Samantekt um þingmál

Ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu

142. mál á 150. löggjafarþingi.
Utanríkisráðherra.

Markmið

Að tryggja stöðu þeirra íslensku ríkisborgara sem nú dvelja í Bretlandi, t.d. vegna náms eða atvinnu, og heimila þeim áframhaldandi dvöl í Bretlandi, og að tryggja réttindi þeirra bresku ríkisborgara sem dvelja eða hafa dvalið hér á landi. Að gera nauðsynlegar lagabreytingar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB).

Helstu breytingar og nýjungar

Óskað er eftir heimild Alþingis til þess að staðfesta samninga sem Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa gert við Bretland vegna ráðstafana í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB. Annars vegar er um að ræða samning sem byggir á þeirri forsendu að útganga Bretlands úr ESB byggist á svonefndum útgöngusamningi ESB og Bretlands, hins vegar samning sem kæmi í stað fyrrnefnds samnings komi til þess að útganga Bretlands úr ESB verði án samnings. Lagt er til að sett verði lagaákvæði um stöðu Bretlands, breskra ríkisborgara og breskra lögaðila hér á landi meðan á svonefndu aðlögunartímbili stendur, komi til þess að útganga Bretlands verði á grundvelli útgöngusamningsins. Einnig eru lagðar til ýmsar lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna staðfestingar á framangreindum samningum Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands. Þá er gert ráð fyrir að undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti verði viðhaldið komi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, og lögum um lögmenn, nr. 77/1998.

Kostnaður og tekjur

Ekki liggja fyrir upplýsingar um áhrif á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með allnokkrum breytingum.


Síðast breytt 18.10.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.