Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:30:59 (3420)

1996-02-29 12:30:59# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, VS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:30]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem upp fyrst og fremst til þess að þakka fyrir þá umfjöllun sem hér hefur farið fram um norrænt samstarf. Umræðan hefur verið mjög málefnaleg og fyrir það er ég þakklát. Hún hefur líka verið meiri en oft áður sem kannski kemur til af því að ákveðin þróun á sér nú stað í norrænu samstarfi. Það er meira að gerast í norrænu samstarfi en oft áður.

Hv. 4. þm. Austurl. nefndi í upphafi umræðunnar að það væri mikilvægt að hún hæfist að morgni dags og kannski hefur það líka haft einhver áhrif hvað þetta snertir. En sem sagt, umræðan hefur verið góð og mikilvæg.

Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi að hér hefði frekar átt að fara fram umræða um það hvernig hefði til tekist. Sannleikurinn er sá að það er allt of snemmt að dæma um það á þessari stundu. Ég vil þó segja að mér finnst þetta starf, samkvæmt nýju skipulag, fara vel af stað og það er langt frá því að það sé eins og hv. þm. nefndi, ræfilslegt og kraftlítið. Má nefna í því sambandi að í næstu viku er þemafundur í Kaupmannahöfn þar sem fjallað verður fyrst og fremst um ríkjaráðstefnuna sem verður á þessu ári. Um miðjan aprílmánuð er ráðstefna í Vilnius sem fjallar um þróun samstarfs Eystrasaltsríkja við Norðurlöndin. Í næsta mánuði er ráðstefna í Kanada þar sem fjallað verður um samstarf á norðurheimskautssvæðinu. Allt er þetta til marks um að mikið er að gerast í þessu samstarfi. En það er rétt að tengslin eru farin að ná miklu meira út fyrir svæðið. Má vera að það séu mismunandi skoðanir á því hvort það er rétt eða rangt. Ég held þó að mun fleiri telji það rétt og af hinu góða vegna þess að í auknu alþjóðasamstarfi megum við sem búum á Norðurlöndum ekki líta á þau sem eitthvert einangrað fyrirbæri. Samstarf norrænna þjóða í alþjóðasamstarfi er ákaflega mikilvægt og við verðum að gæta þess að það þróist áfram og verði áfram sterkt. Komið hefur fram í umræðunni að einhverjir hnökrar eru á því og þá sérstaklega í sambandi við kvennaráðstefnuna í Kína.

Mikilvægi landsdeilda og flokkahópa hefur verið hér til umfjöllunar og við Íslendingar vorum dálítið tregir til að stíga það skref að landsdeildirnar hefðu ekki sama vægi og áður. Hins vegar hefur sú litla reynsla sem komin er sýnt okkur að við þurfum ekkert sérstaklega að óttast það að við náum ekki sterkri stöðu innan ráðsins með því fyrirkomulagi sem nú er.

Ég get ekki staðist freistinguna að nefna það aðeins vegna þess að hv. þm. Svavar Gestsson hafði uppi nokkuð stór orð um þetta. Það var þó á grundvelli fyrra fyrirkomulags og vegna tilnefningar hans flokkahóps sem hann náði nokkuð sterkri stöðu í norrænu samstarfi, nefnilega þeirri stöðu að verða formaður menningarmálasjóðsins. Mér þætti alveg vert að hafa mörg orð um menningarmálasjóðinn, þótt hann sé kannski ekki beint á dagskrá, en eins og allir vita útdeilir hann um 25 millj. danskra króna til menningarsamstarfs á Norðurlöndunum. Ég sit þar í stjórn og var formaður á sl. ári.

Eftir stutta stund verður mælt fyrir skýrslu um störf Vestnorræna þingmannaráðsins, en Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti að óska eftir því við forsætisnefnd Norðurlandaráðs að það geti sent áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs. Tillagan var samþykkt í forsætisnefnd Norðurlandaráðs þannig að þetta fyrirkomulag hefur þegar verið tekið upp. Ég held að það sé ekki merki um að Norðurlandaráð líti Vestnorræna þingmannaráðið hornauga, það er miklu fremur að að það vilji tengjast því frekar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil bara endurtaka að mér finnst þessi umræða hafa verið góð og málefnaleg, ekki síst innlegg hv. 4. þm. Austurl. Hann hefur mikla reynslu af þessu samstarfi og þótt hann sitji ekki lengur í Íslandsdeild Norðurlandaráðs veit ég að hann mun áfram leggja lóð á vogarskálina til að norrænt samstarf geti áfram verið jákvætt og okkur í hag.