ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:44:02 (3441)

1996-02-29 14:44:02# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:44]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var einmitt að leggja áherslu á það í mínu máli að við reynum að vega og meta það alþjóðasamstarf sem við tökum þátt í og spyrjum okkur spurninga: Eigum við þar erindi? Er nauðsynlegt að taka þátt í því? Þetta tengist því að þingmönnum er ekki gert kleift að sinna því alþjóðasamstarfi sem við erum þátttakendur í. Ég vil enn vísa til Evrópuráðsins. Fólk er kjörið í nefndir en samkvæmt fjárveitingum sem eru til þess starfs, er ekki nokkur leið að sinna því starfi. Þá vaknar auðvitað sú spurning: Til hvers erum við að þessu? Erum við þarna til þess að beita okkur, til þess að reyna að hafa einhver áhrif og til þess að fylgjast með eða bara til þess að skreppa svona öðru hverju og sjá hvað er um að vera, taka aðeins púlsinn á heimspólitíkinni? Mér finnst að þetta séu spurningar sem við eigum að vega og meta. Og ég ítreka að samkvæmt þeirri þekkingu sem ég hef á ÖSE, þá sýnist mér að þau samtök séu að verða óþörf. Ég vísa þar til Sameinuðu þjóðanna annars vegar og Evrópuráðsins hins vegar sem ég tel að séu að taka yfir þau verkefni sem ÖSE var ætlað að sinna.