Samantekt um þingmál

Endurskoðendur og endurskoðun

312. mál á 149. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að tryggja að um störf endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja gildi skýrar reglur í því skyni að auka traust á ársreikningum og samstæðureikningsskilum endurskoðaðra eininga. 

Helstu breytingar og nýjungar

Með samþykkt frumvarpsins yrði tilskipun ESB nr. 2014/56 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðu­reikninga og reglugerð ESB nr.  537/2014  um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endur­skoðun á einingum tengdum almannahagsmunum innleidd í íslensk lög. Lagt er til að ríkari kröfur verði gerðar til endurskoðunarfyrirtækja, veitingar starfsleyfa og innlagnar starfsleyfa. Gert er ráð fyrir að ítarlegri kröfur verði gerðar um óhæði endurskoðenda. Einnig er lagt til að opinbert eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum verði eflt og að Fjármálaeftirlitið sinni eftirlitinu. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái ríkari valdheimildir til að beita viðurlögum til að koma í veg fyrir brot gegn gildandi reglum í tengslum við þjónustu sem endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki veita. Að auki er gert ráð fyrir að ríkari kröfur verði lagðar á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum. Lagt er til að úrræði sem eftirlitsstjórnunarvald hefur til að bregðast við brotum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja verði aukin.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla úr gildi lög um endurskoðendur, nr. 79/2008, en breytingar verða á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, og lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að áhrifin á afkomu ríkissjóðs verði óveruleg. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 6,4 milljónir kr. vegna hækkaðra eftirlitsgjalda sem lögð eru á endurskoðendur. Að auki er gert ráð fyrir að Endurskoðendaráð fái árlegt framlag úr ríkissjóði að upphæð 25,5 millj. kr. og færist það framlag til Fjármálaeftirlitsins. Til að mæta auknum kostnaði við árlegt eftirlit með endurskoðendum og breytingar á skipulagi eftirlitsins er gert ráð fyrir að útgjöld hækki um 6,5 milljónir. Gert er ráð fyrir að áhrif á afkomu ríkissjóðs vegna breytinga á almennu eftirliti með endurskoðendum verði óveruleg.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. þeim að endurskoðendaráði er falið eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum í stað Fjármálaeftirlitsins og að skilgreiningin á hlutverki endurskoðenda var þrengd til samræmis við lögbundið hlutverk þeirra.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/46/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila, um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og um niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.


Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.