Samantekt um þingmál

Samvinna stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd

331. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að uppfylla í íslenskum rétti kröfur reglugerðar ESB nr. 2017/2394 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins og efla vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda.

Helstu breytingar og nýjungar

Með samþykkt frumvarpsins yrði reglugerð ESB nr. 2017/2394 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004 innleidd í íslensk lög. Í reglugerðinni er lögð aukin áhersla á rannsókn og framfylgd brota í hinu stafræna umhverfi. Einnig öðlast lögbær yfirvöld skilvirkari úrræði en áður til að bregðast við brotastarfsemi í hinu stafræna umhverfi. Líkt og gildandi reglugerð nær hin nýja reglugerð til brota sem skaða eða eru líkleg til að skaða heildarhagsmuni neytenda. Hin nýja reglugerð nær auk þess til brota sem hafa skaðað heildarhagsmuni neytenda, þ.e. brot sem eru yfirstaðin. Með reglugerðinni eru settar ítarlegri reglur um samvinnu milli yfirvalda yfir landamæri. Það ræðst af því hvernig brot er um að ræða (brot innan Sambandsins, víðtækt brot og víðtækt brot á Sambandsvísu) hvaða reglur gilda um samvinnuna hverju sinni og hvaða kröfur eru gerðar til lögbæru yfirvaldanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegnir stærra hlutverki vegna samvinnunnar en áður. Þannig getur framkvæmdastjórnin tekið að sér hlutverk samræmingaraðila þegar um er að ræða víðtækt brot á Sambandsvísu og ekki næst samkomulag um tilnefningu lögbærs yfirvalds. Þá getur framkvæmdastjórnin jafnframt gefið út leiðbeiningar og veitt aðildarríkjunum ráðgjöf til að tryggja að gagnkvæma aðstoðarkerfið virki með skilvirkum og árangursríkum hætti.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla úr gildi lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004.


Síðast breytt 13.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.