Samantekt um þingmál

Eignarráð og nýting fasteigna

416. mál á 152. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að styrkja löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir bæði að því er varðar hefðbundnar landnytjar og auðlindir sem tengjast eignarhaldi á landi.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ríkissjóður hafi forkaupsrétt að landi þar sem friðlýstar menningarminjar er að finna. Sett verða ítarlegri ákvæði um sameign á landi sem fellur undir gildissvið jarðalaga. Kveðið verður heildstætt á um afmörkun fasteigna innan og utan þéttbýlis, þ.e. merki landsvæða og lóða af öllum stærðum og gerðum (landamerki), í lögum um skráningu og mat fasteigna. Slakað verður lítillega á skilyrðinu um að erlendir ríkisborgarar frá ríkjum utan EES sem vilja kaupa hér fasteign verði að hafa sterk tengsl við Ísland. Þá þurfa lögaðilar innan EES sem eru undir yfirráðum annarra en EES-aðila að óska eftir leyfi dómsmálaráðherra til að kaupa fasteign hér á landi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um menningarminjar, nr. 80/2012.
Jarðalög, nr. 81/2004.
Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.
Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Skipulagslög, nr. 123/2010.

Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Akureyrar, nr. 16/1951, lög um landamerki o.fl., nr. 41/1919, lög um útmælingar lóða í kaupstöðum, löggiltum kauptúnum o.fl., nr. 75/1917, og lög um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, nr. 35/1914.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Meðal annars var fallið frá því að gera þá breytingu að lögaðilar innan EES sem eru undir yfirráðum annarra en EES-aðila þyrftu að óska eftir leyfi dómsmálaráðherra til að kaupa fasteign hér á landi.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir lögð fram. Forsætisráðuneytið, 28. maí 2021.


Síðast breytt 19.08.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.