Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 49 . mál.


Nd.

51. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Flm.: Matthías Bjarnason, Pálmi Jónsson.



1. gr.

    4. tölul. 5. gr. laganna orðast svo:
    Að gera tillögur um skiptingu ráðstöfunarfjár milli kjördæma, útlánaflokka og úrskurða ársreikninga stofnunarinnar og byggingarsjóðanna.

2. gr.

    Fyrri málsgrein 10. gr. laganna orðast svo:
    Byggingarsjóður ríkisins er í vörslu Seðlabanka Íslands og annarra bankastofnana sem húsnæðismálastjórn semur við. Skal leitast við að fé sjóðsins sé ávaxtað í byggðarlögum sem næst í samræmi við lán til sjóðsins og lánveitingar hans.

3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, 11. tölul., er orðast svo:
    Lán til byggingar almennra leiguíbúða á vegum einstaklinga og fyrirtækja.

4. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Fé til útlána skv. 1., 2., 9., 10. og 11. tölul. samtals skal skipt milli kjördæma sem næst í hlutfalli við greiðslur í lífeyrissjóði úr hverju kjördæmi. Heimilt er að miða við áætlaða skiptingu heildarlaunagreiðslna í þessu sambandi og taka tillit til kauphlutfalls lífeyrissjóða, sbr. 12. gr. Skiptingu útlána milli kjördæma skal miða við búsetu umsækjenda eigi einstaklingar í hlut en miða skal við framkvæmdastað þegar aðrir aðilar fá lán. Útlánafé má því aðeins færa milli kjördæma að umsóknum skv. 1., 2., 9., 10. og 11. tölul. sé fullnægt.

5. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, 9. mgr., er orðast svo:
    Lán skulu afgreidd sérstaklega fyrir hvert kjördæmi, sbr. skiptingu útlánafjár skv. 11. gr.

6. gr.

    4. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Lán samkvæmt þessari grein er einnig heimilt að veita þeim sem byggja sérhannaðar söluíbúðir eða leiguíbúðir fyrir aldraða. Þegar þessir aðilar eiga í hlut skal lánsfjárhæð miðast við hámarkslánsrétt skv. a-lið 1. mgr. þessarar greinar. Heimilt er að veita fyrirtækjum lán til byggingar leiguíbúða fyrir starfsmenn sína. Réttur fyrirtækja til að lána skal miðast við skuldabréfakaup þeirra lífeyrissjóða sem þau greiða til vegna starfsmanna sinna á sambærilegan hátt og gildir fyrir starfsmennina sjálfa. Lánsréttur fyrirtækja skal miðast við a-lið 1. mgr. þessarar greinar þrátt fyrir það að byggðar séu fleiri en ein leiguíbúð.

7. gr.

    3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera breytilegir. Ríkisstjórnin tekur ákvörðun um vexti í hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabankans. Heimilt er húsnæðismálastjórn að breyta vaxtakjörum af eldri lánum til samræmis við framangreind kjör ef lántakandi óskar þess. Lántökugjöld og aðrar þóknanir af lánum sjóðsins skulu ákveðnar með reglugerð.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þetta frumvarp um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var flutt á síðasta þingi af Vilhjálmi Egilssyni, 1. varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra, og Matthíasi Bjarnasyni. Þar sem Vilhjálmur á ekki sæti á þessu þingi hefur Pálmi Jónsson, 2. þm. Norðurlandskjördæmis vestra, gerst meðflutningsmaður að frumvarpinu.
    Greinargerðin, sem fylgir frumvarpinu, er sú sama og fylgdi frumvarpinu í fyrra að því viðbættu að nýrri upplýsingar fylgja ásamt breytingum á töflum í greinargerðinni sem eru byggðar á heimildum frá Húsnæðisstofnun og Byggðastofnun.
    Mikil gagnrýni hefur komið fram á hið nýja húsnæðislánakerfi sem tók gildi með lögum nr. 54/1986 í kjölfar kjarasamninga á vinnumarkaði 26. febrúar 1986. Þessi gagnrýni hefur byggst á tveimur meginatriðum: Annars vegar á því að hið nýja húsnæðislánakerfi væri fjárhagslega ótraust og gæti ekki sinnt eftirspurn eftir lánum, m.a. vegna þess að niðurgreiðsla á vöxtum væri of mikil eða þörfin fyrir húsnæðislán væri orðin svo brýn. Hins vegar að í hinu nýja húsnæðislánakerfi fælist mikill tilflutningur á fjármagni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins þar sem mun fleiri umsóknir bærust um lán frá höfuðborgarsvæðinu en frá landsbyggðinni.
    Með frumvarpi þessu er gerð tilraun til þess að benda á leiðir sem gætu stuðlað að lausn þess vanda sem talinn er vera í húsnæðislánakerfinu og snýr að tilflutningi fjármagns. Lagt er til að útlán Byggingarsjóðs ríkisins í helstu lánaflokkunum skiptist í sama hlutfalli milli kjördæma og greitt er til lífeyrissjóðanna sem kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun. Gert er ráð fyrir að Byggingarsjóð skuli ávaxta í peningastofnunum víðs vegar um land. Enn fremur er lagt til að lána megi fyrirtækjum til byggingar leiguíbúða fyrir starfsfólk sitt.
    Þessar breytingar eru afar þýðingarmikið hagsmunamál fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem hafa horft upp á hið nýja húsnæðislánakerfi verða að tæki til fjármagnsflutninga frá landsbyggðinni.
    Sú gagnrýni, sem fram hefur komið á húsnæðislánakerfið, að það leiði til flutnings á fjármagni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, er byggð á þeirri staðreynd að útlánaloforð Byggingarsjóðs til Reykjavíkur eru 46,7% af heildarlánsloforðum meðan um 37,4% launagreiðslna landsmanna eru taldar fram í höfuðborginni. Til landsbyggðarkjördæmanna hafa farið 26,7% af lánsloforðunum en þar eru talin fram 37,9% af launagreiðslum landsmanna. Árleg útlán úr Byggingarsjóði ríkisins til almennra lána eru um 5800 millj. kr. og sú tala á eflaust eftir að hækka á næstu árum.
    Eftirfarandi tafla sýnir skiptingu lánsloforða eftir kjördæmum:

Tafla 1.

Skipting lánsloforða og staðfestingarbréfa eftir kjördæmum.


(Veitt til 12. okt. 1988.)



                       Fjöldi    
                       afgreiðslna         Hlutfall

    Reykjavík .........................         6 237    46,7
    Reykjanes .........................         3 401    25,5
    Vesturland ........................         605    4,5
    Vestfirðir ........................         393    2,9
    Norðurland vestra .................         333    2,5
    Norðurland eystra .................         1 065    8,0
    Austurland ........................         486    3,6
    Suðurland .........................         701    5,2
    Óskilgreint .......................         137    0,7
              ———-     ———
                       13 358    100,0

Heimild: Húsnæðisstofnun.

    Með því að skoða fram taldar launagreiðslur eftir kjördæmum fæst öruggasta vísbendingin um hvernig greitt er í lífeyrissjóði. Þess ber að gæta að sumir lífeyrissjóðir eru fyrir launþega af öllu landinu og því er réttindamyndun í þeim ekki bundin við tiltekna landshluta. Þess vegna er ekki unnt að miða við hvar lífeyrissjóðirnir starfa til þess að reikna út tilflutning á fjármagni með húsnæðislánakerfinu. Á árinu 1987 nam fjármagn frá lífeyrissjóðum yfir 90% af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins en afgangurinn er eigið fé og framlag ríkissjóðs. Eigi að reyna að finna út hvernig eigið fé húsnæðislánakerfisins eða framlag ríkissjóðs sé myndað miðað við kjördæmi er skipting launagreiðslna eftir kjördæmum raunhæfasta viðmiðunin, ekki síst vegna fyrri tengsla launaskatts og húsnæðislána.
    Í töflu 2 er áætlað, miðað við launagreiðslur, hvert framlag einstakra kjördæma er í þeim lánsloforðum og staðfestingarafgreiðslum sem Húsnæðisstofnun hefur sent frá sér og áætlaður tilflutningur af fjármagni út frá því. Niðurstaðan er sú að þessi tilflutningur nemi um 600 millj. kr. árlega eða um 1200 millj. kr. á þeim tveimur árum sem húsnæðiskerfið nýja hefur verið til.


Tafla 2.

Tilflutningur fjármagns milli kjördæma með húsnæðislánakerfinu.


Miðað við 5800 millj. kr. árleg útlán.


(Upphæðir í millj. kr.)



             Framtaldar launa-    Árlegt framlag    Tilflutningur
             greiðslur 1986    til lánsloforða    fjár á ári
Reykjavík .................         37,4%    2169    +540
Reykjanes .................         24,6%    1427    +52
Vesturland .................         6,2%    360    -99
Vestfirðir .................         4,5%    261    -93
Norðurland vestra ........    4,0%    232    -87
Norðurland eystra ..........     10,0%    580    -116
Austurland .................         5,2%    302    -93
Suðurland ..................         8,0%    464    -162
Óskilgreint ................                 +58
         ——–     ——–     ——–
                   100,0    5800    0

Heimildir: Húsnæðisstofnun og Byggðastofnun.
    Það einfaldar að sjálfsögðu húsnæðislánakerfið ef ekki þarf að skipta útlánum eftir kjördæmum. Markmiðið við samningu laganna var einmitt að halda kerfinu sem einföldustu. Hins vegar virðist svo sem úthlutun lánanna skiptist miklu misjafnar á kjördæmin en búast hefði mátt við. Það getur svo leitt til þess að einstaka sjóðir geta séð sér hag í því að draga sig út úr lánveitingum og lána sjóðfélögum sínum beint.
    Nauðsynlegt er að bregðast við þessum tilflutningi á fjármagni með því að halda útlánum aðskildum fyrir hvert kjördæmi. Sú upphæð, sem rennur samtals til lána til nýbygginga, notaðra íbúða, framkvæmdalána og til hinna nýju leiguíbúða á vegum fyrirtækja, þarf að skiptast í sama hlutfalli milli kjördæma og kaup lífeyrissjóða af skuldabréfum Húsnæðisstofnunar gefa tilefni til.
    Skipting útlána eftir kjördæmum dregur líka úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið talin vandamál og skapar á móti atvinnu í byggingariðnaði á landsbyggðinni.
    Þau rök hafa heyrst á móti því að skipta útlánum Byggingarsjóðs eftir kjördæmum að fólk á landsbyggðinni notaði lánin til þess að byggja á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna gæti það jafnvel flýtt byggðarröskun að landsbyggðarfólk fengi útlán í hlutfalli við framlag sitt til kerfisins. Rök af þessum toga eru svipaðs eðlis og rökin á móti bættum samgöngum á þeim forsendum að þær auðveldi fólki að flytjast burtu.
    Í Húsnæðisstofnun var gerð úttekt á búsetu umsækjenda og veðstöðum lána sem sýnir hvað umsækjendur ætla að byggja eða kaupa. Úttekt þessi er dagsett 12. okt. 1988 og byggir á upplýsingum um 6722 umsækjendur. Niðurstaðan af þessari úttekt kemur fram á töflu 3 og er í stuttu máli sú að um 80% þeirra umsækjenda, sem búa utan Reykjavíkur eða Reykjaness, eru að kaupa eða byggja í kjördæmum utan Reykjavíkur og Reykjaness.


Tafla 3.

Veðstaður umsækjenda húsnæðislána.


                                 

    


                   Kjördæmi veðstaða
              Fjöldi            Önnur
Kjördæmi umsækjenda     umsækjenda    Reykjavík    Reykjanes    kjördæmi

Reykjavík ....................     3033    2838    160    35
Reykjanes ....................     1755    150    1595    10
Önnur kjördæmi ...............     1934    189    88    1657
         ——–     ——–     ——–     ——–
             6722    3177    1843    1702

Heimild: Húsnæðisstofnun.

    Þá eru í þessu frumvarpi tvö „tiltektarmál“. Lagt er til að þeir sem byggja söluíbúðir eða leiguíbúðir fyrir aldraða á almennum kjörum fái hámarkslán í stað lágmarkslána. Auk þess er lagt til að tekið verði á vanda fólks sem tók hlutaverðtryggð lán með 9,5% raunvöxtum á verðtryggða hluta lánanna. Þetta fólk býr nú við mun óhagstæðari lánskjör en það gerði ef lánin hefðu verið að fullu verðtryggð og með 3,5% vöxtum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    5. gr. laga nr. 60/1984 fjallar um hlutverk húsnæðismálastjórnar. Í þessari grein er kveðið á um að hlutverk stjórnarinnar sé að skipta útlánafé milli kjördæma, en í lögum nr. 60/1984 er hlutverk stjórnarinnar m.a. að skipta útlánafé milli útlánaflokka.

Um 2. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum er einungis heimilt að varðveita Byggingarsjóð ríkisins í Seðlabanka Íslands. Með þessari grein er veitt heimild til þess að varðveita sjóðinn í öðrum bankastofnunum og jafnframt sett inn ákvæði um að sjóðurinn skuli varðveittur í fleiri en einni bankastofnun. Hugmyndin er sú að sjóðurinn haldist sem mest í þeim byggðarlögum þar sem fjármagnið, sem rennur í hann, verður til. Þetta getur orðið töluverð lyftistöng fyrir bankastofnanir á landsbyggðinni, ekki síst í ljósi þess að samkvæmt lánsfjáráætlun fyrir 1988 er gert ráð fyrir að í árslok 1988 verði 500 millj. kr. í sjóði hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Um 3. gr.


    Það er almennt umkvörtunarefni fyrirtækja á landsbyggðinni að þau skorti húsnæði fyrir starfsfólk sem þau bæði hafa þörf fyrir og geta ráðið til sín. Eitthvað mun vera um að fyrirtæki eigi leiguhúsnæði sem þau leigja starfsmönnum sínum um skemmri tíma.
    Með þessari grein er veitt heimild til þess að fyrirtæki geti notið lánafyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins til þess að koma sér upp leiguhúsnæði fyrir starfsfólk. Í flestum tilvikum er hér um að ræða fólk sem er að flytjast milli staða og þarf að leysa tímabundið úr húsnæðisþörfum sínum. Ætti þetta að geta auðveldað fyrirtækjum á landsbyggðinni að ráða til sín fólk.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skiptingu útlánafjár milli kjördæma sem næst í því hlutfalli sem greitt er í lífeyrissjóði úr hverju kjördæmi. Gert er ráð fyrir því að almenn lán til kaupa eða bygginga á nýjum íbúðum, lán til kaupa á notuðum íbúðum, lán til viðurkenndra framkvæmdaaðila í byggingariðnaði og lán til fyrirtækja og einstaklinga vegna byggingar leiguíbúða skuli skiptast milli kjördæma í ofangreindu hlutfalli. Þannig er möguleiki til að lána því meira til framkvæmdalána og leiguíbúðalána af útlánafé viðkomandi kjördæmis ef ekki eru gífurlega margar umsóknir frá einstaklingum um húsnæðislán.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er kveðið svo á að sérstök „biðröð“ eftir lánum skuli höfð fyrir hvert kjördæmi sem leiðir af skiptingu útlánafjár eftir kjördæmum.

Um 6. gr.


    Í greininni er skerpt á lagaheimildum til þess að lána til byggingar leiguíbúða. Sjálfsagt er að þeir sem byggja á almennum kjörum leigu- eða söluíbúðir fyrir aldraða fái hámarkslánsrétt samkvæmt ákvæðum sem gilda fyrir þá sem byggja í fyrsta sinn. Þetta er m.a. til samræmingar við ákvæði 3. gr. laga nr. 27/1987 þar sem hámarkslánsréttur gildir vegna kaupa á notuðum íbúðum fyrir þessa aðila.
    Enn fremur er eðlilegt að réttur fyrirtækja til lána vegna byggingar leiguíbúða fyrir starfsmenn sína byggist á sams konar réttindamyndun og gildir almennt fyrir starfsmennina sjálfa. Þannig verði miðað við skuldabréfakaup þeirra lífeyrissjóða sem fyrirtækin greiða til vegna starfsmanna sinna. Gengið er út frá því að réttindi miðist við sams konar lán og gildir við fyrstu íbúð enda er brýnt að örva húsbyggingar af þessum toga á landsbyggðinni.

Um 7. gr.


    Í frumvarpsgreininni er tekið á því vandamáli að þeir sem tóku lán á hlutaverðtryggðum kjörum með 9,5% raunvöxtum á verðtryggða hlutanum sæta nú mun óhagstæðari lánskjörum en þeir hefðu gert með því að greiða 3,5% raunvexti ofan á fulla verðtryggingu. Sjálfsagt er að koma til móts við þessa lántakendur og samræma vaxtakjör þeirra við núgildandi kjör.

Um 8. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.