Samantekt um þingmál

Hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál á 152. löggjafarþingi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Markmið

Að tryggja að lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana séu í samræmi við rétta innleiðingu á Evróputilskipun um mat á umhverfisáhrifum. Að tilgreina nauðsynleg skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðaheimilda í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Helstu breytingar og nýjungar

Útfæra á nánar skilyrði fyrir veitingu undanþágu frá starfsleyfi á grundvelli laganna með hliðsjón af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í tilvikum þar sem starfs- eða rekstrarleyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati verður bráðabirgðaleyfi aðeins veitt ef gerðar verða allar nauðsynlegar lagfæringar á umhverfismati sem nauðsynlegar eru til að umhverfismatið uppfylli kröfur samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur rétturinn áréttað að heimild til tímabundinna ráðstafana til að bæta úr göllum á umhverfismati geti aðeins átt við í sérstökum undantekningartilvikum. Með frumvarpinu er lögð til breyting á orðalagi tiltekinna lagaákvæða þannig að allur vafi sé tekinn af varðandi það að um sé að ræða sérstök undantekningartilvik.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Lög um fiskeldi, nr. 71/2008.
Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Bráðabirgðaniðurstaða ESA í máli vegna kvörtunar sem hafði verið beint til ESA vegna veitingar rekstrarleyfa til bráðabirgða og veitingar tímabundinna undanþága frá starfsleyfi til reksturs fiskeldisstöðva (14. apríl 2020).


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið.

Úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 3/2018 og nr. 5/2018.


Síðast breytt 27.03.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.