Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:43:24 (3456)

1996-02-29 15:43:24# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:43]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé einn meginvandi Alþingis að hér er ekki gert ráð fyrir í þingsköpum umræðum um stefnumótun eða framtíðarmál. Hér er gert ráð fyrir umræðum um frumvörp og skýrslur og stundum auðvitað um þingsályktanir. En hér er ekki gert ráð fyrir því að ríkisstjórnir leggi fyrir þingin, eins og tíðkast t.d. í Noregi, tillögur um stefnumótun í ýmsum málum, segjum í menningarmálum, menntamálum, atvinnumálum, efnahagsmálum eða hvað það nú er. Það er nokkuð sérkennilegt og þar gætum við margt lært af frændum okkar Norðmönnum. Þeir hafa komið upp því kerfi fyrir löngu að ákveðnar tillögur, stefnumótun og meðfylgjandi greinargerðir fá rækilega umræðu í norska þinginu. Þetta segi ég í tilefni af orðum hæstv. ráðherra. Mér finnst ágætt að þessi mál verði rædd í tengslum við skýrslu utanrrh. En ég segi alveg eins og er að ég held að við þurfum að taka þetta mál úr þeim farvegi ef kostur er, þótt ég vilji gjarnan ræða þetta undir þeim dagskrárlið, og velta því fyrir okkur hvort það sé til í dæminu að Alþingi sjálft hafi frumkvæði í þessum málum og þeir þingmenn sem hér sitja úr stjórn og stjórnarandstöðu fari rækilega yfir þau og velti því fyrir sér hvernig þeir vilja haga málum með hliðsjón af framtíðinni. Ég hvet sem sagt til frumkvæðis Alþingis um leið og ég lýsi því aftur yfir að ég met það mikils sem hæstv. ráðherra sagði í þessu máli.