Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 535 . mál.


Ed.

932. Frumvarp til laga



um starfsmenntun í atvinnulífinu.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. Markmið og gildissvið.


1. gr.

    Markmið laga þessara er að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu í þeim tilgangi að:
—     stuðla að aukinni framleiðni, bæta gæði vöru og þjónustu og greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi,
—     stuðla að bættri verkkunnáttu og aukinni hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum,
—     auka möguleika og treysta stöðu einstaklingsins á vinnumarkaðnum með því að gefa honum kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera hann um leið hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni,
—     jafna möguleika fólks á vinnumarkaði og þess fólks sem er tímabundið utan hans til að afla sér starfsmenntunar, einkum þeirra sem notið hafa lítillar eða engrar starfsmenntunar fyrir, með öflugu framboði á grunnmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein,
—     greiða fyrir hreyfingum starfsmanna úr einni atvinnugrein í aðra eftir aðstæðum og horfum á hverjum tíma,
—     mæta þörfum starfshópa, sem missa vinnu vegna breytinga í atvinnuháttum, fyrir endurmenntun og þjálfun til annarra starfa eftir aðstæðum á hverjum tíma.

2. gr.


Markmiðum laga þessara skal náð með:
—     stuðningi við skipulega starfsfræðslu; undirbúning, náms- og kennslugagnagerð, kennslu og starfsþjálfun, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum,
—     frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu samkvæmt ákvörðun starfsmenntaráðs.

3. gr.


    Lögin taka til náms (námskeiða), sem þátttakendur stunda, til að auka færni og þekkingu til þeirra starfa sem þeir fást við eða stefna að, enda falli það að markmiðum laga þessara og aðstæðum á vinnumarkaði hverju sinni.
    Til þessarar menntunar telst:
—     Grunnstarfsmenntun: Grundvallarstarfsmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein í framleiðslu og þjónustu.
—     Eftirmenntun: Endurnýjun fagkunnáttu og viðbótarmenntun sem fólk stundar á sínu fagsviði.

II. Skipulag.


4. gr.

    Starfsmenntun í atvinnulífinu skal heyra undir félagsmálaráðuneytið.

5. gr.

    Ráðherra skipar sjö manna starfsmenntaráð til tveggja ára sem fer með framkvæmd laga þessara. Einn fulltrúi skal skipaður af félagsmálaráðherra án tilnefningar. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, tveir af Vinnuveitendasambandi Íslands og einn af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum launafólks, tveir af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Starfsmenntaráð skiptir með sér verkum.
    Hlutverk starfsmenntaráðs er að úthluta styrkjum til starfsmenntunar og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar samkvæmt lögum þessum.
    Í starfi sínu skal starfsmenntaráð hafa samráð við og efla frumkvæði fræðslunefnda atvinnulífsins samkvæmt frekari ákvæðum í reglugerð.

6. gr.

    Starfsár (fjárhagsár) starfsmenntaráðs er almanaksárið og skal skipta því niður í úthlutunartímabil.
    Við upphaf úthlutunartímabils hverju sinni skal starfsmenntaráð hafa ákveðið forgangsröðun verkefna og skiptingu þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru milli mismunandi verkefnaflokka.
    Við upphaf úthlutunartímabils skal starfsmenntaráð auglýsa eftir umsóknum um styrki til undirbúnings og/eða reksturs námskeiða og skal þar gerð grein fyrir forgangsröðun verkefna og skiptingu fjármuna fyrir yfirstandandi tímabil.
    Starfsmenntaráð setur sér nánari starfsreglur að fengnu samþykki ráðherra.

7. gr.

    Félagsmálaráðuneytið skal safna saman upplýsingum um starfsmenntun og framboð hennar og koma þeim upplýsingum til helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins.

III. Fjármál.


8. gr.

    Ráðstöfunarfé starfsmenntaráðs skal ákveðið í fjárlögum og ráðstafað í sérstakan sjóð.
    Félagsmálaráðherra gerir tillögur um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu að fenginni umsögn starfsmenntaráðs.

9. gr.

    Styrki úr starfsmenntasjóði er hægt að veita til:
—     greiðslu kostnaðar vegna undirbúnings náms (námskeiða), svo sem verkefnisstjórnun, náms- og kennslugagnagerð,
—     greiðslu kostnaðar vegna námskeiðahalds, svo sem kostnað vegna kennsluaðstöðu og ferða- og flutningskostnaðar,
—     annnars kostnaðar eftir ákvörðun starfsmenntaráðs.
    Að öðru jöfnu er það forsenda framlaga að tiltekinn hluti af beinum rekstrarkostnaði námskeiða sé borinn af þátttökugjöldum samkvæmt nánari ákvörðun starfsmenntaráðs.

IV. Umsóknir.


10. gr.

    Rétt til umsókna um styrk til starfsnáms eiga: samtök atvinnurekenda og launafólks, einstök atvinnufyrirtæki, einkaaðilar eða opinberir aðilar sem standa fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu, starfsmenntaráð einstakra atvinnugreina og samstarfsverkefni tveggja eða fleiri ofangreindra aðila.

11. gr.

    Eftirtalin gögn skulu fylgja umsóknum um styrki skv. 9. gr. laga þessara:
a.    Markmið með því námi sem sóttur er styrkur til.
b.    Lýsing á innihaldi námsins.
c.    Námslengd.
d.    Námskröfur og námsmat.
e.    Markhópur námsins og stærð hans.
f.    Áætlaður fjöldi þátttakenda.
g.    Kostnaðar- og tekjuáætlun.
h.    Yfirlit yfir námskeiðahald viðkomandi umsækjanda á síðastliðnu almanaksári.

V. Ýmis ákvæði.


12. gr.

    Þeim aðilum, sem fengið hafa stuðning samkvæmt lögum þessum, skal skylt að veita upplýsingar um þá menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

13. gr.

    Þeim aðilum, sem fengið hafa stuðning samkvæmt lögum þessum til að vinna námsefni og önnur gögn, skal skylt að framselja til félagsmálaráðuneytisins höfundarétt og jafnframt senda ráðuneytinu eintak af viðkomandi efni. Ráðherra skal heimilt að ráðstafa þessum gögnum til frekari notkunar samkvæmt tillögum starfsmenntaráðs.

14. gr.

    Félagsmálaráðuneytið skal halda skýrslu yfir það nám sem styrkt er samkvæmt lögum þessum. Það skal jafnframt sjá um að kynna og veita upplýsingar um þá starfsmenntun sem í boði er og þau náms- og kennslugögn sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

15. gr.

    Nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, skal hægt að meta til námsáfanga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum sem þar um gilda af hálfu menntamálaráðuneytisins.

16. gr.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um afmörkun og gildissvið að fengnum tillögum starfsmenntaráðs.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lögin skal endurskoða eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði 16. ágúst 1989 nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Ráðherra skipaði jafnframt ráðgjafahóp til að vinna með nefndinni.
    Í nefndina voru skipuð: Halldór Grönvold, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Karl Kristjánsson, tilnefndur af menntamálaráðneytinu, Ólafur B. Birgisson, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Sjöfn Ingólfsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, og Gylfi Kristinsson, skipaður formaður nefndarinnar án tilnefningar.
    Í ráðgjafahóp voru skipuð: Árni Þ. Árnason, tilnefndur af iðnaðarráðuneyti, Benedikt Guðbjartsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra bankamanna, Gissur Pétursson, tilnefndur af starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, Guðmundur J. Guðmundsson, tilnefndur af Verkamannasambandi Íslands, Gylfi Gautur Pétursson, tilnefndur af sjávarútvegsráðuneyti, Jóngeir H. Hlinason, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Runólfur Sigursveinsson, tilnefndur af landbúnaðarráðuneyti, Stefán Baldursson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Þröstur Helgason, tilnefndur af Bandalagi kennarafélaga, og Þuríður Magnúsdóttir, tilnefnd af Fræðslumiðstöð iðnaðarins.
    Nefndin skilaði ráðherra tillögum með frumvarpi því sem hér er lagt fram. Tekið skal fram að full samstaða tókst um efni þess. Nái frumvarpið fram að ganga er stigið stórt skref í átt að því markmiði sem kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. september 1988. Í kafla um vinnumarkað segir að ríkisstjórnin muni hafa frumkvæði að því að auka starfsmenntun í atvinnulífinu. Einnig er uppfyllt loforð sem ríkisstjórnin gaf aðilum vinnumarkaðarins 30. apríl 1989 í tengslum við gerð kjarasamninga um að hún muni beita sér fyrir því að áfram verði haldið uppbyggingu starfsmenntunar og stefnt að því að koma á samræmdu starfsmenntunarkerfi á vegum félagsmálaráðuneytisins.
    Þess skal einnig getið að á 36. þingi Alþýðusambands Íslands árið 1988 var samþykkt tillaga um að sett skuli rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem allra fyrst í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Þar yrði m.a. kveðið á um yfirumsjón félagsmálaráðuneytisins með starfsmenntun í landinu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur, fræðslustofnanir og ráðuneyti.
    Í skipunarbréfi félagsmálaráðherra er tekið fram að lagafrumvarpið um starfsmenntun í atvinnulífinu skuli samið á grundvelli álitsgerðar vinnuhóps sem skipaður var af félagsmálaráðherra 27. janúar 1988 og annarra gagna sem nefnd og ráðgjafahópi verði fengin til umfjöllunar.
    Framangreindum vinnuhópi var falið að setja fram tillögur um skipulag starfsmenntunar í atvinnulífinu. Hann skilaði félagsmálaráðherra álitsgerð 3. febrúar 1989. Við samningu frumvarps þessa var álitsgerðin að nokkru höfð til hliðsjónar.

Tengsl starfsmenntunar í atvinnulífinu við aðra þætti fullorðinsfræðslu.


    Í framhaldi af álitsgerð vinnuhópsins ákváðu félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra að fela embættismönnum að taka upp viðræður um tengsl starfsmenntunar í atvinnulífinu við almenna fullorðinsfræðslu. Eftir nokkra viðræðufundi var komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu 24. febrúar 1989 að rétt væri að sett yrði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyrði til verksviðs félagsmálaráðuneytisins og önnur um fullorðinsfræðslu er heyrði til verksviðs menntamálaráðuneytisins, sbr. fskj. Þessi niðurstaða byggði fyrst og fremst á því að til starfsmenntunar í atvinnulífinu væri oft stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldabinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Á því var vakin athygli að forsendur slíkra samningsákvæða væru breytingar á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér væri því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða þar sem forsenda árangurs væri sem mest áhrif aðila vinnumarkaðarins á alla framkvæmd.
    Hins vegar var lögð áhersla á gott samstarf á milli félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis á þessu sviði.

Helstu atriði frumvarpsins.


    Með frumvarpi því, sem hér er lagt fyrir Alþingi, er afskiptum stjórnvalda af starfsmenntun, sem fram fer í atvinnulífinu, skapaður lagagrundvöllur þar sem sett eru fram ákveðin markmið sem stefnt er að með lögunum. Einnig er kveðið á um það hvernig markmiðunum skuli náð.
    Helstu atriði frumvarpsins eru:
    1. Markmið. Í frumvarpinu er ítarlega kveðið á um markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu sem er m.a. að stuðla að aukinni framleiðni, greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi. Einnig að bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum o.fl.
    2. Markmiðum laganna skal m.a. náð með stuðningi við skipulega starfsfræðslu og með frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.
    3. Kveðið er á um skipan í stjórnkerfinu og lagt til að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félagsmálaráðuneytið sem ráðuneyti vinnumála.
    4. Starfsmenntaráð. Tillaga er gerð um skipan starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til starfsmenntunar og skuli vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar. Í starfsmenntaráði eigi sæti sjö fulltrúar; þrír fulltrúar samtaka launafólks og þrír fulltrúar samtaka atvinnurekenda. Félagsmálaráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar.
    5. Skipuleg öflun og miðlun upplýsinga um starfsmenntun. Tillaga er um að félagsmálaráðuneyti safni upplýsingum um starfsmenntun og miðli þeim til hlutaðeigandi aðila. Með því verði stuðlað að betri nýtingu þess fjármagns sem nú er varið til starfsmenntunar á vinnumarkaði og komið í veg fyrir tvíverknað.
    6. Aukið eftirlit með opinberum fjárveitingum til starfsmenntunar. Aðilum sem fá stuðning samkvæmt lögunum verði skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á.
    7. Fjármál. Framlög hins opinbera til starfsmenntunar í atvinnulífinu verði ákveðin árlega á fjárlögum samkvæmt tillögum félagsmálaráðherra og renni í sérstakan sjóð. Það verður því fjárveitingavaldsins að ákveða framlög hins opinbera til starfsmenntunar.
    Á það ber að leggja sérstaka áherslu að frumvarpið byggir á eðlilegri verkaskiptingu félagsmálaráðneytis og menntamálaráðuneytis og ekki gert ráð
fyrir neinum verkefnaflutningi á milli ráðuneytanna. Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að mæta nýjum þörfum sem upp koma á vinnumarkaðinum og í atvinnulífinu.
    Þá skal vakin sérstök athygli á því að í nágrannalöndunum, t.d. á Norðurlöndum og í Evrópubandalaginu, er sífellt meiri áhersla lögð á gildi starfsmenntunar í stefnu í vinnumálum með það að markmiði að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins og draga úr atvinnuleysi. Benda má á alþjóðasamþykktir og tillögur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í þessu sambandi. Á fundi evrópskra vinnumálaráðherra, sem haldinn var í Kaupmannahöfn á síðastliðnu sumri, kom fram í máli allra ráðherranna að þeir leggja höfuðáherslu á starfsmenntun sem tæki til að auka framleiðni og arðsemi fyrirtækja og minnka atvinnuleysi.
    Samkvæmt kostnaðarumsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar má áætla kostnaðarauka ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum um 2–3 millj. kr. á ári vegna starfsmenntaráðs og aukinna verkefna félagsmálaráðuneytisins við öflun og miðlun upplýsinga um starfsmenntun. Er þá miðað við launagjöld vegna eins starfsmanns er verði ráðinn til að sinna þessum málefnum á aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og áætlaðan kostnað af starfi starfsmenntaráðs.
    Stofnunin bendir á að í fjárlögum ársins 1990 sé fjárveiting að upphæð rúmlega 12 millj. kr. til starfsmenntunar í atvinnulífinu hjá félagsmálaráðuneyti. Hún tekur fram að ekki sé gerð áætlun um aukið framlag verði frumvarpið samþykkt vegna ákvæðis um að Alþingi ákveði árlega fjárveitingu til starfsmenntasjóðs. Stofnunin vekur hins vegar athygli á því að markmiðið með löggjöfinni sé að efla starfs- og endurmenntun í atvinnulífinu þannig að vænta megi aukinna framlaga til þessa málaflokks á næstu árum verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Markmið laganna er að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu. Í greininni er skilgreint í hvaða tilgangi þetta sé gert. Sérstaka áherslu ber að leggja á það sem segir um aukna framleiðni fyrirtækja, bætt gæði vöru og þjónustu. Einnig að greitt sé fyrir tækninýjungum og stuðlað að þróun í íslensku atvinnulífi. Markmiði laganna skal enn fremur náð með bættri verkkunnáttu og aukinni hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum. Tekið skal fram að með lögunum eru skapaðar forsendur fyrir því að brugðist sé við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Þetta verði m.a. gert með því að bjóða upp á afmarkaða starfsmenntun sem ekki stendur til boða í almenna skólakerfinu.
    Enn fremur er það markmið laganna að jafna möguleika fólks á vinnumarkaði og þess fólks sem er tímabundið utan hans til að afla sér menntunar. Þetta gildir ekki síst um það sem hefur litla eða enga starfsmenntun fyrir.

Um 2. gr.


    Í greininni er skilgreint hvernig markmiðum laganna skuli náð með stuðningi við skipulega starfsfræðslu; undirbúning, náms- og kennslugagnagerð, kennslu og starfsþjálfun. Einnig er kveðið á um frumkvæði starfsmenntaráðs í mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um að lögin taki til náms eða námskeiða sem þátttakendur stunda til að auka færni og þekkingu á þeim störfum sem þeir fást við eða stefna að. Tekið er fram að til þessarar menntunar teljist grunnstarfsmenntun og eftirmenntun. Með grunnstarfsmenntun er átt við grundvallarstarfsmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein í framleiðslu og þjónustu. Í eftirmenntun felst endurnýjun á fagkunnáttu og viðbótarmenntun sem fólk stundar á sínu fagsviði.

Um 4. gr.


    Í greininni er tekið fram að félagsmálaráðuneytið fari með starfsmenntun í atvinnulífinu. Til starfsmenntunar í atvinnulífinu hefur oft verið stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldbinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Forsendur slíkra samningsákvæða eru aðstæður á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér er því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða og því eðlilegt að umsjón þeirra sé falin ráðuneyti vinnumála, þ.e. félagsmálaráðuneytinu.

Um 5. gr.


    Hér er gerð tillaga um skipun sjö manna starfsmenntaráðs til tveggja ára sem verði falin framkvæmd laganna. Í starfsmenntaráð skal ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar, þrjá samkvæmt tilnefningum samtaka atvinnurekenda, þ.e. tvo fulltrúa tilnefnda af Vinnuveitendasambandi Íslands og einn fulltrúa tilnefndan af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Einnig skal skipa þrjá fulltrúa tilnefnda af samtökum launafólks, þ.e. tvo tilnefnda af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Gert er ráð fyrir að starfsmenntaráð skipti með sér verkum.
    Á sameiginlegum fundi nefndar og ráðgjafahóps, sem skipaður var til að semja lagafrumvarpið, kom fram ábending um að gefa ætti fleiri samtökum tækifæri til að tilnefna fulltrúa í starfsmenntaráðið. Nefndin var hins vegar sammála um þá skipan sem lögð er til í greininni enda eru framangreind samtök stærst á vinnumarkaðinum.
    Í 2. mgr. er fjallað um verkefni starfsmenntaráðs sem fyrst og fremst verður að úthluta styrkjum til starfsmenntunar og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á þessu sviði.
    Í 3. mgr. er lögð á það áhersla að starfsmenntaráð hafi samráð við og efli frumkvæði fræðslunefnda atvinnulífsins. Með þeim hætti verði hlúð að þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar.
    Samkvæmt framangreindu er ljóst að starfsmenntaráði er ætlað mjög afmarkað hlutverk sem kallar ekki á umfangsmikla starfsemi. Í kostnaðarumsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar er áætlaður kostnaðarauki ríkissjóðs, verði frumvarpið óbreytt að lögum, um 2–3 millj. kr. á ári vegna starfsmenntaráðs og aukinna verkefna félagsmálaráðuneytisins við öflun og miðlun upplýsinga um starfsmenntun. Er þá miðað við launagjöld vegna eins starfsmanns er verði ráðinn til að sinna þessum málefnum á aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og áætlaðan kostnað af starfi starfsmenntaráðs.
    Í niðurlagi greinarinnar er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um starfshætti starfsmenntaráðs með reglugerð. Þetta ákvæði er sett vegna þess að hér er um nýtt viðfangsefni að ræða og hægt er að laga starfsemina greiðlega að aðstæðum.

Um 6. gr.


    Tekið er fram að fjárhagsár starfsmenntaráðs skuli vera almanaksárið en því skuli skipt í úthlutunartímabil.
    Fram kom hugmynd um nánari útfærslu á ákvæði greinarinnar. Samkvæmt henni skyldi fjárhagsárið vera frá 1. mars til 28. febrúar og skiptast í tvö úthlutunartímabil. Fyrra tímabilið væri frá 1. mars til 31. ágúst og hitt frá 1. september til 28. febrúar. Ekki var talið rétt að binda þetta í lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að við upphaf úthlutunartímabils skuli starfsmenntaráð hafa ákveðið forgangsröðun verkefna og skiptingu þeirra fjármuna sem eru til ráðstöfunar til verkefnaflokka. Gert er ráð fyrir að ástand og horfur í atvinnumálum hafi áhrif á forgangsröðunina.
    Samkvæmt 3. mgr. skal auglýsa eftir umsóknum um styrki til undirbúnings og/eða reksturs námskeiða. Í auglýsingunni skal gera grein fyrir forgangsröðun starfsmenntaráðs og skiptingu fjármuna til einstakra verkefnaflokka eins og hún hefur verið ákveðin af starfsmenntaráði.

Um 7. gr.


    Fjallað er um öflun og miðlun upplýsinga í greininni. Samkvæmt henni skal félagsmálaráðuneytið annast þetta verkefni. Lagt er til að ráðuneytið haldi þessum upplýsingum til haga og komi þeim til helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins. Hér er um mikilvægt atriði að ræða sem ætti að geta komið í veg fyrir að margir aðilar séu að vinna að sama verkefninu á sviði starfsmenntunarmála eins og komið hefur fyrir.

Um 8. gr.


    Við samningu frumvarpsins var fjallað um ýmsar leiðir til að afla fjár til starfsmenntunar. Hér er lagt til að Alþingi ákveði árlega með fjárlögum upphæð sem varið er til starfsmenntunar á grundvelli tillagna félagsmálaráðherra. Þessi upphæð renni í sérstakan sjóð.
    Rétt er að leggja áherslu á að ekki er með lögunum verið að marka starfsmenntunarmálum ákveðinn tekjustofn. Þvert á móti er Alþingi gefið mjög víðtækt vald til þess að ákveða sjálft fjárveitingar til þessarar starfsemi í samræmi við þarfir og aðstæður.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um styrkveitingar úr starfsmenntasjóði. Lagt er til að hægt verði að veita styrki vegna kostnaðar við undirbúning náms eða námskeiða, t.d. vegna verkefnisstjórnunar, náms- og kennslugagnagerðar. Í öðru lagi verði heimilt að veita styrki vegna kostnaðar við námskeiðahald, t.d. vegna kennsluaðstöðu og ferða og flutningskostnaðar. Í þriðja lagi til að standa straum af öðrum kostnaði vegna sérstakra aðstæðna sem ekki verða séðar fyrir.
    Í 2. mgr. er lögð áhersla á að að öðru jöfnu sé það forsenda fyrir styrkveitingu úr starfsmenntasjóði að tiltekinn hluti af beinum rekstrarkostnaði námskeiða sé borinn af þátttökugjöldum samkvæmt nánari ákvörðun starfsmenntaráðs. Þar sem aðstæður geta verið mjög ólíkar er ekki gerð tillaga um það hversu hátt þetta hlutfall eigi að vera.

Um 10. gr.


    Í greininni er kveðið á um styrkhæfni. Tekið er fram að umsóknir frá samtökum atvinnurekenda og launafólks séu styrkhæfar. Svo og frá einstökum atvinnufyrirtækjum, einkaaðilum eða opinberum aðilum sem standa fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu og starfmenntaráðum einstakra atvinnugreina. Einnig er gert ráð fyrir því í greininni að einstök samstarfsverkefni tveggja eða fleiri framangreindra aðila geti verið styrkhæf. Að öðru jöfnu er lögð áhersla á samstarfsverkefni sem aðilar vinnumarkaðarins standa að.
    Rétt er að taka fram að lögð er sérstök áhersla á stuðning við starfsmenntun sem hefur að markmiði að auka þekkingu og færni þeirra sem stunda almenn störf í framleiðslu og þjónustugreinum.

Um 11. gr.


    Samkvæmt greininni skulu umsóknir um styrki úr starfsmenntasjóði vera skriflegar. Umsóknum skulu fylgja upplýsingar um tiltekin atriði sem eru talin upp í stafliðum a–h og þarfnast ekki sérstakra skýringa. Markmiðið með ákvæðinu er að stuðla að því að þeir sem hyggjast njóta stuðnings samkvæmt lögunum geri sér glögga grein fyrir tilgangi þeirrar starfsmenntunar sem þeir hyggjast bjóða upp á, skipulagi, umfangi og kostnaði.
    Það er enn fremur nauðsynlegt fyrir starfsmenntaráð að fá sem ítarlegastar upplýsingar um þau verkefni sem sótt er um styrk til þannig að ráðið geti tekið afstöðu til umsóknanna.

Um 12. gr.


    Markmið greinarinnar er að gera stjórnvöldum kleift að krefjast upplýsinga um það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd starfsmenntunar sem notið hefur stuðnings samkvæmt lögunum.

Um 13. gr.


    Í greininni er kveðið á um það að aðilum, sem fengið hafa stuðning samkvæmt lögunum til að semja námsefni, skuli skylt að framselja til félagsmálaráðuneytisins höfundarétt og jafnframt senda ráðuneytinu eintak af hlutaðeigandi efni. Ráðuneytinu er heimilt að ráðstafa þessum gögnum til frekari notkunar samkvæmt tillögum starfsmenntaráðs. Með ákvæðinu er stuðlað að greiðari samnýtingu námsefnis og annarrar vinnu. Oft hefur verið á það bent að námsgagnagerð og önnur vinna gæti nýst betur og verið sé að semja sambærilegt námsefni á mismunandi stöðum á sama tíma. Aðgangur þeirra, sem annast hliðstæða fræðslu að slíku efni, er ekki alltaf greiður þótt gerð þess hafi verið kostuð af almannafé. Rétt er að vekja athygli á því að við framkvæmd greinarinnar verði gætt ákvæða höfundalaga.

Um 14. gr.


    Leggja ber áherslu á tvíþætta skyldu félagsmálaráðuneytisins að annars vegar að safna upplýsingum um starfsmenntun sem í boði er og hins vegar að miðla upplýsingum um þetta efni.

Um 15. gr.


    Með greininni er lögð áhersla á það að hægt verði að meta nám sem stundað er á grundvelli á laganna til námseininga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum menntamálaráðuneytisins.

Um 16. gr.


    Með löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu er verið að fara inn á nýjar brautir. Þess vegna er lögð á það áhersla að ramminn, sem þessari starfsemi er settur í upphafi, verði rúmur og auðveldlega lagaður að breyttum aðstæðum. Af þeirri ástæðu er lagt til að með reglugerð verði nánar kveðið á um ýmsa þætti sem löggjöfin nær til, svo sem afmörkun og gildissvið, og verði við setningu hennar byggt á tillögum starfsmenntaráðs.

Um 17. gr.


    Um ákvæðið í 2. mgr. má vísa til þess sem segir hér að framan um 16. gr. Um er að ræða að ýmsu leyti nýtt viðfangsefni og þar af leiðandi er lagt til að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en að fjórum árum liðnum.



Fylgiskjal.


Niðurstaða úr viðræðum fulltrúa félagsmálaráðuneytisins og


menntamálaráðuneytisins um fullorðinsfræðslu.


(24. febr. 1989.)



    Fulltrúar félagsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins hafa samkvæmt samkomulagi félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra komið saman til fjögurra funda í því skyni að ræða samstarf á sviði fullorðinsfræðslu. Í viðræðunum hafa tekið þátt: Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Gylfi Kristinsson, Helgi Guðmundsson, Karl Kristjánsson, Þráinn Hallgrímsson og Þuríður Magnúsdóttir. Á framangreindum fundum hafa verið lögð fram eftirfarandi skjöl:
a.    Erindi um samhæfingu í endurmenntun og fullorðinsmenntun með stofnun símenntunarnefndar (menntamálaráðuneytið).
b.    Erindasafn um starfsmenntun í atvinnulífinu (félagsmálaráðuneytið).
c.    Álitsgerð um starfsmenntun í atvinnulífinu (félagsmálaráðuneytið).
d.    Ábendingar um efni hugsanlegra fullorðinsfræðslulaga (menntamálaráðuneytið).
    Á viðræðufundunum hefur einkum verið rætt um það hvort hugsanlegt sé að setja heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu sem m.a. taki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Einnig hefur verið rætt um tillögur um samhæfingu í endurmenntun og fullorðinsfræðslu með stofnun símenntunarráðs. Niðurstaðan úr viðræðunum er eftirfarandi:
    Viðræðunefndin hefur fjallað um Ábendingar um efni hugsanlegra fullorðinsfræðslulaga og álitsgerð um Starfsmenntun í atvinnulífinu. Einkum hefur verið rætt um það hvort gerlegt sé að setja eina löggjöf sem taki til allrar fullorðinsfræðslu, þar með talin starfsmenntun í atvinnulífinu eins og hún er skilgreind í álitsgerð vinnuhóps á vegum félagsmálaráðuneytisins. Eftir ítarlegar umræður er niðurstaðan sú að rétt sé að sett verði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyri til verksviðs félagsmálaráðuneytisins og önnur um fullorðinsfræðslu er heyri til verksviðs menntamálaráðuneytisins. Meginröksemdin fyrir niðurstöðunni byggir á því að til starfsmenntunar í atvinnulífinu er oft stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldabinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Forsendur slíkra samningsákvæða eru breytingar á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér er því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða þar sem forsenda árangurs eru sem mest áhrif aðila vinnumarkaðarins á alla framkvæmd.

I. Löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu.


    Í samræmi við framangreint skiptist löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu í eftirfarandi kafla:

     1. Markmið og skilgreiningar.
    Í þessum kafla komi fram markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu. Samkvæmt álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins er það tvíþætt:
     Markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu er að bæta verkmenntun og vinnuumhverfi, auka framleiðni fyrirtækja og treysta stöðu einstaklingsins á vinnumarkaðinum með því að gera honum kleift að takast á við ný eða breytt verkefni í kjölfar nýrrar tækni eða laga sig að breyttum atvinnuháttum.
     Markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu er einnig að auka virkt atvinnulýðræði með því að búa starfsmenn undir þátttöku og ábyrgð í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
    Enn fremur komi fram skilgreining á heitinu starfsmenntun í atvinnulífinu. Í álitsgerð vinnuhópsins er átt við skipulegt nám (námskeið) sem fólk á vinnumarkaði stundar í því skyni að bæta eða auka færni sína og þekkingu til þeirra starfa sem það fæst við eða vegna breytinga á störfum og starfsháttum. Starfsmenntun í atvinnulífinu tekur til endurmenntunar hópa og einstaklinga svo og viðbótarmenntunar (eftirmenntunar) faglærðra og grunnmenntunar ófaglærðra sem fram fer á vinnumarkaðinum.

     2. Yfirstjórn.
    Í þessum kafla komi fram stjórn og eftirlit með þeirri starfsmenntun sem nýtur stuðnings samkvæmt lögunum. Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirrar fræðslu sem fjallað er um í lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu, sjá nánar álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins, bls. 25–27.

     3. Fjármál.
    Hér verði lögð áhersla á stofnun sjóðs sem geti fengið tekjur eftir ýmsum leiðum, sbr. álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins, bls. 28–29. Lögð verður áhersla á þær umsóknir, sem byggja á að samtök aðila vinnumarkaðarins leggja fram fé eða aðra fyrirgreiðslu, njóti ákveðins forgangs um opinberan stuðning.

     4. Ýmis ákvæði.
    Í þessum kafla verði m.a. ákvæði um eftirlit með framkvæmd námskeiða sem stofnað til eftir lögunum, upplýsingaskyldu þeirra sem hljóta stuðning o.fl. þess háttar.
    Einnig verði kveðið á um mat á námi, sem stundað er innan ramma laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, til áfanga í almenna skólakerfinu og þá verði vísað til reglna sem menntamálaráðuneytið setur.
    Enn fremur verði vísað til reglna sem menntamálaráðuneytið setur varðandi notkun skólahúsnæðis til námskeiðahalds sem kostað er með opinberum stuðningi.

II. Lög um fullorðinsfræðslu.


    Lögin taki til allra sviða fullorðinsfræðslu að undanskilinni starfsmenntun í atvinnulífinu. Fullorðinsfræðsla greinist í þrjá aðalþætti:
    1. Almennt nám sem hliðstætt við það sem boðið er á öllum stigum skólakerfisins. Í aðalatriðum mundu viðkomandi skólar bjóða þetta nám og um það gildi einnig í öllum megindráttum sömu kröfur og gerðar eru á viðkomandi skólastigi. Auk skólanna gætu aðilar eins og námsflokkar og fullorðinsfræðslusamtök boðið upp á almennt nám.
    2. Vinnumarkaðsmenntun. Hér er aðallega um að ræða fræðslu sem boðin er fólki á vinnumarkaði og tengd er störfum þess. Hér getur verið um að ræða starfsmenntun vegna starfa sem fólk er í, endurmenntun vegna nýrra starfa og félagsleg menntun, t.d. fyrir trúnaðarmenn og þá sem gegna störfum fyrir aðila vinnumarkaðarins o.fl. Um þennan þátt fullorðinsfræðslu leggur nefndin til að sett verði sérstök löggjöf, sbr. það sem segir í kafla I.
    3. Frjálst nám sem ekki heyrir til liðum 1 og 2. Undir það heyrir hvers konar frístundanám sem fólk vill afla sér án þess að stefna að prófum sem varðar starf þess. Hér má nefna tungumálanám, nám á listasviði og fjöldamargt annað.
     Í fyrsta kafla löggjafar um fullorðinsfræðslu yrðu almenn ákvæði um markmið laganna, um framkvæmd fullorðinsfræðslu, notkun þeirrar aðstöðu sem til er í skólum ríkis og sveitarfélaga, samband við Ríkisútvarp, fjarnám o.fl. Hér yrði einnig fjallað um gerð námsgagna, sérstakar þarfir afmarkaðra hópa, t.d. fatlaðra o.fl.
     Í öðrum kafla verði ákvæði um fullorðinsfræðsluráð og yfirstjórn fullorðinsfræðslu í landinu. Í ráðinu gætu átt sæti fulltrúar ráðuneyta sem fara með málefni sem snerta fullorðinsfræðslu auk fulltrúa þeirra aðila sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu utan skólakerfisins. Til greina gæti komið að ráðið yrði samsett úr þremur hópum sem hver hefði með höndum yfirumsjón með sínum þætti fullorðinsfræðslu, sbr. I. kafla. Hér yrði einnig kveðið á um verkefni fullorðinsfræðsluráðs.
     Verkefni fullorðinsfræðsluráðs verði:
—     að hafa til staðar upplýsingar um endurmenntun og fullorðinsfræðslu í landinu, standa fyrir útgáfu upplýsingarita og hafa í því sambandi samskipti við stofnanir, fyrirtæki og félög;
—     að stuðla að lágmarkssamræmingu;
—     að stuðla að mati faglegra gæða endurmenntunarnámskeiða;
—     að stuðla að samstarfi við skólakerfið;
—     að sjá um mat á námi í endurmenntun og fullorðinsfræðslu með hliðsjón af formlega skólakerfinu;
—     að hafa samstarf við kennararmenntunarstofnanir um menntun fyrir kennara í símenntun (námskeið);
—     að gefa út leiðbeiningar fyrir símenntunarkennara, veita þeim ráðgjöf o.s.frv.
    Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirrar fræðslu sem fjallað er um í lögum um fullorðinsfræðslu.
     Í þriðja kafla laganna yrðu ákvæði um að ríki, sveitarfélög, fullorðinsfræðslusamtök, aðilar vinnumarkaðarins, félagasamtök og einstaklingar hafi forgöngu um fullorðinsfræðslu. Sett verði sérstök reglugerð er feli í sér almennar reglur um þau skilyrði sem fullorðinsfræðsluaðili þarf að uppfylla til að vera gjaldgengur styrkþegi. Megininntakið er að draga ekki úr frumkvæði aðila utan skólakerfisins. Fullorðinsfræðsluráð stýrir ekki fræðslustarfi slíkra aðila en hefur á hendi upplýsingaskyldu og deilir út því fjármagni sem til fullorðinsfræðslu rennur frá ríkinu ár hvert.
     Í fjórða kafla yrði fjallað um fjármál. Það er almennt stefnumið að nemandi greiði ekki meira en sem nemur þriðjungi af kennaralaunum. Veitt yrði fé til þjálfunar leiðbeinenda svo og til þróunarstarfs og tekið fram við hvaða almennar reglur launakjör leiðbeinenda skuli miðast þegar styrkur er veittur. Aðili, sem annast fullorðinsfræðslu, sendir árlega inn áætlun um kennslumagn og fær fyrirheit um fjárveitingar í því ljósi. Að námskeiði eða námsönn lokinni sendir hann uppgjör ásamt nemendaskrá og fær greiddan út styrkinn í samræmi við það.
    Hér kæmi til álita að setja inn ákvæði um greiðslu vinnutaps enda yrði samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um það efni.

III. Samtenging fullorðinsfræðslu og laga um starfsmenntun í atvinnulífinu.


    Eins og áður er komið fram leggur viðræðunefndin til að fullorðinsfræðslan og starfsmenntun í atvinnulífinu verði tengd með skipun fullorðinsfræðsluráðs. Ráðið verði vettvangur upplýsingamiðlunar um menntunarframboð fyrir fullorðna. Enn fremur verði í lögum um fullorðinsfræðslu og lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu tilvísanir á milli laganna til að tryggja lágmarkssamræmingu.

IV. Lokaorð.


    Viðræðunefndin leggur ríka áherslu á náið samráð á milli félagmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins þegar og ef lög um framangreind málefni verða undirbúin. Þetta mætti t.d. tryggja með því að fulltrúi menntamálaráðuneytisins taki sæti í nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði til að semja lög um starfsmenntun í atvinnulífinu og fulltrúi félagsmálaráðneytis í nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að semja lög um fullorðinsfræðslu.