Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 51 . mál.


51. Tillaga til þingsályktunar



um aðgang almennings að þingskjölum og umræðum á Alþingi.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sigbjörn Gunnarsson,


Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að þingskjöl og umræður á Alþingi verði opin al­menningi í tölvutæku formi. Sömuleiðis tölvutexti laga og lagasafns, reglugerða, EES-samnings, alþjóðasamninga og skjala sem varða almenning. Aðgangur að þessum upplýs­ingum verði ekki gjaldfærður.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 117. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu.
    Alþingi Íslendinga og störf þau, sem þar eru unnin, eru snar þáttur í þjóðlífinu. Þannig á t.d. stór hluti þjóðarinnar möguleika á að fylgjast með þingfundum í beinni útsendingu á sjónvarpsrás og þingskjöl og umræður á Alþingi eru prentuð og gefin út og þannig að­gengileg hverjum sem skoða vill. Áskrifendur að Alþingistíðindum eru u.þ.b. 800. Oftast eru áheyrendur á þingpöllum og á stundum eru þeir þéttsetnir. Umfjöllun um störf Alþingis er mikil í fjölmiðlum en eðli þeirra samkvæmt verður slík umfjöllun alltaf háð vali blaða- og fréttamanna.
    Samkvæmt ákvæðum 57. gr. stjórnarskrárinnar og 69. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, skulu þingfundir haldnir í heyranda hljóði nema annað sé sérstaklega ákveðið. Ekki hefur reynt á heimild til að loka þingfundum sl. 49 ár, eða frá 1945. Því er óhætt að fullyrða að stefnan sé sú að allur almenningur eigi sem greiðasta leið að þeim umræðum sem þar fara fram og þeim þingskjölum sem fyrir þinginu liggja hverju sinni. Í 88. gr. þing­skapalaga eru ákvæði um prentun og útgáfu þingskjala og umræðna, svo og atkvæða­greiðslna í Alþingistíðindum, og er þeim framfylgt á þann hátt að allir þingfundir eru skráðir nema þeim hafi verið lokað samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum en á það hefur sem fyrr segir ekki reynt í hartnær 50 ár.
    Tölvutækni fleygir sífellt fram. Mikil uppbygging hefur orðið á tölvukerfi Alþingis á undanförnum árum. Frá árinu 1989 hafa flest þingskjöl á Alþingi verið tiltæk í tölvutæku formi jafnóðum og þau eru lögð fram og umræður að jafnaði innan fárra daga. Tilgangur þessarar tillögu er sá að mörkuð verði sú stefna í uppbyggingu tölvukerfis Alþingis að unnt verði að gefa almenningi kost á að tengjast gagnagrunninum. Er það eðlilegt framhald af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið að almenningur eigi greiða leið að upplýsingum um þinghald, þingskjölum og umræðum. Aðgangur að þingskjölum með hjálp tölvu og mótalds getur aukið möguleika fólks á að fá nánari upplýsingar um mál sem liggja fyrir þinginu, t.d. þegar fjölmiðlar fjalla um einstök þingmál í stuttu máli. Flestir þingmenn og starfsfólk Alþingis kannast líklegast við óskir fólks um frekari upplýsingar um þingmál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum eða manna á meðal. Því má ætla að allnokkur hópur einstak­linga, stofnana, félaga og fyrirtækja hefði áhuga á að geta flett upp í þingskjölum og umræðum um einstök þingmál með tölvutengingu við gagnagrunn Alþingis, þ.e. ræðupart og skjalapart. Enn fremur yrði opnaður aðgangur að lagasafni, alþjóðasamningum og reglu­gerðum sem nú er einungis hægt að nálgast á prenti. Notkun á þessum gögnum yrði að því leyti til gagnlegri fyrir neytandann að hann gæti nýtt sér ýmsa uppflettimöguleika tölvu­tækninnar. Þannig opnaðist leið til að afla margvíslegra gagna um einstaka málaflokka á einfaldan og fljótlegan hátt.
    Um þessar mundir er verið að vinna að því að veita alþingismönnum tölvuaðgang að þeim upplýsingum sem hér um ræðir. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis er unnt að vinna það verk á þann hátt að aðgangur að gögnunum sé opnaður fyrir almenning jafnframt því sem hann nýtist þingmönnum. Þannig þarf ekki að efna til aukakostnaðar vegna opnunar gagnasafnsins fyrir notendur utan Alþingis.
    Þess má geta að almenningur á Íslandi á nú þegar kost á að fá aðgang að þingskjölum og umræðum á Bandaríkjaþingi með hjálp tölvu og mótalds og dæmi eru um að menn nýti sér það. Það verður því að teljast eðlilegt að nýta sér þá uppbyggingu sem nú á sér stað á tölvukerfi Alþingis í þágu almennings ekki síður en starfsfólks Alþingis og þingmanna. Jafnframt má ætla að slík tenging geti dregið að einhverju leyti úr óþarfa pappírsnotkun þar sem einhverjir munu án efa kjósa tölvutengingu í stað áskriftar að Alþingistíðindum. Einnig má búast við að dragi úr eftirspurn eftir þingskjölum og ljósritun umræðna. Þannig sparaðist bæði vinna og pappír. Alþingi ber eins og öðrum að gæta eftir föngum sjónarmiða umhverfisverndar og tölvuaðgangur að gögnum Alþingis gæti verið liður í þeirri viðleitni.
    Ætla má að af þessu fyrirkomulagi geti með tímanum orðið verulegur vinnusparnaður hjá Alþingi og Stjórnarráði. Pappírslaus viðskipti eru að ryðja sér mjög til rúms en ekki skiptir minna máli að upplýsingamiðlun stjórnvalda sé með sem hagkvæmustum hætti. Flutningsmenn leggja til að aðgangur að upplýsingunum verði ekki gjaldfærður. Notendur hafa eftir sem áður kostnað af því að nýta sér þessa þjónustu. Má nefna stofnkostnað af búnaði og greiðslur fyrir afnot af símalínum. Hins vegar má ætla að ef þeir velja þá leið að afla sér upplýsinga með tölvusamskiptum spari þeir um leið vinnu sem ella yrði innt að hendi af starfsmönnum Alþingis.
    Það er skoðun flutningsmanna að Alþingi eigi að gefa gott fordæmi í þessum málum og gögn þess verði opnuð almenningi sem fyrst, þ.e. á vordögum 1995.