Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022

3. mál á 152. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2022.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að krónutöluskattar (kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak) hækki um 2,5%. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins. Þá eru lagðar til breytingar á eftirlitsgjaldi til að standa undir kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins til samræmis við áætlaðan kostnað við fjármálaeftirlit. Lögð er til hækkun sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 1.200.000 kr. í 2.400.000 kr. á ári. Flestar aðrar breytingar tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 20 lögum.
  • Skylt mál: Fjárlög 2022, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 152. þingi (30.11.2021)

Kostnaður og tekjur

Gjöld
Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 2,2 milljörðum króna á árinu 2022. Tillaga um hækkun sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 1.200.000 kr. í 2.400.000 kr. á ári leiðir til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs um 540 milljónir kr. á ári.

Tekjur
Verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengis-, tóbaks-, kolefnis-, eldsneytis- og bifreiða- og kílómetragjöld) mun auka tekjur ríkissjóðs um 1,7 milljarða kr. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals um 190 milljónum kr. Í heildina hækkar eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um 232,9 milljónir kr. Áætlað er að tekjuskattur muni lækka um 2,3 milljarða kr. árið 2022 vegna upptöku framleiðniviðmiðs við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka ef miðað er við 1% framleiðnivöxt. Þá er gert ráð fyrir að framlenging á bráðabirgðaákvæði sem kveður á um niðurfellingu gistináttaskatts út árið 2023 komi til með að lækka skatttekjur ríkissjóðs um 860 milljónir kr. á árinu 2022 og 1.030 milljónir kr. á árinu 2023 að meðtöldum áhrifum á virðisaukaskatt. Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- og/eða gjaldahlið en samanlögð áhrif af þeim breytingum á afkomu ríkissjóðs eru talin óveruleg. Heildaráhrif frumvarpsins til lækkunar á tekjum eru metin 1,27 milljarðar kr. á árinu 2022.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, þ.á.m. eftirfarandi:

-Lágmarksbifreiðagjald var hækkað um 1.000 kr. til viðbótar við það sem lagt var til í frumvarpinu.

-Sett var sérstakt frítekjumark (2.400.000 kr.) vegna atvinnutekna þeirra sem fá greiddan hálfan ellilífeyri.

-Úrræðið Allir vinna var framlengt til og með 31. ágúst 2022 að því er varðar endurgreiðslu vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis. Ívilnun vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis, og húsnæðis í eigu sveitarfélaga, vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu, endurbótum og viðhaldi og frístundahúsnæðis og vinnu manna vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis var framlengd til og með 30. júní 2022.


Síðast breytt 25.01.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.