4.5.2020

Þingfundarsvæði stækkað og setið í öðru hverju sæti

20200501_113528Gerðar hafa verið ráðstafanir til að flestir þingmenn og ráðherrar geti verið á þingfundi samtímis, eftir að nýjar takmarkanir í samkomubanni tóku gildi. Við endurskipulagningu þingfundarsvæðisins var leitað ráða hjá sóttvarnalækni, sem kom ásamt landlækni og yfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra í þinghúsið í síðustu viku til að skoða aðstæður.

Þingfundarsvæðið hefur verið stækkað og er nú efrideildarsalur ásamt báðum herbergjunum austur og vestur af þingsalnum hluti þingfundarsvæðisins. Setið er í öðru hverju sæti í þingsalnum og bil milli sæta í hliðarsölum tekur mið af nándarreglunni. Sætaskipan er frjáls, þingmenn eiga ekki fast sæti í þingsal eða í hliðarherbergjum. Ráðherrar hafa einir afnot af ráðherrabekkjum og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherbergi.

Skjár er í efrideildarsal sem gerir þingmönnum, sem þar setjast, mögulegt að fylgjast með ræðum í salnum. Þingmenn í hliðarsölum, sem vilja fara á mælendaskrá, geta sent póst til þingfundaskrifstofu eða beðið starfsfólk á svæðinu að koma boðum til forseta. Starfsfólk mun jafnframt koma beiðnum um andsvar til forseta. Í samræmi við ráðleggingar sóttvarnalæknis er áfram brýnt fyrir þingmönnum að þvo og spritta á sér hendur, forðast mannmergð, lágmarka þann tíma sem þeir eru í fjölmenni og að virða 1–2 metra nándarregluna. Einnig er mikilvægt að spritta alla sameiginlega snertifleti eins og hægt er. Hreinsiklútar og sprittflöskur eru á borðum í þingsal og í hliðarsölum til að tryggja aðgengi þingmanna að sótthreinsiefnum á þingfundi.

Atkvæðagreiðslur verða áfram með sama sniði og undanfarnar vikur. Verið er að skoða möguleika á þráðlausu atkvæðagreiðslukerfi og er niðurstöðu um það vænst innan skamms tíma.    

IMG_5943

IMG_5937IMG_5958

IMG_5954

IMG_5947