Samantekt um þingmál

Kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna

180. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Að lögfesta rétt þeirra kjósenda sem lagaákvæðin ná til til að ákveða sjálfir hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu í kosningum.

Helstu breytingar og nýjungar

Breytingin nær einungis til kjósenda sem ekki eru færir um að árita kjörseðla á fyrirskipaðan hátt og undirrita fylgibréf sakir sjónleysis eða þess að þeim er hönd ónothæf.
Fulltrúi kjósanda í kjörklefa verður bundinn þagnarheiti á sama hátt og kjörstjórnarmaður og kjörstjóri. Heitið verður staðfest formlega og um aðstoðina verður bókað í kjörbók.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.
Lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Flestar umsagnir um frumvarpið voru jákvæðar.

Afgreiðsla

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu á þingskjali 238. Lagðar voru til breytingar þess efnis að fulltrúi geti einungis aðstoðað einn kjósanda við kosningar. Ef um samhliða kosningar er að ræða, alþingiskosningar og þjóðaratkvæðagreiðslu sem dæmi, þá geti fulltrúinn aðstoðað sama kjósanda við þær. Enn fremur lagði nefndin til að það varði refsingu að aðstoða fleiri en einn kjósanda og að fulltrúi kjósandans verði að gera grein fyrir sér á kjörstað eins og kjósandinn sjálfur. Breytingartillagan var samþykkt og varð frumvarpið að lögum með áorðnum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Löggjöf á Norðurlöndunum

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om valg til Folketinget, LBK nr 107 af 08/02/2011,
sjá kafla 7, grein 49.
Bekendtgørelse af lov om kommunale og regionale valg, LBK nr 105 af 08/02/2011,
sjá kafla 5, grein 55.



Síðast breytt 31.10.2012. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.