Leiðbeiningar um umsagnir um þingmál

Öllum er frjálst að senda fastanefnd skriflega umsögn um þingmál. Fastanefndir geta sent þingmál sem þær hafa til umfjöllunar til umsagnar þeim aðilum er málin varða. Fastanefndir taka ákvörðun um hverjum skuli send þingmál til umsagnar. Venja er að verða við öllum óskum sem fram koma um umsagnaraðila frá nefndarfólki. Tekið skal fram að þeim sem fá mál til umsagnar er ekki skylt að bregðast við. Yfirleitt er veittur tveggja vikna frestur til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við fastanefnd. Þessi frestur getur þó verið styttri eða lengri eftir atvikum hverju sinni.

  • Allar umsagnir hafa sömu stöðu óháð því hvort óskað var eftir þeim.
  • Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.
  • Aðgangur að umsögnum um þingmál er öllum heimill og eru þær birtar á vef Alþingis.
  • Umsagnir um þingmál skal senda á rafrænu formi í gegnum umsagnagátt Alþingis. Verði því ekki við komið er einnig mögulegt að senda umsagnir á umsagnir@althingi.is.

Sjá nánar í  starfsreglum fastanefnda.


Leiðbeiningar um ritun umsagna

Æskilegt er að umsögn sé skýr og skipulega upp sett til að auðvelda fastanefnd yfirferð og mat á efni hennar.

Eftirfarandi atriði má hafa að leiðarljósi:

  • Merkið umsögn greinilega með heiti umsagnaraðila, dagsetningu, þingmálsnúmeri og heiti máls.
  • Best er að fylgja efnisröðun þingskjalsins, þó þannig að fyrst komi almennt álit um málið. Uppsetningu þingskjalsins er svo fylgt þar sem athugasemdir og hugleiðingar um efni einstakra greina koma fram á viðeigandi stöðum.
  • Mikilvægt er að tillögur um breytt orðalag, viðbætur við einstakar greinar eða kafla, brottfellingar og þess háttar komi skýrt fram.
  • Athugasemdir um óljóst orðalag, tvíræðni eða ónákvæmni er æskilegt að setja fram með tillögu að breytingum á orðalagi og rökstuðningi.
  • Greinargerðum með frumvörpum er ekki unnt að breyta eftir að frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi. Athugasemdir við framsetningu efnis í greinargerð gætu því komið fram í almennri umfjöllun um frumvarpið.
  • Umsögn getur vísað í fylgiskjöl sem æskilegt er að séu í sama skjali og umsögnin. Mælst er þó til að umfang fylgiskjala sé takmarkað eftir megni.

Umsagnir og athugasemdir um þingmál skal senda á rafrænu formi í gegnum umsagnagátt Alþingis.