Samantekt um þingmál

Virðisaukaskattur o.fl.

952. mál á 153. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að bæta afkomu ríkissjóðs, draga úr þenslu og ná niður verðbólguvæntingum. Að stuðla að stöðugu verðlagi og því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2,5%.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ríkisskattstjóra verði veitt aukin úrræði í þeim tilgangi að bæta skil og eftirlit með þeim sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá. Einnig er lagt til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkað úr 60% í 35%. Þá er lagt til að heimildir til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótarlífeyrissparnaðar í tengslum við að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem að óbreyttu falla úr gildi 30. júní 2023, verði framlengdar um eitt og hálft ár, eða til og með 31. desember 2024. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Kostnaður og tekjur

Verði breytingar á eftirlitsheimildum ríkisskattstjóra samþykktar má gera ráð fyrir að áhrif þess verði jákvæð fyrir tekjur ríkissjóðs. Innleiðing breytinga á eftirlitsstarfsemi ríkisskattstjóra gæti mögulega haft tímabundin útgjöld í för með sér fyrir ríkisskattstjóra en gert er ráð fyrir að þau verði minni háttar og rúmist innan gildandi fjárheimilda.

Áætlað er að tekjuaukning ríkissjóðs af virðisaukaskatti muni nema 2,7 milljörðum kr. á seinni hluta ársins 2023 og 6 milljörðum kr. á árinu 2024 vegna lækkunar endurgreiðsluhlutfalls af vinnulið framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35%.

Erfitt er að meta fyrir hver áhrif gætu orðið af framlengingu á heimildum til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótarlífeyrissparnaðar í tengslum við að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota.


Síðast breytt 25.05.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.