28.6.2019

Skrifstofustjóri Alþingis meðundirritar sín síðustu lög

Fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson, meðundirritaði í dag í síðasta sinn lög samþykkt á Alþingi. Í 12. gr. þingskapa segir að skrifstofustjóri skuli ásamt forseta sjá um að samþykktir þingsins séu skrásettar og rita forsetinn og skrifstofustjórinn undir þær. Frumvarp sem samþykkt hefur verið við 3. umræðu er prentað sem lög og síðan sent viðkomandi ráðuneyti og sömuleiðis tilkynning til ríkisráðsritara. Ráðherra gerir tillögu til forseta Íslands um staðfestingu laganna. Forseti Íslands staðfestir þau með undirritun sinni og ráðherra meðundirritar, sbr. 19. gr. stjórnarskrárinnar. Ráðuneytið annast síðan birtingu laganna í Stjórnartíðindum.
 

Undirritun-laga-28062019Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis, og Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, við undirritun síðasta bunkans af lögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2019.
 InnsigliLögin innsigluð. Til þess er notað bráðið lakk og innsigli þrýst í lakkið. Á innsiglinu stendur „Alþingi Íslendinga“ en skjaldarmerki Íslands í miðju innsiglis.