Samantekt um þingmál

Heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa

599. mál á 152. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að gera Reykjavíkurborg kleift að fá greinargóða lýsingu á starfsemi vöggustofa, staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á vöggustofum hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð og loks að fyrir liggi tillögur um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að veitt verði lagaheimild fyrir Reykjavíkurborg til að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur rak á síðustu öld. Mælt er fyrir um hvert markmið slíkrar könnunar sé og hvernig nefndin hagi störfum sínum, þ.á.m. um aðgang að gögnum í vörslu stjórnvalda sem varða starfsemi vöggustofanna, skýrslutökur fyrir nefndinni og aðra upplýsingaöflun hennar. Þá er mælt fyrir um að upplýsingalög gildi ekki um starfsemi slíkrar nefndar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Fréttir á RÚV.is um vöggustofumálið.


Síðast breytt 22.08.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.