20.11.2014

25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Forseti Alþingis minntist þess á þingfundi að í dag eru liðin 25 ár frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Forseti greindi frá því að velferðarnefnd Alþingis hyggst halda opinn nefndarfund um barnasáttmálann í byrjun febrúar með fulltrúum ungmenna. Fyrir Alþingi liggur jafnframt tillaga til þingsályktunar, flutt af þingmönnum úr öllum flokkum, þar sem lagt er til að 20. nóvember verði árlega helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Ræða flutt af Kristjáni L. Möller 1. varaforseta Alþingis á þingfundi 20. nóvember 2014: 

Forseti vekur athygli þingmanna á því að í dag eru liðin 25 ár frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, 20. nóvember 1989. Alþingi heimilaði ríkisstjórn að fullgilda samninginn með ályktun 13. maí 1992 og hann var svo lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Samningur þessi, sem yfirleitt gengur undir nafninu barnasáttmálinn, er ekki síst mikilvægur fyrir það að með honum voru í fyrsta sinn staðfest sjálfstæð mannréttindi barna að alþjóðalögum. Afmæli barnasáttmálans er kjörið tækifæri til að vekja athygli á réttindum barna og aðstoða börn og ungmenni við að setja réttindin í hversdagslegt samhengi. Það er því ánægjulegt að geta greint frá því að velferðarnefnd Alþingis hyggst halda opinn nefndarfund um barnasáttmálann í byrjun febrúar nk. Munu fulltrúar ungmenna koma á fundinn og gera grein fyrir mikilvægi barnasáttmálans og eiga skoðanaskipti við þingmenn.

Fundurinn verður undirbúinn í samráði við samráðshóp um 25 ára afmæli barnasáttmálans sem starfar á vegum umboðsmanns barna, fulltrúa Barnaheilla og UNICEF á Íslandi.