15.6.2021

Tölfræðilegar upplýsingar um 151. löggjafarþing

Þingfundum 151. löggjafarþings var frestað 13. júní 2021. Þingið var að störfum frá 1. október til 18. desember 2020 og frá 18. janúar til 13. júní 2021.

Þingfundir voru samtals 117 og stóðu í rúmar 684 klst. Meðallengd þingfunda var 5 klst. og 51 mín. Lengsti þingfundurinn stóð í 16 klst. og 29 mín. Lengsta umræðan var um fjármálaáætlun 2022–2026 en hún stóð samtals í tæpar 26 klst. Þingfundadagar voru alls 99.

Af 303 frumvörpum urðu alls 150 að lögum, 145 voru óútrædd, sex var vísað til ríkisstjórnarinnar og tvö ekki samþykkt. Af 169 þingsályktunartillögum voru 32 samþykktar, 134 tillögur voru óútræddar, ein ekki samþykkt og tveimur var vísað til ríkisstjórnarinnar.

32 skriflegar skýrslur voru lagðar fram. 24 beiðnir um skýrslur komu fram, þar af 18 til ráðherra og 6 til ríkisendurskoðanda. 15 munnlegar skýrslur ráðherra voru fluttar.

Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 341. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru 30 og var 18 svarað en þrjár kallaðar aftur. 311 skriflegar fyrirspurnir voru lagðar fram og var 240 þeirra svarað, tvær kallaðar aftur og 69 biðu svars er þingi var frestað.

Þingmál til meðferðar í þinginu voru 870 og tala prentaðra þingskjala var 1833.

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 281. Sérstakar umræður voru 26.

Samtals hafði verið haldinn 591 fundur hjá fastanefndum þegar þingfundum var frestað 13. júní.