Samantekt um þingmál

Lyfjalög

427. mál á 148. löggjafarþingi.
Heilbrigðisráðherra.

Markmið

Að innleiða tilskipun og framkvæmdarreglugerð ESB í því skyni að löggjöf í tengslum við lyf fjalli um alla aðila í aðfangakeðjunni svo hægt sé að tryggja áreiðanleika keðjunnar sem og sporna við því að fölsuð lyf komist á markað.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/62/ESB frá 8. júní 2011. Með tilskipuninni er m.a. kveðið á um nýjar reglur í tengslum við framleiðslu virkra efna sem ætlað er til framleiðslu lyfja, miðlun lyfja, öryggisþætti á lyfjaumbúðum og sameiginlegt kennimerki fyrir netapótek. Ákvæði tilskipunarinnar munu hafa í för með sér að þrengdar verða heimildir til umpökkunar og endurmerkingar lyfja, sem mikið hefur verið um hér á landi, þar sem um lítinn markað er að ræða. Meðal nýmæla í frumvarpinu er heimild til að stunda netverslun með lyf undir eftirliti Lyfjastofnunar. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lyfjalög, nr. 93/1994.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að kostnaður Lyfjastofnunar aukist að fjárhæð 780.000 kr. auk 130.000 kr. stofnkostnaðar, en að lyfjaeftirlitsgjald verði lagt á lyfjamiðlara til að mæta kostnaðinum.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeirri breytingu að ráðherra er gert skylt að setja reglugerð sem kveði nánar á um skilyrði og framkvæmd netverslunar með lyf.

Aðrar upplýsingar

Lyfjastofnun

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/62/ESB frá 8. júní 2011 um breytingu á tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum að því er varðar að koma í veg fyrir ólöglega innkomu falsaðra lyfja í löglega aðfangakeðju.

Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 699/2014 frá 24. júní 2014 um hönnun á sameiginlega kennimerkinu til að sanngreina aðila sem bjóða almenningi lyf í fjarsölu og um tækni- og raftæknilegar kröfur og dulkóðunarkröfur varðandi sannprófun á ósvikni þess.



Síðast breytt 30.05.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.