Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 40 . mál.


Nd.

233. Nefndarálit



um frv. til l. um launamál.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur athugað frumvarpið sem flutt er til staðfestingar á bráðabirgðalögum nr. 89/1990.
    Á fund nefndarinnar komu Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Eggert Lárusson frá BHMR, Ögmundur Jónasson og Sjöfn Ingólfsdóttir frá BSRB, Ásmundur Stefánsson frá ASÍ, Þórarinn V. Þórarinsson frá VSÍ og Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 40.
    Um setningu bráðabirgðalaganna má segja almennt að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar mátu ástand efnahags- og launamála svo að brýna nauðsyn bæri til að setja bráðabirgðalög í ágúst síðastliðnum. Annars hefðu skollið á ófyrirséðar launahækkanir sem leitt hefðu til víxlhækkana verðlags og launa. Í kjölfarið hefði fylgt óðaverðbólga. Sú þjóðarsátt, sem gerð var í febrúar, var með öðrum orðum í hættu og í stað stöðugleika og öryggis hefði riðið yfir þjóðina glundroði og efnahagsóvissa. Gátu ábyrg stjórnvöld alls ekki horft á slíkt aðgerðarlaus. Með endanlegu orðalagi 1. gr. kjarasamnings ríkisins og BHMR taldi fjármálaráðherra tryggt að ekki kæmi til launahækkana ef þær væru taldar raska hinu almenna launakerfi í landinu. Þegar fyrir lá að svo reyndist ekki hlutu forsendur samningsins hvað þetta snertir að teljast brostnar. Við þessar aðstæður og í ljósi þeirra afleiðinga, sem fram kæmu, yrði ekkert að gert, átti ríkisvaldið ekki annarra kosta völ en að beita bráðabirgðalagasetningu til þess að forðast holskeflu í efnahagsmálum og óðaverðbólgu eins og áður segir.
     Ríkisstjórnir hafa áður breytt kjarasamningum með bráðabirgðalögum sem Alþingi hefur samþykkt. Alþingi hefur einnig breytt kjarasamningum með lögum. Löggjafinn hefur þannig breytt samningum milli vinnuveitenda og launafólks óháð því hver vinnuveitandinn er. Flestir stjórnmálaflokkar hafa staðið að slíku. Það er því langt frá því að um einsdæmi sé að ræða í þessu tilviki. Jafnframt er rétt að vekja sérstaka athygli á þeim útbreidda misskilningi að bráðabirgðalögin hafi numið úr gildi niðurstöður Félagsdóms. Þeim niðurstöðum er í engu raskað. Eftir að niðurstöður Félagsdóms lágu fyrir var hins vegar hluta samnings BHMR og fjármálaráðherra breytt með lögum þannig að geiðslur féllu niður frá 1. september 1990. Það þýðir hins vegar ekki að niðurstöðum Félagsdóms sé breytt heldur þeirri réttarheimild sem greiðsluskylda studdist við.
    Að gefnu tilefni er rétt að nefna hvað gerist ef staðfestingarfrumvarpið verður ekki samþykkt á Alþingi. Í fyrsta lagi féllu bráðabirgðalögin niður en afleiðingin af því er yfirleitt hin sama og af ógildingu annarra laga. Bráðabirgðalögin yrðu úr sögunni að því er til framtíðarinnar tekur. Þau stofna því hvorki rétt né skyldu frá þeim tíma er þau ganga úr gildi. Hins vegar stendur óhaggað það réttarástand er þau hafa áður skapað. Gildir það eins þótt Alþingi hafi fellt lögin. Gildi bráðabirgðalaga er því hið sama og annarra laga á meðan það helst enda þótt því ljúki með ákveðnum hætti.
     Þjóðhagsstofnun hefur að beiðni forsætisráðherra reiknað út þrjú dæmi um hugsanlega verðþróun á næstu mánuðum ef bráðabirgðalögin um launamál frá 3. ágúst sl. falla úr gildi. Í niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar segir:
    „Niðurstöður þessara útreikninga sýna að verði víxlhækkanir verðlags, launa og gengis með þeim hætti sem að framan greinir stefnir í stöðugt vaxandi verðbólgu. Tilgangslítið er að reikna slík dæmi langt fram í tímann. Ljóst er að á nokkrum mánuðum yrði þriggja mánaða hraði verðbólgunnar miðað við heilt ár kominn í tugi prósenta. Í þeim dæmum, sem reiknuð voru, var verðbólga á þennan mælikvarða í fyrsta dæminu komin í 22% í júlí 1991, 27% í öðru dæminu og í tæplega 40% í því þriðja. Í öllum þessum dæmum mun kaupmáttur launa aukast umtalsvert fyrst í stað og líklegt að almenn eftirspurn fari vaxandi. Það má því reikna með að ef þessi þróun gengur eftir að þau markmið um viðskiptahalla og litla aukningu þjóðarútgjalda, sem sett voru fram í þjóðhagsáætlun 1991, standist ekki. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að þetta eru ekki ótvíræðar niðurstöður því óvissuatriðin eru mörg í þessum dæmum.“
    Svo sem fram kemur í könnun Þjóðhagsstofnunar er ljóst að „þjóðarsáttinni“ lýkur, efnahagsmarkmið fara úr böndunum, fram koma víxlhækkanir verðlags og launa og vaxandi verðbólga mun ekki á sér standa. Afleiðingarnar eru því skýrar.
    Fyrir bæjarþingi Reykjavíkur er nú svo sem kunnugt er rekið mál vegna setningar bráðabirgðalaganna sem Bjarnheiður Guðmundsdóttir hefur höfðað gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og menntamálaráðherra f.h. Rannsóknadeildar fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Í stefnu og greinargerð stefnanda er því haldið fram að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrá. Ríkislögmaður, sem fer með málið f.h. ríkissjóðs, lagði fram greinargerð stefndu hinn 22. nóvember sl. Fylgir greinargerðin með nefndaráliti þessu sem fylgiskjal en í henni kemur fram ítarleg lýsing á málavöxtum, málsástæðum stefndu og lagarökum.
    Að gefnu tilefni þykir rétt að vekja athygli á ákvæðum 4. gr., sbr. 3. gr., bráðabirgðalaganna. Það gefna tilefni er „Kjarafréttir BHMR“, 4. tbl. 1990. Þar er haldið fram túlkun á efni 4. gr. sem rétt er að gera athugasemdir við. Fjallað er m.a. um 2. mgr. 4. gr., sem kveður á um að kjarasamningar aðildarfélaga BHMR og viðsemjenda þeirra gildi til 31. ágúst 1991 og falli þá úr gildi án uppsagnar. Um þetta segir í málgagni BHMR að „BHMR - félög eru þannig föst undir ákvæðum bráðabirgðalaganna, jafnvel þó önnur samtök (BSRB) segi upp samningum sínum þegar fyrir næstu áramót í kjölfar endurskoðunar“.
    Hér er um misskilning að ræða. 4. gr. laganna ber ekki að skilja svo að efni 3. gr. geti ekki náð til BHMR. Þvert á móti er það ákveðinn skilningur ríkisstjórnar og meiri hl. nefndarinnar að skv. 2. mgr. 3. gr. laganna sé BHMR félögum heimilt að semja um stofnun og verksvið launanefndar við sína viðsemjendur rétt eins og öðrum aðilum að kjarasamningi sem ekki kveður á um launanefnd. Verði slíkur samningur gerður fari þá eftir ákvæðum 1. mgr. 3. gr. frá þeim tíma. Gildistími kjarasamninga aðildarfélaga BHMR geti þá eins og hjá öðrum stéttarfélögum styst frá því sem segir í 2. mgr. 4. gr. vegna uppsagnar samnings eftir þeim sömu reglum og endranær gilda hjá stéttarfélögum sem samið hafa um launanefndir.
    Sú túlkun á efni 3. og 4. gr., sem fyrr greinir, hefur verið túlkun ríkisstjórnar frá upphafi. Sá andstæði skilningur, sem fram kemur í Kjarafréttum BHMR, gefur að mati ríkisstjórnarinnar og meiri hl. nefndarinnar ekki tilefni til að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið, enda telur ríkisstjórnin og meiri hl. nefndarinnar orðalag greinanna svo skýrt að misskilningur af því tagi, sem fram hefur komið hjá BHMR, þurfi ekki að vera uppi. Þetta er hins vegar tekið fram hér í nefndarálitinu til að taka af öll tvímæli um skilning á þessu ákvæði.
    Með nefndaráliti þessu fylgja sem fylgiskjöl álitsgerð frá Þjóðhagsstofnun til forsætisráðherra, dags. 3. desember 1990, um bráðabirgðalögin frá 3. ágúst og verðþróun á næstu mánuðum, og greinargerð ríkislögmanns í máli Bjarnheiðar Guðmundsdóttur sem hann hefur lagt fyrir bæjarþing Reykjavíkur vegna máls á hendur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og menntamálaráðherra f.h. Rannsóknadeildar fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði.

Alþingi, 5. des. 1990.



Páll Pétu

rsson,

form., fr

sm.

Guðmundur G. Þórarinsson,


fundaskr.

Ragnar Arnalds.


Jón Sæmundur Sigurjónsson.



Fylgiskjal I.

Þjóðhagsstofnun:

Bráðabirgðalögin frá 3. ágúst og verðþróun á næstu mánuðum.


(Send forsætisráðherra 3. desember 1990.)



    Að þinni beiðni fylgja hér með þrjú dæmi um hugsanlega verðþróun á næstu mánuðum, ef bráðabirgðalögin um launamál frá 3. ágúst sl. falla úr gildi. Til samanburðar er nýleg verðlagsspá Þjóðhagsstofnunar sem byggir á svonefndri þjóðarsátt. Helstu niðurstöður eru dregnar saman í töflu sem fylgir hér með.
    Marga fyrirvara þarf að hafa í dæmum af þessu tagi. Sérstaklega er vakin athygli á þrennu: Í fyrsta lagi er túlkun kjarasamnings BHMR ekki vafalaus, eins og fram kemur hér á eftir. Í öðru lagi er ýmislegt óljóst um viðbrögð annarra aðila vinnumarkaðarins, svo sem um tímasetningar launahækkana og endurskoðun annarra forsendna kjarasamningsins. Í þriðja lagi er álitamál hvaða gengisforsendur skuli leggja til grundvallar svona dæmum.

Kjarasamningur BHMR og bráðabirgðalögin.
    Fyrsti áfangi endurskoðunar á launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins átti að koma til framkvæmda 1. júlí sl. á grundvelli kjarasamanburðarnefndar aðila samningsins. Samningurinn kveður á um að í hverjum áfanga skuli laun hækka um að minnsta kosti einn launaflokk að meðaltali. Þá eru ákvæði um að hafi kjarasamanburðarnefnd ekki skilað áliti 1. júlí 1990 skuli greitt upp í væntanlega hækkun sem nemi 1 / 2 launaflokki. Í heild er hér um að ræða 4,5% hækkun. Þessi hækkun var greidd út í júlí og ágúst en bráðabirgðalögin nr. 89 3. ágúst 1990 afnámu þessa hækkun frá og með 1. september.
    Í kjarasamningi BHMR voru ekki ákvæði um launanefndir með hliðstæðum hætti og í samningum sem gerðir voru í febrúar sl. Með bráðabirgðalögunum var launanefnd BSRB falið að úrskurða um launahækkanir vegna verðlagsviðmiðunar fyrir BHMR. Laun BHMR félaga hækkuðu af þessum sökum um 0,27% 1. október og um 2,55% 1. desember. Augljóst er hins vegar að með vísan til 15. gr. kjarasamnings BHMR að BHMR félagar hefðu fengið þessa hækkun. Efni 15. gr. er að hækki laun annarra launþega eftir 30. nóvember 1989 umfram almennar launabreytingar BHMR samningsins (launahækkun vegna endurskoðunar launakerfis er undanskilin) geta aðilar krafist breytingar á launalið sem því nemur. Samningurinn tilgreinir að ef ekki næst samkomulag innan eins mánaðar er hægt að vísa deilunni til nefndar samningsaðila sem ber að fella úrskurð innan þriggja vikna. Kjarni 15. gr. er því að verja hækkun launa BHMR umfram aðra launþega, eins og ljóst er af því að hækkun launa BHMR vegna endurskoðunarákvæða koma ekki inn í samanburð við laun annarra. Í samningnum er ekki kveðið á um sérstakar launahækkanir á næsta ári aðrar en vegna endurskoðunar launakerfisins 1. júlí nk., en þá er kveðið á um a.m.k. einn launaflokk til hækkunar, 3%.
    Rétt er að minna á að falli bráðabirgðalögin úr gildi yrði væntanlega tekið til við að ljúka samanburði á kjörum háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og annars staðar. Í þessu gæti falist viðbótarlaunahækkun sem gæti komið til greiðslu fyrir mitt næsta ár. Það skal enn fremur áréttað að með bráðabirgðalögunum var kjarasamningur BHMR og viðsemjenda þeirra felldur úr gildi 31. ágúst 1991, auk þess sem 5. og 15. gr. samningsins féllu strax úr gildi. Þá kveður 17. gr. samnings BHMR á um að samningurinn sé uppsegjanlegur með eins mánaðar fyrirvara eftir 30. september 1990.
    Í forsendum útreikninga Þjóðhagsstofnunar er ekki gert ráð fyrir frekari hækkun til BHMR vegna ákvæða um endurskoðun launakerfis þeirra, a.m.k. næsta hálfa árið, og jafnframt er ekki gert ráð fyrir að BHMR og ríkið geri nýjan samning á næstu sex mánuðum.

Kjarasamningar í febrúar 1989.
    Í kjarasamningi ASÍ, VSÍ og VMSS er ekki að finna jafnafdráttarlaus ákvæði um endurskoðun launaliðar vegna launahækkana til annarra launþega og er í samningi BHMR. Ein af forsendum samningsins (9. gr.) er að „launaþróun annarra verði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum“. Ekki er tekið á því hvernig skuli bregðast við standist þessi forsenda ekki. Sambærilegt ákvæði er ekki í kjarasamningi BSRB við viðsemjendur sína og ekki í samningi SÍB og bankanna.
    Af yfirlýsingum samningsaðila frá því í sumar má ráða að þeir hefðu samið um sambærilegar hækkanir og fólust í samningum BHMR ef bráðabirgðalögin hefðu ekki verið sett. Þetta staðfesti VSÍ í bréfi til ASÍ 31. júlí sl. Jafnframt er vart hægt að gera því skóna að aðrar forsendur kjarasamnings ASÍ og vinnuveitenda standi óbreyttar, eftir að til umræddrar launahækkunar komi. Hér er einkum um að ræða forsendur um verðlagsviðmiðun í maí næstkomandi og forsendur um gengi.

Forsendur útreikninga.
    Í þessum útreikningum er gengið út frá því að almenn laun hækki um 4,5% í janúar 1991 og síðan fari af stað víxlverkandi hækkun launa BHMR og annarra launþega. Laun á almennum vinnumarkaði hækka því um 4,5% 1. mars 1991 og 1. maí. Í fyrsta dæminu eru einungis reiknuð verðlagsáhrif af víxlverkunum af þessu tagi og gengissigs krónunnar um 1% á mánuði. Gengi krónunnar er látið síga til að halda raungengi krónunnar svipuðu og reiknað var með í forsendum „þjóðarsáttar“. Launahækkunum samkvæmt samningi ASÍ og vinnuveitenda í mars og júní er sleppt og ekki reiknað með neinum verðbótum í þessu dæmi. Í dæmi tvö eru reiknuð áhrif af launauppbótum í júní miðað við ákvæði kjarasamninga ASÍ/VSÍ um rautt strik í maí 1991. Í þessu dæmi er gengi krónunnar látið síga um 1 1 / 4 % á mánuði. Í þriðja og síðasta dæminu er 2,5% launahækkun í mars og 2% hækkun í júní bætt við auk þess sem rauða strikið í júní er reiknað að fullu. Gengi krónunnar er látið síga um 1 3 / 4 % á mánuði.
    Þann almenna fyrirvara verður að gera um útreikninga af þessu tagi, að hér er reiknað með fullkominni sjálfvirkni milli verðlags annars vegar og launa og gengis hins vegar. Reynslan sýnir að þegar til lengdar lætur eru það þessir þættir, auk verðbreytinga erlendis, sem hafa mest áhrif á verðlagið. Hins vegar er erfiðara að spá fyrir um skammtímabreytingar verðlags með þessum aðferðum, þar sem það ræðst að verulegu leyti af markaðsaðstæðum hverju sinni hvernig og hvenær kostnaðarbreytingar koma fram í verðlagi.
    Þessi þrjú dæmi eru reiknuð út frá þeirri forsendu að ekki komi til hækkunar á olíuverði umfram það sem þegar er komið fram. Þá er rétt að benda á að tekið hefur verið tillit til viðræðna aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa ríkisins í nóvemberlok um gjaldskrárhækkanir ríkisfyrirtækja á næsta ári og búvöruverð. Þetta er gert til þess að halda samræmi við verðlagsspána sem lögð var til grundvallar þegar „þjóðarsáttin“ var framlengd í lok nóvember sl.


REPRÓ AF TÖFLU Í PRENTSMIÐJU



Niðurstöður.

    Niðurstöður þessara útreikninga sýna að verði víxlhækkanir verðlags, launa og gengis með þeim hætti sem að framan greinir stefnir í stöðugt vaxandi verðbólgu. Tilgangslítið er að reikna slík dæmi langt fram í tímann. Ljóst er að á nokkrum mánuðum yrði þriggja mánaða hraði verðbólgunnar miðað við heilt ár kominn í tugi prósenta. Í þeim dæmum sem reiknuð voru var verðbólga á þennan mælikvarða í fyrsta dæminu komin í 22% í júlí 1991, 27% í öðru dæminu og í tæplega 40% í því þriðja. Í öllum þessum dæmum mun kaupmáttur launa aukast umtalsvert fyrst í stað og líklegt að almenn eftirspurn fari vaxandi. Það má því reikna með að ef þessi þróun gengur eftir að þau markmið um viðskiptahalla og litla aukningu þjóðarútgjalda, sem sett voru fram í þjóðhagsáætlun 1991, standist ekki. Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að þetta eru ekki ótvíræðar niðurstöður því óvissuatriðin eru mörg í þessum dæmum.


Fylgiskjal II.


Greinargerð ríkislögmanns í bæjarþingi Reykjavíkur.



Nr. 15. Lagt fram í bæjarþingi Reykjavíkur 22. nóvember 1990.

    
     G R E I N A R G E R Ð
        stefndu í bæjarþingsmálinu
        nr. /1990:
        Bjarnheiður Guðmundsdóttir
        gegn
        fjármálaráðherra fh. ríkissjóðs og menntamálaráðherra fh. Rannsóknardeildar fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði.

    Ég flyt mál þetta af hálfu beggja stefndu og geri þær kröfur að umbjóðendur mínir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður að mati réttarins úr hendi stefnanda. Til vara krefst ég þess að málskostnaður verði felldur niður.

    Ég legg fram:
Nr. 15.
    Greinargerð þessa.    
    
16.
    Dómur Félagsdóms, dags. 23. júlí 1990.
    
17.
    Tilboð o.fl., sem fór á milli fjármálaráðherra og BHMR 25. 31. júlí 1990.
    
18.
    Bréf fjármálaráðuneytis til lögmanns stefnanda, dags. 28. september 1990.
    
19.
    Bréf embættis ríkislögmanns til menntamálaráðuneytis, dags. 4. október 1990.
    
20.
    Bréf embættis ríkislögmanns til fjármálaráðuneytis, dags. 4. október 1990.
    
21.
    Bréf menntamálaráðuneytis til embættis ríkislögmanns, dags. 22. október 1990.
    
22.
    Bréf fjármálaráðuneytis til embættis ríkislögmanns, dags. 20. nóvember 1990 með fylgiskjali, dags. sama dag.

Málavextir.
    Málavextir eru í stuttu máli þessir:
    Hinn 18. maí 1989 var undirritaður kjarasamningur milli fjármálaráðherra fh. ríkissjóðs og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna (BHMR) vegna nokkurra aðildarfélaga bandalagsins. Þessi kjarasamningur er á dskj. nr. 12. Degi síðar var undirritaður kjarasamningur sömu aðila vegna margra annarra aðildarfélaga BHMR. Á fyrri hluta árs 1990 kom í ljós ágreiningur milli samningsaðila um túlkun samningsins. Voru það einkum 1. og 5. gr. hans, sem deilt var um. Skaut Félag íslenskra0 náttúrufræðinga, sem er eitt aðildarfélaga BHMR, ágreiningi þessum til Félagsdóms. Sjónarmið aðila um túlkun kjarasamningsins koma fram í dskj. nr. 16.
    Hinn 23. júlí sl. féll dómur Félagsdóms í málinu. Var þar tekin til greina sú krafa stefnanda málsins, að skilja bæri 5. gr. kjarasamningsins svo að fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs væri frá 1. júlí 1990 skylt að greiða öllum félagsmönnum stefnanda, sem starfa hjá ríkinu og taka laun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi fjárhæð, sem nemi einum og hálfum launaflokki til viðbótar launum viðkomandi félagsmanns skv. 10. gr. kjarasamnings aðila. Þessi dómur fól í sér 4,5% hækkun launa.
    Af þessu tilefni ákvað ríkisstjórnin á fundi hinn 25. júlí sl. að nýta heimild í 17. gr. kjarasamningsins að segja honum upp. Var BHMR kunngerð sú ákvörðun. Samkvæmt nefndri samningsgrein var samningurinn uppsegjanlegur eftir 30. september 1990 með eins mánaðar fyrirvara. Samkvæmt því gat samningurinn orðið laus frá og með 1. nóvember 1990.
    Jafnframt óskaði fjármálaráðherra viðræðna við forráðamenn BHMR um breytingar á kjarasamningnum með það fyrir augum að umrædd 4,5% launahækkun mundi ekki valda víxlhækkunum launa. Ástæða þessara tilmæla var sú að allt benti til að þessi launahækkun til BHMR félaga mundi ganga yfir allan launamarkaðinn í landinu og í framhaldi af því enn frekari víxlhækkanir launa vegna ákvæða 15. gr. kjarasamnings BHMR. Voru haldnir um þetta nokkrir fundir dagana 25. 31. júlí sl. Þá var endanlega ljóst að BHMR mundi ekki verða við tilmælum um óhjákvæmilegar breytingar á samningnum. Um þessar viðræður vísast til dskj. nr. 17 og 22.
    Í byrjun febrúar 1990 og á næstu vikum þar á eftir höfðu verið gerðir kjarasamningar milli Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) og Vinnumálasambands samvinnufélaganna (VMS) annars vegar og verkalýðsfélaga innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hins vegar sem fólu í sér nýmæli í gerð kjarasamninga. Samið var um lágar grunnkaupshækkanir miðað við það sem viðgengist hefur á síðustu árum og langan gildistíma samnings, en að auki tryggingar fyrir stöðugu verði á vöru og þjónustu á flestum sviðum. Þessir samningar eru almennt nefndir þjóðarsáttin. Auk aðila vinnumarkaðarins eiga ýmsir aðrir aðild að henni með yfirlýsingum og skuldbindingum af sinni hálfu, svo sem samtök bænda, ríkisvaldið og viðskiptabankar í landinu. Nokkrum vikum eftir gerð þessara samninga gerðu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og BSRB samning sín á milli á sömu nótum. Enn fleiri stéttarfélög fylgdu í kjölfarið. Á miðju ári 1990 höfðu þannig um 90% launþega í landinu gengist undir svokallaða þjóðarsáttarsamninga. Gerð þessara samninga hefur leitt til þess að verðbólga í landinu hefur nú lækkað niður í 5 10% sem er minnsta verðbólga sem verið hefur hér á landi um langt árabil. Í kjarasamningum VSÍ og VMS við ASÍ kemur fram að forsenda samninganna sé sú að launþegar í öðrum launþegafélögum fái ekki meiri launahækkanir en þessir samningar gera ráð fyrir.
    Þegar dómur Félagsdóms lá fyrir í júlí sl. komu strax fram kröfur launþega á hinum almenna vinnumarkaði þess efnis að þeir skyldu einnig fá 4,5% launahækkun líkt og BHMR félagar höfðu fengið með dómi Félagsdóms. Þetta kemur fram á dskj. 6 10 sem stefnandi hefur lagt fram.
    Hinn 31. júlí ákváðu VSÍ og VMS að fallast á þá launahækkun til sinna viðsemjenda sem BHMR hafði fengið með dómi Félagsdóms. Þar með var orðið fullljóst að þetta yrði almenn launahækkun sem gengi yfir stærstan hluta launamarkaðarins, en einskorðaðist ekki við BHMR.
    Við þessar aðstæður ákvað ríkisstjórnin að grípa inn í og stöðva fyrirséða víxlhækkunarskriðu launa. Hinn 3. ágúst 1990 voru gefin út bráðabirgðalög um launamál sem m.a. felldu niður frá 1. september sl. á hækkun sem BHMR hafði fengið frá 1. júlí sl. Í aðfararorðum laganna kemur m.a. fram að brýna nauðsyn beri til að grípa þegar til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi sjálfvirkar víxlhækkanir launa og verðlags og treysta þau efnahagslegu markmið sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hafi komið sér saman um og lögð voru til grundvallar almennum kjarasamningum í byrjun þessa árs.

Málsástæður og önnur atvik. Lagarök.
    Í stefnu og greinargerð stefnanda kemur fram að hann styðji kröfur sínar einkum við ákvæði 2. gr., 28. gr., 67. gr. og 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og skýringar fræðimanna á þeim ákvæðum og sambærilegum grundvallarreglum í landsrétti erlendra ríkja og alþjóðlegum sáttmálum og samningum. Telur stefnandi ákvæði bráðabirgðalaga nr. 89/1990 andstæð nefndum greinum stjórnarskrárinnar. Vísast einkum til þess sem segir á miðri bls. 3 í stefnu og á miðri bls. 5 fram á miðja bls. 6 í greinargerð um málsástæður og lagarök stefnanda að þessu leyti.
    Fyrir hönd umbjóðenda minna mótmæli ég þeim sjónarmiðum stefnanda sem þarna koma fram. Ég held því fram að nefnd bráðabirgðalög séu ekki andstæð íslenskum stjórnskipunarlögum. Engar skýringar er heldur að finna á því, hvaða alþjóðlegu sáttmálar og samningar það eru, sem átt er við eða hvaða erlendu ríki það eru, sem vísað er til um sambærilegar grundvallarreglur. Þetta skal tekið fram:
    A. Um 2. gr. stjórnarskrár.
    Stefnandi heldur því fram að löggjafinn geti ekki gripið fram fyrir hendur dómstóla með þeim hætti sem gert var. Löggjafanum sé óheimilt að taka aftur eignarréttindi afmarkaðs hóps manna sem honum hafði sérstaklega verið dæmd örfáum dögum áður af æðsta dómstól á sviði vinnuréttar. Með þessu sé brotið gegn meginreglunni um þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
    Á þessi sjónarmið verður ekki fallist. Með dómi sínum kvað Félagsdómur á um hvernig skýra bæri tilteknar greinar í kjarasamningi fjármálaráðherra og BHMR. Niðurstaða dóms um tiltekið sakarefni bindur ekki hendur löggjafans til að breyta gildandi rétti. Með lögum nr. 89/1990 er hluta kjarasamnings BHMR og fjármálaráðherra breytt þannig að 4,5% launahækkun, sem fólst í kjarasamningunum óbreyttum, féll niður frá og með 1. september 1990. Með því var breytt þeirri réttarheimild sem greiðsluskylda samkvæmt dóminum var byggð á. Ekki verður fallist á það með stefnanda að löggjafinn sé bundinn til frambúðar við það réttarástand, sem dómstólar hafa kveðið á um að sé gildandi réttur, er dómur gekk. Löggjafinn hefur óumdeilanlega vald til að breyta gildandi rétti. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar felst ekki það hlutverk eða staða dómsvalds að þegar dómstóll hafi kveðið upp dóm sé þar með komin óbreytanleg niðurstaða til frambúðar sem önnur grein ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvald fái ekki hróflað við.
     B. Um 28. gr. stjórnarskár.
    Stefnandi telur að skilyrði 28. gr. stjórnarskrár um að brýna nauðsyn hafi borið til útgáfu nefndra bráðabirgðalaga hafi ekki verið fyrir hendi. Hvað sem eldri viðhorfum líði skuli dómstólar taka til sjálfstæðrar skoðunar hvort slík skilyrði séu til staðar. Málatilbúnaður stefnanda sé miðaður við að slík sjálfstæð skoðun fari fram.
    Þessi sjónarmið stefnanda verður heldur ekki fallist á. Bráðabirgðalöggjafinn á sjálfur endanlegt mat um það hvenær hin brýna nauðsyn er fyrir hendi. Dómstólar eru ekki bærir til að taka til endurskoðunar hið huglæga mat bráðabirgðalöggjafans um það hvort brýn nauðsyn hafi legið til grundvallar lagasetningu eða ekki.
    Jafnvel þótt fallist yrði á sjónarmið stefnanda þess efnis að dómstólar gætu tekið mat bráðabirgðalöggjafans að þessu leyti til endurskoðunar er hafið yfir vafa að brýn nauðsyn í skilningi 28. gr. stjórnarskrárinnar var fyrir hendi við setningu laga nr. 89/1990. Í bréfi fjármálaráðuneytis til embættis ríkislögmanns á dskj. nr. 22 er rakið hvernig mál horfðu við ríkisstjórninni eftir að dómur Félagsdóms lá fyrir í máli BHMR 23. júlí 1990. Samkvæmt því sem þar kemur fram er alveg víst að brýn nauðsyn krafðist þess að ríkisstjórnin gripi til þeirrar lagasetningar sem sett var 3. ágúst sl. Hér verður að líta til þeirra afleiðinga sem það hefði haft í för með sér ef til lagasetningar hefði ekki komið. Núgildandi kjarasamningar í landinu, þar á meðal kjarasamningar BHMR og fleiri, hafa margir hverjir að geyma ákvæði þess efnis að fái launþegar, sem taka laun samkvæmt öðrum kjarasamningum launahækkun, skuli viðkomandi einnig fá þá launahækkun. Stundum eru forsendur kjarasamninga byggðar á því að aðrir launþegar fái ekki launahækkun umfram það sem viðkomandi kjarasamningur segir. Þetta á við um þjóðarsáttarsamninga ASÍ frá febrúarmánuði sl. Hefði ekki verið gripið inn í með lögum hefðu launahækkanir til BHMR félaga hrint af stað launahækkunum annarra launþega sem gert höfðu kjarasamninga og þar með hækkun launa og verðlags í þjóðfélaginu. Þar með var kollvarpað þeim stöðugleika sem að var stefnt með þjóðarsáttarsamningunum og þeim mikla árangri í baráttu við verðbólgu sem þegar á sl. sumri hafði náðst með þessum samningum. Þessar víxlhækkanir hefðu dunið yfir strax í kjölfar Félagsdóms. Ókleift var að bíða þess að Alþingi kæmi saman. Með því að gera það hefði skaðinn þegar verið skeður. Um þetta vísast nánar til dskj. nr. 22.
    Á það skal jafnframt lögð áhersla að ekki var gripið til lagasetningar fyrr en fullreynt var að ekki tækjust samningar milli fjármálaráðherra og BHMR um breytingu á kjarasamningum þannig að hann gæti samrýmst þjóðarsátt. Um það vísast til dskj. nr. 17 sem skýrir hvaða gögn fóru á milli aðila í samningaviðræðum dagana 25. 31. júlí sl. Enn fremur til bréfs fjármálaráðuneytis á dskj. nr. 22 þar sem rakið er efni þeirra viðræðna sem á þessum tíma fóru fram.
     C. Um 67. gr. stjórnarskrár.
    Þá heldur stefnandi því fram að bráðabirgðalög nr. 89/1990 feli í sér ólögmæta skerðingu á eignarrétti. Þau svipti afmarkaðan hóp launþega hluta þeirra launa sem þeir fengu greidd frá 1. júlí 1990 án þess að nokkrar bætur komi fyrir og séu að því leyti ólík öðrum tilvikum þar sem gripið hafi verið með lögum inn í gildandi kjarasamninga. Skerðing sú á eignarrétti sem felist í bráðabirgðalögunum sé ekki almenn, heldur sérstök í þeim skilningi að hún beinist að afmörkuðum hópi manna og lækki laun hans frá því sem ákveðið hafði verið.
    Ekki verður fallist á réttmæti þessara sjónarmiða. Kemur þar fyrst til að ekki er unnt að telja vinnulaun sem ekki hefur verið unnið fyrir eign í skilningi 67. gr. stjórnarskrár. Gagnstæð niðurstaða mundi gilda um laun sem þegar hefur verið unnið fyrir. Launakrafa stofnast að meginstefnu til ekki fyrr en vinnuframlagið hefur verið innt af hendi og launþegi hefur ekki þær heimildir sem felast í eignarréttindum þegar um væntanleg laun er að ræða. Löggjafinn hefur ótvíræða heimild til að breyta reglum um laun sem ekki hefur verið unnið fyrir á þeim grundvelli að þau njóta ekki verndar 67. gr. stjórnarskrár. Skiptir þá engu hvort um er að ræða stærri eða þrengri hóp sem ákvörðunin beinist að. Þannig hefur löggjafinn á ýmsum sviðum sett því skorður á hvaða verði vinna eða vörur eru seldar. Ekki fæst séð að ákvæði stjórnarskrár séu því til fyrirstöðu, sbr. einkum 69. gr.
    Þá er ekki heldur unnt að samsinna því að skerðing launa samkvæmt bráðabirgðalögunum sé sérstök í þeim skilningi að hún beinist að afmörkuðum hópi manna. Samkvæmt 1. gr. laganna taka þau til þeirra kjarasamninga sem samkvæmt ákvæðum sínum eru í gildi við gildistöku laganna. Eins og fram kemur í bréfi fjármálaráðuneytis á þskj. nr. 22 ná lögin þannig til kjarasamninga um það bil 90% launþega í landinu.
    Að auki kemur fram í gögnum málsins að ASÍ hafi þegar eftir uppkvaðningu Félagsdóms haft uppi kröfur á hendur sínum viðsemjendum um sömu launahækkun og BHMR fékk og vísað þar til orðaðra forsendna í samningum sínum. Enn fremur að VSÍ og VMS hafi fallist á að verða við þeirri kröfu. Lögin eru því ótvírætt almenn með því að þau svipta stærstan hluta launþega í landinu með sama hætti launahækkun sem þeim hafði verið ákveðin. Þar eru félagsmenn í BHMR ekki í neinni sérstöðu. Það verður því ekki á það fallist að skerðing launa samkvæmt lögunum hafi beinst að afmörkuðum hópi manna, svo sem segir í málatilbúnaði stefnanda. Það voru einmitt þessar væntanlegu launahækkanir til annarra en BHMR félaga og þar af leiðandi víxlhækkanir launa sem beinlínis voru tilefni til lagasetningarinnar.
     D. Um 73. gr. stjórnarskrár.
    Loks telur stefnandi að lög nr. 89/1990 og einkum 2. og 4. gr. þeirra séu andstæð félagafrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi telur að slík löggjöf grafi undan starfsemi frjálsra stéttarfélaga og leiði til þess að félagsmenn glati trú á gildi þess að starfa í skipulögðum félagsskap með löglegum hætti til að bæta kjör sín og réttindi. Telur stefnandi að bráðabirgðalögin grafi undan þeim hugmyndum sem 73. gr. stjórnarskrárinnar er reist á.
    Vandséð er hvernig 73. gr. stjórnarskrár getur varðað kröfugerð stefnanda þessa máls. Ákvæði þeirrar greinar snýr að félagasamtökum sem slíkum. Stéttarfélag stefnanda er ekki aðili málsins. 73. gr. stjórnarskrár er máli stefnanda óviðkomandi.
    Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar eiga menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja þurfi um leyfi til þess. Ekkert félag má heldur leysa upp með stjórnarráðstöfun. Í málatilbúnaði stefnanda felast staðhæfingar um annað innihald 73. gr. stjórnarskrár en skýr orð hennar segja til um.
    Bráðabirgðalög nr. 89/1990 um launamál takmarka á engan hátt rétt manna til að stofna stéttarfélög. Stéttarfélag hefur heldur ekki verið leyst upp eða bannað með lögunum. Þau stéttarfélög sem aðild eiga að BHMR geta haldið uppi starfsemi sinni eftir gildistöku bráðabirgðalaganna sem fyrir setningu þeirra. Það grefur ekki undan tilvist stéttarfélaga, hvorki nú né endranær þótt löggjafinn grípi við erfiðar aðstæður inn í kjarasamning viðkomandi félags sem iðulega gerist hér á landi.
    Ekki verður heldur fallist á að lagasetning, sem löggjafinn sér ástæðu til að setja með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, verði til þess að félagsmenn glati trú á því að starfa í stéttarfélögum. Að minnsta kosti er alveg ljóst að lögin verða ekki dæmd ógild vegna hugsanlegra hugrenninga einstakra félagsmanna, sem kunni að falla í þennan farveg.
    Við umfjöllun bæði 67. og 73. gr. stjórnarskrár skal á það bent að lögin eru tímabundin og gildistími þeirra er tiltölulega skammur. BHMR er heimilað að semja um launanefnd skv. 3. gr. laganna sem enn getur stytt þann tíma sem samningar eru bundnir.
    Áskilinn er sérstakur réttur til að afla frekari sönnunargagna um áhrif bráðabirgðalaga nr. 89/1990 um launamál og um áhrif 4,5% launahækkunar til viðsemjenda VSÍ og VMS á verðbólgu í landinu. Enn fremur um áhrif áframhaldandi víxlhækkana launa eftir hina fyrstu 4,5% hækkun launa til þorra launþega í landinu.
    Í stefnu kemur fram sérstakur áskilnaður um hækkun krafna með því að bráðabirgðalög nr. 89/1990 svipti stefnanda til frambúðar launahækkun sem hann eigi rétt til. Þessi áskilnaður er um að hækka kröfur til samræmis við það tjón sem stefnandi bíði af áframhaldandi gildi bráðabirgðalaganna. Vegna þessa skal tekið fram að ekki verður fallist á umrædda hækkun krafna án framhaldsstefnu. Ástæða þess er sú að slík aukin kröfugerð kann að kalla á umfjöllun frekari málsástæðna fyrir sýknukröfu minna umbjóðenda.
    Með vísan til sundurliðunar kröfugerðar á bls. 4 í stefnu verður ekki séð að ágreiningur sé með aðilum um fjárhæð kröfu.
    Af hálfu stefndu er ekki óskað eftir því að aðilar eða vitni komi fyrir dóm til skýrslutöku. Stefndu eru sammála því mati stefnanda að ágreiningur í máli þessu snúist fyrst og fremst um lögfræðileg atriði. Ekki verður séð af málatilbúnaði stefnanda að ágreiningur sé um staðreyndir.
    Áskilinn er réttur til að reifa málið frekar, koma að nýjum málsástæðum og leggja fram ný gögn, gefist tilefni til, þar á meðal við aðalmeðferð málsins.

Reykjavík, 21. nóvember 1990.



Virðingarfyllst,


Gunnlaugur Claessen, hrl.