að nefndin taki m.a. til umfjöllunar þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna og að hve miklu leyti þeim var fylgt í ákvarðanatöku og við framkvæmd einkavæðingarinnar. Þá er nefndinni ætlað að upplýsa nánar um undirbúning og framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins í umræddum bönkum, m.a. í því skyni að skýra ábyrgð ráðherra og annarra sem komu að sölunni. Samkvæmt ályktuninni á nefndin einnig að fjalla um gerð og innihald samninga við kaupendur bankanna, mat á eignum bankanna og að hve miklu leyti það samræmdist söluverði þeirra, efndir samninga og undanþágur frá ákvæðum þeirra, þ.m.t. afslætti frá kaupverði. Þá verði fjallað um eftirlit og ábyrgð með framfylgd samninganna. Í ályktuninni er gert ráð fyrir að nefndin beri einkavæðingu íslensku bankanna saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum og leggi fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni og leggi mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna hafði fyrir íslenskt samfélag. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni á næsta ári til rannsóknarinnar í fjárlagafrumvarpinu.

Vinnubrögð.
    Afar mikilvægt er að auka traust almennings á því hvernig fjármunum úr ríkissjóði er úthlutað og varið. Fjárlaganefnd Alþingis hafði mikið fyrir því á síðasta kjörtímabili að breyta úthlutun á óskiptum liðum fjárlaga. Fyrir þá breytingu hafði fjárlaganefnd auglýst eftir umsóknum um styrki og tekið tugi umsækjenda ár hvert í viðtal áður en styrkir voru ákveðnir. Fyrirkomulagið hafði verið gagnrýnt harðlega í mörg ár, m.a. af Ríkisendurskoðun og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem töldu að þarna væri lögð spillingargildra fyrir alþingismenn sem mætti ekki vera til staðar. Orðrómur var um að þingmenn væru að hygla sínu fólki sérstaklega.
    Umbætur fjárlaganefndar gengu út á gegnsæi til að auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins er skipt, þarfagreiningu og eftirlit, bætta stjórnsýslu, yfirsýn yfir einstaka málaflokka og faglega umsýslu. Útgangspunkturinn var að fjárlaganefnd og fagnefndir gerðu tillögur um einstaka fjárlagaliði en sjóðir og félagasamtök, menningarráð landshluta, vaxtarsamningar sveitarfélaga og ráðuneyti sæju um dreifingu til einstakra verka eftir ákveðnum viðmiðum.
    Ekki voru allir ánægðir með þetta umbótastarf fjárlaganefndar. Óánægðastir voru þeir sem höfðu greiðan aðgang að þingmönnum og fjárlaganefnd. Þessu umbótastarfi fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili ætti að fylgja eftir með aðhaldi og eftirliti frá fjárlaganefnd og bæta vinnulag ef þörf er á.
    Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 eru hins vegar sumar hverjar í anda gamaldags vinnubragða. Meiri hlutinn hefur með tillögugerð sinni rofið þá þverpólitísku sátt um verklag og vinnuferla sem tókst eftir mikla vinnu fulltrúa allra flokka á síðasta þingi. Meiri hluti fjárlaganefndar úthlutar sjálfur rúmlega 200 millj. kr. til valinna verkefna að því er virðist eftir óskum einstakra þingmanna. Gagsæi er ekkert, jafnræði ótryggt, samþykkt ferli sniðgengið og tortryggni um að þingmenn séu að hygla sínu fólki sérstaklega blossar upp. Það sama má því miður segja um sérstakar tillögur til Norðvesturkjördæmis. Þessi vinnubrögð eru harkalega gagnrýnd enda hljóta þau að teljast einstaklega óvönduð.

Tekjur til að fjármagna breytingartillögur minni hlutans.
    Minni hlutinn leggur sameiginlega fram breytingartillögur sem birtar eru á sérstöku skjali. Þar er gert ráð fyrir fjárframlögum til sjúkrahúsa, menntakerfisins, til barnafjölskyldna, vegagerðar, sóknaráætlunar landshluta og menningarmála svo eitthvað sé nefnt. Hæsta upphæðin fer til að standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Tekjur til að fjármagna breytingartillögunnar eru 2 milljarðar kr. vegna framlengingar orkuskatts, 3 milljarðar kr. með hærri veiðigjöldum á næsta ári, 8 milljarðar kr. vegna arðs af bönkunum og 4 milljarðar kr. vegna betra skatteftirlits.

Alþingi, 8. desember 2015.

Oddný G. Harðardóttir.