Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 102 . mál.


Nd.

104. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum.

Flm.: Þórhildur Þorleifsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Guðrún Helgadóttir,


Guðmundur G. Þórarinsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Árni Gunnarsson.



1. gr.

    Við 43. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, 6.–8. mgr., svohljóðandi:
    Í öllum skólum á grunnskólastigi skal nemendum gefinn kostur á að kynnast menningarstarfsemi af ýmsu tagi, svo sem með því að sækja leiksýningar og tónleika, heimsækja listasöfn, þjóðminja- og byggðasöfn, eða að slík menningarstarfsemi sé kynnt í skólunum.
    Skólastjórum og kennurum er skylt að gangast fyrir því að listamenn og fræðimenn heimsæki skóla til að kynna nemendum íslenska menningu, sögu og arfleifð.
    Nám skv. 6. og 7. mgr. skal fara fram á skólatíma og vera nemendum að kostnaðarlausu. Til þess skal varið minnst sem samsvarar einum kennsludegi í mánuði. Nánari reglur um nám skv. 6. og 7. gr. skal setja í reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Ísland skal vera sjálfstætt ríki. Um það er ekki ágreiningur. Við eigum sameiginlega tungu, arfleifð og sögu þ.e. sameiginlega menningu. Meðan svo er eigum við okkur tilverurétt sem sjálfstæð eining í samfélagi þjóða. En komi of djúpir brestir í þessar stoðir sjálfstæðis okkar glötum við þeim rétti því þá mun okkur skorta rök fyrir nauðsyn þess að halda uppi, með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, svo litlu og á margan hátt óhagkvæmu þjóðfélagi hér á hjara veraldar. Því ber okkur að styrkja þessar stoðir sjálfstæðis okkar eftir mætti, jafnframt því sem við opnum gáttir til allra átta, kynnumst og tileinkum okkur það besta úr reynslu og menningu annarra þjóða.
    Þessu markmiði má ná eftir tveimur leiðum og þær höfum við báðar farið. Það er annars vegar skóla- og menntakerfi hins vegar stofnanir og starfsemi af ýmsu tagi tengt listum og varðveislu íslenskrar menningar þar sem jafnframt eru ástunduð vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Ýmislegt má betur fara í skólum og menningarstarfsemi í landinu, en það er ekki viðfangsefni þessa frumvarps, heldur hvernig tengja megi betur þessar tvær leiðir, þ.e. reyna að tryggja að leiðir liggi saman að einu marki.

Breytingar — viðbrögð.
    Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum áratugum, vonandi til hins betra, en er enn í örri breytingu og svo mun verða áfram. En þessar breytingar hafa jafnframt haft ýmislegt það í för með sér sem veikir stoðir sjálfstæðis okkar. Áður erfðist reynsla, menning og tunga frá einni kynslóð til annarrar með „eðlilegum“ hætti í starfi og leik. Nú hafa þessi tengsl rofnað vegna breyttra samfélagshátta. Staða heimilis og fjölskyldu hefur veikst og aðrir þættir í uppeldi nýrra kynslóða orðið að sama skapi mikilvægari.
    Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í því að opna gáttir til allra átta, en með fjölmiðlabyltingunni margnefndu má segja að opnast hafi flóðgáttir. Yfir okkur streymir flóð upplýsinga, afþreyingar, fræðslu, menningar og ómenningar, ýmist á íslensku eða erlendum tungum. Vissulega er margt af hinu góða sem berst með þessu flóði, en annað mjög misjafnt að gæðum. Það verður æ erfiðara að fóta sig og halda áttum. Lítilli þjóð, viðkvæmri menningu og tungu er hætta búin.
    Hjá breytingum verður ekki komist, þróun verður ekki stöðvuð — það vill heldur enginn — en það er hægt að bregðast við, byggja varnargarða. Ekki til að stöðva streymið, heldur til að geta stjórnað flaumnum. Það verður hver kynslóð að kenna þeirri næstu að reisa sér þessa varnargarða.
    Megintilgangurinn með flutningi þessa frumvarps er að leggja börnum og unglingum til efni í þessa varnargarða, sjálfum þeim og þjóðfélaginu til styrktar.

Framkvæmd.
    Framkvæmd þessa frumvarps er ekki að öllu leyti auðveld, en þó vel yfirstíganleg. Margt er hægt að gera án mikils tilkostnaðar umfram það sem nú er. Í lögum flestra menningarstofnana landsins eru skýr ákvæði um menningar- og uppeldislegar skyldur, fræðslu, tengsl við almenning í dreifbýli og þéttbýli og starfsemi fyrir börn og unglinga. En skipulagða framkvæmd skortir
og fleira. Fjárskortur og mannfæð valda einhverju um, en skýra lagasetningu um skipulagða tengingu milli skóla og menningarstofnana vantar.
    Setja þarf reglugerð þar sem nánar yrði kveðið á um framkvæmd þessa lagafrumvarps. Hér verða einungis reifaðar nokkrar hugmyndir. Ýmist mundu nemendur sækja stofnanir og starfsemi heim eða öfugt. Allt eftir umfangi og eðli starfsins sem á að kynna.
1.     Nemendur fari í leikhús, óperu og á tónleika, ýmist á æfingar eða sérstakar sýningar eða tónleika á skólatíma.
2.     Leikhópar, óperur, söngleikir og hljómsveitir fari í ferðir út um land og í skóla.
3.     Einstaklingar eða minni hópar með styttri dagskrár heimsæki skóla, (t.d. upplestur, einleik, einsöng; kynningar á einu skáldi, tímabili, viðfangsefni, þema eða stíl).
4.     Tónskáld fari og kynni eigin verk og starf.
5.     Rithöfundar fari og kynni eigin verk og starf.
6.     Kvikmyndagerðarmenn sýni eigin kvikmyndir og einnig verk á undirbúningsstigi.
7.     Listasöfn undirbúi heimsóknir nemenda á sýningar og leiðbeini þeim við skoðun listaverka.
8.     Farandsýningar verði haldnar úti um land, ýmist einstakra listamanna eða með þema af einhverju tagi.
9.     Vinnustofur verði starfræktar úti um land þar sem myndlistarmenn (og aðrir listamenn) dveljist um tíma og nemendur heimsæki þá á vinnustofur.
10.     Fræðimenn taki á móti nemendum á vinnustöðum sínum og stofnunum (t.d. Þjóðminjasafni, byggðasöfnum, Árnastofnun og vonandi bráðlega náttúrufræðisafni o.fl.).
11.     Fræðimenn heimsæki skóla með fyrirlestra um einstök efni sem tengjast menningu og sögu.
12.     Samþættun verkefna, t.d. fræðimaður flytji fyrirlestur, listamaður lesi upp úr verkum sem tengjast fyrirlestri, t.d. þjóðsögu, kvæði, úr fornriti, tónlist sem tengist viðfangsefni og fleira í þeim anda.
13.     Ekki má gleyma því að úti um allt land er nokkuð umfangsmikil menningarstarfsemi. Þar eru leikfélög, tónlistarskólar, hljómsveitir og söfn af ýmsu tagi. Það þarf ekki allt að koma frá höfuðborginni og þeir nemendur, sem búa á höfuðborgarsvæðinu, ættu líka að kynnast menningarstarfsemi úti um allt land. Það gæti reyndar orðið mikilvægur liður í virkri byggðastefnu.
14.     Áríðandi er að þessar heimsóknir og kynningar tengist öðru skólastarfi, þ.e. með kynningu á verkefnum fyrir fram og úrvinnslu eftir á. Það gæti gerst í íslenskukennslu, sögu, líf- og samfélagsfræði, tungumálakennslu og einnig í list- og verkmenntagreinum.

Niðurstaða.
    Höfuðatriði er að þessi starfsemi fari fram á skólatíma sem oft samræmist hefðbundnum vinnu- og starfstíma stofnana. Hvað leikhús og tónleika varðar er um að ræða æfingar og sérstakar sýningar. Einnig verður starfsemin að vera nemendum að kostnaðarlausu. Áhugi og frumkvæði einstaklinga eða fjárhagur foreldra má ekki ráða úrslitum um framkvæmd.
    Með útsjónarsemi, hagræðingu, hugarflugi og samvinnu við menningarstofnanir og stéttarfélög má halda kostnaði í lágmarki og skírskota til ábyrgðar allra, einstaklinga, félaga og stofnana á uppeldi nýrrar kynslóðar og varðveislu menningar okkar, tungu og arfleifðar, menningarstarfsemi allri til styrktar, sjálfstæði okkar til varnar og þjóðinni til heilla.