Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 449 . mál.


775. Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Úr heiti I. kafla laganna falla niður orðin „framsal sakamanna“.

2. gr.


    2. málsl. 3. tölul. 6. gr. laganna fellur niður.

3. gr.


    1. málsl. 7. tölul. 6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 69/1981, orðast svo: Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi frá 18. desember 1979 um varnir gegn töku gísla.

4. gr.


    3. og 4. mgr. 8. gr. laganna falla niður.

5. gr.


    Ný grein, 8. gr. a laganna, orðast svo:
    Nú hefur maður hlotið refsidóm í ríki þar sem brot var framið, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., eða í ríki sem er aðili að samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970 og skal þá ekki höfða mál á hendur honum, dæma hann né fullnægja viðurlögum hér á landi fyrir sama brot og hann var dæmdur fyrir í því ríki ef:
    hann var sýknaður,
    dæmdum viðurlögum hefur þegar verið fullnægt, verið er að fullnægja þeim, þau eru fallin niður eða hafa verið gefin upp í samræmi við lög í því ríki þar sem dómur var kveðinn upp,
    hann hefur verið sakfelldur án þess að refsing eða önnur viðurlög hafi verið ákvörðuð.
    Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um brot sem falla undir 4. gr. og 1. tölul. 6. gr. nema refsimál hafi verið höfðað í hinu ríkinu að ósk íslenskra stjórnvalda.

6. gr.


    Ný grein, 8. gr. b laganna, orðast svo:
    Ef höfðað er mál á hendur manni hér á landi fyrir brot sem hann hefur þegar sætt viðurlögum fyrir í öðru ríki skal ákveða viðurlögin hér að sama skapi vægari eða láta þau eftir atvikum falla niður að því leyti sem viðurlögunum hefur þegar verið fullnægt í því ríki.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.


    Frumvarp þetta um breyting á almennum hegningarlögum er lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma. Meginefni þess varðar breytingar á 8. gr. almennra hegningarlaga um heimildir til að reka sakamál hér á landi þegar hlutaðeigandi maður hefur hlotið refsidóm í öðru ríki vegna sama brots. Breytingar á þessari grein, sbr. 4.–6. gr. frumvarpsins, eru taldar nauðsynlegar vegna væntanlegrar fullgildingar á samningi frá 28. maí 1970 um alþjóðlegt gildi refsidóma. Í 1.–3. gr. frumvarpsins er lagt til að nokkur ákvæði í I. kafla almennra hegningarlaga verði felld niður eða þau lagfærð. Um þessi atriði er nánar fjallað í athugasemdum við viðkomandi greinar.
    Samningurinn frá 28. maí 1970 um alþjóðlegt gildi refsidóma skiptist í fjóra hluta. Í I. hluta hans eru skilgreiningar á hugtökum, í II. hluta er fjallað um fullnustu evrópskra refsidóma, í III. hluta um alþjóðleg áhrif evrópskra refsidóma og í IV. hluta hans eru lokaákvæði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma er gerð grein fyrir efni samningsins og er íslensk þýðing hans prentuð sem fylgiskjal með því frumvarpi.
    Eins og áður segir er í III. hluta samningsins, 53.–57. gr., fjallað um alþjóðleg áhrif evrópskra refsidóma. Þessi hluti samningsins hefur sjálfstætt gildi og varðar ekki samskipti ríkja vegna fullnustu dóma sem um er fjallað í II. hluta. Í III. hluta samningsins eru ákvæði sem fela í sér að refsidómur, sem kveðinn er upp í einu samningsríki, skuli sjálfkrafa hafa ákveðin réttaráhrif í öðru samningsríki. Ákvæði þessa hluta samningsins tengjast efnislega ákvæðum í I. kafla almennra hegningarlaga um gildissvið refsilaga og eru því lagðar til breytingar á þeim kafla hegningarlaganna sem nauðsynlegar eru taldar til að unnt verði að fullgilda samninginn.

II. Um efni III. hluta samnings um alþjóðlegt gildi refsidóma.


    Samkvæmt a-lið 1. gr. samningsins merkir evrópskur refsidómur „sérhverja endanlega ákvörðun sakadóms samningsríkis að lokinni málsmeðferð samkvæmt sakamálaréttarfari“.
    Í fyrri kafla þessa hluta samningsins, 53.–55. gr., er fjallað um svokölluð „ne bis in idem“ áhrif eða neikvæð réttaráhrif slíkra refsidóma. Efni þeirrar reglu er, eins og latneska heitið gefur til kynna, að hindra að maður verði oftar en einu sinni dæmdur fyrir sama verknað.
    Samkvæmt 53. gr. samningsins er samningsríki ekki heimilt að ákæra, dæma eða fullnægja refsingu gagnvart manni ef dómi vegna sama verknaðar hefur þegar verið fullnægt eða verið er að fullnægja honum í öðru samningsríki eða ef það hefur ekki verið hægt vegna fyrningar. Það sama gildir ef hann hefur verið sýknaður, náðaður eða veitt sakaruppgjöf vegna sama verknaðar í öðru samningsríki og ef dómstóll í öðru samningsríki hefur sakfellt mann án þess að dæma hann til refsingar.
    Samkvæmt greininni er samningsríki ekki bundið af þessari reglu ef verknaðurinn beinist gegn opinberum starfsmanni, opinberri stofnun eða öðru á vegum hins opinbera í því ríki eða ef sá sem verknaðinn framdi hafði sjálfur opinbera stöðu þar. Það sama gildir um það ríki sem verknaðurinn var framinn í. Þessar tvær undantekningar frá „ne bis in idem“ reglunni byggja á því að hlutaðeigandi ríki hafi í þessum tilvikum sérstakra hagsmuna að gæta umfram önnur ríki sem réttlæti aðra málsmeðferð í því ríki. Undantekningarnar eiga ekki við ef ríkið hefur sjálft óskað eftir málsmeðferð í öðru ríki.
    Samkvæmt 54. gr. skal draga allan þann tíma, sem hinn dæmdi hefur sætt frelsissviptingu vegna fullnustu erlends refsidóms, frá þeim viðurlögum sem kunna að verða dæmd í öðru samningsríki ef nýtt mál er höfðað þar vegna sama verknaðar.
    Í 55. gr. er kveðið á um að ákvæði samningsins um „ne bis in idem“ skuli ekki standa því í vegi að samningsríki setji í eigin lög ákvæði sem ganga lengra í þá átt að innleiða „ne bis in idem“ áhrif í sambandi við erlenda refsidóma.
    Í síðari kafla III. hluta samningsins, 56.–57. gr., eru ákvæði um að hvaða leyti tekið skuli tillit til refsidóms, sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki, við ákvörðun refsingar í öðru samningsríki vegna annars afbrots og um áhrif evrópsks dóms um réttindasviptingu í öðru samningsríki.
    Í 56. gr. er kveðið á um að samningsríki skuli lögleiða ákvæði sem það telur þörf á til þess að dómstólar þess geti við ákvörðun refsingar tekið tillit til refsidóms vegna annars afbrots sem upp er kveðinn í öðru samningsríki. Ákvæðið hefur fyrst og fremst gildi varðandi ítrekunaráhrif erlendra dóma. Samkvæmt greininni skal samningsríki ákveða hvort slíkir dómar eigi að hafa að öllu eða aðeins nokkru leyti sömu áhrif og innlendir dómar hafa. Í greinargerð með samningnum kemur fram að ákvæðið skuli ekki túlkað á þann hátt að samningsríki geti alfarið hafnað að taka tillit til erlendra refsidóma. Ákvæðið á aðeins við þegar hinn dæmdi hefur komið fyrir dóm áður en evrópskur refsidómur var kveðinn upp og á því ekki við um útivistardóma.
    Í 57. gr. er ákvæði um að samningsríki skuli lögleiða ákvæði sem það telur þörf á til þess að unnt sé að taka tillit til evrópsks refsidóms þannig að hægt sé að nokkru eða öllu leyti að beita réttindasviptingu sem lög þess tengja við innlenda dóma. Eins og í 56. gr. samningsins á ákvæðið aðeins við þegar hinn dæmdi hefur komið fyrir dóm áður en evrópskur refsidómur var kveðinn upp. Samkvæmt greininni er ekki gert ráð fyrir að nýtt afbrot hafi verið framið.
    Samkvæmt f-lið í viðauka I við samninginn er unnt að gera fyrirvara við annan hvorn kafla þessa hluta samningsins. Þessi heimild hefur verið túlkuð þannig að unnt sé að gera fyrirvara við hlutaðeigandi kafla í heild eða aðeins að hluta til.
    Þegar Noregur fullgilti samninginn var gerður sá fyrirvari að beiting fyrri kafla III. hluta samningsins er ekki viðurkenndur að því leyti sem ákvæði hans koma í veg fyrir málsmeðferð í Noregi vegna afbrots sem framið var af manni sem var norskur ríkisborgari eða búsettur í Noregi á þeim tíma þegar afbrotið var framið. Það sem liggur að baki fyrirvaranum er að norskir sérhagsmunir eða siðferðisviðhorf geti í þessum tilvikum krafist málsmeðferðar í Noregi. Sérstaklega er haft í huga að maður hafi verið sýknaður eða hlotið mjög væga refsingu í öðru samningsríki fyrir verknað sem mun þyngri refsing liggur við í Noregi og eru í því sambandi nefnd t.d. fíkniefnabrot, brot gagnvart fjölskyldumeðlimum, svo sem ólögmætt brottnám barns, eða afbrot sem fela í sér stríðsglæpi.
    Svíþjóð viðurkennir ekki beitingu ákvæða kaflans að því leyti sem þau koma í veg fyrir málsmeðferð í Svíþjóð vegna alvarlegra afbrota sem samkvæmt sænskum lögum hafa í för með sér a.m.k. fjögurra ára fangelsi og að því leyti sem þau koma í veg fyrir fullnustu í Svíþjóð á refsingu sem þegar hefur verið dæmd í Svíþjóð. Það sem liggur að baki seinni fyrirvaranum er að unnt sé að fullnægja viðurlögum í Svíþjóð sem dæmd hafa verið þar áður en dómur var kveðinn upp fyrir sama verknað í öðru samningsríki. Þetta byggist á því að „ne bis in idem“ ákvæði samningsins eiga ekki aðeins við um höfðun máls heldur líka fullnustu. Af því leiðir að ef aðili, sem hlotið hefur dóm í samningsríki, kemst af einhverjum ástæðum undan fullnustu, t.d. vegna þess að hann flýr land, en er síðar dæmdur fyrir sama verknað í öðru samningsríki, er ekki hægt að fullnægja eldri dómnum í því ríki þar sem hann var kveðinn upp, jafnvel þótt yngri dómurinn hafi verið sýknudómur.
    Við fullgildingu samningsins um alþjóðlegt gildi refsidóma af hálfu Íslands er ekki gert ráð fyrir að gerður verði fyrirvari. Ákvæði íslensku hegningarlaganna ganga lengra í þá átt að viðurkenna „ne bis in idem“ áhrif erlendra refsidóma en ákvæði sænskra og norskra hegningarlaga. Eru íslensku hegningarlögin mjög hliðstæð dönsku hegningarlögunum að þessu leyti en Danmörk gerði ekki fyrirvara við samninginn. Við fullgildingu samningsins af hálfu Danmerkur var dönsku hegningarlögunum breytt og hafa þær breytingar verið hafðar til hliðsjónar við gerð 4.–6. gr. frumvarpsins.

III. Almennt um frumvarpið.


    Vegna ákvæða 53. gr. samningsins er nauðsynlegt að bæta við gildandi ákvæði í 8. gr. almennra hegningarlaga um „ne bis in idem“ áhrif erlendra refsidóma.
    Í 3. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um „ne bis in idem“ áhrif erlendra refsidóma. Ákvæðið er efnislega skylt 53. gr. samningsins en gildissvið þess er þrengra þar sem það takmarkast við að sakborningur hafi verið sýknaður, refsidómi yfir honum fullnægt eða refsing felld niður í því ríki þar sem brot var framið.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað 3. mgr. 8. gr. hegningarlaga komi ný grein sem verði 8. gr. a. Greinin er samin með hliðsjón af 53. gr. samningsins en felur einnig í sér efnisatriði núgildandi 3. mgr. 8. gr. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að núverandi 4. mgr. 8. gr. verði sjálfstæð grein, 8. gr. b, en þær efnisbreytingar, sem lagðar eru til á þeirri grein, eru nánar skýrðar í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins.
    Ekki er talin þörf á að breyta ákvæðum almennra hegningarlaga vegna síðari kafla III. hluta samningsins. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga er dómstólum heimilt að láta refsidóma, er kveðnir hafa verið upp erlendis, hafa ítrekunaráhrif eins og þeir hefðu verið kveðnir upp hér á landi. Þetta ákvæði er talið fullnægjandi vegna ákvæða 56. gr. samningsins.
    Ekki er talið að túlka beri 57. gr. samningsins þannig að skylt sé að setja almennar reglur vegna hennar. Líta verður svo á að kröfum samningsins sé fullnægt ef unnt er á vissum sviðum, hvort sem bein lagafyrirmæli liggja fyrir eða ekki, að taka tillit til evrópsks refsidóms sem felur í sér réttindasviptingu á sama hátt og íslensks. Í þessu sambandi er rétt að benda á 105. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, þar sem segir að ef íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur sætt sviptingu ökuréttinda eða refsingu erlendis fyrir verknað sem samkvæmt umferðarlögum hefði varðað sviptingu ökuréttinda megi svipta hann þeim réttindum hér á landi í sérstöku opinberu máli og komi þá að öðru leyti til framkvæmda ákvæði 101.–104. gr. umferðarlaga sem fjalla um sviptingu ökuréttinda o.fl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að úr fyrirsögn I. kafla laganna verði felld niður orðin „framsal sakamanna“. Með 28. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, var 9. gr. almennra hegningarlaga, sem fjallaði um framsal sakamanna, felld brott. Þá láðist að lagfæra heiti I. kafla laganna til samræmis við það. Í þessu sambandi er rétt að nefna að ákvæði 10. gr. varða ekki framsal heldur íslenska refsilögsögu gagnvart mönnum sem framseldir hafa verið hingað til lands frá öðru ríki.

Um 2. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að 2. málsl. 3. tölul. 6. gr. laganna verði felldur brott en þar segir að mál samkvæmt þessum tölulið skuli þó aðeins höfða eftir fyrirskipun saksóknara.
    Ákvæðið er óþarft þar sem meginreglan er sú samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála að ríkissaksóknari tekur ákvörðun um málshöfðun.
    Þessi hluti 3. tölul. 6. gr. almennra hegningarlaga mun eiga sér þá sögulegu skýringu að þegar unnið var að gerð frumvarpsins til almennra hegningarlaga á fjórða tug aldarinnar var jafnframt unnið að frumvarpi til laga um meðferð opinberra mála þar sem gert var ráð fyrir sérstökum saksóknara en það frumvarp sá aldrei dagsins ljós. Á þessum tíma fóru dómarar með ákæruvald og var hugmyndin sú að þeir hefðu ekki ákæruvald ef ákvæði þessa töluliðar ætti við heldur hinn nýi saksóknari.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lagt til að orðalag í 1. málsl. 7. tölul. 6. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 69/1981, verði breytt til samræmis við orðalag í 4.–6. tölul. greinarinnar. Ekki er um efnisbreytingar að ræða.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er lagt til að 3. og 4. mgr. 8. gr. laganna verði felldar niður. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 8. gr. a, komi í stað 3. mgr. og í 6. gr. er lagt til að núverandi 4. mgr. verði sjálfstæð grein, 8. gr. b, auk þess sem gerðar eru tillögur um breytingar á greininni sem nánar eru skýrðar í umfjöllun um þá grein.

Um 5. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ný grein, 8. gr. a, komi í stað núgildandi 3. mgr. 8. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. skal ekki höfða mál hér á landi á hendur manni, dæma hann eða fullnægja þegar dæmdum viðurlögum gagnvart honum fyrir sama afbrot og hann hefur hlotið dóm fyrir í öðru ríki þar sem brot var framið eða í ríki sem er aðili að samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma, enda séu þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1.–3. tölul. greinarinnar, til staðar.
    Samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma merkir refsidómur það að niðurstaða máls sé ákvörðuð með dómi eða annarri úrlausn dómstóls sem tekin er eftir að mál hefur hlotið meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála í viðkomandi ríki. Samkvæmt þessu fellur ákvörðun um viðurlög, sem eru ákvörðuð hér á landi skv. 1. mgr. 124. gr. laga um meðferð opinberra mála, undir hugtakið. Þykir rétt að hugtakið refsidómur sé í þessari grein skýrt eins og í samningnum.
    Samkvæmt upphafi 1. mgr. er miðað við að refsidómur hafi verið kveðinn upp í því ríki þar sem brot var framið. Þessi takmörkun um brotastað á ekki við ef dómur hefur verið kveðinn upp í ríki sem er aðili að samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Takmörkun á heimild til að höfða mál hér á landi, dæma eða fullnægja viðurlögum er bundin þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 1.–3. tölul. málsgreinarinnar.
    Samkvæmt 1. tölul. er miðað við að dómþoli hafi verið sýknaður. Í því sambandi skiptir ekki máli af hvaða ástæðum hann var sýknaður í öðru ríki. Ákvæðið á við þótt sýknað hafi verið vegna þess að verknaðurinn var ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis. Það á einnig við þegar sýknað er vegna sambærilegra ástæðna og tilgreindar eru í 15. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. geðveiki o.s.frv. Sama gildir þegar öryggisráðstöfunum hefur verið beitt.
    Ákvæði 2. tölul. er ætlað að ná yfir þau tilvik sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. 53. gr. samningsins. Miðað er við að dæmdum viðurlögum hafi þegar verið fullnægt, verið sé að fullnægja þeim, þau hafi fallið niður eða verið gefin upp í samræmi við lög þess ríkis þar sem dómur var kveðinn upp. Það er forsenda að viðurlögum hafi verið fullnægt á eðlilegan hátt. Ákvæðið stendur því ekki í vegi fyrir að nýtt mál verði höfðað hér á landi ef dómþoli hefur komist undan viðurlögum, sem dæmd hafa verið í öðru ríki, með því að flýja. Í slíkum tilvikum á skv. 6. gr. frumvarpsins að draga frá þann hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt. Eðlilegra gæti verið að fullnusta viðurlaganna væri flutt í slíkum tilvikum en að nýtt mál væri höfðað hér á landi. Samt verður að hafa í huga að flutningur á fullnustu viðurlaga milli ríkja er háður ýmsum skilyrðum sem íslenska ríkið hefur ekki eitt forræði á, svo sem að í sumum tilvikum verður fullnusta ekki flutt nema samkvæmt beiðni þess ríkis þar sem viðurlög voru ákvörðuð og í öllum tilvikum þarf það ríki að samþykkja flutninginn og stundum dómþoli líka. Rök geta því verið fyrir nýrri málsmeðferð hér á landi.
    Með hugtakinu viðurlögum í 2. tölul. er einnig átt við skilorðsbundnar refsingar. Ekki er heimilt að sækja mann til sakar meðan hann heldur skilorð samkvæmt erlenda dómnum. Þegar talað er um að viðurlög séu fallin niður er átt við fyrningu og þegar sagt er að þau hafi verið gefin upp er átt við náðun og uppgjöf sakar. Ef kveðinn hefur upp dómur hér á landi og viðurlög dæmd sem ekki hefur verið fullnægt og síðar er kveðinn upp dómur í öðru ríki vegna sama verknaðar er ekki heimilt að fullnægja eldri viðurlögunum hér á landi ef skilyrðum 1.–3. tölul. greinarinnar er fullnægt hvað varðar erlenda dóminn.
    Í 3. tölul. er miðað við að sakborningur hafi verið sakfelldur án þess að refsing eða önnur viðurlög hafi verið ákveðin. Undir þennan tölulið falla einnig þau tilvik þegar ákvörðun um refsingu hefur verið frestað skilorðsbundið. Sama gildir ef hún er ekki ákvörðuð vegna ákvæða í lögum þess ríkis, þar sem dómur er kveðinn upp, sem eru sambærileg við 16. gr. almennra hegningarlaga. Ef öryggisráðstöfunum er beitt í slíkum tilvikum eiga ákvæði töluliðarins þó ekki við.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar gilda ákvæði 1. mgr. ekki þegar refsilögsaga íslenskra stjórnvalda byggist á 4. gr. eða 1. tölul. 6. gr. almennra hegningarlaga nema refsimál hafi verið höfðað í hinu ríkinu að ósk íslenskra stjórnvalda. Þessi ákvæði taka mið af 2. og 3. mgr. 53. gr. samningsins og byggja á því að ríki, þar sem verknaður var framinn og ríki sem hefur opinberra hagsmuna að gæta, eigi að hafa heimild til að sækja mann til sakar þótt hann hafi sætt dómi í öðru ríki fyrir sama brot. Fyrirvarinn um að íslensk stjórnvöld hafi ekki sjálf óskað eftir málsmeðferð í erlenda ríkinu er nýmæli í íslenskum refsirétti og byggist á samningnum.

Um 6. gr.


    Vegna þeirra breytinga á 3. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga, sem frumvarpið felur í sér, þykir rétt að núverandi efnisákvæði 4. mgr. 8. gr. verði sett í sjálfstæða grein. Í greininni eru lagðar til þær efnisbreytingar á núgildandi 4. mgr. 8. gr. að í stað þess að taka eigi tillit til refsinga, sem maður hefur hlotið í öðru ríki og þegar hefur verið fullnægt, eigi að taka tillit til viðurlaga sem hann hefur hlotið í öðru ríki og þegar hefur verið fullnægt. Með þessari rýmkun á ákvæðinu er t.d. heimilt að taka tillit til öryggisráðstafana sem maður hefur sætt í öðru ríki, upptöku eigna o.s.frv.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.