ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:25:06 (3436)

1996-02-29 14:25:06# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:25]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1995 sem birtist á þskj. 553. Þar er og lýst upphafi ÖSE-þingsins, uppbyggingu þess og kosningu íslensku fulltrúanna og fer ég ekki nánar út í það.

ÖSE-þingið, en ÖSE stendur fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Því er ætlað að stuðla að öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Hlutverk ÖSE-þingsins er m.a. að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum.

Það er gert ráð fyrir því að ÖSE-þingið komi saman einu sinni á hverju ári í júlí. Við það starfa þrjár nefndir. Sú fyrsta starfar að stjórn- og öryggismálum. Önnur er um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál og sú þriðja er um lýðræðis- og mannréttindamál.

Starf ÖSE á árinu 1995 var aðallega eftirfarandi: ÖSE-þingið starfaði m.a. að málefni minnihlutahópa í Moldavíu, Eystrasaltsríkjunum, Úkraínu, Albaníu og Makedóníu og því er ætlað að bregðast eins skjótt og hægt er þegar hætta er á að þjóðernisdeilur þróist í átök innan ÖSE-svæðisins. Þetta er eitt af markmiðum þingsins. Það hefur auk þess veitt aðstoð við gerð stjórnarskráa í ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna og fylgiríkjum þeirra. Því er ætlað að samræma kosningaeftirlit og útvega sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og veita þannig mikilvæga aðstoð við uppbyggingu lýðræðis í þessum löndum. Í þessu skyni tók ÖSE-þingið þátt í kosningaeftirliti vegna kosninga í Armeníu, Lettlandi, Króatíu, Georgíu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi. Alls tóku um 200 þingmenn ÖSE-ríkjanna þátt í þessu starfi, langflestir í Rússlandi, við kosningarnar þar.

Herra forseti. ÖSE tók þátt í lausn ýmissa deilumála og átakavörnum, m.a. í Tsjetsjeníu, Moldavíu og Nagornó-Karabakh. Þingið fjallaði og mikið um átökin í fyrrum Júgóslavíu en því miður gat það sem kunnugt er ekki státað af neinum árangri þar á árinu 1995 þó að það hafi breyst.

ÖSE ályktaði gegn kjarnorkutilraunum Frakka og það var bent á að samstarf ÖSE væri eini vettvangurinn þar sem Rússar mættu öðrum Evrópuríkjum á jafnréttisgrundvelli. Svo er reyndar ekki lengur en þannig var það.

Sérstök mál sem ÖSE-þingið stóð fyrir voru t.d. að senda sendinefnd til Tyrklands í boði tyrkneska þingsins til að skoða aðstæður Kúrda. Auk þess áttu íslensku fulltrúarnir fund með tveimur fulltrúum frá Tyrklandi um málefni Sophiu Hansen á þinginu sem haldið var í Ottawa sl. sumar. Tyrkirnir könnuðust við málið og lýstu sig að vissu leyti reiðubúna til að aðstoða og mun Íslandsdeildin eiga frekari samskipti við þá í þessu sambandi. Íslandsdeildin átti auk þess kynningarfund með fulltrúum frá Kirgisistan og Tadsjikistan.

Þetta eru helstu atriðin úr skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins og vísast til þskj. 553 í því sambandi.

Herra forseti. Það vekur athygli að markmið ÖSE eru mjög háleit, þ.e. að stuðla að öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Óneitanlega veldur það miklum vonbrigðum hve veik samtökin eru þegar kemur að því að koma úrbótum í framkvæmd. Við höfum horft úrræðalaus á gegndarlaus brot á mannréttindum sem hafa fylgt stríðsátökum t.d. í fyrrum Júgóslavíu. Saklausir borgarar, lítil börn og gamalmenni ekki undanskilin, hafa lent í skelfilegum atburðum.

[14:30]

Það er óneitanlega undarleg tilfinning að sækja glæsta fundi og samþykkja háleitar ályktanir en fara svo heim og ekkert virðist breytast. Það læðist að manni sá uggur að starfið skaði jafnvel stundum þá sem á að verja, veiti falskt öryggi. Dæmi um það eru griðasvæði Sameinuðu þjóðanna í Bosníu. En e.t.v. holar dropinn steininn eins og þróun síðustu mánaða sýnir.

Herra forseti. Það vekur enn fremur furðu hversu margar alþjóðastofnanir eru að vinna að sama marki. Fjöldi samtaka telur sér skylt að vernda t.d. mannréttindi eða að framkvæma kosningaeftirlit. Sú spurning er áleitin hvort þessi stóru samtök séu e.t.v. í tilvistarkreppu og séu að búa sér til verkefni. Hugsanlega mætti skipa þessum málum betur og markvissar ef samtökin mörkuðu sér ákveðnari stefnu.

Hvað ÖSE varðar, þá hafa samtökin nú á árinu 1996 fengið mjög merkilegt verk að vinna í Bosníu í sambandi við framkvæmd Dayton-friðarsamkomulagsins, t.d. framkvæmd kosninga sem er mjög flókin í svo sundurtættu landi.

Læt ég hér lokið skýrslu um starf ÖSE-þingsins 1995.